Hver er stefna Samfylkingarinnar í umhverfismálum? Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra ítrekaði á dögunum bókun um byggingu álvers. Þórunn Sveinbjarnarson, umhverfisráðherra lýsir sig hins vegar andsnúna álverinu og segir slíkar byggingar í bága við stefnu ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum.
Sem kunnugt er standa yfir viðræður ríkja heims um að draga stórlega úr losun gróðurhúsalofttegunda. Össur segist sannfærður um að Íslendingum verði leyft að fá enn eitt sérákvæðið. Ísland er ein ríkasta þjóð heims og toppar lista UNDP – Þróunaráætlunar SÞ yfir mestu velmegun heimi.
Munu þróunarríki fallast á það að þetta auðuga ríki fái slíka undanþágu? Viðræðurnar sem eiga að skila niðurstöðu á leiðtogafundi í árslok næsta árs í Kaupmannahöfn snúast að hluta til um að fá nokkur þróunarríki til að fallast á að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þeim er það þvert um geð og segja að Vesturlönd og Bandaríkin beri mesta ábyrgð á hlýnun jarðar og þeim beri að súpa seyðið af því.
Ljóst er að allt sem flækir þessar viðræður er illa séð. Hvað hefur iðnaðarráðherra fyrir sér í því að nýju íslensku “sóðaákvæði” verði tekið fagnandi? Er líklegt að Evrópusambandið fallist á það? Er líklegt að bandaríki okkar styðji stefnu okkar sem gæti grafið undan öllu samningaferlinu? Hvaða afleiðingar hefði það fyrir Ísland að standa utan nýs loftslagssáttmála? Yrðum við hinn nýji “sóðalegi maður” heimsins? Myndi Evrópusambandið telja okkur tæk í sinn umhverfisvæna klúbb?
Hefur Össur hugleitt þetta?
Og hvar er formaður Samfylkingarinnar þegar forveri hennar í formannssæti og samráðherra virðist kasta stefnu flokksins um fagra Ísland fyrir róða í trausti óviss árangurs í flóknum alþjóðlegum samningum?
Hvað finnst forseta Íslands og góðvini Össurar um áherslur hans sem virðast í fullkominni andstöðu við málflutning Ólafs Ragnars til dæmis á CNN á dögunum?
Það er alveg ljóst að í þessu spili er vitlaust gefið og tími til kominn til að Samfylkingin og ríkisstjórnin marki heildstæða stefnu í stað þess að tala út og suður.
laugardagur, 28. júní 2008
Stefnulaus Samfylking
laugardagur, 21. júní 2008
Höfundur hitaveitunnar slær í gegn
Sá mjög fínt viðtal CNN við Ólaf R. Grímsson, forseta Íslands. Skemmst er frá því að segja að ÓRG komst mjög vel frá þessu viðtali. Ég get held ég skrifað undir hvert orð sem hann sagði og auk þess kom hann vel fyrir. Talar mjög góða ensku og kemur vel fyrir sig orði. Það er ekkert verra að augljóst er á hreim hans að hann er ekki enskumælandi. Þannig á það að vera - honum er nauðsyn að hafa sérstöðu.
Það er hins vegar mun áhugaverðara hvað ÓRG segir EKKI.
Augljóst var að fréttamaður CNN var ekki vel undirbúinn og hélt greinilega að Ísland hefði svipaða stjórnskipan og Bandaríkin. Ólafi Ragnari datt ekki í hug að leiðrétta fréttmanninn þegar hann spurði hann hvað hann byggist við að hafa áorkað þegar næsta kjörtímabili lyki,
Það virtist ekki hvarfla að forsetanum að segja að það væri ekki undir honum komið því hann væri fullkomlega valdalaust talandi höfuð lýðveldisins og hefði aldrei nokkurn tíman komið nálægt umhverfismálum. Aldrei. Viðtalið á CNN var bersýnilega tekið upp fyrir nokkru af vetrarmyndunum að dæma. Einmitt á sama tíma og prófíllinn birtist um forsetann þar sem forsetanum var eignaður heiðurinn af öllum framfarasporum á þessu sviði frá því land byggðist.
Ólafur Ragnar er hins vegar mælskur vel og eftir að ég hafði horft á hann og hlustað var ég eiginlega farinn að trúa því að hann hefði fundið upp hitaveituna.
Ég er plebbi
Ég horfi á fótbolta öll kvöld. Stundum fer ég á knæpur og sötra bjór, stundum er ég heima. Og á mánudag tek ég mér frí frá fótboltanum og fer að sjá Bruce Springsteen í Antwerpen. Það sem verra er, ég mun örugglega syngja kröftuglega með, taka stöku Luft-gítar sóló og verða mér almennt til skammar. Ég er plebbi og er stoltur af því.
föstudagur, 20. júní 2008
Hafa ber það sem skemmtilegast er
Það eru mikil forréttindi að horfa á EM landsliða í fótbolta og geta skpt á milli stöðva. Hver syngur með sínu nefi. Skipti á milli stöðva og þá aðallega á milli frönskumælandi og enskumælandi stöðva. Hef líka horft á þýskt sjónvarp en þá þarf ég aðstoð.
Englendingar eru auðvitað ekki með að þessu sinni en þess vegna geta þeir alveg einbeitt sér að sínum sérbreska skepnuskap og kaldhæðni. Ekki leiðinlegt að hlusta á Alan Hansen, Gary Lineker, Alan Shearer og Martin O´Neill í hálfleik.
En í lýsingunum kýs ég að horfa á frönsku stöðina TF1. Ekki síst til að heyra komment Arsene Wenger í "version originale". Hann er ekki margorður en glöggur og gagnorður og vel máli farinn á frönsku. Jafnvel þótt mér finnist hann alltaf vera frönskumælandi Þjóðverji enda frá Alsace (Elsass) héraði...!
Það sem vekur athygli mína er að frönsku þulirnir sjá fyllilega kost og löst á sínu liði. Þeir halda því ekki fram að Frakkar hafi átt betra skilið í keppninni. Jú jú þeir heimtuðu víti og brottrekstur þegar Hollendingur handlék boltann, en ensku skýrendurnir voru reyndar á sama máli.
Þetta minnir mig hins vegar á hvernig margir ágætir kunningjar mínir í íslenskri íþróttafréttamannastétt (vá hvað þetta er langt orð!!!) lýsa leikjum Englendinga. Þeir tala eins og heitustu ensku þjóðernissinnar. Ekki eins og BBC þulirnir, heldur blaðamenn Sun og News of the World! Ég held að stór ástæða fyrir því að ég held með Frakklandi sé þessi leiðinlega síbylja um enska landsliðið.
