mánudagur, 23. febrúar 2009

Teflonmann til forystu

Guðlaugur Þór Þórðarson, hefur verið kallaður teflonmaður íslenskra stjórnmála. Á dögunum töldu flestir að hann hefði verið tekinn í landhelgi þegar kona sem unnið hafði fyrir Guðlaug hélt því fram á borgarafundi að ónefndur ráðherra hefði haft í hótunum við sig.

Þetta reyndist vera Ingibjörg Sólrún.

Nú hefur heilbrigðisráðuneytið upplýst að Guðlaugur Þór hafi keypt sérfræðiaðstoð fyrir 24 milljónir utan ráðuneytisins.

Upplýsingar ráðuneytisins eru hins vegar ekki nógu skýrar til þess að hægt sé að meta hvort sumir liðirnir séu eðlilegir.

Inga Dóra Sigfúsdóttir fær þannnig eina og hálfa milljón fyrir að “vinna við mótun, gerð og kynningu á heilsustefnu auk vinnu við gerð frumvarps um Lýðheilsustöð og mótun hugmynda að framtíðarskipulagi málefna Lýðheilsustöðvar, Landlæknis og fleira.”

Hún segist sjálf vera “sérstakur ráðgjafi” heilbrigðisráðherrans fráfarandi, en háður hafði hún gegnt svipuðum störfum fyrir Björn Bjarnason og Friðrik Sophusson og verið aðstoðarmaður Ólafs G. Einarssonar og Davíðs Oddssonar – samkvæmt lífshlaupi hennar sem birt er á netinu.

Þá vekja nokkura milljóna greiðslur til ímyndarhönnuðarins Eggerts Skúlasonar og Þorgríms “tár bros og takkaskór” Þráinssonar vissulega athygli. Eggert hefur marga fjöruna sopið og unnið reglulega fyrir menn á borð við Guðlaug Þór –sem nú lætur almenning borga brúsann.

Þetta er einfaldlega það sem ég kann skil á en það skal enginn segja mér að það verði ekki forvitnilegt fyrir þá örfáu blaðamenn sem enn eru við störf á Íslandi að kíkja betur á þessar færslur. Eggert Skúlason væri áreiðanlega sammála mér um að fréttanefið segir manni að það sé skítalykt af málinu. Allt kann að eiga sér eðlilegar skýringar, en reynslan kennir manni að það er líklegt að það sé maðkur í mysunni.

Guðlaugur er teflon maður en það safnast í sarpinn. Margir furðuðu sig á því hve mörgum stuðningsmönnum Guðlaugs Þórs var raðað á Landsbanka-jötuna og skal fremstan nefna Björn Ársæl Pétursson kosningasmala hans sem gerði garðinn frægan fyrir Landsbankann í Hong Kong, fékk digran starfslokasamning hjá gamla Landsbankanum og fór svo að vinna hjá hinum nýja!

. Sigurjón Árnason Ice-save meistarinn mikli naut sjálfur starfskrafta Guðlaugs Þórs á sínum tíma í Búnaðarbankanum og hlýtur að hafa verið ánægður fyrst hann réð kosningamaskínuna í heilu lagi til Landsbankans.

Og svona bye the way: Eru allir búnir að gleyma laxveiðiferðinni sem Guðlaugi Þór var boðið í á vegum Baugs þegar samningar um REI voru í aðsigi?



Guðlaugur hlýtur að sýna fram á að hann hafi endurgreitt Hauk Leóssyni ferðina. Sennilega er Sjálfstæðismönnum alveg sama. Þeim er meira að segja sama um að hafa sett íslensku þjóðina á hausinn á átján ára valdaferli, þannig að smáspilling í kringum einn ráðherra, er eins og að stökkva vatni á gæs.

Andstæðingar Sjálfstæðismanna hljóta hins vegar að telja hann draumaandstæðing í forystu Sjálfstæðisflokksins því teflon-maðurinn þarf að gera verulega hreint fyrir sínum dyrum, ef hann ætlar að losa sig við vafasaman stimpil.

Andstæðingarnir ættu ekki að segja múkk og láta andstæðinginn einan um að gera mistökin -að hætti Napóleons. Guðlaugur Þór virðist hafa lík í lestinni.

Verst að hann getur ekki lengur borgað Eggert Skúlasyni úr ríkiskassanum fyrir að hvítþvo ímyndina.

sunnudagur, 22. febrúar 2009

Hjá D-lista er hrunið gleymt

Er ekki Sjálfstæðisflokkurinn magnaður flokkur Hér er sýnishorn af því sem stjórnmálskýrendur eru almennt sammála um að sé höfuð ágreiningurinn innan flokksins akkúrat nú þegar Ísland glímir við gjaldþrot eftir 18 ára stjórnarsetu flokksins:

Björn Bjarnason, hinn mikli hugmyndafræðingur flokksins upplýsir þegar hann er á leið út úr stjórnmálum hið mikla deilumál hans og áskoranda hans í prófkjöri, Guðlaugs Þórs Þórðarsonar :

“Guðlaugur Þór hafði betur í þeim slag. Ég hef aldrei, hvorki fyrr né síðar, vitað eins mikið á sig lagt við að ná sæti á lista”

Íslenskir blaðamenn og stjórnmálskýrendur halda varla vatni af fögnuði yfir þessu frábærlega merku tíðindum og þessari djúpu skýringu.

Enginn nennti auðvitað að segja enn eina ferðina frá næsta bút í reiðilestri þess geðversta stjórnmálamanni sem Ísland hefur átt (hann er sér ekki föðurbetrungur, merkilegt nokk):

“Síðan gerðist það daginn fyrir kjördag 2007, að Jóhannes Jónsson, kaupmaður í Bónus, birti heilsíðumynd af sér í öllum blöðum með hvatningu til sjálfstæðismanna um að strika mig út af framboðslistanum og bar það þann árangur, að í stað þess að verða þriðji þingmaður í Reykjavík suður varð ég sjötti þingmaður, en Illugi Gunnarsson færðist upp og varð þriðji þingmaður kjördæmisins.”

Vá, ekkert smá!

Illugi fékk sitt sæti fyrir tilstilli Jóa í Bónus. Oh my God!

