þriðjudagur, 21. apríl 2009

Þá færeysku í krafti hvalveiðiráðs?

Hér í eina tíð kusu menn Sjálfstæðisflokkinn ekki síst vegna þess að þangað leitaði hæfileikafólk. Þar var hægt að finna “safe pair of hands”.

Nú er öldin önnur. Algjör glundroði ríkir í stefnu flokksins sem í senn gerir að einu helsta stefnumáli sínu að ráðast að einu tilteknu fyriræki, Baugi og á sama tíma heimta af því fé.

Flokkurinn hefur haft allar mögulegar stefnur í Evrópumálum undanfarinn hálfan annan áratug. Um 1990 vildi Davið athuga með inngöngu í ESB. Flokkurinn var svo alveg andsnúinn EES en vildi tvíhliðasamning. Því næst var flokkurinn fylgjandi EES og andsnúinn ESB aðild.

Þegar Evran varð til sagði Davið að þessi tilraun myndi aldrei lukkast, heldur væri þetta gjaldmiðill á borð við kúbönsku og norður-kóresku gjaldmiðlana sem ekki þykja nógu góðir til að nota sem skeinipappír. Seðlarnir altso.

Nú hins vegar er flokkurinn búinn að mála sig út í horn og í stað þess að viðurkenna staðreyndir og að flokkurinn hafi haft rangt fyrir sér, er reynt að ljúga sig út úr vandanum.

Fyrir rúmu ári sagði formaður Sjálfstæðisflokksins að engin leið væri að taka upp evru án ESB aðildar.

Björn Bjarnason, einn helsti oddviti Heimastjórnarmanna, ofstækisfullra þjóðernissinna í flokknum, vildi hins vegar fyrst alls ekki sjá evruna, en svo allt í einu vildi hann taka upp evruna á grundvelli EES!

Ýmsir forkólfar flokksins töluðu um svissneska franka og fram á síðustu daga hefur verið talað um dollara eins og “bananalýðveldim” i Suður-Ameríku hafa gert.

Nú er hins vegar farið að tala um að taka upp evruna í krafti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins!

Þetta er farið að minna á frúnna í Hamborg, ESB kemur í staðinn fyrir hvitt og svart.

Af hverju ekki taka upp færeysku krónuna á grundvelli Alþjóða hvalveiðiráðsins spyr Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir á Facebook.

Eða bara taka upp Matadorpeninga i krafti aðildar Íslands að Alþjóðlegu skátahreyfingunni eða súrínamska dalinn í krafti samstöðu þjóðanna innan alþjóðlega sundsambandsins?!

Ég vissi að sjálfstæðismenn væru innmúraðir klíkubræður sem gerðu allt til að klekkja á anstæðingnum og hygla félögum sínum á kostnað annara. En ég hafði ekki hugmynd um að þeir væru tilbúnir að opinbera sig sem fáfróða bjána í þeim tilgangi einum að viðurkenna ekki að þeir hafa algjörlega rangt fyrir sér. Að treysta á að þeir geti með smjörklípum blekkt þjóðina í eina viku til að koma í veg fyrir verðskuldað afhroð flokksins í kosningum.

Bjarni Benediktsson ætti frekar að taka sér frænda sinn Benedikt Jóhannesson til fyrirmyndar en Björn Bjarnason sem gerir sig endanlega að fifli í ómaklegum árásum sínum á erlenda diplómata á amx vefsiðunni í dag.

Bjarni minn ef þú vilt ná sæmilegri kosningu, sendu frænda þinn Björn i frí. Á sama stað og þið sendið Hannes Hólmstein venjulega á fyrir kosningar.

Verst að FL Group og Landsbankinn eru ekki lengur hér til að borga, eins og í þá góðu gömlu daga, þegar Flokkurinn var og hét.

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Safe = öruggt, Árni. Ekki save = spara, verja.

Fljótfærni :-)

Kv. Guðni.

Nafnlaus sagði...

Lærðu enskuna betur, Guðni, áður en þú ferð að gera athugasemdir við málnotkun heimsborgara eins og Árna Snævarr.

Nafnlaus sagði...

Reyndar er þetta rétt hjá Guðna.
Heimsborgarar geta gert mistök líka :)

Nafnlaus sagði...

Save þýðir reyndar líka að bjarga ... en í þessum texta er nokkuð um innsláttarvillur. Árni mun örugglega sjá sér fært að (lag)færa til betri vegar ...
:-)

Guðni

Nafnlaus sagði...

Takk Guðni! kv, ÁS

Nafnlaus sagði...