Svona í leiðinni: franska landsliðið var leiðinlegt og lélegt og uppskar eins og það sáði. Ég er fylgjandi létttleikandi, sókndjarfri og skemmtilegri knattspyrnu og mér er sama hvort kötturinn er hvitur eða svartur eins og Deng Xiao Ping sagði hér um árið.
Spánverjar fylla sennilega þann flokk en ég held þeir séu of "naiv" til að vinna mótið. Sagði ekki Linker að fótbolti væri leikur sem 22 leikmenn léku með einn bolta og Þjóðverjar ynnu?
miðvikudagur, 18. júní 2008
Er nauðsyn að skjóta þá?
Ég legg ekki í vana minn að blogga eftir miðnætti en þar sem ræturnar liggja hjá the "midnight rider", háttvirtum iðnaðarráðherra, læt ég þetta flakka. Af hverju í ósköpunum þurfti að drepa þessa hvíbirni sem tóku á land á Íslandi? Af hverju drepum við alla þessa hvali? Og af hverju þykir mesta karlmennska á Íslandi felast í því að skjóta fugla sem eru nánast blindir og heyrnarlausir og þar að auki bjánalega varnarlausir í felulitum sem aldrei virðast vera í samræmi við árstíma?
Kíkjum á frásögn dr. Össurar Skarphéðinssonar, fyrrverandi umhverfisráðherra um rannsóknir sínar á komum hvítbjarna til Íslands frá því land byggðist. Þar segir: í pistli skrifuðum a la Miles Davis í "Round about midnight":
"Án þess að hafa haft fyrir því að fara aftur í möppurnar mínar man ég í skjótri svipan eftir einni heimild þar sem hvítabjörn var talinn hafa drepið mann, óljósri munnmælasögu sem engar heimildir voru um í annálum um að björn hafi eytt heimili í grennd við Siglufjörð, og einni frásögn þar sem hvítabjörn á sundi lagði hramminn upp í bát."
Sagt er að af hvítabirninum hafi stafað "bráð hætta" eftir að honum var stökkt á flóttann til hafs.
Hverjum stafaði hætta af honum? Fiskunum í sjónum?
Spyr sá sem ekki veit, jafnvel þótt það sé "in the midnight hour"
mánudagur, 16. júní 2008
Álver eða ESB
Á öndverðri síðustu öld þegar kommúnisminn var í dauðateygjunum, fékk ég Sunnudags-Moggann í hendurnar. Þar blasti við mögnuð svart-hvít ljósmynd af manni á hjóli í ömurlegu iðjuveri. “Flott hjá Mogganum að senda RAXa til Austur-Þýskalands”, hugsaði ég með mér en fréttir af ömurlegri mengun voru þá uppsláttarfréttir í öllum fjölmiðlum- líka hér heima.
En þegar ég opnaði blaðið kom í ljós að RAXi hafði að vísu ekið suður Keflavíkurveginn í leit að myndefni en hafði staðnæmst í álverinu í Straumsvík þar sem hann tók myndina góðu. Hann leitaði ekki langt yfir skammt.
Nafni minn Johnsen sem starfaði einmitt á Morgunblaðinu á þessum tíma skrifaði grein í sama blað á dögunum sem mér fannst með ólíkindum og hefur satt að segja valdið mér heilabrotum. Þar býsnast hann yfir því að þekktustu listamenn Íslands í heiminum, Björk Guðmundsdóttir og hljómsveitin Sigur Rós skuli leyfa sér að halda ókeypis tónleika fyrir Íslendinga í höfuðborginni. Hann segir listafólkið “mála skrattann á vegginn með því að nota tónleika til að hlaða upp (svo!) móðursýki.”
Mesta athygli í grein Árna vakti furðulega ósmekkleg árás hans á Björk Guðmundsdóttur sem hefur gert meira en nokkur annar Íslendingur til að vekja athygli á land og þjóð. Undanfarið hafa Íslendingar að vísu orðið blaðamatur erlendis fyrir fádæma axarsköft, hroka og flumbrugang íslenskra bisnessmanna. En meira að segja þeim tekst ekki að eyðileggja orðstír sem við eigum fyrst og fremst listamönnum okkar að þakka.
Áður en Björk og hennar samstarfsmenn komu fram á sjónarsviðið reyndu íslenskir popparar að ná heimsfrægð með því að apa eftir Ameríkönum. Ekki tókst betur til hjá Hljómum þegar þeir ætluðu að fjalla um mexíkóska matargerðarlist í textum sínum en að þeir kölluðu “Taco” Tasco í annars ágætu lagi “Tasco tostada.”
Þótt Björk syngi oftast á ensku sækir hún efnivið í eigin reynslu og umhverfi og er stolt af því að vera Íslendingar og eiga rætur í íslenskri náttúru. Allir aðrir en fáfróðir heimalningar vita að hún og Sigur Rós skírskota mjög til íslenskrar náttúru og sækja sér þangað innblástur.
Mér er til efs að nokkur einn einstaklingur hafi gert eins mikið í að auka ferðamannastraum til Íslands og Björk. Þetta ætti Vestmannaeyingurinn Árni Johnsen. Nú hefði ég ekkert á móti því að álver verði staðsett í Eyjum en mér segir svo hugur að Eyjamenn vilji miklu frekar fleiri túrista. En kannski að trúbadorinn sé á öndverðum meiði, hvað veit ég?
Þótt ég sé ekki persónulegur vinur Bjarkar get ég sem Reykvíkingur vitnað um það að hún er síður en svo aðeins einu sinni á ári á Íslandi eins og Árni Johnsen heldur fram.
Raunar er það út í hött að ætla að mæla málfrelsi íslenskra ríkisborgara eftir því hve marga daga þeir dveljast á Íslandi enda er hætt við því að þá yrði stungið upp í marga félaga Árna í ríkisstjórninni sem nú situr og fræg er að endemum fyrir ferðagleði.
Við hljótum að vega og meta skoðanir Bjarkar óháð því hve oft hún stimplar sig inn við komuhliðið á Keflavíkurflugvelli.
Árni ræðst að Björk fyrir að vilja draga úr áherslu á iðnvæðingu. Björk varar við skammtímasjónarmiðum: “Við erum ekki á móti virkjunum, en það eru bara svo margir aðrir góðir kostir, eitthvað sem er uppbyggjandi í 100-200 ár, en ekki eitthvað sem dugir bara í 20 eða 30 ár – og svo er ballið búið.”
Árni segir virkjanir þvert á móti langtímasjónarmið “innlegg á bankabók fyrir framtíðina.”
Nú hafa bæði til síns máls. En fyrst virkjanir eru langtímaverkefni, hvers vegna liggur þá svo mikið á að ekki megi leyfa náttúrunni að njóta vafans? Því svarar Árni ekki enda virðist málflutningur hans ganga út á að ala á útlendingahatri.