Æ já, Engeyjarættin er í framboði, ég var alveg búinn að gleyma því!

En svona af því ég hélt að það væri pólitísk umræða til innan Sjálfstæðisflokksins þá sá ég svar gullpennans Gulla Þórs:


"Björn Bjarnason segir á bloggsíðu sinni að engin hafi lagt meira á sig til að vinna prófkjör en undirritaður. Það er skemmst frá því að segja að ég hef alltaf lagt mjög mikið á mig í mínu pólitíska starfi. Ég hef iðulega þurft að hafa fyrir hlutunum og ég tel það vera hollt fyrir alla að vinna þannig. Bæði í kosningum og einnig í þeim embættum sem að mér hefur verið treyst fyrir hef ég lagt mig allann fram. Ég lofa því að gera það áfram.
Það prófkjör sem að Björn vísar til er þó ekki það erfiðasta eða mest krefjandi sem ég hef tekið þátt í."


Go Gulli go, yes yes yes

En þvílík dýpt? Þvílík greining á hruni Íslands undir forystu D listans í 18 árr!

Er það ekki yndislegt að Sjálfstæðismenn eigi kost á að greiða atkvæði um hvort Gulli hafi lagt meira á sig í þessari prófkjörsbaráttu en annari??

Auðvitað skiptir það engu máli að Gulli Þor var í pólitísku bandalagi við Sigurjón Árnason og setti alla kosningavél sína inn í Landsbankann, Björn Ársæll fékk feitasta dj0bbið í Hong Kong án nokkurar reynslu (og feitasta starfslokasamninginn- plús hann er enn hjá bakanum!),og Þórlindur Kjartansson fyrrverandi kórstjóri útrásar hjá fréttablaðinu, fór þangað að ógleymdum Borgari stjúpsyni GHH.

Auðvitað er það ekkert mál hjá Sjálfstæðisflokknum að hugmyndafræði D-listans hafi verið á baki hrunsins, forystumennirnir verið við völd og einkavinunum seldir bankarnir í helmingafélagi við framsókn?

Allt aukaatriði.

miðvikudagur, 18. febrúar 2009

Obama og Brown, Gore, Ban og Björk!

Hvarvetna í heiminum, hvort heldur sem er í Bandaríkjunum eða í Frakklandi, Kína eða Kóreu leita stjórnvöld leiða til þess að blása nýju lífi í kreppuhrjáð efnahagslífið. Athygli vekur að meira að segja nú þegar verulega kreppir að, þykir víðast hvar sjálfsagt að leita ýmiss konar grænna lausna.

Lítið hefur farið fyrir slíkri umræðu á Íslandi, þótt "grænn" flokkur, vinstri-grænir hafi nýlega sest í ríkisstjórn Íslands í fyrsta skipti. Aukin umsvif ríkisins eru ekki á dagskrá á Íslandi, heldur greiðsla skulda og niðurskurður á ýmsum sviðum. Hins vegar liggur fyrir að þessu mál komast á dagskrá hér á landi í næstu viku þegar efnt verður til ráðstefnu um þessi mál á vettvangi norræns samstarfs.
´
Á dögunum var mér falið í starfi mínu á vegum Sameinuðu þjóðanna að fá birta grein eftir þá Ban Ki-moon, framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna og Al Gore, fyrrverandi varaforseta Bandaríkjanna og friðarverðlaunahafa Nóbels í fjölmiðlum á Norðurlöndum.

Þar segir meðal annars:

"Þessum efnahagshvata, auk álíka frumkvæðis annara ríkja, ber að verja til þess að færa hagkerfi heimsins inn í 21. öldina í stað þess að berja í bresti deyjandi iðngreina og úreltra ósiða gærdagsins.Ef dæla á billjónum dala til að viðhalda framleiðslu sem byggist á nýtingu kolefna og niðurgreiðslum til slíkrar framleiðslu, væri rétt eins hægt að setja féð í undirmálslánin á fasteignamarkaði sem voruþúfan sem velti hlassinu í fjármálakreppunni."

Greinin birtist fyrst í Financial Times en að öðru leyti hafði ég frjálsar hendur. Vanalega eru Morgunblaðið og Fréttablaðið beðin um að birta greinar af þessu tagi, á Íslandi en að þessu sinni valdi ég annan fjölmiðil: vefsíðuna www.nattura.info - sem Björk Guðmundsdóttir og félagar hennar settu á stofn síðastliðið sumar.

Ástæðan er einföld: Björk Guðmundsdóttir og náttúru-hreyfingin, náttúra.info hefur að mörgu leyti verið í fararbroddi í baráttu fyrir græna hagkerfinu á Íslandi bæði í orði og í verki. Málflutningur Bjarkar um sprotafyrirtæki og grænar áherslur ríma svo sannarlega vel við málflutning þjóðarleiðtoga á borð við Barack Obama og Gordon Brown að ekki sé minnst á þá "pennavinina" Al Gore og Ban Ki-moon.

Í heimalandi þess síðastnefnda hefur verið ákveðið að verja hvorki meira né minna en þremur prósentum þjóðarframleiðslu til grænna verkefna og í nýjum aðgerðum í Kína er gert ráð fyrir að tvö prósent verði græn.

Í næstu viku hittast forsætisráðherrar Norðurlanda á fundi í Bláa lóninu á ráðstefnu þar sem rætt verður um áhrif kreppunnar á aðgerðir í loftslagsmálum.

Framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna og friðarverðlaunahafinn Al Gore taka mjög ákveðna afstöðu til þessa máls í grein sinni sem lesa má í heild á www.nattura.info:

"Milljónir manna frá Detroit til Dehli lifa nú erfiða tíma. Fjölskyldur hafa tapað störfum sínum, heimilum, sjúkratryggingum og jafnvel voninni um næstu máltíð. Þegar svo mikið er í veði verða ríkisstjórnir að vera vandfýsnar á úrræði. Við verðum að sjá skóginn fyrir trjánum og fórna ekki langtímahagsmunum á altari skyndilausna. Fjárfestingar í grænu hagkerfi eru ekki dýr kostur. Þær eru skynsamleg fjárfesting í réttlátari framtíð allsnægta."

