Ef rétt er haft eftir að Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar ætli að gefa eftir í Evrópumálum getur það ekki þýtt nema eitt. Að hún ætli að svíkja kosningaloforð um að setja Evrópumálin á oddinn.
Nú þegar flest bendir til að þingmeirihluti sé fyrir að sækja um aðild að Evrópusambandinu, (S plús O plús B plús nógu margir D og VG) hefur Samfylkingin enga ástæðu til að gefa eftir. Vinstri grænir aftur á móti verða að sætta sig við það að skoðanir þeirra njóta ekki stuðnings meirihluta þjóðarinnar eins og hann kom fram í nýliðnum þingkosningum.
Samfylkingunni ber lýðræðisleg skylda til að snúa baki við vinstri grænum og leita á önnur mið eða mynda minnihlutastjórn. Vinstri grænir munu raunar sennilega klofna hvort heldur sem er eftir að forysta þeirra sneri endanlega bakinu við grænum sjónarmiðum. Langflestir skoðanabræður þeirra, meira að segja í villta vinstrinu, í Evrópu hafa löngu gert þetta. Og allir græningjar að heita má.
Ef allt fer á versta veg og stjórnarmyndun tekst ekki á Samfylkingin sögulegt tækifæri á að taka Evrópufylgið endanlega af Sjálfstæðismönnum og Framsóknarmönnum og græna fylgið af kommúnistunum sem eftir sitja í VG.
Samfylkingin mun hins vegar klofna ef Jóhanna kýs slíka kyrrstöðustjórn enda engin leið út úr þrengingum okkar til lengri tíma litið án ESB aðildar.
Það er alveg ljóst að Árni Páll Árnason og Róbert Marshall munu ekki geta greitt slíkri stjórn atkvæði og siðferðilega geta amk. Össur Skarphéðinsson og Björgvin G. Sigurðsson það ekki heldur.
Orð skulu standa.
fimmtudagur, 30. apríl 2009
Orð skulu standa heilög Jóhanna
föstudagur, 24. apríl 2009
Ég styð flokk í fyrsta skipti
Ég hef aldrei stutt stjórnmálaflokk opinberlega áður, en ég geri það nú.
Ástæðan er sú að Íslendingar urðu nánast gjaldþrota vegna þess að við völd voru stjórnmálaflokkar sem höfðu enga aðra stefnu en að auðga gæðinga sína. Og sjálfa sig með, eins og við vitum nú.
Ég var ekki nógu góður sem blaðamaður í því að finna út hvað var á seyði þótt ég benti aftur og aftur á það við lítinn fögnuð hve vitlaust var gefið í spilinu þegar bankarnir voru einkavæddir.
Við vitum núna að það sem ég fjallaði um fyrir nokkrum árum, var reykurinn af réttunum.
Flokkarnir sem báru ábyrgð á þessu og sömdu reyndar handritið voru Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur
Þeim hafna allir almennilegir menn og konur.
Afleiðingar málsins sýna og sanna að við þurfum að vera í varnarbandalagi vestrænna lýðræðisríkja sem Sjáflstæðisflokkurinn vill ekki af óskljanlegum ástæðum.
Sjálfstæðismenn eru gott fólk upp til hópa. Ég er enginn æstur aðdáandi Samfylkingarinnar. Þeir sem lesið hafa skrif mín hér á eyjunni, síðast fyrr í dag, vita að ég er krítískur i hennar garð.
Heimskan og heimóttaskapurinn í Sjálfstæðisflokknum veldur hins vegar þvi að ef sannir sjálfstæðismenn vilja vera samkvæmir sjálfum sér og styðja frjálst framtak, lýðræðislega og góða stjórnunarhætti, framfarir og lýðræði þá styðja þeir ekki einangrunarsinnaðana spilltan Sjálfstæðisflokkinn.
Útilokunaraðferðin segir okkur hófsömum miðjumönnum og Evrópusinnum að það er bara eitt val: Samfylkingin.
Warts and all.
1000 blóm blómstra ekki þótt Maóistar bjóði fram
Kannski á einhver eftir að hrista hausinn við að komast að því að þrátt fyrir fyrirsögnina fjallar pistillinn ekki um álitamál i fræðum formannsins sáluga heldur slor og fiskveiðar við Íslandsstrendur og víðar!
Lesandi varpaði þeirri spurningu til mín hvort ég væri jafn heitur í Evróputrúnni eftir að hafa lesið frétt á Visi. is með fyrirsögninni « Ekki tryggt að fiskveiðiréttindi haldist hjá aðildarríkjum ESB »
(http://www.visir.is/article/20090424/VIDSKIPTI06/343441019/-1).
Svarið er einfalt já ég er það.
Þannig er mál með vexti að ég starfa í Brusselborg við Schuman-torg innanum stofnanir Evrópusambandsins. Gestir og gangandi komast ekki hjá því að verða þess áskynja þótt langt sé til sjávar í Brussel, að verið er að endurskoða sjávarútvegsstefnu ESB fyrir 2012 ef mér skjöplast ekki. Fólk er hvatt til að kynna sér málin og láta ljós sitt skína um svokallaða grænbók eða kynningu framkvæmdastjórnarinnar sem er vissulega ekki aðaláhugamál flestra íbúa ESB ríkjanna. Og það er gert á mjög aðgengilegan og í raun lýðræðislegan hátt.
Fyrst ég minntist á Maó: "Leyfum þúsund blómum að blómstra!"
Í grænbókinni er málið greint frá öllum hliðum og sagt frá helstu sjónarmiðum sem uppi eru. Það er vissulega rétt sem segir í fréttinni að ýmsir hafa lagt til breytingar á svokölluðum hlutfallslegum stöðugleika, reglu sem tryggir Íslandi ævarandi yfirráð yfir fiskimiðum sínum innan Evrópusambandsins. Og framkvæmdastjórnin bendir á þá möguleika sem íbúarnir nefna.
Að halda því fram að að það sé “ekki tryggt að fiskveiðiréttindi haldist hjá aðildarríkjum ESB" vegna þess að skoðanir þess efnis séu reifaðar í kynningarefni framkvæmdastjórinnar er hins vegar afar hæpið.
Það er nefnilega þannig í raunveruleikanum að þúsund blóm blómstra ekki. Bara sum.
Kosningabarátta er í gangi á Íslandi og margar skoðanir eru reifaðar eins og eðlilegt er i lýðræðislegri umræðu.
Hér í eina tíð buðu Maóistar og Trotskíistar fram í kosningum á Íslandi og fengu núll komma eitthvað prósent stuðning við þær hugmyndir að kollvarpa lýðræðislegum stjórnarháttum og markaðsbúskap og taka upp alræði öreiganna. Sem voru ýmist bændur eða verkamenn, eftir á hvorn guðspjallamanninn var hlustað.
