mánudagur, 20. apríl 2009

Evrópsinnar allra flokka sameinist!

Það er alveg ljóst að nú síðustu vikunum er umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu yrðir lykilmál í kosningabaráttunni.

Evrópusinnar eru í öllum stjórnmálaflokkum. En aðeins einn flokkur hefur aðild að ESB á stefnuskrá sinni. Það skiptir vissulega máli að við eigum takmarkaða möguleika á að ná okkur varanlega eftir hrunið ef við göngum ekki til liðs við nágranna- og vinaþjóðir okkar í Evrópusambandinu, eins og sjálfstæðismaðurinn Benedikt Jóhannesson hefur sýnt fram á.

Hitt skiptir þó meira máli að með því að setjast við sama borð og vinaþjóðir okkar, höfum við kost á að hafa áhrif á eigin mál enda ekki við það búandi til lengdar að taka við löggjöf ESB hrárri í gegnum EES samningsins.

Það eru engir afarkostir að ganga í Evrópusambandið. Ekkert í sjávarútvegsstefnunni gefur öðrum þjóðum veiðiheimildir í okkar lögsögu og orkulindir aðrar munu eftir sem áður tilheyra okkur einum.

Hver Sjálfstæðismaðurinn á fætur öðrum lýsir því yfir að hann sé “sammála” okkur Evrópusinnum.

Framsóknarmenn hafa margir hverjir áttað sig á því fyrir löngu.

Vinstri-grænir eru tvístígandi enda eru skoðanabræður þeirra í Evrópu flestir þeirrar skoðanir að maður hafi áhrif á framtíðina innan en ekki utan ESB.

Vinstri-grænir munu hins vegar ekki taka af skarið nema Evrópusinnum vaxi ásmeginn í kosningunum. Eins og staðan er nú eru Vinstri-grænir stærsti flokkurinn án þess að hafa opnað á Evrópu. Ef sú verður niðurstaðan munu þeir segja “If it ain´t broke, don´t mend it,” og halda aftur í Dalakofann.

Atkvæði greitt þeim og Sjálfstæðisflokknum að ekki sé talað um Framsókn., er atkvæði með kyrrstöðu, með gjaldeyrishöftum, stöðnun og einangrun Íslands.

Sjálfstæðismenn sem vilja sveigja flokkinn í skynsama átt og til fylgis við aðild að Evrópusambandinu eiga aðeins einn kost og það er að kjósa Samfylkinguna – því með því einu móti geta þeir bjargað flokknum frá því að verða lítill söfnuður sægreifa, Hólmsteina og einangrunarsinna.

Fái Samfylkingin góða kosningu mun Evrópusinnum innan VG, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks vaxa fiskur um hrygg. Tap Samfylkingar væri, tap Evrópusinna hvar í flokki sem þeir stæðu.

Sjálfur er ég enginn æstur áhangandi Samfylkingarinnar eins og lesendur Eyjunnar vita. En atkvæði greitt Samfylkingunni er eina atkvæðið sem hægt er að greiða með ESB; eina lausnin í stöðunni.

15 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Árni gleymir einu:

Atkvæði greitt Samfylkingunni er ávísun á stjórn með VG, það er ávísun á stjórn þjóðernissósíalista.

Engin trygging er fyrir því að þessir tveir flokkar muni leiða Ísland inn í ESB.

Þeir vilja ekki einu sinni upplýsa almenning um hvort ESB verður á verkefnaskrá næstu ríkisstjórnar!

Ég bið fólk að hugsa um þetta áður en það tekur mark á áróðri Samfylkingarfólks og kýs þann spillta og óvandaða flokk.

Þráinn sagði...

Blessaður Árni.
Bara svo að því sé til haga haldið að það er víðar Guð en í Görðum: Borgarahreyfingin vill að þjóðin fái sjálf að skera úr þessu langstaðna deilumáli. Fyrst aðildarviðræður til að ganga úr skugga um hvaða kostir eru í stöðunni. Síðan þjóðaratkvæði.
X-O!

Evreka sagði...

Hárrétt, Árni!

