þriðjudagur, 10. febrúar 2009

Blaðrað og beðið eftir Dalai Lama

Alveg er það merkilegt að í hvert skipti sem forseti Íslands veitir viðtal við erlendan fjölmiðil virðist vera vitlaust haft eftir honum. Nú hefur hann valdið miklu írafári í Þýskalandi með því að tjá sig um málefni sem hann ætti ekki að tjá sig um: uppgjör reikninga íslensku bankanna.
Flest bendir til þess að forsetinn hafi ruglað saman stöðu reikninga Kaupþings og Ice Save reikninganna.

Lengi vel vorum við svo heppinn að varla nokkur erlendur fjölmiðlar maður nennti að tala við Ólaf Ragnar og dæmi voru um að blaðamenn myndu ekki örskömmu síðar hvort þeir hefðu talað við hann, að hætti Söru fyrrverandi varaforsetaefnis Palin.

Vel kann að vera að pottur sé brotinn í því hvernig forsetinn ræðir við erlenda fjölmiðla og hvernig embætti hans fylgir viðtölum eftir við stórvarasama fjölmiðla á borð við Financial Times og BBC. Ef rangt er haft eftir forsetanum hlýtur að vera til upptaka og ef ekki er til upptaka er hreinlega eitthvað að.

Þetta er þó ekki aðalatriðið: Ólafur Ragnar tjáir sig um hvaða einasta málefni sem er án nokkurra fyrirvara. Hann bendir aldrei á við erlenda blaðamenn að hann hafi lítil sem engin áhrif og reynir að hirða heiðurinn af öllu því sem gott hefur verið gert á Íslandi og stundum í heiminum öllum.

Þegar hann var í Eystrasaltsríkjunum hér um árið reyndi hann að eigna sér heiðurinn af stuðningi Íslands við sjálfstæðisbaráttu þeirra, heimamönnum til mikillar undrunar og kunnara er en frá þurfi að segja hvernig hann hefur reynt að þakka sér útbreiðslu endurnýjanlegra orku á Íslandi.

Þá var hann með stóryrtar yfirlýsingar um Samúræja bréfin við japanska fréttamenn á dögunum. Enn skýrði hann ísraelskum blaðamanni frá því að Íslendingar hefðu lifað af kulda og vosbúð í aldanna rás með því að ganga í loðfeldum. Vafalaust allt rangt haft eftir. Eða slitið úr samhengi.

Það væri hlægilegt að horfa upp á þetta ef þetta kostaði Ísland ekki álitsmissi og útgjöld.
Látum þátt Dorritar liggja milli hluta en verst er að hún sem lætur alltaf allt flakka, skuli hafa gleymt að segja okkur (og sennilega manninum sínum líka) frá því að bankarnir og Ísland hafi verið að leiðinni á hausinn. Hún hafði allnokkur tækifæri til þess í boðunum á Bessó og vaflaust myndu Siggi Einars, Jón Ásgeir og Bjöggarnir spyrja hana hverju þögn hennar hefði sætt, en þeim er víst ekki boðið þangað lengur. Þar sötrar nú Hörður Torfason sitt te og mótmælir engu.

Nú er von á Dalai Lama og margir gera því skóna að Ólafur Ragnar finni sér afsökun til að hitta hann ekki. Það væri hins vegar algjörlega úr takti við alla starfshætti forseta lýðveldisins.
Hann mun smygla sér fremst í Dalai Lama-gönguna eins og allar aðrar og sanniði til hann muna láta sem hann hafi ekki gert annað en að andmæli ofríki Kínverja í Tíbet.

Mér segir svo hugur að verk Dalai Lama taki nú sess Mao Tse Tung "Samlede værker" í bókaskápnum á Bessó – einmitt þar sem myndavélarnar ná best til.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ja, auðvitað hlýtur Dalai Lama að hafa gert það að skilyrði fyrir komu sinni hingað að fá að hitta ÓRG. Það segir sig sjálft.

Nafnlaus sagði...

Hvað sem sagt verður um hann Ólaf kallinn þá hitti hann naglann á höfuðið hérna um árið þegar hann lýsti eðli Davíðs Oddssonar.

Nafnlaus sagði...

"Samlede værker"!!?

Eru þau nema eitt?

Nafnlaus sagði...

Ólafur Ragnar er nú einn þeirra sem hefur ekki haft hátt um stöðu Tíbeta og litið heldur í hina áttina í stað þess að koma tíbetsku þjóðinni til hjálpar úr klóm kínverska drekans. Vonandi verður breyting þar á í sumar.
sjá grein um þetta: http://www.kristbjorg.blog.is/blog/kristbjorg/entry/799693/

Nafnlaus sagði...

Sæll Árni,
sendu mér póst.
Kjartan V.
kjarval@centrum.is