Hefði verið eðlilegt að halda því fram í þessum kosningum að lýðræði og markaðsbúskapur væri í hættu á Íslandi vegna þess að þessir hópar fengju að bjóða fram eins og sjálfsagt og eðlilegt var ?
Að starfsmenn Hampiðjunnar eða bændur í Flóanum væru að taka völdin?
Er líklegt að útrásarvíkingar verði settir í steininn vegna þess að sumir frambjóðendur hafa lagt það til? Að við þurfum ekki að borga skuldir okkar eins og framsóknarmenn lofa upp í ermina á sér?
Var Árna Johnsen byrlað rottueitur, þótt hann segi það sjálfur?
Að öllu gamni slepptu verður að horfa á hlutina í samhengi.
Það er ekki eitt einasta ríki innan Evrópusambandsins fylgjandi því að afnema hlutfallslegan stöðugleika og þar með álíka litlar líkur á þvi að það gerist eins og að maósistar og trotskistar hefðu náð völdum á Íslandi hér í eina tið. Eða einhver hafi byrlað Árna Johnsen rottueitur. Hvaða pólitískur andstæðingur hans vildi ekki hafa hann í framboði, ég bara spyr?
Joe Borge, sjávarútvegskommissar Evrópusambandsins sagði athyglisverða hluti á sinn hógværa hátt í myndinni um ESB sem ekki máti sýna á RÚV í fyrra. Hann tók svo djúpt i árinni að segja að það hefði aldrei verið talað um þetta innan ESB.
Eins og við þekkjum á Íslandi hafa sjómenn og útgerðarmenn kjaftinn fyrir neðan nefið og það er ekkert öðruvísi í ESB. En orð þeirra eru ekki lög.
Og ef Ísland gengur í Evrópusambandið og fær inn í aðildarsamninginn að hlutfallslegur stöðugleiki sé hluti af samningnum, fær að þjóðréttarlegt gildi og Ísland hefði sem ESB ríki neitunarvald til að tryggja þetta ákvæði.
Hlutfallslegi stöðugleikinn tryggir að Íslendingar hefðu einir réttir til kvóta í okkar lögsögu.
Að halda því fram að þetta sé í alvöru upp á borðinu innan ESB er hrein og klár vanþekking. Í versta falli styrkir þetta málflutning okkar Evrópusinna um mikilvægi þess að sitja við borðið þar sem ákvarðanir eru teknar og vernda hagsmuni Íslands.
Hvers vegna vilja Sjálfstæðismenn og Vinstri-Grænir ekki taka þátt í þeirri hagsmunagæslu ?
Ætla Íslendingar að ganga til liðs við vanheilagt bandalag öfgasinnaðra þjóðernissinaðra öldunga úr kalda stríðinu á borð við Styrmi Gunnarsson, Ragnar Arnalds og Hjörleif Guttormsson, að ógleymdum kvótakóngum og sægreifum?
Af hverju ekki að ganga á móts við framtíðina og setja x-ið í kosningunum við Evrópu?
Það gerir maður bara á einn hátt og það er með X-S. Samfylkinguna: warts and all!
VG: Evrópukóngar í EINN dag
Norska Dagblaðið segir frá því að Vinstri-Grænir hafi komið í veg fyrir að hin umdeilda þjónustutilskipun ESB taki gildi á evrópska efnahagssvæðinu. Síðan segir samkvæmt endursögn Morgunblaðsins:
“Oda H. Sletnes, sendiherra Noregs hjá ESB, segir í samtali við Dagbladet að þetta hafi aldrei gerst áður. Hann segir þó að einu afleiðingarnar séu að samþykktin muni frestast fram á næsta fund sendiherranna. Lögin muni samt taka gildi í árslok 2009.”
Það hefur sem sé aldrei gerst áður að Ísland hafi svo mikið sem tekið sér frest til að leiða í lög tilskipanir Evrópusambandsins. Eftir fimmtán ár gerast síðan þau undur og stórmerki að sendiherra Íslands er beðinn um, fyrir tilstilli VG í ríkisstjórn Íslands, að bíða með að samþykkja tilskipunina fram að næsta fundi! Miklir menn erum vér Steingrimur Joð og Ögmundur!
Við höfum að sjálfsögðu ekkert haft að segja um þessa tilskipun sem er mjög umdeild. En við verðum að leiða hana í lög hvort sem okkur likar betur eða verr. Hún er í algjörri andstöðu við allt sem Steingrími Joð og Ögmundi er kært – en þeir geta stappað niður fótum og frestað málinu til næsta fundar eins og óþekkir krakkar.
Segi Ísland nei, hrynur EES samningurinn – og ESB segði farið hefur fé betra! Efta ríkin hafa aldrei beitt neitunarvaldi á löggjöf EES. Neitunarvaldið er sem sagt nafnið tómt.
Sannleikurinn er sá að það er ótrúlegt að nokkur maður sem segist bera fullveldi þjóðarinnar fyrir brjósti skuli segjast fylgjandi EES samningnum. Í myndinni Ef…Ísland og Evrópusambandið sem ég gerði (og ekki fékkst sýnd á RÚV sem frægt varð), er ma. talað við Jens Peter Bonde, danskan skoðanabróður Steingríms og Ögmundar.
Jens Peter var á sínum tíma einn oddvita “Folkebevægelsen mod EF” og átti síðan stóran þátt í að fella Maastrichtsamninginn í Danmörku. Eftir það ákvað hann að berjast fyrir sósíalisma, umhverfisvernd og gagnsæi innan ESB þar sem ákvarðanirnar eru teknar og hefur gert það með stæl. Hann var þannig lykilmaður í því á Evrópuþinginu að fella framkvæmdastjórnina sem Jacques Santer veitti forystu.
Jens Peter talaði greinilega til íslensrka kollega sinna í þættinum enda þekkir hann þá marga hverja persónulega. Hann líkti EES samningnum við það að Ísland og Noregur heimtuðu að gerast nýlendur að nýju. “Af hverju viljið þið ekkim eins og við hafa áhrif á ykkar eigin framtíð. EES samningurinn er nýlendusamningur,” sagði Jens Peter og ég tek heils hugar undir það.
Horfumst í augu við það að valið stendur fyrr eða síðar um það að standa utan EES eða ganga i ESB. Valið þar á milli er einfalt.
Glitnir og bankamálaráðherrann
Ég verð að viðurkenna að ég undrast að enginn skuli vekja athygli á ákveðinni staðreynd varðandi styrki til einstakra stjórnmálamanna. Greint hefur verið frá því í fréttum að Sigurður G. Guðjónsson, kosningastjóri Björgvins G. Sigurðssonar vísi því á bug að Baugur hafi styrkt frambjóðandann.