Björk sem er of rík og býr of mikið í útlöndum að mati Árna, ætti frekar að halda tónleika fyrir 700 Suðurnesjamenn sem óvart búa í kjördæmi þingmannsins. Þeir “misstu vinnuna á einni kvöldstund með dónalegu og ruddalegu brotthlaupi Bandaríkjanna frá Keflavíkurflugvelli.”
Getur það verið að þeir hafi misst vinnuna vegna loka Kalda stríðsins? Af sömu ástæðum og ógeðslegu verksmiðjurnar sem RAXi tók aldrei myndir af í Austur-Þýskalandi lokuðu? Hvers vegna áttu Bandaríkjamenn að hafa hér her áfram? Stafaði okkur ógn af Grænlendingum eða var vera hersins atvinnuátak fyrir Suðurnesjamenn? Árni getur sjálfur haldið tónleika til að harma endalok Kalda stríðsins og getur vafalaust fengið liðsstyrk frá Samtökum herstöðvaandstæðinga. Styrmir og Ragnar Arnalds gætu svo tekið dúett við undirleik Árna.
Þegar grein Árna er lesin í heild sinni kemur nefnilega í ljós að hann rekur allt sem aflaga fer til útlendinga og reynir að reka fleyg á milli höfuðborgar og landsbyggðar enda má Árna ljóst vera að hann sækir ekki fylgið sitt suður. Og sleppum því að langflestir þeirra sem fengið hafa vinnu við að reisa Kárahnjúkavirkjun og álver fyrir austan eru útlendingar enda aðeins 1% atvinnuleysi á landi elds og Ísa um þessar mundir - þrátt fyrir allt krepputal.
Árna tekst á ótrúlega lipurlegan hátt að spyrða Björk saman við Condoleezu Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna sem leyfði sér að tala máli alþjóðlegra skuldbindinga og lýsa sig andsnúna hvalveiðum Íslendinga. Það þarf raunar engin umhverfissjónarmið til að vera á móti hvalveiðum. Ef Sjálfstæðisflokkurinn væri raunverulegur frjálshyggjuflokkur væri hann á móti þeim vegna þess að þær myndu ekki þrífast án ríkisaðstoðar. Hvernig geta Sjáflstæðismenn réttlætt að íslenska ríkið borgi með útgerð Kristjáns Loftssonar, eins ríkasta manns Íslands? Hvers vegna má þá ekki borga með hvaða útgerð sem er?
Ef Árna Johnsen væri í raun svo umhugað um framtíð Íslands og ekki síst landsbyggðarinnar, þá myndi hann hætta að ráðast gegn mörgum bestu dætrum og sonum þessarar þjóðar og beita sér fyrir því að Ísland gangi í Evrópusambandið.
Ég held nefnilega að flestir umbjóðendur Árna myndu miklu frekar vilja hafa vexti og verðbólgu um 4% eins og er í Evru-löndunum og að matarverð lækkaði um 25%, eins og sérfræðingar telja að gerðist við inngöngu í ESB.
Við skulum ekki einu sinni fara út í þá byggðastyrki sem í boði eru meðal annars til samgöngubóta (var einhver að tala um göng til Eyja?). Og aukin áhrif okkar Íslendinga á þá löggjöf sem við þurfum að hlíta en tökum við upp þrjá fjórðu hluta laga ESB án þess að hafa neitt um inntak þeirra að segja.
Ég hef áður lýst því yfir að það væri nær lægi að Björk Guðmundsdóttir tileinki okkur Íslendingum en Tíbetbúum, Færeyingum eða Grænlendingum lagið “Declare Independence” á tónleikum á Íslandi og ítreka þá hvatningu hér með.
laugardagur, 14. júní 2008
Konungurinn er dauður, lifi konungurinn!
Hollendingar hafa náð þeim ótrúlega árangri að gersigra liðin sem léku til úrslita á HM fyrir tveimur árum og skora 7 mörk gegn aðeins einu. Og það gegn ítölsku og frönsku varnarhundunum. Vel af sér vikið, til hamingju Holland.
Hollendingar voru þó heppnr í báðum leikjum. Skoruðu ólöglegt mark gegn Ítölum og Frakkar spiluðu þá sundur og saman á köflum í fyrri hálfleik. Að mínu mati var það meistaralegt þegar van Basten tók út af afturliggjandi miðjumenn og setti Robben inn á. Það var engin þörf fyrir afturliggjandi miðjumenn því Frakkar höfðu tvo slíka í Makelele og Toulalan. Robben lék sér svo að Sagnol og Thuram með þeim afleiðingum sem allir sáu.
Frakkar verða nú að yngja upp lið sitt og fyrst og fremst breyta taktíkinni: sigur Hollendinga sýnir að þessi drepleiðinlega leikaðferð að stilla upp tvemur varnartengiliðum gengur ekki upp lengur.
Það gæti verið freistandi fyrir Holland að tapa fyrir Rúmenum og sendi ellismellina heim en svolítið eins og að sparka í liggjandi menn.
Nú er bara að sjá hvort Hollendingar halda haus - en bæði Portúgal og Spánn standa enn í vegi fyrir því að EM titilinn fari til blómalandsins.
miðvikudagur, 11. júní 2008
Örfá góð ráð fyrir Frakka
Leikur Frakka og Hollendinga á morgun verður sannkallaður risaslagur. Frakkar verða helst að vinna en lið þeirra var lélegt og drepleiðinlegt í sínum fyrsta leik. Mikil óánægja kraumar undir með störf Domenech þjálfara. Nokkrir leikmenn á borð við Sagnol, Malouda og Abidal voru mjög slakir. Bakverðirnir fóru varla fram yfir miðju og engu líkara en kantmönnunum væri bannað að fara framhjá andstæðingum sínum.
Og þegar lið hefur ekki einn heldur tvo Makelele á miðri miðjunni er ekki nema von að lítið komi út úr sóknarleiknum.
Loks var Anelka skipað að vera fyrir aftan Benzema en báðir áttu von á annari hlutverkaskipan.
Henry var sagður meiddur á rasskinn (!!!!) og ekki getur hann í slíku ástandi setið á bekknum.
Ef Domenech hristir upp mannskapinn geta Frakkar alveg unnið Hollendinga. Lykillinn að því er að skipta út nokkrum leikmönnum og leyfa Ribery að leika frjálst hlutverk. Ég legg til þrjár breytingar á franska liðinu (Sagnol hangir inni því Bacara Sagna hjá Arsenal var ekki valinn í hópinn). Vieira hefur víst ekki náð sér af meiðslum og virðist svo sem heldur ekki líklegur til afreka. Diarra hjá Portsmouth er maður framtíðarinnar.
