miðvikudagur, 11. febrúar 2009

Geðvonska og gáfur: verkleg æfing

Margrét Hugrún Gustavsdóttir, einn skemmtilegasti penni okkar Eyjarskeggja punktur is, bloggaði á dögunum um að það að í hennar ungdæmi hefðu menn þótt því gáfaðri sem þeir voru alvarlegri og fúllyndari.

Margrét Hugrún hlyti að hafa kiknað í hnjánum á sínum sokkabaandsárum við að hitta hinn geðstirða fyrrverandi dómsmálaráðherra okkar Íslendinga því sjaldan hefur ásjóna nokkurs manns borið jafn rækilegt merki þess hve alvara heimsins hvíli þungt á honum.

Hins vegar fyllist ég efasemdum um að það sé gáfnamerki að alvara heimsins móti skapgerðina jafn augljóslega og hjá Birni Bjarnasyni við nýlegan pistil á heimasíðu hans.

Björn heldur því fram í pistlinum að Jón Baldvin Hannibalsson skreyti sig með stolnum fjöðrum með því að eigna sér heiðurinn af EES – samningnum. Björn skrifar: “Jón Baldvin kennir Sjálfstæðisflokknum um það, sem hann kallar „skuldafangelsi“ þjóðarinnar eftir bankahrunið, um leið og hann segir forystu um samningana um evrópska efnahagssvæðið hafa verið hjá honum, sjálfum Jóni Baldvini, en ekki sjálfstæðismönnum.. “

Og svo:

“Sé einhverri einni pólitískri stórákvörðun um að kenna, þegar litið er til bankahrunsins, er það aðildin að evrópska efnahagssvæðinu...”

Það var og.

Ég fæ ekki betur séð en að Björn hafi mætt í játningartímann hjá lögreglunni sem Davíð Oddsson og Matthildingar gerðu grín að hér um árið og játar á sig glæpinn - óumbeðinn- um að hafa komið íslensku þjóðinni á hausinn með fyrirhyggjuleysi sínu.

Enginn, nema Sjálfstæðismenn sjálfir, hafa þakkað þeim EES samninginn. Þeir snérust í hringi í Evrópumálunum eins og Davíð Oddsson sem var jákvæður ESB áður en hann varð formaður en snérist öndverðir gegn bandalaginu og sagði evruna álíka merkilega og gjaldmiðla Kúbu og Norður-Kóreu!

Þeir drógu lengst af lappirnar en börðust síðan fyrir samningnum og hafa síðan talið hann til helstu afreka sinna. Frammistaða þeirra minnir einan helst á John Kerry sem greiddi atkvæði samdægurs með og móti stríðinu í Írak eins og frægt varð.

Það er dæmigert fyrir ístöðuleysi og hentistefnu Björns og félaga hans að í örstuttum bloggpistli móðgast hann fyrst út í Jón Baldvin fyrir að hann eigni sér EES en fyllist síðan Þórðarlgeði yfir því að Ice Save og þjóðargjaldþrotið hafi verið EES og þarmeð Jóni Baldvin að kenna!

Lýsing hans á ríkisstjórn Geirs Haarde þar sem Björn sjálfur sat sem dómsmálaráðherra er svo á þessa leið: “Undir forystu utanríkisráðherra Samfylkingarinnar hefur verið lögð höfuðáhersla á að styggja ekki Evrópusambandið með lögfræðilegum ágreiningi eftir bankahrunið.”

Aumingja Björn og Geir að láta utanríkisráðherrann stjórna sér með þessum hætti í miðri heilaskurðaðgerð erlendis! Hvað skyldi hún hafa gert ef hún hefði verið heil heilsu? Værum við gengin í UNIFEM?

Hvað á Björn við með að Sjálfstæðismenn hafi verið kúgaðir af Ingibjörgu Sólrúnu til að borga Ice Save reikningana? Geir Haarde var forsætisráðherra og stjórnaði því máli algjörlega, eins og alþjóð veit í nánu samstarfi við ma. Björn.