Alveg með ólíkindum að fólk skuli velkjast eitthvað í vafa með þetta.

Ef Samfylkingin verður ekki stærsti flokkurinn á kosninganótt, þá verður það túlkað sem ósigur um aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Allir hinir flokkarnir - og líklega stjórnmálafræðingar líka - myndu segja að Evrópustefnan hefði tapað, þjóðin hefði valið gegn ESB-aðild.

Þessvegna er ábyrgð manna einsog Benedikts Jóhannessonar gífurlega mikil. Alveg með ólíkindum að hann skuli lýsa því yfir að hann ætli að kjósa SjálfstæðisFLokkinn - yfirlýstan andstæðing þess að sækja um aðild...!! - sorry, það bara meikar engan sens, miðað við hans málflutning í ESB-umræðunni. Hann er að eyðileggja málefnið, sem hann kom sjálfur á flug í síðustu viku!

Þeir, sem vilja umsókn um aðild að Evrópusambandinu á þessu ári, einfaldlega VERDA að kjósa Samfylkinguna. Annars verður málið saltað, eina ferðina enn, um ókomin ár.

(er ekki í Samfylkingunni frekar en þú, en það er einfaldlega eini möguleikinn upp úr hjólförunum...)

Evreka sagði...

Nafnlaus "gleymir" einu...:

Með því að tryggja að Samfylkingin verði stærri en VG, þá hefur hún enn tögl og hagldir í myndun stjórnar. Ef hinsvegar VG verða stærri (og/eða Sjálfstæðisflokkur fær viðunandi úrslit) þá munu þeir túlka það sem staðfestingu á því að Íslendingar vilji ekki ESB-umsókn.

Innan Samfylkingar eru menn alveg ákveðnir í því að umsókn um aðild verði sett í næsta stjórnarsáttmála. Flokkurinn mun einfaldlega ekki taka þátt í ríkisstjórn að öðrum kosti (hann hefur hinsvegar einhverra hluta vegna ákveðið að gera þetta ekki opinbert fyrir kosningar, líklega til að skemma ekki núverandi stjórnarsamstarf).

Það er því fyllilega trygging fyrir því, að Samfylkingin mun setja þetta á oddinn í stjórnarsáttmála. Aðrir flokkar gera það ekki og því fráleitt að veita þeim atkvæði sitt.

Nafnlaus sagði...

Evreka.

Vonandi hefur þú rétt fyrir þér. Ég er hlynnt ESB aðild.

En málið er að Samfylkingin þorir ekki að koma fram og segja þetta.

Þú segir það sjálf og veist vafalaust um hvað þú ert að tala.

Flokkurinn þorir ekki að gera ESB að úrslitamáli!

Finnst þér það boðlegt?

Finnst þér boðlegt að heill stjórnmálaflokkur vilji ekki segja þjóðinni hvað hann ætlar að gera eftir kosningar?

Var ekki einhver að tala um ný vinnubrögð, gegnsæi og allt það?

Það hvarflar ekki að mér að taka þetta fólk alvarlega.

Því miður. Ég vil ESB aðild en þessu fólki er ekki treystandi.

Það treystir nefnilega ekki þjóðinni og vill því ekki upplýsa hana.

Skammarlegt.

Bjorgmundur sagði...

Ég ásamt fleirum tók þátt í því að setja aðildaviðræður á dagskrá í Framsóknarflokknum í vetur.
Framsókn vill aðildaviðræður, ekki eftir þjóðaratkvæðagreiðslu heldur strax eftir kosningar. Við erum hins vegar ekki tilbúin að fórna auðlindum hafsins og landbúnaðinum okkar og þorum að segja það fyrir fram.
Framsókn þorir að setja kröfur áður en við förum í aðildarviðræður sem Samfylking þorir ekki.

Núverandi gjaldeyrishöft voru sett af Samfylkingu... höldum því til haga... það eru Framsóknarmenn sem hafa sett fram tillögur og stefnu í hvernig við losum um þær.

Segðu satt frá Árni minn, ekki brjóta boðorðin svo vitnað sé í Kalla Matt Frjálsa :)

Kv.Björgmundur

Nafnlaus sagði...