Hins vegar skiptir mestu fyrir Frakka að Franck Ribery fái að leika lausum hala en sé ekki niðurnjörfaður á hægri kanti.
Einn möguleiki væri raunar að setja Diarra í hægri bakvörð og láta Ribery inn á miðjuna sem leikstjórnanda. Gouvu hjá Lyon kæmi þá inn sem kantmaður. Domenech er hins vegar svo varnarlega sinnaður að ef hann vildi gefa Ribery þetta tækifæri myndi hann frekar fórna öðrum senternum.
Svona legg ég til að franska liðið verði skipað.
1. Coupet 2.Sagnol 3. Evra 4. Thuram 5. Gallas 6.Makelele 7. Diarra 8. Ribery 9.Henry 10. Benzema 11. Nasri
Sá hlær best sem síðast hlær
- Það verður ekki annað sagt en að Evrópukeppni landsliða hafi farið mjög vel af stað.
- Þjóðverjar byrja mjög vel og virðast geysi sterkir, þótt margir hafi látið í ljós efasemdir um miðju varnarinnar. Pólverjar reyndu ekki mjög mikið á miðverðina.
- Holland er með mjög frambærilegt lið. Staðreyndirnar tala sínu máli 3-0 gegn Ítalíu. Slíkt gera ekki nema bestu lið.
- Portúgalar voru sannfærandi í sínum fyrsta leik en mótstaðan var ekki mjög mikil.
- Spánverjar léku við hvern sinn fingur á móti Rússum. Frammistaða Torres, Villa, Xavi og Iniesta var einfaldlega master class í fótbolta.
- Sagan sýnir hins vegar að fyrsti leikurinn segir ekki alla söguna um framhaldið. Spánverjar voru líka frábærir í fyrstu leikjunum á síðasta HM og munið þið Argentínumenn??
- Ítalir byrja nánast alltaf illa og Frakkar líka en sækja svo í sig veðrið. Ítalir gerðu þrjú jafntefli og aðeins eitt mark í riðlakeppninni á HM 1982 en urðu síðan Heimsmeistarar. Og leikur Frakka og Svisslendinga á HM fyrir tveimur árum var álíka leiðinlegur og leikur þeirra við Rúmena á mánudag. Álika skemmtilegur og að horfa á málverk þorna, eins og góður vinur minn orðaði það.
mánudagur, 9. júní 2008
Friður, fótbolti og Cristina Ronaldina
Staksteinahöfundur Morgunblaðsins skrifaði á dögunum um knattspyrnu og rifjaði upp þekkt ummæli franska rithöfundarins Albert Camus sem skrifaði um reynslu sína sem markvarðar í knattspyrnu: „Allt sem ég þegar upp er staðið vísast lærði um siðferði og skyldur mannsins á ég íþróttinni að þakka.“
Staksteinar vitna svo í tyrkneska rithöfundinn Orhan Pamuk þar sem hann segir: “Siðferði er sennilega það síðasta sem maður gæti lært af fótbolta í dag.“
Ég ætla að leyfa mér að vera ósammála Morgunblaðinu þegar það tekur undir með Pamuk og spyr “Undir hverju verður kynt þar?” en þar vísar blaðið til EM landsliða í fótbolta sem nú stendur yfir.
Þessa stundina er ég búsettur í Brussel. Nú í Evrópukeppninni og ekki síður þegar HM stóð yfir fyrir tveimur árum gjörbreyttist borgin. Við nokkrir vinnufélagar höfum gert okkur það að sið að leita uppi knæpur sem tilteknar þjóðir sækja og horfa á leiki í sjónvarpi.
Þannig eru Portúgalir, Englendingar, Þjóðverjar, Pólverjar og Ítalir mjög fjölmennir hér og mikið fjör – aðallega þegar þessar þjóðir vinna. Og Portúgalarnir breytast í Brasilíumenn þegar þeim hentar og öfugt. Á HM 2006 voru skjáir úti við og hreinustu götupartý, ekki síst í nágrenni Flagey-torgs þar sem margir Portúgalar búa. Og svo er mikið stuð þegar vel gengur hjá Afríkuþjóðum í Matonge-hverfinu sem stundum er kallað litla Kinshasa, en þær þjóðir eru auðvitað ekki með á EM.
Horfði á Ítalíu-Þýskaland í undanúrslitum HM á risaskjá í bíói ítalska sendiráðsins með ítölskum vinnufélaga. Ítalir skoruðu tvö mörk á síðustu mínútunum og ég vissi ekki fyrr en ég var hálfur út um glugga á bíl félaga míns veifandi ítölskum fána meðan hann rúntaði um miðbæ Brussel og lá á flautunni.
Horfði líka á England-Portúgal á portúgölskum bar og þar fór allt friðsamlega fram, Englendingar og Portúgalir föðmuðust að leik leiknum og tjallinn sætti sig við tapið.
Sporðrennti meira að segja pylsum og sötraði bjór í lítrakrúsum á meðan Þjóðverjar marseruðu upp í teig andstæðinganna og röðuðu inn þýsku mörkunum. Og að leik loknum sungum við Lille Marlene og enginn var sendur til Auschwitz...
Mín reynsla er sú að fótbolti sé oftar en ekki tæki til að þjappa ólíkum þjóðum saman. Jú við þekkjum öll slagsmál húlígana og það er margendurtekin klisja að tala um fótboltastríð El Salvador og Hondúras. Slíkt væri hins vegar ekki fréttefni nema vegna þess hve sjaldgæft það er. Það fara nefnilega fram þúsundir knattspyrnuleikja um allan heim á hverjum degi og langflestir fara friðsamlega fram.
Sjálfur var ég friðargæsluliði í Kosovo og þar skipulögðu íslenskir starfsmenn Sameinuðu þjóðanna fótboltaæfingar og buðu vinnufélögum að mæta algjörlega án tillits til þjóðernis.
Sumum fannst það vogað hjá Íslendingunum að bjóða öllum þjóðarbrotum til leiks. En þarna léku Albanir, Serbar og Króatar saman á móti íslenskum flugumferðastjórum, slökkviliðsmönnum og bílstjórum án nokkurra erfiðleika. Og þótt þessum þjóðum verði tíðrætt um hversu ólíkar þær eru, þá er vissulega til júgslavneskur knattspyrnustíll, þar sem hæst ber frábæra boltameðferð. Við Íslendingarnir sáum alfarið um ofurkapp, skriðtæklingar og röfl við dómarann.