Það er vissulega hægt að færa fram umhverfisvæn rök bæði með og móti byggingu álvera og virkjana á Íslandi. Spurningin er hins vegar hvort það sé ekki álíka gáfulegt að rífast um álver eins og að rífast um herinn: álverð er í lágmarki og lánsfé til stórframkvæmda liggur ekki á lausu - allra síst ef vafi leikur á því hversu umhverfisvænar framkvæmdirnar eru.

Gef mér von, Jóhanna!

Það hefur löngum tíðkast í pólitík að flokkar og forystumenn eigni sér vinsæl dægurlög. Einkennislag Bills Clintons var þannig Don´t stop thinking about tomorrow með Fleetwood Mac og Ronald Reagan eignaði sér lag Bruce Springsteens Born in the USA. Springsteen brást ókvæða við enda textinn svo sannarlega ekki í anda Reagans, ef einhver hefði nennt að hlusta á meira en viðlagið og litið framhjá hræðilegu ameríska-gallabuxna umslagi plötunnar.

Springsteen hefur túrað eins og brjálaður maður fyrir demókrata síðan og meðal annars lánað þeim annað lag af sömu plötu No surrender.

Nú dytti kannski einhverju kvikindinu í hug að leggja til að íslenskir flokkar tækju upp enn eitt lagið af þessum disk: I´m going down en ekki ég, jafn jákvæður og uppbyggilegur, lítilátur, ljúfur og kátur og ég er. Allavega á miðvikudögum.

Jakob Smári Magnússon, bassaleikari birtir á ágætri bloggsíðu sinni þennan link. http://www.youtube.com/watch?v=bNNfAuMq-M0

Nú getur vel verið að nú á dögum heilagrar Jóhönnu í stjórnarráðinu séu allir á Íslandi að hlusta á reggíkónginn Eddy Grant sem gerði I don´t wanna dance og Electric avenue en líka þennan fína smell: Gimme hope Joanna.

Og textinn byrjar jú á setningunni “Well, Joanna runs a country....” en þar með er það búið því Joanna lagsins er uppnefni á Jóhannesarborg eða Suður-Afríku apartheidstefnunnar.

En fyrst að hægt var að breyta ástralska laginu Waltzing Mathilda í Ísland úr NATO herinn burt, ættu orðhagir Samfylkingarmenn að geta búið til almennilegt baráttulag upp úr þessum baráttuslagara Eddie Grants fyrir flokkinn í næstu kosningum!

Eða er það ekki það sem við ætlumst til af okkar eigin heilögu Jóhönnu að hún gefi okkur von? Er ekki tími hennar (vonarinnar) kominn?!

Gerir Hallgrímur Helgason það á afmælisdegi sínum (til hamingju!), Róbert Marshall eða nýliðinn Sigmundur Ernir?

Auðvitað má ekki ganga of langt í að heimfæra erlenda texta yfir á íslenska pólitík. Ég reyndi einu sinni í ræðu að leggja útaf Hallelúja Leonards Cohens til að tala um Davíð Oddsson: “I heard there was a secret chord, that David played and it pleased the lord, but you don´t really care for music do you?”

Ég man ekki hvernig í dauðanum ég reyndi að heimfæra þetta upp á pólitíkina enda roðna ég af skömm þegar ég hugsa til þeirrar ræðu!

Ekki frekar en ég held að það sé vænlegt að heimfæra óð Cohens um Jóhönnu af Örk upp á okkar heilögu Jóhönnu: “She said, Im tired of the war/I want the kind of work I had before.” Nema einhver vilji Jóhönnu aftur í flugfreyjuna?

sunnudagur, 15. febrúar 2009

Tími Jóns Baldvins er liðinn

Það er dapurlegt að fylgjast með skylmingum Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Jóns Baldvins Hannibalssonar. Krafa Jóns Baldvins um að Ingibjörg víkji er um margt eðlileg að því leyti að formaður Samfylkingarinnar var í forystusveit ríkisstjórnar sem var steinsofandi á verðinum þegar Ísland fór á hausinn.

Rétt er hjá Birni Bjarnasyni að tabú hefur verið rofið – frammistaða Ingibjargar Sólrúnar hefur ekki verið til umræðu innan Samfylkingarinnar vegna veikinda hennar.

Þáttaka hennar í fundum með Sigurði Einarssyni í Kaupmannahöfn nægir ein út af fyrir sig til að hún skipi sér framarlega í flokk með klappstýrum útrásarinnar. Vissulega er ekki ægt að jafna því saman við forsetann sem taldi Íslendinga tuttugustu og fyrsta aldar jafnoka Feneyinga og Flórensbúa endurreisnarinnar og gaf í skyn að stökkbreyting hefði orðið á mannkyninu þegar íslenski útrásarvíkingurinn leit dagsins ljós.

Margt má finna að málflutningi Björgvins G. Sigurðssonar sem einn manna á Íslandi utan Bessastaða telur helstu fjölmiðla heims hafa rangt eftir forsetanum. Hins vegar er honum mikil vorkunn sem bankamálaráðherra þegar í ljós kom að formaðurinn hélt honum skipulega utan við ákvarðanatöku í bankamálum til að þóknast duttlungum Davíðs Oddssonar.

Viðbrögð hennar við upphlaupi Jóns Baldvins fólu í sér dómgreindarleysi. Það eru engin rök að Jón Baldvin hafi ekki viljað eiga líf vinstristjórnar undir duttlungum Hjörleifs Guttormssonar og gengið í eina sæng með Sjálfstæðisflokknum fyrir átján árum. Þarf að blanda Davíð inn í þetta mál? Og er það trúverðugt að kona sem notaði fyrsta tækifæri eftir að hún varð formaður til að setjast í stjórn með íhaldinu, gagnrýni Jón Baldvin fyrir það sama?

Formaðurinn virðist hafa Davíð Oddsson næstum því jafn mikið á heilanum og Hannes Hólmstein hefur þá Þorstein heitinn og Þorvald Gylfasyni. Hannes réðist ítrekað á bræðurna í ævisögu Jóns Þorlákssonar sem var látinn áður en bræðurnir fæddust.