Jóhannes:

Árni, sammála, þetta liggur alveg í augum uppi.

En vandamálið er að það Samfylkingin hefur ekki gert þetta að algeru úrslitamáli í kosningabaráttunni. ESB sinnar innan annarra flokka, t.d. Sjálfstæðisflokks (ég veit um allmörg dæmi) eru þeirrar skoðunar að atkvæði greitt Samfylkingu er atkvæði greitt vinstri stjórn með VG þar sem ESB aðildinni yrði stungið undir stól eins og reyndin varð í ríkisstjórnarsamstarfinu við Sjálfstæðisflokkinn.

Ég hef kosið Sjálfstæðisflokkinn til þessa enda ýmislegt þar höfðar til mín, en nú verður breyting á.

Tækifæri Samfylkingar í annars daufri kosningabaráttu er að setja ESB málið á oddinn af miklu meiri krafti síðustu dagana og lýsa yfir að á því yrði látið brjóta í ríkisstjórnarviðræðum. ESB sinnar í öðrum flokkum er stór hópur sem finnst snautlegt að greiða í reynd atkvæði gegn ESB viðræðum.

Þarna er tækifæri.

Nafnlaus sagði...

My dilemma.
Ég vil refsa FLokknum sem mest - með því kjósa VG
EN
ég krefst þess að sótt sé um aðild að ESB - og þá verð ég víst að kjósa Samfylkinguna (þrátt f. að Bjögvin Sig sé enn innanborðs - en sem betur fer er Ingibjörg farin).
ps.
Hvernær ætli við verðum rekin úr ESS, ef við sækjum ekki um aðild?

Þórður F. sagði...

Bíddu bíddu...

"... að ekki sé talað um Framsókn., er atkvæði með kyrrstöðu, með gjaldeyrishöftum, stöðnun og einangrun Íslands."

Hvernig færðu það út þegar Framsókn hefur ályktað um að ganga beint til viðræðna með skýrum skilyrðum? Hvernig færðu það út þegar framsókn er eini flokkurinn sem hefur lagt til lausn á því hvernig við getum komið hagkerfinu af stað aftur?

Eins og Björgmundur segir, gjaldeyrishöft eru afkvæði samfylkingar. Verða væntanlega áfram ef vinstri flokkarnir stjórna.

Ég segi við evrópu sinna; Kjósið framsókn, ef framsókn fær meira vægi í næstu kosningum verða meiri möguleikar á því að þeir, ásamt Samfylkingu geti unnið að þessu máli. Það gerist ekki með Sf og Vg, það liggur í augum uppi.

Uni Gislason sagði...

Ég er sammála því að Evrópusinnar verji atkvæði sínu best með því að kjósa Samfylkingu EÐA Framsóknarflokk.

Mér finnst það ekki rétt að slá Framsóknarflokkinn út af borðinu varðandi ESB, enda vill flokkurinn fara í viðræður. Eins og Borgarahreyfingin.

Meira er ekki hægt að biðja um í bili.

Sannarlega er atkvæði fyrir D-lista eða VG atkvæði gegn ESB og ber hverjum þeim sem ekki styðja B, S eða O en styðja ESB aðildarumsókn að halda fyrir nefið og kjósa einn þeirra til að tryggja að farið verið í aðildarviðræður á næsta kjörtímabili.

S, B og O = ESB
V, D og F = Bjartur í Sumarhúsum

Evreka sagði...

Nafnlaus (15:36)

Ég skil áhyggjur þínar og hef einmitt áhyggjur af því að þetta sé ekki nógu skýrt í augum kjósenda.

Hinsvegar held ég að nú á síðustu metrum kosningabaráttunnar - þegar Evrópumálin hafa loksins fengið verðskuldaða athygli - þá muni þeir kveða enn fastar að orði. Gleymum samt ekki að allir frambjóðendur Samfylkingarinnar hafa þessa sömu stefnu, það er nú talsvert! (á meðan aðrir flokkar eru allir mismunandi mikið klofnir...)