Nú um helgina tók ég svo í alþjóðlegu móti í Brussel þar sem við SÞ liðar öttum kappi við Evrópusambandið. Í okkar liði voru leikmenn af tíu þjóðernum og fimm til viðbótar ef klappstýrurnar eru reiknaðar með. Og ég get vissulega fullyrt að knattspyrnan hefur hrisst þessa þjóðablöndu vel saman.
Sumt kom ekki á óvart: Auðvitað var það Englendingurinn sem klikkaði á sinni spyrnu með þeim afleiðingum að við töpuðum í vítaspyrnukeppni gegn framkvæmdastjórninni!! (og það var Þjóðverji i liðinu..læra menn aldrei af reynslunni?)
Annað var óvenjulegra: Það vakti athygli í okkar liði að þar gegndu tvær norrænar konur lykilhlutverki. Ég verð að játa að það er eitthvað sérlega heillandi við að sjá glæsilega konu æða upp kantinn með sítt hár í tagli, flaksandi eyrnalokka, farðaðar varir og lakkaðar neglur og skilja eftir sig ilmvatnshjúp!
Mín spá er sú að þegar loksins verður farið að taka á ruddaskap í knattspyrnu muni kynjaskiptingu verða hætt í knattspyrnu og konur fara að hasla sér þar völl. Vissulega munu markmenn og tröllvaxnir miðverðir seint koma úr röðum kvenna, en ég sé fyrir mér liprar, teknískar kantkonur með hvíta sóla og marksæknar sóknardísir og ég þekki margar konur stærri og stæltari en Claude Makelele! Kemur röðin senn að Cristinu Ronaldinu?
föstudagur, 6. júní 2008
Lærum af Baugsmálinu
Upp á vegg í félagsheimili Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnaresi hékk síðast þegar ég kom þangað ljósmynd af þáverandi formanni byggingarnefndar flokksfélagsins að afhenda formanni flokksins húsbygginguna. Jóhannes í Bónus að afhenda Þorsteini Pálssyni lyklana að félagsheimilinu nýbyggðu.
Það er útaf fyrir sig ástæða til að fagna því að Baugsmálinu er lokið fyrir dómstólum. Það er hins vegar engin ástæða fyrir Íslendinga til að vera stoltir af málinu því nær allar helstur stoðir þjóðfélags okkar brugðust í málinu.
Pólitísk umræða hefur skekkst gríðarlega mikið vegna þess klofnings sem varð á í íslensku viðskiptalífi og þar með hægri vængi íslenskra stjórnmála með Baugsmálinu. Í raun og veru er mjög erfitt að sjá skýrar pólitískar línur í málinu.
Hér er á ferðinni mál sem á rætur að rekja til andúðar Davíðs Oddssonar og hans helstu fylgismanna við nýríka kaupsýslumenn sem mér finnst ekki ósennilegt að rekja megi upphaflega til átakanna um meirihlutann í Stöð 2. Vinstri menn ættu hins vegar að athuga að þetta var deila á meðal hægrimanna sem sannir jafnaðarmenn hefðu aldrei átt að skipta sér af; hvað þá að láta þjóðina skipa sér í stríðandi fylkingar um málið eins og raun bar vitni. Ég held til dæmis að það hafi skaðað Samfylkinguna að áberandi menn í hennar röðum töluðu mjög máli Baugs.
Ég held að atburðarásin sé að mörgu leyti tilviljanakennd og inn í málið spilist bæði tilfinningar og hagsmunir ýmissa aukapersóna sem heltu olíu á eldinn. Það er þó allavega klárt samhengi á milli uppgangs Stöðvar 2 og þess að Sjálfstæðisflokkurinn læsti tönnunum í Ríkissjónvarpið. Tak sem hann hefur ekki sleppt.
Þótt feðgarnir Jón Ásgeir og Jóhannes í Bónus hafi um síðir keypt Jón Ólafsson og Sigurjón Sighvatsson út úr Stöð 2, var í upphafi þessara deilna þó ekkert sérstaklega náið samband milli þeirra. Ég minnist samtala við Jón Ásgeir þar sem hann bar sig illa undan fréttaflutningi mínum um Baug og hver er búinn að gleyma því þegar Þórhallur Gunnarsson, síðar dagskrárstjóri og Jóhanna veittu föður hans fyrirsát í Íslandi í bítið? Jón að minnsta kosti kenndi nafna sínum um.
Það sem nafnarnir áttu sameiginlegt var að þeir voru eins og segir í gömlu bröndurum Matthildinga en í hópi þeirra var Davíð Oddsson, að þeir voru “þeir sem mættu ekki í játningatímana lögreglunnar á mánudögum og miðvikudögum”: með öðrum orðum virtu ekki goggunarröð flokksins í atvinnulífinu og undirgengust ekki þær skyldur gagnvart Flokknum sem sjálfsagðar þóttu.
Sumar mannaráðningar skiptu máli (brottrekstur Elínar Hirst vóg þungt). Viðskipti við vildarvini Flokksins voru ekki að hans skapi (ýmis auglýsingamál plús að styrkir til Hannesar Hólmsteins og myndir hans fóru yfir á RÚV).
Flokkurinn taldi sig hafa staðið halloka frá því vinstrimenn náðu tökum á útvarpinu upp úr miðjum áttunda áratugnum og þeir óttuðust að sjónvarpið færi sömu leiðl Með öðrum orðum taldi Flokkurinn sig ekki hafa knúið fram “frjálst” útvarp og sjónvarp eins og það hét þá á “flokkskínverskunni”, til þess að menn utan vinahóps hans, eignuðust dótið. Þegar Stöð 2 reyndist að vissu marki gagnrýninn og opinn fjölmiðill og síður en svo taglhnýtingur Flokksins, runnu tvær grímur á menn.
Ég held þó að óútreiknanleg skapgerð Davíðs Oddssonar og hvernig ýmsir “vinir” hans notuðu sér veilur hans hafi skipt mjög miklu máli. Davíð varð sterkari leiðtogi en nokkur íslenskur stjórnmálaforingi síðan Bjarni Benediktsson var og hét. Öfugt við Bjarna heitinn efldust skapbrestir Davíðs með aldrinum og ekki bætti úr skák að eins og títt er um sterka leiðtoga fóru margir undirmenn hans að haga sér í samræmi við það hvernig þeir töldu að leiðtoginn vildi hafa hlutina – með réttu eða röngu.
Þetta er ekki sagan öll en svona var ástandið þegar Í þessu ljósi verður að skoða Baugsmálið. Við munum trúlega aldrei vita hvað nákvæmlega Davíð vildi og hvað skósveinar hans tölu hann vilja eða jafnvel lugu að öðrum að hann vildi.