Sannleikurinn er sá að Ingibjörg Sólrún hefur valdið mörgum aðdáendum sínum sárum vonbrigðum og fylli ég þann fjölmenna flokk. Hún skyldi ekkert eftir í utanríkisráðuneytinu að því er séð verður nema bætt samskipti við Sýrland og bestu vinkonu sína Kristínu Á. Árnadóttur, sendiherra og yfirráðuneytisstjóra.

Og víkur þá sögunni að Jóni Baldvin á ný. Ég var um langt árabil mikill aðdáandi Jóns Baldvins, jafnt pólitískt sem persónulega. Og er enn. Ég tel hann enn að mörgu leyti til merkustu stjórnmálamanna síðari ára. Því er hins vegar ekki að leyna að það sem gerir Jón svo heillandi sem persónuleika er að hann er breyskt ólíkindatól og einfari að hætti kattarins.

Ég taldi hann brenna allar brýr að baki sér með því að gerast sendiherra í Washington. Hann átti nóg eftir, en kaus hið ljúfa líf sendiherrastarfsins fram yfir þrældóminn í stjórnarandstöðu á Alþingi.

Því miður, þvi þarna kastaði Jón að mínu mati tengingunum, og það verður tæpast aftur snúið.
Allra síst vegna þess að tímasetningin á margboðaðri endurkomu hans í pólitík er vægast sagt mjög undarleg. Hvers vegna nú?

Og finnst engum holur hljómur í stuðningi Jóns við Jóhönnu Sigurðardóttur í ljósi sögunnar? Styður Jón virkilega konu sem hann sagði þröngsýna fyrir örfáum vikum?

Það er að vísu óréttlátt að nota kosningaúrslitin 1995 gegn Jóni Baldvin eins og gert hefur verið að undanförnu því þá bauð Þjóðvaki Jóhönnu fram. En klofningur Alþýðuflokksins var hins vegar blettur á ferli Jóns Baldvins. Gallinn við formennskutíð Jóns var hve einráður og hrokafullur hann var.

Það var ógæfa flokksins að honum skyldi ekki auðnast að vinna bæði með Jóni Sigurðssyni og Jóhönnu Sigurðardóttur. Og sannast sagna er ofrdramb það orð sem fyrst kemur upp í hugann þegar formannstíð Jóns Baldvins er rifjuð upp. Það var heldur ekki stórmannlegt að fara í fýlu eftir tap í kosningum og stinga af í feitt embætti frá flokki í sárum.

Allt þetta hefur maður fyrirgefið Jóni Baldvin, sökum þess hve gáfaður og skemmtilegur hann er, en hvort það þýði að hann geti afmáð fortíðina, þegar honum sýnist , er allt annar handleggur.

Kolfinna dóttir Jóns Baldvins fullyrti í athugasemd við skrif mín hér á Eyjunni á dögunum að karl faðir hennar hefði aldrei sagt orðin “allt fyrir ekkert” um EES samninginn. Þar að auki hefði Jón Baldvin verið orðinn fylgjandi ESB aðild áður en blekkið var þornað á pappírnum

Segjum sem svo að Kolfinna hafi rétt fyrir sér. Og ég held að hún hafi það sumpart. Andstæðingarnir hljóta að spyrja: hvers vegna leyndi Jón Baldvin þing og þjóð þeirri skoðun sinni? Röksemdir Jóns og Sjálfstæðismanna um ágæti EES samningsins hvort sem hann notaði akkúrat þessi orð eða ekki, eru í rauninn myllusteinn um háls ESB sinna, enn þann dag í dag. Sannleikurinn er nefnilega sá að EES samningurinn var algjörlega galið framsal á fullveldi Íslands, hvað sem líður makalausi lögfræðiáliti sem Jón Baldvin knúði fram. En sleppum því í bili.

Jón Baldvin kom nýr og betri maður heim frá Bandaríkjunum. Það var hrein unun að hlýða á skarpa og málefnalega gagnrýni hans á bandarískt samfélag og nýja trú hans á norrænu velferðarkerfi.

Batnandi er manni best að lifa en það hefði verið enn betra ef Jón Baldvin hefði sleppt því að siga Sighvati Björgvinssyni eins og óðum hundi á heilbrigðis-og tryggingakerfið í Davíðsstjórninnni. Og það er eiginlega bara fyndið að hugsa til þess að nú skipi Olof Palme og sænsku kratarnir toppinn á vinsældalista Jóns Baldvins. Alla vega þessi misserin. Man einhver uppákomuna á Norðurlandráðsþingi í Þjóðleikhúsinu?

Og Jón Baldvin er því miður ekki laus við að spillingarstimpil. Sleppum afmælinu fræga en hvað kom hann mörgum vinum sínum á ríkisjötuna? Karl Steinar i Tryggingastofnun; Sighvat sem bæði er andsnúinn þróun og samvinnu í Þróunarsamvinnustofnun, Jón Sigurðsson í Seðlabankann, Eið Guðnason í sendiherrastöðu, Kobbi Magg hingað og þangað. -ég nenni ekki að reyna að muna þetta allt. .

Davíð tók upp merki Jóns Baldvins og skipaði enn fleiri vini sína sendiherra. Og hann hafði frítt spil því hann var búinn að leyfa helstu pólitísku andstæðingum sínum að snæða af allsnægtaborðinu. Þeir skiptu með sér kökunni: bæði Jón Baldvin, formaður Alþýðuflokksins og varaformaðurinn Guðmundur Árni fengu róleg vel launuð innidjobb og meira að segja Svavar Gestsson líka.

Voru þetta trúverðugir siðbótarmenn?

Það er alveg rétt hjá Jóni Baldvin að öldungar á borð við Adenauer og De Gaulle lyftu grettistaki á gamals aldri. En það voru líka menn á borð við Tsjernenkó og Andropov sem komust háladraðitir l valda og töfðu fyrir framförum.

Jón Baldvin Hannibalsson er með þvi allra besta sem gamla Ísland státaði af. En hann er samt gamla Ísland.

Hans tími er liðinn.

