Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra á hrós skilið fyrir að hafa tekið í hnakkadrambið á Karzai, forseta Afganistans með því að krefja hann svara um fréttir the Guardian í síðustu viku um ný kvennakúgunarlög sem hann hafði undirritað.
Guardian vakti fyrst athygli á því í forsíðufrétt að þing Afganistans hefði samþykkt lög sem Karzai hefði síðan undirritað þar sem konur væru skyldaðar til að sænga hjá mönnum sínum hvenær sem karlinum þóknaðist, fengju ekki að fara úr húsi án hans leyfis og svo framvegis.
Guardian skýrði svo frá því á forsíðu daginn eftir að á fundi um málefni Afganistans í Hollandi, hefði Ísland orðið fyrst til að taka málið upp við afganska forsetann og síðan hafi aðrir siglt í kjölfarið.
Pillay, mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna birti harðorða yfirlýsingu og sama gerði Barack Obama, forseti Bandaríkjanna.
Nú ætla ég ekkert að þakka Össuri það sérstaklega að skriðan fór af stað, en engu að síður þykir það tíðindum sæta að það heyrist hljóð úr íslenska horninu á alþjóðlegum fundum, hvað þá þegar heimskunnir ráðamenn á borð við Karzai eru sjálfir viðstaddir.
Málið sýnir fyrst og fremst hvað góður fjölmiðill getur áorkað og the Guardian er svo sannarlega í fremstu röð í heiminum.
Og raunar sýna viðbrögðin hugsanlega að menn á Vesturlöndum eru ekki lengur til í að styðja hvaða harðstjórn sem er í þriðja heiminum, þótt það þjóni ákveðnum hagsmunum og eru fúsari til að hlusta á almenningsálitið en áður var.
Sjálfur spurði ég í pistil á Eyjunni sama dag og Guardian vakti athygli á þessu, hvort við Íslendingar ætluðum að taka þátt í stríði NATO ef gegndarlaus kvennakúgun viðgengist í Afganistan.
Össur Skarphéðinsson hefur nú svarað því að svo er ekki og hafi hann þökk fyrir.
Má ég biðja um meira!
PS Ég var ekki fyrr búinn að skrifa þennan mærðar-óð til Össurar en hann olli mér sárum vonbrigðum. Össur skrifar hér á Eyjuna: "Kaczynski forseti (Póllands) er brosmildur í viðræðu og kann að undirstrika mikilvægi Pólverja á fundum sem þessum. Lítill vexti, en pundið í honum er valdsmannslegt. "
Ég veit að utanríkisráðherra þarf oft að gera meira en gott þykir og oft þarf að hafa uppi innihaldslaust diplómatískt hjal. Pólverjar eru alls góðs maklegir en það er óþarfi að lofa skrattann. Kaczynski-bræður eru illa þokkaðir af öllu almennilegu fólki jafnt heimafyrir sem í Evrópu enda oft kallaðir "the evil twins". Litlir vextir og álíka valdsmannslegt í þeim pundið og í Mini-me úr Austin Powers myndunum.
Að vísu er alveg rétt að forsetinn "kann að undirstrika mikilvægi Pólverja á fundum sem þessum" enda hefur hann til dæmis haldið hverju framfaramálinu á fætur öðru í gíslingu á ESB vettvangi, td. í loftslagsmálum og frammistaða hans í jafnréttismálum er slík að mann grunar helst að hann vilji troða öllum konum í Búrkum.
miðvikudagur, 8. apríl 2009
Go Össi! Go!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
1 ummæli:
Líka gott hjá honum að segja á NATO fundinum: "Gordon, we have to talk."
Skrifa ummæli