Eru menn nokkuð að detta í Óla Klemenzinn og fjarga um insláttarvillur í stað innihaldsins? ;)

kv. Hrappur

Nafnlaus sagði...

Fyrirgefðu Árni, leiðinlegt að þurfa að klifa á þessu, en þetta "smjörklópum" er soldið stílbrot (í nýyrðastíl e.t.v. samt). ;-)

Á ekki heldur "Villu-Púka", heldur bagalegt oft. ;-)

PS. "Hrappur" kryfur kjarna málsins. :-)

Ble,ble.
Guðni

Nafnlaus sagði...

Alveg ótrúlega niðurdrepandi að lesa síðustu pistla þína sem eru lítið annað en grímulaus popúlismi kryddaður með ódýrum aulahúmor (og mjög ósmekklegum athugsemdum sbr. "heimastjórnarmenn, ofstækisfullir þjóðernissinnar").

Er nokkur von til þess að umræðan komist út úr þessum spinn-veruleika svo hægt verði að ræða raunveruleg vandamál og raunverulegar lausnir? Tæplega.

Umræðan um evruna er í besta falli ótímabær í ljósi vandræðanna sem evrusvæðið stefndur frammi fyrir. Talsmenn evrunnar verða að svara tveimur spurningum áður en hægt er að taka mark á þeim. Hvernig ætlar ESB að fjármagna fyrirséðan halla á ríkisfjármálum evrulandanna? Hvernig ætlar ESB að mæta tapi bankakerfisins (sem skuldar tvöfalt meira en hið bandaríska) og höndla eitruðu eignirnar á efnahagsreikningi bankanna?

ESB hefur ekki opinberlega veitt svar við þessum spurningum (sennilega vegna þess að ekkert svar er til; Sambandinu skortir tæki, eins og skuldabréfamarkað og fjármálaráðuneyti, til þess að takast á við vandann). Þetta er ástæða á bak við nýleg ummæli Paul Krugmans, Simon Johnson og Wolfgang Münchaus (sem er dyggur Evrópu- og evrusinni) en þeir og margir aðrir telja raunverulega hættu á að myntbandalagið leysist upp - þetta eru ekki fræðilegar vangaveltur heldur raunveruleikinn.

Ef við skoðum hvernig ESB hefur tekist á við vandann til þessa þá er útlitið ekki bjart. Það hefur ítrekað regluna um 3% fjárlagahalla og beint því til aðildarríkjanna að þau verði að skera niður útgjöld og hækka skatta í samræmi við það. Á sama tíma er verðhjöðnun komin fram í hagtölum margra aðildarríkja (PIGS og Írlandi) sem þýðir að "dept deflation" (hratt hækkandi raunvextir) er í spilunum. Hliðstæðan við Kreppuna miklu er æpandi. Aftur, þetta eru ekki fræðilegar vangaveltur heldur raunveruleikinn.

Í ljósi þessarra vandræða er með ólíkindum að jafnaðarmenn á Íslandi skuli eingöngu tala um evruna sem lausn á efnahagsvanda Íslendinga. Stefna og aðgerðir ESB að undanförnu eru þvert á hefðbundna keynesíska hugmyndafræði sem jafnaðarmenn hafa til þessa haldið á lofti. Sennilega skiptir hugmyndafræði og raunveruleg stefnumál engu máli þegar popúlismi vinnur kosningar. Held að ykkur væri nær að taka Obama til fyrirmyndar í stað þess að lofa Evrópusambandið, en blind trú ESB á verðbólgumarkmiðið í peningamálum minnir óneitanlega á þrákelkni seðlabanka við gullfótinn í árdaga Kreppunnar miklu.

Það er kominn tími til þess að komast upp úr núverandi hjólförunum, nota krónuna til að efla eftirspurn og styrkja innlenda framleiðslu. Til lengri tíma veit enginn neitt (guð gefi að evran lifi þetta af) og frammi fyrir slíkri óvissu eigum við að veita íslenskum almenningi og fyrirtækjum tækifæri á að aðlaga sig þeim breytingunum sem framundan eru: Við eigum að byggja upp fjölmyntasamfélag og láta markaðinn um að finna bestu lausnina í gjaldeyrismálum. Ef ESB lokar á viðskipti við Íslendinga vegna þess að það vill ekki leyfa okkur að höndla með evrur þá rekur Sambandið einfaldlega grímulausa heimsvaldastefnu. Þú mátt tilheyra svoleiðis apparati ef þú vilt.

kv,
Kristján Torfi