Aðalatriðið er samt það sem Árni Snævarr var að benda á:

Atkvæði með Samfylkingunni munu teljast sem atkvæði með því að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Öll önnur atkvæði, til allra annarra flokka, munu skoðast sem atkvæði gegn umsókn að ESB. Þetta er ekki flóknara.

Og loks þetta: Þetta er í fyrsta skipti sem Evrópumál eru kosningamál (hefði átt að gerast fyrir amk. áratug!)
Ætlum við, sem viljum aðild að ESB, að glata þessu langþráða tækifæri með því að krossa við einhvern annan flokk? - sem hefur annað en ESB-aðild á stefnuskrá sinni...?? Ég segi nei, takk! Sama hvað mér finnst um Samfylkinguna að öðru leyti, þá er þetta mál einfaldlega stærst og mikilvægast.

Nafnlaus sagði...

1991-2003 var engin stemning fyrir ESB. Þá hvarf verðbólgan í þjóðarsáttarsamningunum og lítið talað um verðtryggingu, hvað þá dauða krónunnar.

Svo voru bankarnir einkavæddir og allt fór úr böndunum. Á fimm árum tókst fjárglæframönnum að setja allt á hliðina.

Það væri grátlegt ef afglöp fámenns hóps verða til þess að við skríðum til Brussel. Hér er allt til staðar til að endurreisa efnahaginn og skapa gott samfélag. Vera í ESB hjálpar okkur nákvæmlega ekkert með það. Enn síður evran, sem kannski kæmi eftir sjö ár. Jafnvel síðar.

Skellurinn var mjög stór hér en kreppan er að leggjast yfir heimsbyggðina alla. Möguleikar okkar felast ekki síður í samskiptum og viðskiptum við þjóðir utan Evrópu. Hvers vegna ættum við að loka okkur inni í þessum klúbbi?

Innganga í ESB er uppgjöf sem mun reynast okkur dýrkeypt þegar fram líða stundir.

Héðinn Björnsson sagði...

Bæði Framsókn og Borgarahreyfingin hafa á stefnuskrá sinni að sækja um aðild að ESB. Eini munurinn á stefnu þeirra og Samfylkingarinnar er því fólginn í því að hvorugur flokkurinn hefur neina fyrirframskoðun á því hvort taka skuli þeim samningi sem næðist, en hafa bundið sig við að setja hann í þjóðaratkvæði. Ekki fæ ég betur séð að slíkt sé bitamunur en ekki fjár.

VG og D hafa talað fyrir því að aðildarumsókn hafi svo mikil áhrif á stöðu þjóðarinnar í sjálfu sér að þjóðin verði að taka þá ákvörðun sjálf í stað þess að hún sé tekin á Alþingi.

Verði ekki meirihluti á komandi Alþingi fyrir því að sækja um aðild að ESB mun fara fram þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort sækja skuli um aðild að ESB. Þar sem skoðanakannanir sýna trekk í trekk meirihluta gegn umsókn um aðild að ESB tel ég það væri erfitt fyrir Alþingi að sækja um aðild gegn þeim vilja. Þjóðin kann að gera byltingu. Því er líklegast að hægt verði að komast að friðsamlegri niðurstöðu í þessu máli með tvöfaldri þjóðaratkvæðagreiðslu.

Nafnlaus sagði...

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að Ísland muni aldrei ganga í ESB, en það er góður möguleiki á að Ísland skríði í ESB með brækurnar á hælunum.

Nafnlaus sagði...

Sæll Árni.

Þetta er alveg rétt hjá þér.
Björgvin G. sagði í kvöld að umsókn um aðild verði sett á oddinn hjá Samfylkingunni í stjórnarmyndunar viðræðum enda getur hún ekki gefið eftir aftur.
Hinn helblái Sjálfstæðismaður Benedikt Jóhannesson hefur útskýrt stöðunni vel og vandlega og meira að segja sannfært Sverrir Hermannsson um stuðning við ESB.
Samt sem áður ætlar Benedikt að kjósa Sjálfstæðisflokkinn sem er alveg óskiljanlegt.
Ég ætla að kjósa Samfylkinguna fyrst og fremst út af ESB.
Kv. Eyþór