Það er kominn tími til kynslóðaskipta í Samfylkingunni eins og í íslensku samfélagi.

fimmtudagur, 12. febrúar 2009

Löðrandi af plebbaskap

Bretar taka rökræður um stjórnmál mjög alvarlega þótt siðferði þeirra sé oft og tiðum oftmetið hér á Íslandim tja allavega þangað til nýlega. Umræðurnar í neðri deild breska þingsins eru að minnsta kosti með þeim kröftugustu sem dæmi eru um í heiminum.

David Cameron, formaður Íhaldsmanna, náði þannig hreðjataki á Gordon Brown, forsætisráðherra á dögunum þegar hann sýndi fram á að “Íslandsvinurinn” hefði gert sig sekan um hrikaleg töluleg mistök með því að fullyrða í þingræðu að ítalski málarinn Titian hafði látist níræður að aldri.

Cameron svaraði fullum hálsi og sagði að endurreisnarmálarann Titian hafa látist 86 ára að aldri á öndverðri sextándu öld og færðu sönnur á það í snjöllu máli að augljóslega væri Gordon Brown þar af leiðandi ófær um að veita bresku þjóðinni forystu.

Sannleikurinn ku víst vera sá að ekki er vitað fyrir víst hvort Titian var 86, 88 eða 90 ára gamall en í þessu samhengi skiptir það ekki máli.

Nú held ég að aldur ítalskra málara yrði seint umræðuefni á Alþingi Íslendinga þótt aðalumræði þingsins sé ævinlega aukaatriði.

Breskir blaðamenn eru hins vegar þannig skapi farnir að þeir hafa tilhneigingu til að kanna hvort ráðamenn fari með staðlausa stafi eða staðreyndir þannig að þeir leituðu upplýsinga á netinu um fæðingardag málarans góðkunna.

Og viti menn! Í ljós kom að Brown hafði rangt fyrir sér því Titian var ekki níræður þegar hann lést samkvæmt upplýsingum á Wikipedia. En það kom á daginn að færslunni á almenningsræðibókinni hafði verið breytt skömmu eftir umræðuna. Hinir dugmiklu bresku blaðamenn létu ekki deigan síga heldur könnuðu hver hefði breytt þvi allar færslur á netinu skilja að öllu jöfnu eftir sig ákveðna slóð eða IP heimilisfang.

Í ljós kom að IP-ið var á skrifstofu breska íhaldsflokksins!

Það rifjaðist upp fyrir mér að stundum þegar ég blogga hér á eyjunni þá finnst mér ég kannast við orðalag sumra nafnleysingjanna sem ausa yfir mann svívirðingum í hvert skipti sem maður tjáir sig.

Sérstaklega fannst mér á dögunum ég kannast við orðalagið “löðrandi af plebbaskap” þar sem ég var sakaður um að búa yfir flestum mannlegum löstum, af litlu eða engu tilefni. Nú spyr spyr ég eins og gert var daglegu máli í útvarpinu i gamla daga: "kannist þið við orðalagið löðrandi af plebbaskap" i ykkar sveit?

Nei fæst ykkar gera það vafalaust, en ég og ýmsir gamlir vinir og kunningjar kannast vel við þetta orðalag! Ef tileinkanir á ættarskjöldum væru enn við líði, væru þessi orð alveg örugglega viðkvæði fjölskyldu ágæts manns í Vesturbænum.

Það er auvðelt að rekja hver hann er. Ekki að ég nenni því enda ekki langrækinn að eðlisfari. Hins vegar getur hver sæmilega netlæs maður sem er. gert það. Því eins og kom á daginn með bresku íhaldsmennina sem lagfærðu alfræðiorðabókina þá er það þannig að það fylgir nefnilega IP tala með í athugasemdum á netinu. Bestu kveðjur vestur í bæ, Árni

miðvikudagur, 11. febrúar 2009

Geðvonska og gáfur: verkleg æfing

Margrét Hugrún Gustavsdóttir, einn skemmtilegasti penni okkar Eyjarskeggja punktur is, bloggaði á dögunum um að það að í hennar ungdæmi hefðu menn þótt því gáfaðri sem þeir voru alvarlegri og fúllyndari.

Margrét Hugrún hlyti að hafa kiknað í hnjánum á sínum sokkabaandsárum við að hitta hinn geðstirða fyrrverandi dómsmálaráðherra okkar Íslendinga því sjaldan hefur ásjóna nokkurs manns borið jafn rækilegt merki þess hve alvara heimsins hvíli þungt á honum.

Hins vegar fyllist ég efasemdum um að það sé gáfnamerki að alvara heimsins móti skapgerðina jafn augljóslega og hjá Birni Bjarnasyni við nýlegan pistil á heimasíðu hans.

Björn heldur því fram í pistlinum að Jón Baldvin Hannibalsson skreyti sig með stolnum fjöðrum með því að eigna sér heiðurinn af EES – samningnum. Björn skrifar: “Jón Baldvin kennir Sjálfstæðisflokknum um það, sem hann kallar „skuldafangelsi“ þjóðarinnar eftir bankahrunið, um leið og hann segir forystu um samningana um evrópska efnahagssvæðið hafa verið hjá honum, sjálfum Jóni Baldvini, en ekki sjálfstæðismönnum.. “

Og svo:

“Sé einhverri einni pólitískri stórákvörðun um að kenna, þegar litið er til bankahrunsins, er það aðildin að evrópska efnahagssvæðinu...”

Það var og.

Ég fæ ekki betur séð en að Björn hafi mætt í játningartímann hjá lögreglunni sem Davíð Oddsson og Matthildingar gerðu grín að hér um árið og játar á sig glæpinn - óumbeðinn- um að hafa komið íslensku þjóðinni á hausinn með fyrirhyggjuleysi sínu.

Enginn, nema Sjálfstæðismenn sjálfir, hafa þakkað þeim EES samninginn. Þeir snérust í hringi í Evrópumálunum eins og Davíð Oddsson sem var jákvæður ESB áður en hann varð formaður en snérist öndverðir gegn bandalaginu og sagði evruna álíka merkilega og gjaldmiðla Kúbu og Norður-Kóreu!

Þeir drógu lengst af lappirnar en börðust síðan fyrir samningnum og hafa síðan talið hann til helstu afreka sinna. Frammistaða þeirra minnir einan helst á John Kerry sem greiddi atkvæði samdægurs með og móti stríðinu í Írak eins og frægt varð.