Mér finnst það nefnilega út af fyrir sig fréttnæmt að Sigurður G. Guðjónsson hafi verið kosningastjóri Björgvins, þótt það komi mér ekki á óvart því þeir eru jú svilar.
Kannski var Björgvin G. vanhæfur sem bankamálaráðherra að fjalla málefni Glitnis vegna fjölskyldutengsla við Sigurð, stjórnarmann í bankanum. En þegar nú kemur í ljós að Sigurður var kosningastjóri Björgvins og virðist vera með bókhald hans í rassvasanum renna vissulega á mann tvær grímur. Ef ekki þrjár.
PS Nýjustu fréttir eru svo þær að þótt Siggi G. sé með bókhald Björgvins í rassvasanum hafi allt annar maður verið kosningastjóri hans! Því miður virðist frambjðandinn Björgvin hafa sömu ósiði og hann sem bankamálaráðherra, að vita ekkert hvað hann er að gera. Er þetta fréttaflutningur sem Samfylkingin þarf á að halda daginn fyrir kosningar? Þvílíkir amatörar!
miðvikudagur, 22. apríl 2009
FLuglaugur, FLugdís, FLingi og FLillugi
Við vitum enn ekki hvaða stjórnmálamenn hafa fengið styrki í formi "kúlulána" til dæmis, sem er ekkert annað en að bera fé á fólk. Við vitum hverjir fengu styrki frá Baugi og FL group en það er aðeins toppurinn á ísjakanum. Landsbankinn var mjög drjúgur i sínum stuðningi og ekkert vitum við um Glitni eða Kauping.
Hins vegar skulum við líka hafa í huga að það er ekkert óeðlilegt að fyrirtæki styrki stjórnmálamenn, svo lengi sem það er gert á hófsaman og gagnsæjan hátt.
Þegar fólk á borð við Fluglaug Baug Þórðarson, Steinunni Valdísi, Björn Inga og Illuga Gunnarsson (ef við bætum við sjóð níu) eru að fá margföld mánaðarlaun frá einum og sama aðila, þá er alveg ljóst að í því spili er vitlaust gefið.
Það gildir allt öðru máli ef við erum að tala um dreifð jöfn framlög og hámarkið er nokkur hundruð þúsund krónur.
Mér sýnist að við séum ekki bara að tala um Fluglaug, heldur Steinunni FLugdísi, Björn FLinga og FLilluga Gunn.
En öll kurl eru ekki komin til grafar....
þriðjudagur, 21. apríl 2009
Davíð og Hannes með þeirra orðum
Maríanna Friðjónsdóttir, dagskrárgerðarmaður til margra ára hefur tekið þetta saman. Ég held að enginn hafi sýnt betur fram á "með þeirra eigin orðum" sem Styrmir Gunnarsson auglýsti eftir, hve Davíð Oddsson og Hannes Hólmsteinn dásömuðu útrásina. Og hversu Davíð Oddsson laug blygðunarlaust þegar hann sagðist aldrei hafa lofað útrásarvíkingana. Kíkið endilega á þetta. Frábært Maríanna, takk!
http://www.facebook.com/home.php#/video/video.php?v=70440609580&ref=nf
Í ESB til að auka sjálfstæðið
Bjarni Benediktsson, hefur frá því að hann bauð sig fram til forystu í Sjálfstæðisflokknum haft allar mögulegar skoðanir á aðild Íslands að Evrópusambandinu. Hann hefur talið að krónan væri í lagi og ekki í lagi og að við ættum að vera innan og utan Evrópusambandsins.
Þessa stundina virðist Bjarni dansa eftir pípu stóra frænda Kalda-stríðs Bjössa.
Þegar embættismaður hjá Evrópusambandinu sagði að upptaka Evru með aðstoð Alþjóða gjaldeyrissjóðins væri hreinasta firra, brást hinn skapvondi frændi Bjarna formanns ókvæða við og sakaði Percy Westerlund, sendiherra fyrir ómakleg afskipti af innanlandsmálum fyrir það eitt að benda á staðreyndir.
Bjarni litli frændi kom svo í útvarp í hádeginu og endurtók línur stóra frænda, einhvern veginn sá ég hann fyrir mér í Matrósafötum sitjandi á kné stóra Bjössa.
Línan: “við látum ekki embættismenn í Brussel stjórna okkur”, er mjög óheppilega valin.
Aðild Íslands að Evrópusambandinu snýst nefnilega um það að við Íslendingar getum haft áhrif á okkar eigin löggjöf. Eins og staðan er nú telur Evrópusambandið að Ísland taki upp 75% af löggjöf þeirri sem embættismenn í Brussel semja. Við höfum nánast ekkert um okkar eigin mál að segja.
Ef Bjarna er alvara með því að hann vilji ekki láta “embættismenn í Brussel stjórna okkur,” ætti hann að lýsa yfir fylgi við aðild að Evrópusambandinu.
Þá færeysku í krafti hvalveiðiráðs?
Hér í eina tíð kusu menn Sjálfstæðisflokkinn ekki síst vegna þess að þangað leitaði hæfileikafólk. Þar var hægt að finna “safe pair of hands”.
Nú er öldin önnur. Algjör glundroði ríkir í stefnu flokksins sem í senn gerir að einu helsta stefnumáli sínu að ráðast að einu tilteknu fyriræki, Baugi og á sama tíma heimta af því fé.
Flokkurinn hefur haft allar mögulegar stefnur í Evrópumálum undanfarinn hálfan annan áratug. Um 1990 vildi Davið athuga með inngöngu í ESB. Flokkurinn var svo alveg andsnúinn EES en vildi tvíhliðasamning. Því næst var flokkurinn fylgjandi EES og andsnúinn ESB aðild.
Þegar Evran varð til sagði Davið að þessi tilraun myndi aldrei lukkast, heldur væri þetta gjaldmiðill á borð við kúbönsku og norður-kóresku gjaldmiðlana sem ekki þykja nógu góðir til að nota sem skeinipappír. Seðlarnir altso.
Nú hins vegar er flokkurinn búinn að mála sig út í horn og í stað þess að viðurkenna staðreyndir og að flokkurinn hafi haft rangt fyrir sér, er reynt að ljúga sig út úr vandanum.
Fyrir rúmu ári sagði formaður Sjálfstæðisflokksins að engin leið væri að taka upp evru án ESB aðildar.
Björn Bjarnason, einn helsti oddviti Heimastjórnarmanna, ofstækisfullra þjóðernissinna í flokknum, vildi hins vegar fyrst alls ekki sjá evruna, en svo allt í einu vildi hann taka upp evruna á grundvelli EES!
Ýmsir forkólfar flokksins töluðu um svissneska franka og fram á síðustu daga hefur verið talað um dollara eins og “bananalýðveldim” i Suður-Ameríku hafa gert.