Baugsmálið stóð í sex ár og Jón Ásgeir Jóhannesson var sakfelldur fyrir einn lið af fjörutíu. Það segir að ég held sína sögu. Margt misjafnt kom fram um viðskiptahætti hans og hans fyrirtækis en satt að segja hefur hann nú aldrei þótt neinn kórdrengur í bisness. Enda hefði hann sennilega aldrei náð þvílíkum árangri. Bisness er nefnilega ekki grein fyrir kórdrengi, séntilmenn verða oftar en ekki undir í baráttunni við ótínda götustráka eins og dæmin sanna.
Áður en Baugsmálið byrjaði var Davíð Oddsson almennt talinn einn mesti pólitíski leiðtogi sem Ísland hafði eignast. Með Baugsmálinu og afleiðingum þess gróf hann sér sína pólitísku gröf. Fjölmiðlamálið er að sjálfsögðu litli bróðir Baugsmálsins og hver stóð uppi með pálmann í höndunum en mesti tækfiærissinni stjórnmálasögu Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson? Þetta er ekkert minna en grísk tragedía fyrir þann góða dreng Davíð.
Auk Davíðs hefur embætti ríkislögreglustjóra og ríkissaksóknara beðið slíkt afhroð að Haldur Jóhannesson og Jón Snorrasson hljóta að segja af sér embættum. Þetta er ekki fyrsta málið þar sem þeir sýna af sér siðleysi og fullkomna fákunnáttu í lögfræði.
Því miður hefur Styrmir Gunnarsson sennilega eyðilagt Morgunblaðið og sinn eigin orðstír. Fréttablaðið var ekki mikið skárra en Stöð 2 merkilega mikið betri í fréttaflutningi sínum þótt ég hafi beinlínis blygðast mín þegar starfsmennirnir lögðu banana á tröppur Alþingis.
Að lokum þetta: er ekki sjálfsagt mál að opinber rannsókn fari fram á þessu máli? Eigum við Íslendingar ekki, þótt ekki sé nema bara einu sinni, að læra af reynslunni?
fimmtudagur, 5. júní 2008
Og sigurvegarinn er....
Það er sannkölluð knattspyrnuveisla framundan: Evrópukeppnin í fótbolta. Eiginlega skyggir fátt á þá gleði nema að ég væri alveg til í að skipta á Svisslendingum og Austurríkismönnum og til dæmis Englendingum og Dönum.
Ekki að ég hafi trú á því að Englendingar gerðu mikið í keppninni, hins vegar er svo gaman að fylgjast með ensku þjóðarsálinni að maður tali nú ekki um allt pöbbalífið hér í Brussel í kringum ensku leikina.
Mér sýnast fimm lið vera sterkust: Frakkland, Ítalía, Spánn, Þýskaland og Portúgal.
Frakkar hafa ekki sýnt miklar rósir í undirbúningi EM og raunar virðast sumir leikmenn liðsins á síðustu metrunum. Lillian Thuram og Claude Makelele eru komnir á miðjan fertugsaldur og satt að segja furðulegt að Raymond Domenech þjálfari skuli ekki hafa skipt þeim út með það í huga að HM er eftir tvö ár. Þeir eru hins vegar ekki leikmennirnir sem virðast ryðgaðastir.
Patrick Vieira er sífellt meiddur og þar að auki eru varnarmennirnir William Gallas og Willy Sagnol búnir að vera meiddir. Domenech er að mörgu leyti sérsinna í vali sínu á liðinu og þannig eru Mexes hjá Roma og Bacara Sagny hjá Arsenal ekki í hópnum. Boumsong, einhver slakasti haffsent í sögu ensku deildarinnar er á bekknum, öllum velunnurum franskrar knattspyrnu til mikils hrellings. Þá kýs þjálfarinn fremur að hafa Eric Abidal hjá Barcelona í vinstri bakvarðarstöðunni en hinn frábæra Patrice Evra. Lyonmarkmaðurinn Gregory Coupet er stór og stæðilegur markmaður og fær loks að spila á stórmóti.
Búist er við að Jeremy Toulalan hjá Lyon leysi Vieira af hólmi og er ég satt að segja undrandi á því og tel bæði Diarra hjá Portsmouth og Mathieu Flamini sterkari leikmenn. Florent Malouda hefur verið út að aka síðan í síðustu heimsmeistarakeppni en Eric Ribery er hins vegar verðugur arftaki Zinedine Zidane sem primus motor á miðjunni.
Frammi er svo Thierry Henry, af gömlum vana en hinn stórefnilegi Benzema hjá Lyon virðist hafa tryggt sér sæti frammi, þótt Nicolas Anelka hafi verið að spila mjög vel með franska landsliðinu allengi – mun betur en hjá Chelsea. Jókerinn er svo Gomis hjá St. Etienne sem gæti hrellt markmenn þótt hann verði ekki í byrjunarliði.
Ítalir eru með mjög gott lið og góðan þjálfara í Roberto Donadoni. Fabio Cannavaro verður að vísu ekki með en það hefur aldrei verið skortur á góðum miðvörðum á Ítalíu og gera má ráð fyrir sterkri ítalskri vörn sem þar að auki skartar besta markmanni í heimi Buffon. Zambrotta er þó ekki svipur hjá sjón en hann var um tíma besti hægri bakvörður í heimi. Miðjan er mjög sterk með Andrea Pirlo hjá Milan eða jafnvel De Rossi hjá Roma í aðalhlutverki og Milanjaxlinn Gattuso ef hann sleppur í lið.
Frammi er hinn frábæri Luca Toni hjá Bayern en hann gæti orðið ein af stjörnum keppninnar.
Spánverjar hafa mjög góða einstaklinga en eins og allir vita virðast þeir aldrei komast alla leið. Lið með Fernando Torres, Cesc Fabregas, Iniesta, David Villa og Xavi innanborðs er ekki auðsigrað. Ég óttast hins vegar að það skorti járnkarl á miðjunni og þetta eru líka ótrúlega lágvaxnir leikmenn.
Portúgalir skarta besta knattspyrnumanni heims Christiano Ronaldo en eiga marga aðra frábæra leikmenn eins Richardo Carvalho í vörninni, Simao, Petit, Meireless, Deco, Nani og frábæra kantmanninn Quaresma.
Þjóðverjar eru Þjóðverjar og munu berjast eins og grenjandi ljón. Liðið er rútínerað og Michael Ballack mun berjast eins og ljón. Of margir af bestu leikmönnum Þýskalands hafa hins vegar ekki verið í stuði og Jens Lehmann ætti löngu að vera búinn að leggja hanskana á hilluna.
