sunnudagur, 19. apríl 2009

Ef þjóðargjaldþrot er þjóðlegt...

Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður hélt því fram á kosningafundi Sjálfstæðismanna að í kosningunum nú væri ekki aðeins "vegið að Sjálfstæðisflokknum og sjálfstæðisstefnunni heldur öllu því sem væri íslenskt."

Röksemdir Guðlaugs Þórs eru þær að “vinstri flokkarnir byðu upp á gamaldags leið ríkisafskipta sem Íslendingar hefðu löngu hafnað.”

Samkvæmt þessu er Sjálfstæðisstefnan þjóðleg en sennnilega allt annað óþjóðlegt.

Ef það er óþjóðlegt að kjósa að ríkisvaldið hafi taumhald á bröskurum í bankakerfinu, þá er ég óþjóðlegur.

Ef það er óþjóðlegt að vera andsnúinn því að gera Ísland að aþjóðlegri fjármálamiðstöð; les griðlandi bankaræninigja og spillingarafla á heimsvísu, vil ég frekar vera Rúmeni en Íslendingur.

Ef það eru góðir íslenskir starfshættir að að selja stjórnmálaflokka hæstbjóðanda, þá vil ég frekar vera Súrinami en Íslendingur.

Er það þjóðlegt að ofsækja tiltekið einkafyrirtæki og koma síðan til þess með betlistaf, vildi ég frekar vera Sýrlendingur. Það má deila um hvort þetta sé mútuþægni eða fjárkúgun, en svo mikið er víst að þjóðlegt er það ekki.

Ef það er þjóðlegt og gott að velja sér til forystu tudda á borð við Davíð Oddsson eða gungu og lygalaup á borð við Geir H. Haarde, má ég þá frekar biðja um að fá að vera Albani.

Ef það er góður íslenskur siður að afhenda flokksgæðingum sameiginlegar eignir landsmanna eins og gerðst með bankana og hefði gerst með orkufyrirtækin, þá afþakka ég að vera meðal hinna þjóðhollu.

Og ef það er til marks um hollustu við þjóðina að samþykkja að fjöregg þjóðar okkar og sameiginleg eign, skuli afhent sægreifunum til ævarandi eignar, þá frábið ég mér slíkt.

Ef það er þjóðlegt að berja hausnum í steininn og halda þvi fram að Ísland sé nánast eina Evrópuþjóðin sem ekki eigi heima í hinu pólitíska og efnahagslega varnarbandalagi Evrópu, þá er úti um Ísland.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með forystu í ríkisstjórn og fjármálaráðuneyti nánast óslitið í átján ár.

Í örvæntingu sinni er orðbragð manna á borð við Guðlaug Þór og Styrmi Gunnarsson, farið að minna æ meira á þjóðernissósíalisma Einars Olgeirssonar og Þjóðviljans.

Sjálfstæðismenn, þið eruð löngu búnir að vinna ykkur inn langt, mjög langt frí. Kannski að með því verði okkur forðað frá því þjóðargjaldþroti sem Engeyjarættar-jöfurinn Benedikt Jóhannesson hefur lýst í grein í Morgunblaðinu.

13 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Heyr, heyr!

Nafnlaus sagði...

Það er íslenskt að heilbrigðisráðherra vilji bjórsölu í Bónus

Nafnlaus sagði...

Styrmir Gunnarsson er í vitlausu falli hjá þér Árni og samlíkingin við Einar Olgeirsson er það einnig! Má kannski skrifa á máladeildarbakgrunn þinn, látum það bara heita svo.
Annars ágætis ádrepa. Guðlaugur sver sig vel saman við "þið eruð ekki þjóðin" hópinn. Kemst þó ekki með tær þar sem "góðir Íslendingar, og aðrir sjálfstæðismenn" Geir Hallgr. hafði hæla. Skortir pedigree til þess!

Rot Front!
Kv. Guðni til læks ... ;-)

Nafnlaus sagði...

Þessi hárbeitti pistill segir allt sem segja þarf um pólitískt gjalþrot Sjálfstæðisflokksins.

Merkilegt að fylgi hans skuli enn mælast í tveggja stafa tölu.

Þóra Guðmundsdóttir

Nafnlaus sagði...

Algjörlega sammála. Þetta er lágkúruleg tilraun til að slá ryki í augu fólks í trausti þess að það viti ekki betur. Eins og raunar annað sem FLokkurinn keyrir á í kosningabaráttunni núna. Rökþrota með allt niðrum sig hagræða þeir sannleikanum, snúa út úr með klisjum og hræðsluáróðri. Telja sig þannig ná til illa upplýstra elítu-wannabes.

sigurgeirorri sagði...

Góðu kallarnir:
Engeyjarættar-jöfurinn

Vondu kallarnir:
sægreifunum
bröskurum í bankakerfinu

Fleiri eru dæmin. Frekar hallærislegt.

Nafnlaus sagði...

Þeir eru sorglegir - og hafa langt nef!
Hvað segir Guðlaugur Þór Þórðarson um félag það sem hann stofnaði utan um prófkjör sitt árið 2007 - eftir upptöku nýrra kosningalaga?
Félagið er skráð í fyrirtækjaskrá svona:
Guðlaugur Þór Þórðarson
Logafold 48
Guðlaugur á Alþingi - félag
Logafold 48, Guðlaugur er sjálfur forsvarsmaður!
kennitala: 451102-2060
Þessi félög eru skilgreind sem velferðar og mannúðarsamtök - til þess að þurfa ekki að gefa upp og greiða af fjármagni - styrkjum - skatta!
Aðspurður í viðtali við Mannlíf í maí 2008, sagði hann orðrétt: ,,Þetta er ekkert félag - þetta er svona pappírsdót..."
Takk Árni fyrir pistil þinn

Alma Jenný Guðmundsdóttir

Teitur Atlason sagði...

Heyr Heyr! -Frábær pistill.

Nafnlaus sagði...

Ef maður þarf að vera Snævarr til að skrifa svona greindarlega held ág að ég biðji um ættleiðingu?
Stefán Benediktsson

Nafnlaus sagði...

Níels segir: Það er ekkert aðfinnsluvert við föll Árna frekar en greinina.

Nafnlaus sagði...

Eins og mig hefur alltaf langað til að styðja vinstri menn þá eru það akkurat svona málefnalegir pistlar, og trúðu mér þeir eru margir frá samfylkingarmönnum um þessar mundir, sem fá mig til að hætta við
mbk
Ólafur

Nafnlaus sagði...

Flottur pistill Árni!

Þetta eru þórbergsk tilþrif í stíl og sem tilsvar við bullinu í Guðlaugi Þór sendir pistillinn þann auma aula til Timbúktú.

Nafnlaus sagði...

Níels!
Árni er búinn að laga það. :-)

G. t. L.