Nú er hins vegar farið að tala um að taka upp evruna í krafti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins!
Þetta er farið að minna á frúnna í Hamborg, ESB kemur í staðinn fyrir hvitt og svart.
Af hverju ekki taka upp færeysku krónuna á grundvelli Alþjóða hvalveiðiráðsins spyr Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir á Facebook.
Eða bara taka upp Matadorpeninga i krafti aðildar Íslands að Alþjóðlegu skátahreyfingunni eða súrínamska dalinn í krafti samstöðu þjóðanna innan alþjóðlega sundsambandsins?!
Ég vissi að sjálfstæðismenn væru innmúraðir klíkubræður sem gerðu allt til að klekkja á anstæðingnum og hygla félögum sínum á kostnað annara. En ég hafði ekki hugmynd um að þeir væru tilbúnir að opinbera sig sem fáfróða bjána í þeim tilgangi einum að viðurkenna ekki að þeir hafa algjörlega rangt fyrir sér. Að treysta á að þeir geti með smjörklípum blekkt þjóðina í eina viku til að koma í veg fyrir verðskuldað afhroð flokksins í kosningum.
Bjarni Benediktsson ætti frekar að taka sér frænda sinn Benedikt Jóhannesson til fyrirmyndar en Björn Bjarnason sem gerir sig endanlega að fifli í ómaklegum árásum sínum á erlenda diplómata á amx vefsiðunni í dag.
Bjarni minn ef þú vilt ná sæmilegri kosningu, sendu frænda þinn Björn i frí. Á sama stað og þið sendið Hannes Hólmstein venjulega á fyrir kosningar.
Verst að FL Group og Landsbankinn eru ekki lengur hér til að borga, eins og í þá góðu gömlu daga, þegar Flokkurinn var og hét.
mánudagur, 20. apríl 2009
X-D og Obama, Cameron og Ku Klux Klan
Sjálfstæðisflokkurinn er í raun og veru orðinn eins og náttröll í samhengi alþjóðlegra stjórnmála.
Í Bandaríkjunum hefur Barack Obama vakið vonir með því að vera fyrsti Bandaríkjamaður af afrískum uppruna sem sest á forsetastól. Obama hefur blásið nýju lífi í trú margra okkar á Bandaríkjunum sem höfðu dofnað eftir Íraks og Guantanamo ævintýri Bush.
Obama hefur ásamt öllum helstu leiðtogum heimsbyggðarinnar, hvort heldur sem er hægri manna eins og Sarkozy og Merkel eða jafnaðarmanna á borð við Brown hins breska, verið í nauðvörn fyrir félagslegan markaðsbúskap og beitt til þess ríkisvaldinu. Öll þessi fjögur auk Japana og Kínverja vilja slá tvær flugur í einu höggi og veita stuðningsfé ríkisvaldsins til að efla “græna” hagkerfið.
Á Íslandi hefur Sjálfstæðisflokkurinn hins vegar boðað andstöðu gegn skattahækkunum og þar með boðað að ekki við sjálf, heldur börn okkar og barnabörn, eigi að borga skuldirnar sem Sjálfstæðisflokkurinn og einkavinir þeirra Bjöggarinir og FL Group steyptu okkur í. Fyrir hæfilegar greiðslur til Sjálfstæðisflokksins, raunar.
Einn trúnaðarmanna aðaleigenda FL Group, Illugi Gunarsson, þeirra maður í Sjóði Níu og fyrsti maður á lista Sjálfstæðimanna í öðru Reykjavíkurkjördæmanna, er hins vegar kunnur fyrir að halda þvi fram að jörðin sé ekki að hitna og allra sist af mannavöldum. Hann er reyndar lika andsnúinn aðild Íslands að Evrópusambandinu vegna miklvægi viðskipta við Indland (80 milljónir á ári) og fækkunar barneigna í Þýskalandi, eins og hann lýsti fyrir gestum á Iðnþingi fyrir ári, þeim til mikillar undrunar.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor og einn umtalaðasti "sérfræðingur" þjóðarinnar í Halldóri Laxness heldur því líka fram að jörðin sé ekki að hlýna og raunar væri það bara gaman að geta stundað sjóböð á íslenskum ströndum þótt svo kynni að fara að aðrir jarðarbúar stiknuðu. Ekki er vitað hvort prófessorinn telur líka að jörðin sé flöt, en það skal ekki útilokað.
Að minnsta kosti eru þeir Illugi og félagar núorðið einir að mestu eftir með slíkar bábiljur í heiminum og skoðanir af þessu tagi eru taldar til öfgaskoðana í Bretlandi og Bandaríkjunum. Held að reiðhjólamaðurinn græni, David Cameron vilji sem minnst af Íslendingunum vita – en svo eru líka sumir Bretar móðgaðir yfir því hvernig einkavinir þeirra félaga fóru með fjárhag breskra sveitarfélaga og góðgerðasamataka – en það er önnur saga.
Við skulum ekki einu sini fara að ráði út í málflutning Sjálfstæðismanna á borð við Illuga og Hannes um Evrópusambandið. Ef þannig færi að Ísland gengi í Evrópusambandið er nokkuð ljóst að Sjálfstæðismönnum yrði ekki hleypt inn á samkomur hefðbundinna hægrihópa, heldur yrði þeim úthýst og boðið upp á félagsskap Jean-Marie Le Pen og þess háttar manna á Evrópuþinginu.
Hvort heldur sem er sænskir íhaldsmenn eða írskir, franskir gaullistar eða pólskir kaþólikkar eru sammála um að Evrópa sé málið og sama gildir auðvitað um jafnaðarmenn og flesta vinstri sósíalista. Bara Norðmenn sem klífa bakpokavæddir og glaðir sín fjöll á milli þess sem þeir sækja sér fé í olíusjóðina, eru andsnúnir ESB.
En einhvern veginn fer það einni auðgustu þjóð heims betur með allan sinn olíuauð en gjaldþrota Íslendingum að vilja lifa í “sjálfstæðri” einangrun.
Skoðanir Sjálfstæðisflokksins eru nefnilega orðnar skoðanir öfgasinnaðra þjóðernissinna á hægri kantinum eins og best sést á ummælum Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, sem sakar andstæðinga Sjálfstæðismanna um að vera á móti “öllu því sem íslenskt er.”
Þetta rímar þegar öllu er á botninn hvolft við þá greiningu Hannesar Hólmsteins að heimskreppuna núverandi megi rekja til sérstakra aðgerða Bandaríkjastjórnar í þágu þeldökkra.(“Hvað gerðist? “, 17. október, http://hannesgi.blog.is/blog/hannesgi/entry/677120)
Hannes skrifar að orsakir hennar "liggja ekki á Wall Street, heldur í Hvíta húsinu... Að frumkvæði Robertu Achtenberg, sem var aðstoðarráðherra í stjórn Clintons forseta um miðjan tíunda áratug, var lánastofnunum bannað að mismuna minnihlutahópum (til dæmis að lána hlutfallslega meira til hvítra manna en svartra), og skipti þá greiðslugeta litlu máli."