Það er dæmigert fyrir ístöðuleysi og hentistefnu Björns og félaga hans að í örstuttum bloggpistli móðgast hann fyrst út í Jón Baldvin fyrir að hann eigni sér EES en fyllist síðan Þórðarlgeði yfir því að Ice Save og þjóðargjaldþrotið hafi verið EES og þarmeð Jóni Baldvin að kenna!

Lýsing hans á ríkisstjórn Geirs Haarde þar sem Björn sjálfur sat sem dómsmálaráðherra er svo á þessa leið: “Undir forystu utanríkisráðherra Samfylkingarinnar hefur verið lögð höfuðáhersla á að styggja ekki Evrópusambandið með lögfræðilegum ágreiningi eftir bankahrunið.”

Aumingja Björn og Geir að láta utanríkisráðherrann stjórna sér með þessum hætti í miðri heilaskurðaðgerð erlendis! Hvað skyldi hún hafa gert ef hún hefði verið heil heilsu? Værum við gengin í UNIFEM?

Hvað á Björn við með að Sjálfstæðismenn hafi verið kúgaðir af Ingibjörgu Sólrúnu til að borga Ice Save reikningana? Geir Haarde var forsætisráðherra og stjórnaði því máli algjörlega, eins og alþjóð veit í nánu samstarfi við ma. Björn.

Enn talar Björn um þvinganir “frá Brussel vegna Icesave-reikninganna.” Þetta er viljandi loðið og misvísandi orðalag eins og títt er hjá Birni. Sannleikurinn er sá að ekki er hægt að kenna framkvæmdastjórninni í Brussel um óbilgirni Breta. Mörg aðildarríki Evrópusambandsins með norrænu ESB ríkin og Frakka í broddi fylkingar vildu koma til móts við Íslendinga en fyrst og fremst Bretar og Hollendingar heimtuðu blóð.

Það hefði þeim aldrei komið til hugar eða minnsta kosti ekki tekist ef Ísland hefði gengið í Evrópusambandið eins og Davíð Oddsson vildi hér um árið. Það vildi Jón Baldvin ekki fyrr en hann var búinn að selja Íslendingum EES með þeim orðum að þar fengjum við allt fyrir ekkert. Þar skaut Jón Baldvin sig heldur betur í fótinn og það er rétt hjá Birni að eftir þetta hefur alltaf verið “falskur tónn” þegar JBH talar um ESB.

Jón Baldvin og Björn Bjarna mega rífast eins og þeim sýnist um hverjir eigi EES. Sá samningur var nefnilega ekki "allt" heldur “ekkert” – einskis virði – þegar ógæfan reið yfir því að við vorum ekki aðilar að því pólitíska og efnahagslega varnarbandalagi sem Evrópusambandið er.

Þjóðir eða að minnsta kosti stórveldi eiga sér ekki vini heldur aðeins hagsmuni. Bretar höfðu enga hagsmuni af því að koma fram af sanngirni við Íslendinga og þar sem við höfum margoft afþakkað bandalag við þá og aðrar vinaþjóðir á vettvangi ESB, fór sem fór. Við áttum ekkert skjól.

Jón Baldvin má eiga það að hann sá að sér en Björn Bjarnason ber enn hausnum við steininn. Nýjast er að nokkrum vikum eftir að formaður hans hafði forystu um Ice save-samningana vill hann ekki borga “skuldir óreiðumannanna” sem hann og Davíð Oddsson seldu Landsbankann fyrir slikk.

Úr því sem komið er það eins og að stinga upp á sjóránum að hætti Sómala sem helsta atvinnuvegi Íslendinga.

þriðjudagur, 10. febrúar 2009

Blaðrað og beðið eftir Dalai Lama

Alveg er það merkilegt að í hvert skipti sem forseti Íslands veitir viðtal við erlendan fjölmiðil virðist vera vitlaust haft eftir honum. Nú hefur hann valdið miklu írafári í Þýskalandi með því að tjá sig um málefni sem hann ætti ekki að tjá sig um: uppgjör reikninga íslensku bankanna.
Flest bendir til þess að forsetinn hafi ruglað saman stöðu reikninga Kaupþings og Ice Save reikninganna.

Lengi vel vorum við svo heppinn að varla nokkur erlendur fjölmiðlar maður nennti að tala við Ólaf Ragnar og dæmi voru um að blaðamenn myndu ekki örskömmu síðar hvort þeir hefðu talað við hann, að hætti Söru fyrrverandi varaforsetaefnis Palin.

Vel kann að vera að pottur sé brotinn í því hvernig forsetinn ræðir við erlenda fjölmiðla og hvernig embætti hans fylgir viðtölum eftir við stórvarasama fjölmiðla á borð við Financial Times og BBC. Ef rangt er haft eftir forsetanum hlýtur að vera til upptaka og ef ekki er til upptaka er hreinlega eitthvað að.

Þetta er þó ekki aðalatriðið: Ólafur Ragnar tjáir sig um hvaða einasta málefni sem er án nokkurra fyrirvara. Hann bendir aldrei á við erlenda blaðamenn að hann hafi lítil sem engin áhrif og reynir að hirða heiðurinn af öllu því sem gott hefur verið gert á Íslandi og stundum í heiminum öllum.

Þegar hann var í Eystrasaltsríkjunum hér um árið reyndi hann að eigna sér heiðurinn af stuðningi Íslands við sjálfstæðisbaráttu þeirra, heimamönnum til mikillar undrunar og kunnara er en frá þurfi að segja hvernig hann hefur reynt að þakka sér útbreiðslu endurnýjanlegra orku á Íslandi.

Þá var hann með stóryrtar yfirlýsingar um Samúræja bréfin við japanska fréttamenn á dögunum. Enn skýrði hann ísraelskum blaðamanni frá því að Íslendingar hefðu lifað af kulda og vosbúð í aldanna rás með því að ganga í loðfeldum. Vafalaust allt rangt haft eftir. Eða slitið úr samhengi.

