Þegar Alþýðubandalagið splundraðist og helmingurinn gekk í Samfylkinguna, varð hinn helmingurinn eftir og skipti út rauða fánanum fyrir grænan. Vinstri-grænir eru arftakar Sósíalistaflokksins og Alþýðubandalagsins í íslenskum stjórnmálum, enda eru menn á borð við Svavar Gestsson, Hjörleif Guttormsson, Ragnar Arnalds, að ógleymdum sjálfum Steingrimi J., innstu koppar í búri.
Í þessu ljósi verður að skoða andstöðu þeirra við Evrópusambandið sem er svo sannarlega ekki græn og varla rauð heldur, heldur fyrst og fremst byggð á ofsafenginni helblárri þjóðerrnishyggju Einars Olgeirssonar.
Allt frá því á fjórða áratugnum voru stjórnarherrar sakaðir um landsölu og landráð við hvert tækifæri, hvort heldur sem var í hermálinu, landhelgismálinu, álmálinu og siðan i Evrópumálunum.
Inngangan i Nato var landráð, samningar við Breta voru landráð, álverið í Straumsvík var landsala líka að ekki sé talað um aðildina að EFTA og síðar EES. Það er út af fyrir sig athyglisvert að járnblendið á Grundartanga þótti af hinu góða því þar vélaði um hið norska Elkem.
Sósíalistum og meðreiðarsveinum þeirra á borð við Ragnar Arnalds tókst ótrúlega vel upp í því að láta umræðuna fara fram á sínum eigin forsendum, það er að segja á forsendum ofsafenginnar þjóðernishyggju með lítt dulbúnu útlendingahatri.
Og það var auðvitað skiljanlegt útfrá sögu þjóðarinnar að þjóðernishyggja ætti upp á pallborðið. Það þurfti ekki mikla hvatingu til að Ólafur Thors og Bjarni Ben útilokuðu þátttöku svartra hermanna í vernarliðinu, svo fátt eitt sé nefnt.
Hafa ber í huga að Ísland hafði aðeins verið sjálfstætt ríki í rúman áratug þegar Evrópuþjóðirnar deildu með sér fullveldi yfir auðlindum á borð við kolum og stálframleiðslu með stofnun Efnahagsbandalags Evrópu. Íslendingar voru þá í óðaönn að færa út fiskveiðilögsögu sína – undir gunnfána sjálfstæðisbaráttu og þjóðernishyggju.
En með áróðri sínum tókst sósíalistunum að halda íslensku þjóðinni i heljargreipum þjóðernisstefnunnar og hindra að umræðan þróaðist í takt við tímann. Það er svo kaldhæðnislegt að áróður Máls og menningar, sósíalista og Alþýðubandalagsins var að hluta til fjármagnaður af Sovétmönnum og Austur-Þjóðerjum.
Sósíalistar undir forystu Einars Olgeirssonar gengu svo langt að reyna að sameina kommúnisma og þjóðernishyggju. Valur Ingimundurson, professor sem hefur kannað tengsl íslenskra sósíalista og Austur-Þýskalands gróf fyrir nokkrum árum upp skjöl í Austur-Berlín þar sem samtöl Einars Olgeirssonar og austur-þýskra kommúnista eru rakin. Þar hvatti Einar Austur-Þjóðverjar á að nota sér í áróðri sínum að þeir væru fyrsta “germanska” kommúnistaþjóðin.
“Forsenda þess” sagði Einar Kommúnistaleiðtoganum Karli Mewis árið 1959, “ að germanskar þjóðir sigli í kjölfar (Sovétríkjanna) væri að sósíalískt ríki, Þýska alþýðulýðveldið vísaði veginn.”
Karli Mewis varð ekki um sel og reyndi árangurslaust að benda Einari á að “ Austur-Þjóðverjum væri alls ekki stætt á því að tala um germanskar þjóðir og menningu, þar sem fasisminn hefði valdið þvílíkum skaða með kynþáttakenningu sinni.”
Sósíalistar hófu andróður sinn gegn evrópskri samvinnu löngu áður en málið komst á dagskrá á Íslandi. Þjóðviljinn endurómaði málflutning Neues Deutschland, málgagn austur-þýskra kommunista með því að kalla Efnhagsbandalagið, “Stór-Þýskaland, hið nýja.”