Hannes er eini þekkti “fræðimaðurinn” sem telur orsaka heimskreppnunnar frekar að leita hjá þeldökkum Bandaríkjumönnum en gráðugum bankamönnum og slöku aðhaldi fjármálaeftirlita og Seðlabanka að markaðnum; les: of lítill afskipta rikisins.
Mér fróðari menn um bandarísk málefni telja ósennilegt að slíkar skoðanir séu taldar boðlegar á Fox-stöðinni bandarísku sem svipar til amex.is vefsíðunnar hér á Íslandi.
Talið er að slíkur máflutningur fyrirfinnist þó enn í Bandaríkjunum en eingöngu í sumum róttækari deildum Ku Klux Klan. En þó alls ekki öllum.
PS. Ég bætti við kvóti eftir athugasemd frá Friðjóni nokkrum starfsmanni Björns Bjarnasonar til langs tíma sem sakaði mig um að birta ekki link á Hannes - sem ég þó gerði - en nú bæti ég kvótinu við, svo allir getir séð, það svart á hvítu að Hannes kennir lánveitingum til blökkumanna en ekki Wall street um kreppuna!!
Evrópsinnar allra flokka sameinist!
Það er alveg ljóst að nú síðustu vikunum er umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu yrðir lykilmál í kosningabaráttunni.
Evrópusinnar eru í öllum stjórnmálaflokkum. En aðeins einn flokkur hefur aðild að ESB á stefnuskrá sinni. Það skiptir vissulega máli að við eigum takmarkaða möguleika á að ná okkur varanlega eftir hrunið ef við göngum ekki til liðs við nágranna- og vinaþjóðir okkar í Evrópusambandinu, eins og sjálfstæðismaðurinn Benedikt Jóhannesson hefur sýnt fram á.
Hitt skiptir þó meira máli að með því að setjast við sama borð og vinaþjóðir okkar, höfum við kost á að hafa áhrif á eigin mál enda ekki við það búandi til lengdar að taka við löggjöf ESB hrárri í gegnum EES samningsins.
Það eru engir afarkostir að ganga í Evrópusambandið. Ekkert í sjávarútvegsstefnunni gefur öðrum þjóðum veiðiheimildir í okkar lögsögu og orkulindir aðrar munu eftir sem áður tilheyra okkur einum.
Hver Sjálfstæðismaðurinn á fætur öðrum lýsir því yfir að hann sé “sammála” okkur Evrópusinnum.
Framsóknarmenn hafa margir hverjir áttað sig á því fyrir löngu.
Vinstri-grænir eru tvístígandi enda eru skoðanabræður þeirra í Evrópu flestir þeirrar skoðanir að maður hafi áhrif á framtíðina innan en ekki utan ESB.
Vinstri-grænir munu hins vegar ekki taka af skarið nema Evrópusinnum vaxi ásmeginn í kosningunum. Eins og staðan er nú eru Vinstri-grænir stærsti flokkurinn án þess að hafa opnað á Evrópu. Ef sú verður niðurstaðan munu þeir segja “If it ain´t broke, don´t mend it,” og halda aftur í Dalakofann.
Atkvæði greitt þeim og Sjálfstæðisflokknum að ekki sé talað um Framsókn., er atkvæði með kyrrstöðu, með gjaldeyrishöftum, stöðnun og einangrun Íslands.
Sjálfstæðismenn sem vilja sveigja flokkinn í skynsama átt og til fylgis við aðild að Evrópusambandinu eiga aðeins einn kost og það er að kjósa Samfylkinguna – því með því einu móti geta þeir bjargað flokknum frá því að verða lítill söfnuður sægreifa, Hólmsteina og einangrunarsinna.
Fái Samfylkingin góða kosningu mun Evrópusinnum innan VG, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks vaxa fiskur um hrygg. Tap Samfylkingar væri, tap Evrópusinna hvar í flokki sem þeir stæðu.
Sjálfur er ég enginn æstur áhangandi Samfylkingarinnar eins og lesendur Eyjunnar vita. En atkvæði greitt Samfylkingunni er eina atkvæðið sem hægt er að greiða með ESB; eina lausnin í stöðunni.
sunnudagur, 19. apríl 2009
D fyrir duttlunga
Það er óhapp okkar Íslendinga í hve slæma átt Sjálfstæðisflokkurinn hefur þróast. Hann er nefnilega orðinn miklu verri hægriflokur en sambærilegir flokkar í nágrannalöndunum. Sennnilega lýsir ekkert flokknum betur en að helsti hugmyndafræðingur flokksins, sá hinn sami og hefur boðað af mestum krafti ágæti einkarekstrar, hefur aldrei á ævi sinni unnið hjá einkafyrirtæki.
Hvorki Hannes né Davíð Oddsson þekkja einkarekstur af eigin raun.
Hannes nýtti sér pólitísk tengsl sín og yfirráð Sjálfstæðisflokksins yfir Ríkissjónvarpinu til að selja illa unna þætti á uppsprengdu verði, á meðan hann þáði laun frá ríkinu, ma. fyrir “rannsóknir” við Háskóla Íslands.
Davíð er alræmdur fyrir lélagan skilning á efnahagsmálum sem hann reyndar viðurkenndi þegar hann tók flissandi við starfi Seðlabankastjóra. Það sem fram hefur komið undanfarið um einkavæðingu bankanna, rennir enn frekari stoðum undir þær grunsemdir að þar hafi verið flausturslega unnin einkavinavæðing.
Og gleymum ekki einu við vitum ekkert um framlög til Sjálfstæðisflokksins þegar einkavæðingin gekk yfir.
Röksemdir fyrir að selja ætti í hasti Björgólfunum og S hópnum voru ekki síst þær að þarna kæmi erlent fé inn í landið. Sannleikurinn var sá að Bjöggarnir tóku lán í Búnðarbankanum fyrir stórum hluta af kaupverði Landsbankans og hafa ekki einu sinni hirt um að standa í skilum.
Ekki var hlutur Framsóknar skárri en S-hópurinn var ekkert annað en leppur Kaupþings og aðkoma útlendinga lygasaga.
Lykillinn að því að skilja Sjálfstæðisflokkinnn er að déið í X-D, stendur fyrir duttlunga. Eina markmið flokksins er að vera við völd, engu skiptir þótt það sé gert með því að sækja storfé til fyrirtækis sem flokkurinn hefur svívirt.