Það væri hlægilegt að horfa upp á þetta ef þetta kostaði Ísland ekki álitsmissi og útgjöld.
Látum þátt Dorritar liggja milli hluta en verst er að hún sem lætur alltaf allt flakka, skuli hafa gleymt að segja okkur (og sennilega manninum sínum líka) frá því að bankarnir og Ísland hafi verið að leiðinni á hausinn. Hún hafði allnokkur tækifæri til þess í boðunum á Bessó og vaflaust myndu Siggi Einars, Jón Ásgeir og Bjöggarnir spyrja hana hverju þögn hennar hefði sætt, en þeim er víst ekki boðið þangað lengur. Þar sötrar nú Hörður Torfason sitt te og mótmælir engu.

Nú er von á Dalai Lama og margir gera því skóna að Ólafur Ragnar finni sér afsökun til að hitta hann ekki. Það væri hins vegar algjörlega úr takti við alla starfshætti forseta lýðveldisins.
Hann mun smygla sér fremst í Dalai Lama-gönguna eins og allar aðrar og sanniði til hann muna láta sem hann hafi ekki gert annað en að andmæli ofríki Kínverja í Tíbet.

Mér segir svo hugur að verk Dalai Lama taki nú sess Mao Tse Tung "Samlede værker" í bókaskápnum á Bessó – einmitt þar sem myndavélarnar ná best til.

mánudagur, 9. febrúar 2009

VG og arfleifð Einars Olgeirssonar

Þegar Alþýðubandalagið splundraðist og helmingurinn gekk í Samfylkinguna, varð hinn helmingurinn eftir og skipti út rauða fánanum fyrir grænan. Vinstri-grænir eru arftakar Sósíalistaflokksins og Alþýðubandalagsins í íslenskum stjórnmálum, enda eru menn á borð við Svavar Gestsson, Hjörleif Guttormsson, Ragnar Arnalds, að ógleymdum sjálfum Steingrimi J., innstu koppar í búri.

Í þessu ljósi verður að skoða andstöðu þeirra við Evrópusambandið sem er svo sannarlega ekki græn og varla rauð heldur, heldur fyrst og fremst byggð á ofsafenginni helblárri þjóðerrnishyggju Einars Olgeirssonar.

Allt frá því á fjórða áratugnum voru stjórnarherrar sakaðir um landsölu og landráð við hvert tækifæri, hvort heldur sem var í hermálinu, landhelgismálinu, álmálinu og siðan i Evrópumálunum.

Inngangan i Nato var landráð, samningar við Breta voru landráð, álverið í Straumsvík var landsala líka að ekki sé talað um aðildina að EFTA og síðar EES. Það er út af fyrir sig athyglisvert að járnblendið á Grundartanga þótti af hinu góða því þar vélaði um hið norska Elkem.

Sósíalistum og meðreiðarsveinum þeirra á borð við Ragnar Arnalds tókst ótrúlega vel upp í því að láta umræðuna fara fram á sínum eigin forsendum, það er að segja á forsendum ofsafenginnar þjóðernishyggju með lítt dulbúnu útlendingahatri.

Og það var auðvitað skiljanlegt útfrá sögu þjóðarinnar að þjóðernishyggja ætti upp á pallborðið. Það þurfti ekki mikla hvatingu til að Ólafur Thors og Bjarni Ben útilokuðu þátttöku svartra hermanna í vernarliðinu, svo fátt eitt sé nefnt.

Hafa ber í huga að Ísland hafði aðeins verið sjálfstætt ríki í rúman áratug þegar Evrópuþjóðirnar deildu með sér fullveldi yfir auðlindum á borð við kolum og stálframleiðslu með stofnun Efnahagsbandalags Evrópu. Íslendingar voru þá í óðaönn að færa út fiskveiðilögsögu sína – undir gunnfána sjálfstæðisbaráttu og þjóðernishyggju.

En með áróðri sínum tókst sósíalistunum að halda íslensku þjóðinni i heljargreipum þjóðernisstefnunnar og hindra að umræðan þróaðist í takt við tímann. Það er svo kaldhæðnislegt að áróður Máls og menningar, sósíalista og Alþýðubandalagsins var að hluta til fjármagnaður af Sovétmönnum og Austur-Þjóðerjum.

Sósíalistar undir forystu Einars Olgeirssonar gengu svo langt að reyna að sameina kommúnisma og þjóðernishyggju. Valur Ingimundurson, professor sem hefur kannað tengsl íslenskra sósíalista og Austur-Þýskalands gróf fyrir nokkrum árum upp skjöl í Austur-Berlín þar sem samtöl Einars Olgeirssonar og austur-þýskra kommúnista eru rakin. Þar hvatti Einar Austur-Þjóðverjar á að nota sér í áróðri sínum að þeir væru fyrsta “germanska” kommúnistaþjóðin.

“Forsenda þess” sagði Einar Kommúnistaleiðtoganum Karli Mewis árið 1959, “ að germanskar þjóðir sigli í kjölfar (Sovétríkjanna) væri að sósíalískt ríki, Þýska alþýðulýðveldið vísaði veginn.”

Karli Mewis varð ekki um sel og reyndi árangurslaust að benda Einari á að “ Austur-Þjóðverjum væri alls ekki stætt á því að tala um germanskar þjóðir og menningu, þar sem fasisminn hefði valdið þvílíkum skaða með kynþáttakenningu sinni.”

Sósíalistar hófu andróður sinn gegn evrópskri samvinnu löngu áður en málið komst á dagskrá á Íslandi. Þjóðviljinn endurómaði málflutning Neues Deutschland, málgagn austur-þýskra kommunista með því að kalla Efnhagsbandalagið, “Stór-Þýskaland, hið nýja.”

Þegar samningurinn um evrópska efnahagssvæðið var til umræðu voru sósíalistar síður en svo einir i þvi að halda því fram að lederhosen-klæddir (vestur) Þjóðverjar myndu slá eign sinni á sumarbústaðalönd Húnvetninga og spænskir togarar væru að veiða upp í kálgörðum Reyknesinga.