Þegar samningurinn um evrópska efnahagssvæðið var til umræðu voru sósíalistar síður en svo einir i þvi að halda því fram að lederhosen-klæddir (vestur) Þjóðverjar myndu slá eign sinni á sumarbústaðalönd Húnvetninga og spænskir togarar væru að veiða upp í kálgörðum Reyknesinga.
En þegar samningurinn var nánast kominn á koppinn, kvaddi Hjörleifur Guttormssonm, fyrrverandi stúdent í Austur-Þýskalandi sér hljóðs á Alþingi og veifaði norska blaðinu Verdens Gang. Hafði hann það eftir norska götublaðinu að EFTA þjóðirnar ættu ekki aðeins að taka upp alla núverandi löggjöf Evrópusambandsins á innri markaðnum í heilu lagi, heldur einnig alla framtíðarlöggjöf samningsins.
Þetta staðfestu stjórnarherrar og tvíelfdust nú Alþýðubandalagsmennirnir, síðar Vinstri Grænir í andstöðu sinni.
Þeir voru ekki einir um þetta mat því t danski rótttæklingurinn Jens-Peter Bonde líkti EES samningnum við að Ísland og Noregur hafi sjálfviljug gerst nýlenduríki, enda hafi þau ekkert um 75 prósent lögggjafar sinnar að segja. Þetta gerði hann í viðtali 2008!
Jens-Peter Bonde var lengstum í fararbroddi Evrópuandstæðinga i Danmörku. Hann gerði sér síðan ljóst að ESB væri komið til að vera og ef Danir ætluðu að móta eigin framtíð, myndi það best gert með baráttu innan sambandsins fyrir lýðræði, gegnsæi og grænum gildum.
Nú rúmum hálfum öðrum áratug síðar byggja vinstri-grænirr hins vegar Evrópupólítik sína á þessum samningi sem þeir höfðu útmálað sem afsal sjálfstæðis íslensku þjóðarinnar Og gott ef ekki landsölu og landráð.
Það má vissulega færa þjóðernisleg rök gegn EES samningnum: Við höfum lítil sem engin áhrif á EES löggjöf sem hefur þanist út og tekur nú yfir ekki aðeins þfrjórfrelsið heldur einnig til dæmis umhverfisvernd. Við getum ekki einu sinni selt Rússum fisk eða Könum lambakjöt án þess að ESB setji þar lög um.
En það má líka færa fullveldissjónarmið fyrir aðild að Evrópusambandinu. Þar með fengju Íslendingar möguleika til að hafa áhrif á lagasetningu ESB sem nú þegar gildir á Íslandi. Með öðrum orðum að hætta að vera nýlenda og auka sjálfstæði okkar með þvi að deila fullveldi okkar á takmörkuðum sviðum með öðrum þjóðum. Deila fullveldinu sem við nú framseljum eins og það leggur sig.
Vissulega yrðu fiskveiðiheimildir FORMLEGA ákveðnar í ráðherraráði Evrópusambandsins, en hins vegar hafa engar þjóðir tilkall til veiða í íslenskri lögsögu. Yfirráð okkar eru tryggð með sjávarútvegsstefnu ESB sem byggir á hlutfalllslegum stöðugleika.
Ef vinstri-grænir ætla að vera samkvæmir sjálfum sér dugar ekki að vera á móti Evrópusambandinu, þeir hljóta að vera lika andsnúnir EES samningnum.
Er ekki tími til kominn að þeir tali hreint út um þetta mál?
Nú vill Steingrimur J. Sigfússon afhenda Noregi yfirráð yfir gjaldmiðli og peningastefnu Íslendinga. Var einhver að tala um að afhenda sjálfstæðið?
Við hvern hefði Einar Olgeirsson likt honum? Var einhver að tala um landsölu?
PS Vegna athugasemd við færsluna vil ég benda á eftirfarandi:
1. Ég hef ekki grænan grun um umræður innan VG og efast stórlega um að nokkrar umræður um þetta mál fari fram. Ég býst miklu frekar við að VG taki afstöðu eins og íslenskir stjórmálaflokkar almennt með ósjálfræðum viðbrögðum sem hins vegar markast af sögulegum forsendum. Ég reyni að gera grein fyrir þeim í þessum skrifum.