Skemmtilegt hvernig Björn Bjarna og Hannes Hólmstein n hafa þagnað, þegar upp komst að það var Sjálfstæðisflokkurinn sem var á spenanum hjá Baugi! Átti andúðin á Baugi rætur að rekja til þess að fyrirtækið var lengst af tregt í taumi i styrkveitingum? Þar til uppboðið á orkulindunum fór fram?
Og andstaðan við aðild að ESB er af sama toga: flokkseigendurnir eru vanir að nota valdið af fulllkomnum geðþótta og vita sem er að aðild að lýðræðislegu félagi evrópskra þjóða hefur í för með ser að ekki nægir að troða smjörklípum upp í íslensku presssuna.
Í evrópsku samstarfi er krafist gagnsæis og fagmennsku. Niðurlgagning Þjóðhagsstofnunar var besta dæmið um að Sjálfstæðisflokkurinn var til í að gera hvað sem er til að hindra eðlilegt aðhald og gagnsæi í stjórnmálum.
Og frammistaða Davíðs í skipan tíu sendiherra á örstuttum tíma sínum í utanríkisráðuneytinu sýnir betur en flest annað að D stendur fyrir duttlunga, ef ekki bara Davið sjálfan.
Reyndar var D ekki alltaf bókstafur Sjálfstæðinn heldur var atkvæði greitt x-D um skeið, atkvæði greitt Kommúnistaflokki Íslands. Hæfir kjaftur skel.
Ef þjóðargjaldþrot er þjóðlegt...
Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður hélt því fram á kosningafundi Sjálfstæðismanna að í kosningunum nú væri ekki aðeins "vegið að Sjálfstæðisflokknum og sjálfstæðisstefnunni heldur öllu því sem væri íslenskt."
Röksemdir Guðlaugs Þórs eru þær að “vinstri flokkarnir byðu upp á gamaldags leið ríkisafskipta sem Íslendingar hefðu löngu hafnað.”
Samkvæmt þessu er Sjálfstæðisstefnan þjóðleg en sennnilega allt annað óþjóðlegt.
Ef það er óþjóðlegt að kjósa að ríkisvaldið hafi taumhald á bröskurum í bankakerfinu, þá er ég óþjóðlegur.
Ef það er óþjóðlegt að vera andsnúinn því að gera Ísland að aþjóðlegri fjármálamiðstöð; les griðlandi bankaræninigja og spillingarafla á heimsvísu, vil ég frekar vera Rúmeni en Íslendingur.
Ef það eru góðir íslenskir starfshættir að að selja stjórnmálaflokka hæstbjóðanda, þá vil ég frekar vera Súrinami en Íslendingur.
Er það þjóðlegt að ofsækja tiltekið einkafyrirtæki og koma síðan til þess með betlistaf, vildi ég frekar vera Sýrlendingur. Það má deila um hvort þetta sé mútuþægni eða fjárkúgun, en svo mikið er víst að þjóðlegt er það ekki.
Ef það er þjóðlegt og gott að velja sér til forystu tudda á borð við Davíð Oddsson eða gungu og lygalaup á borð við Geir H. Haarde, má ég þá frekar biðja um að fá að vera Albani.
Ef það er góður íslenskur siður að afhenda flokksgæðingum sameiginlegar eignir landsmanna eins og gerðst með bankana og hefði gerst með orkufyrirtækin, þá afþakka ég að vera meðal hinna þjóðhollu.
Og ef það er til marks um hollustu við þjóðina að samþykkja að fjöregg þjóðar okkar og sameiginleg eign, skuli afhent sægreifunum til ævarandi eignar, þá frábið ég mér slíkt.
Ef það er þjóðlegt að berja hausnum í steininn og halda þvi fram að Ísland sé nánast eina Evrópuþjóðin sem ekki eigi heima í hinu pólitíska og efnahagslega varnarbandalagi Evrópu, þá er úti um Ísland.
Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með forystu í ríkisstjórn og fjármálaráðuneyti nánast óslitið í átján ár.
Í örvæntingu sinni er orðbragð manna á borð við Guðlaug Þór og Styrmi Gunnarsson, farið að minna æ meira á þjóðernissósíalisma Einars Olgeirssonar og Þjóðviljans.
Sjálfstæðismenn, þið eruð löngu búnir að vinna ykkur inn langt, mjög langt frí. Kannski að með því verði okkur forðað frá því þjóðargjaldþroti sem Engeyjarættar-jöfurinn Benedikt Jóhannesson hefur lýst í grein í Morgunblaðinu.
sunnudagur, 12. apríl 2009
Páskalögin fyrir Sjallana
Hér er topp tíu fyrir Sjálfstæðismenn til að lyfta sér upp um páskana. Hey við vitum alveg að þið eruð ekki ÖLL lygnir, hrokafullir, undirförlr metorðastigamenn - bara sum ykkar. En mikið rosalega hafið þið vondar skoðanir. En hafið það nú gott um páskana og syngið með þessum lögum:
1. Simply Red: Money´s too tight to mention
2. Dire Straits: Money for nothing
3. Fleetwood Mac: Shake your money maker
4. King Crimson: Easy money
5. Dandy Warhols: All The Money Or The Simple Life Honey
6. Hljómar: Peningar
7. Leoncie (Indverska prinsessan): Making love for money
8. Steve Miller Band: Take the money and run
9. Abba: Money, money, money
10. Pink Floyd: Money (hroðalega útjöskuð klisja en ok en þetta er jú fyrir Sjálfstæðismenn - þeir kunna að meta klisjur.)
PS Fyrir þá sem kjósa að hlusta á heilan disk, mæli ég með Power, corruption and lies með New Order.
Gleðilega páska!
laugardagur, 11. apríl 2009
D-listi: FL Group eða Sjóð Níu?
Guðlaugur Þór Þórðarson er maður sem ungengst sannleikann á mjög svipaðan hátt og Bill Clinton. Hann hefur fullyrt opinberlega að hann hafi einungis hringt í nokkra menn og hvatt þá til dáða í fjáröflun fyrir Sjálfstæðisflokinn. Guðlaugur hefur fordæmt vonda blaðamenn sem hafa haldið því fram að hann hafi haft samband fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins við FL Group og Landsbankann.
Hverfasamtök Sjálfstæðismanna hafa sum hver, birt yfirlýsingar til stuðnings Guðlaugi Þór.
En nú hafa tveir menn gefið sig fram og sagt að þeir hafi verið mennirnir sem Guðlaugur Þór hringdi í.
Annar var á þeim tima yfirmaður verð bréfasviðs Landsbankans en hinn var varaformaður stjórnar FL Group.
En Guðlaugur Þór segist ekki hafa haft neitt með fjáröflun að gera og alls ekki haft samband við þessi fyrirtæki.
Miðað við þetta eru orð Clintons um að hann hafi ekki haft kynferðisleg samskipti við lærlinginn Lewinski mun trúverðugri.