Enn talar Björn um þvinganir “frá Brussel vegna Icesave-reikninganna.” Þetta er viljandi loðið og misvísandi orðalag eins og títt er hjá Birni. Sannleikurinn er sá að ekki er hægt að kenna framkvæmdastjórninni í Brussel um óbilgirni Breta. Mörg aðildarríki Evrópusambandsins með norrænu ESB ríkin og Frakka í broddi fylkingar vildu koma til móts við Íslendinga en fyrst og fremst Bretar og Hollendingar heimtuðu blóð.

Það hefði þeim aldrei komið til hugar eða minnsta kosti ekki tekist ef Ísland hefði gengið í Evrópusambandið eins og Davíð Oddsson vildi hér um árið. Það vildi Jón Baldvin ekki fyrr en hann var búinn að selja Íslendingum EES með þeim orðum að þar fengjum við allt fyrir ekkert. Þar skaut Jón Baldvin sig heldur betur í fótinn og það er rétt hjá Birni að eftir þetta hefur alltaf verið “falskur tónn” þegar JBH talar um ESB.

Jón Baldvin og Björn Bjarna mega rífast eins og þeim sýnist um hverjir eigi EES. Sá samningur var nefnilega ekki "allt" heldur “ekkert” – einskis virði – þegar ógæfan reið yfir því að við vorum ekki aðilar að því pólitíska og efnahagslega varnarbandalagi sem Evrópusambandið er.

Þjóðir eða að minnsta kosti stórveldi eiga sér ekki vini heldur aðeins hagsmuni. Bretar höfðu enga hagsmuni af því að koma fram af sanngirni við Íslendinga og þar sem við höfum margoft afþakkað bandalag við þá og aðrar vinaþjóðir á vettvangi ESB, fór sem fór. Við áttum ekkert skjól.

Jón Baldvin má eiga það að hann sá að sér en Björn Bjarnason ber enn hausnum við steininn. Nýjast er að nokkrum vikum eftir að formaður hans hafði forystu um Ice save-samningana vill hann ekki borga “skuldir óreiðumannanna” sem hann og Davíð Oddsson seldu Landsbankann fyrir slikk.

Úr því sem komið er það eins og að stinga upp á sjóránum að hætti Sómala sem helsta atvinnuvegi Íslendinga.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Vildi bara hnýta í eitt hjá þér Árni minn, og það er með þennan fræga frasa "allt fyrir ekkert". Það var ekki pabbi sem orðaði það svo þegar hann kom heim eitthvert sinnið í lok samningaferlisins og lét hafa eftir sér þau orð sem að fulltrúi Commissionarinnar í samninganefnd ESB (fyrrv utanríkisráðherra Hollands, man ekki nafnið) hefði sagt við JBH: Þið haldið að þið getið fengið allt fyrir ekkert. Þetta rataði svo á forsíðu blaðanna sem "allt fyrir ekkert".
Svo má bæta því við að það var alltaf skoðun JBH að Ísland ætti að sækja strax um inngönguna, eins og Finnland og Austurríki, enda var alla tíð litið svo á að EES samningarnir væru bara upphitun fyrir ESB, eða fordyrið.
Bestu kveðjur til Bruxelles, Kolfinna

Nafnlaus sagði...

frábær pistill!

Nafnlaus sagði...

Fínn pistill hjá þér. Það svo oft hjá Birni B. að snýst í marga hringi í sinum málflutningi. Staðreyndin er sú að menn sváfu á verðinum. Það var svo gott að pissa í skóinn út þegar ICESAVE var annars vegar. Peningarnir steymdu inn, skatttekjur jukust og hægt var að lækka skatta. Allt eins og Hannes hafði spáð fyrir, en það var bara ekkert lagt fyrir til hörðu árana.
Nú eru allir að leita að sökudólgum. En einn af þeim er jú Björn Bjarnason

kv.

Helgi

Nafnlaus sagði...

Það eru allir nema þú og örfá skoðanasystkin búin að sjá að það var þó hjálp í að hafa krónuna og geta fellt gengið í samræmi við efnahag landsins, í stað þess að þyngslin af evrunni hefðu lagst ofan á aðrar byrðar sem lögðust á landann. BB hafði rétt fyrir sér þegar hann sagði, spyrjum að leikslokum.