Mín spá er hins vegar sú að Portúgalir leiki við Þjóðverjar í undanúrslitum og komist í úrslitaleikinn. Frakkar munu vinna Ítali í undanúrslitunum en tapa fyrir Portúgölum í úrslitaleik – jafnvel þótt þeir hafi haft tak á þeim í lengri tíma. Nema helv. Þjóðverjarnir taki þetta af gamalli venju!
miðvikudagur, 4. júní 2008
Tölvupóstar ekki birtir
Þórhallur Gunnarsson, dagskárstjóri hefur í tölvupósti til mín hafnað ósk minni um að við birtum tölvupóstsamskipti okkar til að almenningur geti dæmt sjálfur um ágreining okkar.
Ég hef ekki lagt í vana minn að birta einkabréf til mín í leyfisleysi og ætla ekki að byrja á því nú. Leiðinlegt fyrir mig þvi málflutningur minn í þessu máli byggir einmitt á efni þeirra.
Hins vegar hefur Þórhallur vinur minn komið með eftirfarandi eftiráskýringu: "Síðan hefur Árni Snævarr sem slíkur haldið fram þeim sjónarmiðum í umræðuþáttum að við eigum að ganga inn í Evrópusambandið. Mér fannst þess vegna nokkuð sérstakt að kaupa mynd þar sem hagsmunaaðilar fá fréttamann til þess að gera mynd sem þjónar þeirra hagsmunum. Og síðan að fjölmiðlamaðurinn sjálfur haldi fram þessum sjónarmiðum mjög ákveðið. Þá fannst mér komin skekkja á þá hlutlausu fréttamennsku sem svona umfjöllun á að sýna."
Nú er það svo að Þórhallur dagskrárstjóri sýnir á hverjum sunnudegi yfirirburðafréttaskýringarþáttinn "Silfur Egils." Stjórnandinn Egill Helgason er þar að auki mikilvirkur bloggari og hefur skoðanir á öllu; stóru sem smáu. Hann er fylgjandi ESB, skeptískur á loftslagsbreytingaumræðuna; og nánast hvar hver ruslatunna í Reykjavík sé staðsett og svo framvegis.
Sigmar Guðmundsson hægri hönd Þórhalls var líka með sitt blogg til skamms tíma á sama tíma og hann stýrði fréttaskýringaþætti.
Og man einhver eftir Gísla Marteini sem fékk mestu pólitísku kynningu sögunnar á hverju einasta laugardagskvöldi?
Egill er þjóðhetja; Sigmar næstumþvíjafngóðurogLogiBergmann og öllum líkaði vel við Gísla sjónvarpsmann, hvað sem líður hans síðara pólitíska klúðri.
Ég held að allir sanngjarnir menn sjái að Þórhallur talar tungum tveim og sitt með hvorri: sitthvað er Jón og séra Jón. Er vilji til þess að banna Agli Helga að skrifa sitt blogg? Af hverju gat Hannes Hólmsteinn sýnt sína margstyrktu þætti og haft sínar skoðanir um leið? Er "berufsverbot" hjá RÚV á fólk sem hefur skoðanir yfirleitt eða bara sumar bannaðar skoðanir?
Ég held að Þórhallur hafi satt að segja ekki hugsað þetta mál í botn. Hann hefur farið þess á leyt við mig að við hættum þessum opinberu skoðanaskiptum og ég ætla að verða við beiðni hans. Mun fleiri hafa nú þegar horft á þáttinn bæði á Stöð 2 og netinu en ég hafði gert mér nokkra von um - þökk sé þessum skoðanaskiptum
Takk Þórhallur, tilgangi mínum er náð. Bestu kveðjur í Efstaleitíð, Árni
þriðjudagur, 3. júní 2008
Opið bréf til Þórhalls Gunnarssonar
Sæll félagi, leiðinlegt hvernig þú tekur þessum skoðanaágreiningi okkar. Er ekki einfaldast að við birtum samskipti okkar á tölvupósti þannig að fólk geti lagt sjálfstætt mat á málið? Ég átta mig vel á þvi að sjaldan veldur einn þegar tveir deila en ef við birtum þetta getur almenningur lagt mat á málið. Stundum finnst mér þú gleyma því að þú vinnur ekki lengur hjá einkafyrirtæki eins og við gerðum saman í gamla daga. Mér dettur ekki í hug að birta þetta nema með þínu samþykki. Hins vegar tek ég það fram að vegna þess að ég veit að þú átt það til að hafa ekki tíma til að svara tölvupósti og skilaboðum, mun ég líta svo á að þögn sé sama og samþykk hafi mér ekki borist svar annað kvöld. Þekkjandi þig vinur veit ég að mesta fýlan verður farin úr þér eftr c.a. tuttugu ár. Bið að heilsa bestu kveðjur Árni
mánudagur, 2. júní 2008
Fyrr myndu þeir einkavæða Hannes
Sjálfstæðisflokkurinn vann frægan sigur þegar Ríkisútvarpið var gert að opinberu hlutafélagi. Flokknum tókst að láta líta svo út sem að hlutafélagavæðingin væri málamiðlun af hans hálfu og andstæðingar Flokksins hlupu apríl og héldu að þetta væri fyrsta skref í átt til einkavæðingar.
Össur Skarphéðinsson er góður þegar hann er góður en hann er líka afspyrnu slakur á vondum degi. Mörður Árnason hefur aldrei verið honum skapbætir og frammistaða þeirra á þingi i þessu máli var eftir því.
Sjálfstæðisflokkurinn mun aldrei láta RÚV af hendi : fyrr myndi flokkurinn einkavæða Hannes Hólmstein en selja einkaaðilum Ríkissjónvarpið.
Hannes Hólmsteinn er reyndar hugmyndafræðingur þeirrar stefnu að yfirráð yfir Ríkissjónvarpinu sé einn hornsteinn herstjórnarlistar flokksins í stjórnmálum. Ástæða þess að flokkurinn rígheldur í menntamálaráðuneytið er ekki áhugi á skólamálum heldur yfirráðin yfir RÚV. Flokkurinn veit að markaðnum er ekki treystandi : götustrákar gætu keypt herlegheitin eins og dæmin sanna í einkabransanum.
Hér á árum áður gortaði Hannes af því að ekki hefði ráðinn svo mikið sem sumarfréttamaður á fréttastofu RÚV sjónvarps án þess að hann væri með í ráðum. Hvort þetta er rétt veit ég ekki, en svo mælti Hannes Hólmsteinn.
Flokkurinn hefur hins vegar farið tiltölulega vel með þetta vald sitt. RÚV hefur þannig fráleitt verið hreint málgagn Flokksins, en trúnaðarmenn flokksins hafa hins vegar með ítökum sínum tryggt að ekkert stórkostleg gerist þar inann dyra sem Flokkurinn veit ekki um og er honum ekki að skapi. Keyptar hafa verið myndir af Hannesi Hólmsteini og Hrafni Gunnlaugssyni en það er sennilega frekar dæmi um smá-spillingu en pólitískan áróður. Að þessu leyti stendur RÚV þó undir nafni sem bláskjár.