En þarna lýkur samanburðinum við Bill Clinton, því Gulli er ekki lengur neinn Clinton. Hvað þá Reagan. Dagar Teflonmannsins eru liðnir.
Mikið hljóta Jóhanna og Össur, Kata Jakobs og öll hin að hlakka svakalega ti að etja kappi við frambjóðanda sem hefur orðið uppvís að því að fara svona frjálslega með sannleikann.
Ég man ekki frekar en flestir aðrir hver er á toppnum i Reykjavík suður og hver í norður. En væri ég í framboði fyrir andstæðinga Sjálfstæðismanna myndi ég mala eins og köttur af tilhugsuninni að etja kappi annað hvort við Gulla Þór með hans glæsilega feril eða Illuga “Sjóð 9” Gunnarsson.
Þvílík veisla!
fimmtudagur, 9. apríl 2009
From FL Group with love
Það er magnað að fylgjast með Sjálfstæðis-FL-okknum engjast um þessa dagana eftir að hann varð að apa fyrir að taka við aurum FL Group og Landsbankans.
Flokksforystan virðist ætla að hengja gömlu félagana úr Búnaðarbankanum Guðlaug Þór Þórðarson og Sigurjón Þ. Árnason upp í næsta gálga. Guðlaugur sem kannaðist ekkert við málið í gær, endurheimti minnið í dag.
Það hefur rifjast upp fyrir honum að hann hann hafi á þessum tíma legið á sjúkrabeði en hringt sárþjáður í tvo þrjá kunningja í viðskiptalífinu og þeir brugðist snarlega við og safnað 55 milljónum. Gulli á góða vini, ég segi ekki annað.Hvað skyldi hann hafa fengið mikið ef hann hefði ekki verið svona lasinn?
Gulli hringir í Hannes Smára og þarf ekki einu sinni að ganga á eftir greiðslu, allt skilar sér í kassa flokksins og tímanlega fyrir lokun um áramótin þegar nýju lögin tóku gildi. Ef marka má þessa sögu hefur ekki verið mikið mál að fjármagna eitt eða neitt hjá Sjálfstæðisflokknum. Og tengslin á milli einfalds þingmanns og formanns Orkuveitunnar við fyrirtækin í landinu ótrúlega kósý svo ekki sé meira sagt.
Getur verið að þetta hafi verið svona einfalt?
Því skal haldið til haga að Guðlaugur Þór neitar sannleiksgildi fréttar Morgunblaðsins með bráðskondnum orðhengilshætti: rangt sé að hann hafi beðið fyrirtæki og einstaklinga um styrki: hann hafi beðið einstaklinga um að biðja fyrirtæki og einstaklinga um styrki!
Þar af leiðandi hafi hann ekki komið nálægt málinu!
Bara heimspekingurinn og gullpenninn Eggert Skúlason gæti orðað þetta svo snilldarlega!!!
Og í Landsbankanum á Sigurjón Þ. Árnason að hafa tekið upp tékkheftið fyrir orð Guðlaugs eða bara einhvers kunningja þingmannsins, ef marka má fréttir, og snarað út 25 milljónum, án þess að ráðgast við kóng né prest og alls ekki bankaráðið.
Ef þetta er rétt, hlýtur það að hafa verið svo hversdagslegt að láta 25 milljónir renna til flokksins að það hafi ekki þurft að ræða það! Varla getur það verið?
Var málið ekki nefnt við framkvæmdastjóra flokksins og þáverandi varaformann bankaráðsins? Segjum að Sigurjón hafi tekið ákvörðunina einn. Af hverju ekki að segja Kjartani frá gleðifréttunum svo mjög sem þær vörðuðu hans störf- á tveimur vígstöðvum? Sérkennilegt í meira lagi, en ég hef ekki skýringu á því.
Og var ekki rætt við formann bankaráðsins og eiganda Björgólf Guðmundsson? Getur verið að bankastjóri taki einn svo pólitískt eldfima ákvörðun án þess að eigendur séu með í ráðum? Því trúi ég ekki.
Að vísu liggur það fyrir að kosningamaskína Guðlaugs Þórs var fyrr en varir komin í vinnu hjá Landsbankanum í heilu lagi og er Sigurjóni Þ. Árnasyni þakkað að hafa séð hvílíkir hæfileikamenn voru þar á ferð í öllu sem varðaði bankarekstur.
Það er á margra vitorði að þetta var í meira lagi umdeilt.
Ef einhver skyldi hafa ætlað að það væri ekki klofningur í Sjálfstæðisflokknum, held ég að öllum vafa hafi nú verið eytt. Mörg þessara atriða eru vissulega óljós og skipting á milli armanna er ekki alltaf svart-hvít og margir vilja vera láta. Meira að segja staða formannsins er stundum óljós.
Eitt er hins vegar víst að núna sést inn í kviku Sjálfstæðisflokksins og gröfturinn vellur út úr skítugu sárinu eftir að þessi Sjálfspillingarflokkur hefur stungið sig holundarsári.
Hugmyndir skipta engu, allra síst Evrópumálin: þetta er nakin valdapólítik þar sem einskis er svifist.
Eins og Guðlaugur Þór aka Eggert Skúlason skrifar: “Ég harma að nafn mitt skuli vera dregið með þessum hætti inn í umræðuna og velti eðlilega fyrir mér hvaða hvatir liggi þar að baki.”
Við líka. Og við bíðum spennt eftir að heyra meira.
miðvikudagur, 8. apríl 2009
Nótt hina löngu hnífa nálgast
Maður þarf að klípa sig í kinnina enn einu sinni til að trúa fréttum frá Íslandi. Sjálfstæðisflokkurinn sótti 25 milljónir í vasa Landsbankans og 30 í vasa FL Group. Tíu mínútum fyrir lokun, það er að segja áður en ný lög tóku gildi.
Nú skilur maður andstöðu Davíðs og Kjartans við að opna bókhaldið. Það var nefnilega ekki aðeins tekið við háum fjárhæðum, það skipti engu máli hvaðan féð kom. Vissulega ekkert athugavert við að Davíð og Kjartan treystu fé frá Landsbankanum, hæg voru jú heimatökin því framkvæmdastjórinn var jafnframt varaformaður bankaráðsins.
En að Geir Haarde skuli hafa dottið í hug að þiggja 30 milljónir frá Jóni Ásgeiri og Hannesi Smárasyni er hreinlega makalaust!
Eru öll kurl komin til grafar eða leynist meiri skítur? Hvað með fyrri ár? Hvað með Kaupþing? Og hvað með hinn helmingaskiptaflokkinn, Framsókn, eitthvað fengu framsóknarmenn fyrir liðlegheitin í einkaavæðingunni – ekki bara Björn Ingi!
