mánudagur, 23. febrúar 2009

Teflonmann til forystu

Guðlaugur Þór Þórðarson, hefur verið kallaður teflonmaður íslenskra stjórnmála. Á dögunum töldu flestir að hann hefði verið tekinn í landhelgi þegar kona sem unnið hafði fyrir Guðlaug hélt því fram á borgarafundi að ónefndur ráðherra hefði haft í hótunum við sig.

Þetta reyndist vera Ingibjörg Sólrún.

Nú hefur heilbrigðisráðuneytið upplýst að Guðlaugur Þór hafi keypt sérfræðiaðstoð fyrir 24 milljónir utan ráðuneytisins.

Upplýsingar ráðuneytisins eru hins vegar ekki nógu skýrar til þess að hægt sé að meta hvort sumir liðirnir séu eðlilegir.

Inga Dóra Sigfúsdóttir fær þannnig eina og hálfa milljón fyrir að “vinna við mótun, gerð og kynningu á heilsustefnu auk vinnu við gerð frumvarps um Lýðheilsustöð og mótun hugmynda að framtíðarskipulagi málefna Lýðheilsustöðvar, Landlæknis og fleira.”

Hún segist sjálf vera “sérstakur ráðgjafi” heilbrigðisráðherrans fráfarandi, en háður hafði hún gegnt svipuðum störfum fyrir Björn Bjarnason og Friðrik Sophusson og verið aðstoðarmaður Ólafs G. Einarssonar og Davíðs Oddssonar – samkvæmt lífshlaupi hennar sem birt er á netinu.

Þá vekja nokkura milljóna greiðslur til ímyndarhönnuðarins Eggerts Skúlasonar og Þorgríms “tár bros og takkaskór” Þráinssonar vissulega athygli. Eggert hefur marga fjöruna sopið og unnið reglulega fyrir menn á borð við Guðlaug Þór –sem nú lætur almenning borga brúsann.

Þetta er einfaldlega það sem ég kann skil á en það skal enginn segja mér að það verði ekki forvitnilegt fyrir þá örfáu blaðamenn sem enn eru við störf á Íslandi að kíkja betur á þessar færslur. Eggert Skúlason væri áreiðanlega sammála mér um að fréttanefið segir manni að það sé skítalykt af málinu. Allt kann að eiga sér eðlilegar skýringar, en reynslan kennir manni að það er líklegt að það sé maðkur í mysunni.

Guðlaugur er teflon maður en það safnast í sarpinn. Margir furðuðu sig á því hve mörgum stuðningsmönnum Guðlaugs Þórs var raðað á Landsbanka-jötuna og skal fremstan nefna Björn Ársæl Pétursson kosningasmala hans sem gerði garðinn frægan fyrir Landsbankann í Hong Kong, fékk digran starfslokasamning hjá gamla Landsbankanum og fór svo að vinna hjá hinum nýja!

. Sigurjón Árnason Ice-save meistarinn mikli naut sjálfur starfskrafta Guðlaugs Þórs á sínum tíma í Búnaðarbankanum og hlýtur að hafa verið ánægður fyrst hann réð kosningamaskínuna í heilu lagi til Landsbankans.

Og svona bye the way: Eru allir búnir að gleyma laxveiðiferðinni sem Guðlaugi Þór var boðið í á vegum Baugs þegar samningar um REI voru í aðsigi?



Guðlaugur hlýtur að sýna fram á að hann hafi endurgreitt Hauk Leóssyni ferðina. Sennilega er Sjálfstæðismönnum alveg sama. Þeim er meira að segja sama um að hafa sett íslensku þjóðina á hausinn á átján ára valdaferli, þannig að smáspilling í kringum einn ráðherra, er eins og að stökkva vatni á gæs.

Andstæðingar Sjálfstæðismanna hljóta hins vegar að telja hann draumaandstæðing í forystu Sjálfstæðisflokksins því teflon-maðurinn þarf að gera verulega hreint fyrir sínum dyrum, ef hann ætlar að losa sig við vafasaman stimpil.

Andstæðingarnir ættu ekki að segja múkk og láta andstæðinginn einan um að gera mistökin -að hætti Napóleons. Guðlaugur Þór virðist hafa lík í lestinni.

Verst að hann getur ekki lengur borgað Eggert Skúlasyni úr ríkiskassanum fyrir að hvítþvo ímyndina.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég sá þennan lista. Fara má í gegnum listann með eina spurnngu: Hve margir þeirra sem þáðu fé hafa fagþekkingu á heilbrigðismálum? Á ráðuneytið að hafa einhverja aðra í vinnu? Hvernig getur Þorgrímur Þráinsson mótað einhverja heilbrigðisstefnu eða heilsustefnu? Ég spyr.

Nafnlaus sagði...

ef menn læra innan kassans þá huxa þeir oft ekki útfyrir boxið.

Ekki gleyma því að Þorgrímur reyndi hér á árum áður að fá landann að hætta að reykja. Var það ekki lýðheilsustöð, man þetta nú ekki alveg.

Læknar fyrir mér eru iðnaðarmenn líkamans. Það lætur enginn iðnaðarmann hanna hús frá a til ö. Það koma margir aðilar að, jafnt fagmenn sem fagurkerar.

Það má fara í gegnum þennan lista með mörgum spurningum. Sú sem þú spyrð er ekkert endilega sú rétta.

Lesið heimasíðu Guðlaugs og þá fáið þið smá innsýn í afhverju eftirfarandi aðilar voru valdir.


Pétur finnst þér ekki frábært að manneskja sem spurði um jafnrétti kynjanna á einum af fyrstu fréttamannafundum Geirs forðum daga, sé nú farinn að starfa fyrir Ögmund. Hefur viðkomandi einhverja fagþekkingu á heilbrigðismálum?