Með opinberu hlutafélagavæðingunni hefur Flokkurinn meiri tök á RÚV en nokkru sinni fyrr : menntamálaráðherra fer með eina hlutabréfið í fyrirtækinu. (Þorgerður Katrín er reyndar gott dæmi um ítök flokksins í RÚV ; hún var ráðin blaut á bakvið eyrun í yfirmannastöðu hjá RÚV með flokksskírteinið eitt upp á vasann. Hún reyndist prýðilega hæf en það er önnur saga...)
Eitt hefur hins vegar verið gegnumgangandi hjá RÚV í ár og jafnvel áratugi og það er andúð á Evrópusambandinu. Mér dettur ekki í hug að halda því fram að yfirmenn Sjónvarpsins hafi ekki vit á fréttum en hvernig er hægt að útskýra að ekki sé ráðinn fréttaritari í Brussel þar sem 75 prósent löggjafar sem tekur gildi á Íslandi er sett ? (Til hvers að hafa fréttamann í Kaupmannahöfn ? ; til að fylgjast með Dóru Takefúsu fyrir hádegi og Frikka Weisshappel eftir hádegi ? )
Flokkurinn hefur eins og kunnugt er löngum verið þeirar skoðunar að Evrópusambandið sé ekki á dagskrá og hafa menn mátt kenna á refsivendinum fyrir það eitt að vilja ræða málið.
Seint á síðasta ári höfðu Samtök iðnaðarins samband við mig og báðu mig að taka að mér stjórn Iðnþings. og búa til nokkra myndbúta til sýningar á þinginu. Búseta mín í Brussel og sú staðreynd að ég kann til verka í sjónvarpi án þess að vera þar starfandi réði því að leitað var til mín. Fékk ég leyfi til þessa hjá vinnuveitanda og vann þetta í fríi frá minni vinnu.
Fljótlega hafði ég samband við gamlan og góðan kunningja minn Þórhall Gunnarsson, dagskrárstjóra sem ég hef haft í miklum metum bæði sem fagmann og félaga. Sagði ég honum forsögu málsins og virtist hann spenntur yfir viðfangsefninu. Hugmynd mín var að klippa saman myndbútana og búa til þátt.
Þegar hann fékk efnið í hendur hafði honum hins vegar snúist hugur. Ekki vegna þess að hann hefði nokkrar athugsamdir við efnistökin heldur vegna þess að Samtök iðnaðarins hefðu kostað þáttinn.
Nú er það svo að við Þórhallur höfum báðir stýrt sjónvarpsþáttum sem hafa verið styrktir í bak og fyrir af ýmsums einkafyrirtækjum en gert það með þeim hætti að starfsfélagar okkar hafa verðlaunað okkur fyrir á opinberum vettvangi.
Landsamband útvegsmanna borgaði í topp þáttaröð um sjávarútvegsmál, þar sem stuðningur við kvótakerfið og andúð á ESB voru höfuðþemu. Þróunarsamvinnustofnun hefur nýlega borgað þátt um þróunaraðstoð þar sem rætt var við alla starfsmenn hennar í Malaví nema tvo. Sjálfsagt tilviljun að það fólk var einmitt skeptískt á stefnu stofnunarinnar….
Íslensku flugfélögin og ferðaskrifstofur hafa endalaust boðið blaðamönnum í ferðir til að kynna nýja áfangastaði. NATO hefur borgað ferðir blaðamanna einus inni til tvisvar á ári í mörg ár og stjórnvöld buðu blaðamönnum á NATO fundinn í Búkarest. Oftast hefur hvergi komið fram hvaðan fé og frumkvæði hefur komið.
Í mínu tilfelli var það skýrt tekið fram hver borgaði brúsann og aldrei farið í felur með það. Sinnaskipti Þórhalls snérust eingöngu um að honum líkaði ekki styrktaraðilinn- hann hafði engar athugsemdir við framsetningu mína. Ekki eina einustu.
Ég dreg enga dul á það að Þórhalli er nokkur vorkunn því hér er um eldfim mál að ræða. Ég veit að á þessum tíma átti Þórhallur undir högg að sækja innan RÚV vegna launamála sinna og tel að hann hafi ekki viljað rugga bátnum með því að koma sér illa við Flokkinn á þessari stundu með því að makka við óvininn : alla sem vilja ræða á opinn og heiðarlegan hátt um Evrópusambandið ; kosti þess og galla.
Uppgerðar litillæti fer mér ekki vel og því undrast ég þegar dagskrárstjóri hafnar frambærilegu efni eftir verðlaunafréttamann hokinn af reynslu (!) um mál sem er efst á baugi í þjóðfélaginu og stofnuninni að kostnaðarlausu.
Að sjálfsögðu hrósaði Stöð 2 happi og sýndi þáttinn á kjörtíma á sunnudagskvöldi. Þótt Sjálfstæðisflokkurinn vilji helst losna við einkageirann af markaðnum, er staðreyndin nefnilega sú að í þessu eins og öllu öðru er samkeppni af hinu góða og gerir þar að auki ritskotðun vonlausa.
Björn Bjarnason, hélt því nýlega fram að engu skipti hver væri ritstjóri á Morgunblaðinu, öllu skipti hverjir væru eigendur. Vissulega athyglisverð lýsing hjá syni ristjóra Morgunblaðsins til margra ára og aðstoðarritstjóra sama blaðs um langt skeið. Við vitum hver fer með eina hlutabréfið í RÚV. Við vitum líka að hún hefur nýlega skipt um skoðun og lýst því yfir að Evrópusambandið sé komið á dagskrá.
Ef Þorgerði Katrínu vantar númerið hjá Þórhalli þá er henni guðvelkomið að hringja í mig svo hún geti sagt honum að það sé ekki lengur Flokkurinn heldur flokksbrot sem reyni að þagga ESB í hel.
Með fullri virðingu fyrir Stöð 2, er þátturinn sem ég gerði um Evrópu, þátturinn sem RÚV átti ekki bara að sýna, heldur að hafa framleitt fyrir langa löngu.
Í þessu tilfelli er ekki hægt að segja annað um RÚV en að bláskjár er hann og bláskjár skal hann heita- hver sem ritstjórinn er.
PS
Eg vil taka það skýrt fram að ég ber engann kala til Þórhalls Gunnarssonar, en verk og vona að áralangur kunningsskapur okkar haldi áfram hér eftir sem hingað til. Eins og Þórhallur veit mæta vel er mér ýmislegt til lista lagt en falskur er ég ekki og segi mínar skoðanir beint út. Vinur er sá sem til vamms segir.