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins segir í yfirlýsingu sinnni um að fénu skuli skilað: “Þetta er liður í nauðsynlegu uppgjöri innan flokksins og undirstrikar vilja nýrrar forystu til að ganga hreint til verks í þessum efnum sem öðrum.”
Hér eru stórtíðindi á ferðinni hvort tveggja fjárausturinn og boðuð nótt hinna löngu hnífa.
En um leið og það húmar hægt að kveldi hjá Sjálfstæðisflokknum, verða Samfylkingarmenn að opna sitt bókhald en ef marka má grein fyrrverandi framkvæmdastjóra flokksins á Herðubreið, er ekki að finna slíkar fjárveitingar þar.
Af hverju þá ekki að galopna allt? Af hverju ekki að láta Sjálfstæðismenn sitja uppi með Svarta-Péturinn eða á að láta VG fitna eins og púka á fjósbitanum að venju?
Trúnaður við kjósendur eða FL Group
Samfylkingin er ótrúverðugur stjórnmálaflokkur ef hann stendur fast við ákvörðun Sigrúnar Jónsdóttur, framkvæmdastjóra flokksins um að neita að gefa upp helstu styrktaraðila.
Flokkurinn hefur um árabil barist fyrir gagnsæi í rekstri stjórnmálaflokkanna en þegar á reynir, er búin til “bankaleynd”.
Jóhanna Sigurðardóttir, hefur marg sinnis lagt fram frumvarp á Alþingi um fjármál stjórnmálaflokkanna. Sæmd hennar sem stjórnmálamanns er í veði í þessu máli.
Sigrún Jónsdóttir ber við trúnaði og neitar að svara. Skúli Helgason lætur ekki ná í sig.
Í þessu tilfelli snýst spurningin um trúnað við FL Group.
Í mínum huga er trúnaður við kjósendur mikilvægari.
Samfylkingin verður að svara; ella lítur út sem hann hafi óhreint mjöl í pokahorninu og sé sem stjórnmálaflokkur ósamkvæmur sjálfum sér.
Svör Sigrúnar eru því miður nú þegar blettur á flokknum - hvernig svo sem málið þróast.
PS Enn einu sinni eru nafnlausir hugleysingjar komnir á kreik með rakalausar dylgjur. Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf barist fyrir því að framlög til stjórnmálaflokka séu hulin leynd. Samfylkingin með Jóhönnu Sigurðardóttur í broddi fylkingar hefur barist fyrir því um árabil að aflétta þessari leynd.
Hægt er að saka Sjálfstæðisflokkinn um hræsni með því að þggja stórfé af FL Group vegna óvináttu flokksins og eigendanna en hins vegar er það í takt við annað hjá flokknum.
Það er hins vegar stílbrot hjá Samfylkingunni og ósamkvæmni að neita að gefa upplýsingar um FL Group.
Mér finnst ástæðulaust að prédika skírlífi yfir vændiskonu een ef Samfylking er sú hreina mey sem hún þykist vera ætti hún ekki að hafa neitt að fela. Garnýni huglauss nafnleysingjar um að ég sé taglhnýtingur Kjartans Gunnarssonar er beinlínis hlægileg og vont til þess að vita að Samfylkingarmenn skuli lúta svo lágt í vörnum sínum.
Svona gera menn ekki, og mín spá er sú að Jóhanna Sigurðardóttir sé sammál a mér en ekki huglausum flokksmönnum sínum.
Go Össi! Go!
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra á hrós skilið fyrir að hafa tekið í hnakkadrambið á Karzai, forseta Afganistans með því að krefja hann svara um fréttir the Guardian í síðustu viku um ný kvennakúgunarlög sem hann hafði undirritað.
Guardian vakti fyrst athygli á því í forsíðufrétt að þing Afganistans hefði samþykkt lög sem Karzai hefði síðan undirritað þar sem konur væru skyldaðar til að sænga hjá mönnum sínum hvenær sem karlinum þóknaðist, fengju ekki að fara úr húsi án hans leyfis og svo framvegis.
Guardian skýrði svo frá því á forsíðu daginn eftir að á fundi um málefni Afganistans í Hollandi, hefði Ísland orðið fyrst til að taka málið upp við afganska forsetann og síðan hafi aðrir siglt í kjölfarið.
Pillay, mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna birti harðorða yfirlýsingu og sama gerði Barack Obama, forseti Bandaríkjanna.
Nú ætla ég ekkert að þakka Össuri það sérstaklega að skriðan fór af stað, en engu að síður þykir það tíðindum sæta að það heyrist hljóð úr íslenska horninu á alþjóðlegum fundum, hvað þá þegar heimskunnir ráðamenn á borð við Karzai eru sjálfir viðstaddir.
Málið sýnir fyrst og fremst hvað góður fjölmiðill getur áorkað og the Guardian er svo sannarlega í fremstu röð í heiminum.
Og raunar sýna viðbrögðin hugsanlega að menn á Vesturlöndum eru ekki lengur til í að styðja hvaða harðstjórn sem er í þriðja heiminum, þótt það þjóni ákveðnum hagsmunum og eru fúsari til að hlusta á almenningsálitið en áður var.
Sjálfur spurði ég í pistil á Eyjunni sama dag og Guardian vakti athygli á þessu, hvort við Íslendingar ætluðum að taka þátt í stríði NATO ef gegndarlaus kvennakúgun viðgengist í Afganistan.
Össur Skarphéðinsson hefur nú svarað því að svo er ekki og hafi hann þökk fyrir.
Má ég biðja um meira!
PS Ég var ekki fyrr búinn að skrifa þennan mærðar-óð til Össurar en hann olli mér sárum vonbrigðum. Össur skrifar hér á Eyjuna: "Kaczynski forseti (Póllands) er brosmildur í viðræðu og kann að undirstrika mikilvægi Pólverja á fundum sem þessum. Lítill vexti, en pundið í honum er valdsmannslegt. "
Ég veit að utanríkisráðherra þarf oft að gera meira en gott þykir og oft þarf að hafa uppi innihaldslaust diplómatískt hjal. Pólverjar eru alls góðs maklegir en það er óþarfi að lofa skrattann. Kaczynski-bræður eru illa þokkaðir af öllu almennilegu fólki jafnt heimafyrir sem í Evrópu enda oft kallaðir "the evil twins". Litlir vextir og álíka valdsmannslegt í þeim pundið og í Mini-me úr Austin Powers myndunum.
Að vísu er alveg rétt að forsetinn "kann að undirstrika mikilvægi Pólverja á fundum sem þessum" enda hefur hann til dæmis haldið hverju framfaramálinu á fætur öðru í gíslingu á ESB vettvangi, td. í loftslagsmálum og frammistaða hans í jafnréttismálum er slík að mann grunar helst að hann vilji troða öllum konum í Búrkum.