2. Ef Svavar Gestsson studdi stofnun Samfylkingarinnar af heilindum og hefur fremur stutt leiðtoga hennar en Vinstri-grænna þá tók ég þátt í rússnesku byltingunni, samdi Njálu, setti Íslandsmet í hástökki og klauf atómið, Sendi með þessu bestu kveðjur til þin Bjössi!
3. Spurt er um heimildir: Það tíðkast ekki að vera með neðanmálsgreinar á bloggi en þar sem eftir því er kallað er mér ljúft og skylt að geta heimilda. Tilvitnunin er tekin úr ritgerð dr. Vals Ingimundarsonar, prófessors í sagnfræði "Sigrar ungs lýðveldis" í Árni Snævarr og Valur Ingimundarson: Liðsmenn Moskvu, (Reykjavík, 1992) bls. 242.
mánudagur, 9. febrúar 2009
VG og arfleifð Einars Olgeirssonar
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
7 ummæli:
Harðasti andstæðingur ESB hefur verið Sjálfstæðisflokkurinn.
En það er líklega Einari Olgeirssyni og VG að kenna.
Þjóðernissósíalistar. Það er hin rétta lýsing á VG.
Sæll Árni,
mér finnst þú oftast skemmtilegur þó að stundum gangir þú helst til langt í galsagangi þínum. Ansi margt í færslu þinni virðist benda til þess að þú þekkir illa til umræðu innan VG því þótt það sé sannarlega rétt að til séu þau öfl innan flokksins sem eru þeirrar skoðunar sem þú lýsir hér þá eru þau öfl engan veginn í meiri hluta.
Það sem margir hafa t.a.m. meiri áhyggjur af er að sú þróun sem á sér stað inn ESB fari illa saman við hugmyndir um alþjóðlegt félagslegt réttlæti. Sömu efasemdir má finna hjá einum þekktasta heimspekingi Svía, Torbjörn Tännsjö, sem áður var stuðningsmaður ESB.
Aðrar efasemdir koma einnig til en þær ætla ég ekki að rekja hér því það sem ég vil aðeins benda á er að innan VG hefur fólk margar mismunandi skoðanir t.d. hrífast margir af ESB af ýmsum ástæðum, aðrir hafa efasemdir af ýmsum ástæðum og enn aðrir eru algerlega á móti aðild. Það er sem sagt plúralismi ríkjandi þótt fjölmiðlar geri sér ekki alltaf mat úr þeirri staðreynd.
Það er engum málstað til bóta að fara með fleipur um þá sem eru ósammála manni og Árni þú ert einfaldlega alltof vel gefinn til að vera ekki sanngjarn þessum efnum.
Besta kveðja,
Gunnar
Vidkun Abraham Lauritz jonsson Quisling
Mér finnst nú heldur billegt að rökræða á þennan hátt. Að skoðun sé svo að segja "sek", af því að "vafasamir" menn höfðu hana líka. Rétt er að halda til að haga að Svavar Gestsson fylgdi yfir í Samfylkinguna, þó það eyðileggi hreinleika greiningarinnar. Ég tel að EES samningurinn hafi verið lélegur. Og betra hefði verið að ganga í ESB. Dætur mínar hafa þurft að greiða skólagjöld í Bretlandi einsog utanbúaðarmenn, og allt tal um frjálst fjármagn og tolla, einkennist af því að þeir um það fjalla hafa aldrei verið í viðskiptum sjálfir og vita ekki almennilega hvað það þýðir. EES hjálpar litlum fyrirtækjum ekki neitt, þar sem þau þurfa eftir sem áður að stöðva vörur sínar við landamæri ESB, svo dæmi sé tekið.
Að ætla taka umræðuna um ESB á kaldastríðsnótum, gerir fylgjendur ESB ekki eins nútímalea og þeir trúa að þeir séu. Rökræða verður að innhalda rök.
Heimildir, heimildir, heimildir - svona færslu verður að styðja með heimildum, sérstaklega um fund Einars O. Þær væru í sjálfu sér áhugaverðar, þó vafasamar heimfærsla höfundar mega liggja milli hluta.
Ha!
Er Svabbi Gests í Samfó?
Síðan hvenær?
Skrifa ummæli