En þegar samningurinn var nánast kominn á koppinn, kvaddi Hjörleifur Guttormssonm, fyrrverandi stúdent í Austur-Þýskalandi sér hljóðs á Alþingi og veifaði norska blaðinu Verdens Gang. Hafði hann það eftir norska götublaðinu að EFTA þjóðirnar ættu ekki aðeins að taka upp alla núverandi löggjöf Evrópusambandsins á innri markaðnum í heilu lagi, heldur einnig alla framtíðarlöggjöf samningsins.

Þetta staðfestu stjórnarherrar og tvíelfdust nú Alþýðubandalagsmennirnir, síðar Vinstri Grænir í andstöðu sinni.

Þeir voru ekki einir um þetta mat því t danski rótttæklingurinn Jens-Peter Bonde líkti EES samningnum við að Ísland og Noregur hafi sjálfviljug gerst nýlenduríki, enda hafi þau ekkert um 75 prósent lögggjafar sinnar að segja. Þetta gerði hann í viðtali 2008!

Jens-Peter Bonde var lengstum í fararbroddi Evrópuandstæðinga i Danmörku. Hann gerði sér síðan ljóst að ESB væri komið til að vera og ef Danir ætluðu að móta eigin framtíð, myndi það best gert með baráttu innan sambandsins fyrir lýðræði, gegnsæi og grænum gildum.


Nú rúmum hálfum öðrum áratug síðar byggja vinstri-grænirr hins vegar Evrópupólítik sína á þessum samningi sem þeir höfðu útmálað sem afsal sjálfstæðis íslensku þjóðarinnar Og gott ef ekki landsölu og landráð.

Það má vissulega færa þjóðernisleg rök gegn EES samningnum: Við höfum lítil sem engin áhrif á EES löggjöf sem hefur þanist út og tekur nú yfir ekki aðeins þfrjórfrelsið heldur einnig til dæmis umhverfisvernd. Við getum ekki einu sinni selt Rússum fisk eða Könum lambakjöt án þess að ESB setji þar lög um.

En það má líka færa fullveldissjónarmið fyrir aðild að Evrópusambandinu. Þar með fengju Íslendingar möguleika til að hafa áhrif á lagasetningu ESB sem nú þegar gildir á Íslandi. Með öðrum orðum að hætta að vera nýlenda og auka sjálfstæði okkar með þvi að deila fullveldi okkar á takmörkuðum sviðum með öðrum þjóðum. Deila fullveldinu sem við nú framseljum eins og það leggur sig.

Vissulega yrðu fiskveiðiheimildir FORMLEGA ákveðnar í ráðherraráði Evrópusambandsins, en hins vegar hafa engar þjóðir tilkall til veiða í íslenskri lögsögu. Yfirráð okkar eru tryggð með sjávarútvegsstefnu ESB sem byggir á hlutfalllslegum stöðugleika.

Ef vinstri-grænir ætla að vera samkvæmir sjálfum sér dugar ekki að vera á móti Evrópusambandinu, þeir hljóta að vera lika andsnúnir EES samningnum.

Er ekki tími til kominn að þeir tali hreint út um þetta mál?

Nú vill Steingrimur J. Sigfússon afhenda Noregi yfirráð yfir gjaldmiðli og peningastefnu Íslendinga. Var einhver að tala um að afhenda sjálfstæðið?

Við hvern hefði Einar Olgeirsson likt honum? Var einhver að tala um landsölu?

PS Vegna athugasemd við færsluna vil ég benda á eftirfarandi:

1. Ég hef ekki grænan grun um umræður innan VG og efast stórlega um að nokkrar umræður um þetta mál fari fram. Ég býst miklu frekar við að VG taki afstöðu eins og íslenskir stjórmálaflokkar almennt með ósjálfræðum viðbrögðum sem hins vegar markast af sögulegum forsendum. Ég reyni að gera grein fyrir þeim í þessum skrifum.

2. Ef Svavar Gestsson studdi stofnun Samfylkingarinnar af heilindum og hefur fremur stutt leiðtoga hennar en Vinstri-grænna þá tók ég þátt í rússnesku byltingunni, samdi Njálu, setti Íslandsmet í hástökki og klauf atómið, Sendi með þessu bestu kveðjur til þin Bjössi!

3. Spurt er um heimildir: Það tíðkast ekki að vera með neðanmálsgreinar á bloggi en þar sem eftir því er kallað er mér ljúft og skylt að geta heimilda. Tilvitnunin er tekin úr ritgerð dr. Vals Ingimundarsonar, prófessors í sagnfræði "Sigrar ungs lýðveldis" í Árni Snævarr og Valur Ingimundarson: Liðsmenn Moskvu, (Reykjavík, 1992) bls. 242.

miðvikudagur, 4. febrúar 2009

Segið Brown að Bretland sé ekki sjálfstætt

Og látið Sarkozy vita að Frakkland hafi ekki verið sjálfstætt í meir en fimmtíu ár og berið sömu boð til Berlínar.

Af einhverjum ástæðum gleymdist nefnilega að segja nærri hálfum milljarði Evrópubúa frá þessu fyrr en Ragnar Arnalds, oddviti íslenskra Evrópu-andstðinga gaf þessa hreinskilnu yfirlýsingu í Morgunblaðinu.

Ragnar var raunar formaður í stjórnmálaflokki sem sakaði andstæðinga sína um að hafa selt landið oftar en tölu verður á komið. Hvernig hægt var að selja það svona oft er mörgum hulin ráðgáta.

En nú er Ragnar kominn í bandalag með einum af "landsölumönnunum", sjálfum Styrmi Gunnarssyni af Morgunblaðinu. Styrmir á meira sameiginlegt með Ragnari og öðrum þjóðernissinnuðum sósíalistum en margur hyggur.

Styrmir var lengi í heilögu stríði gegn sægreifum sem hann sagði að hefðu verið gefnir fiskveiðikvótar sem tilheyrðu þjóðinni.

En nú er Styrmir aftur kominn i heilagt stríð og heldur þvi fram að með inngöngu í Evrópusambandið verði yfirráð yfir fiskveiðiauðlindinni færð útlendingum á silfurfati. En hvernig er hægt að taka kvótana af þjóðinni fyrst það er löngu búið að gefa sægreifunum þá?

En svona er lógík Ragnars og Styrmis: sami hluturinn er seldur og gefinn mörgum sinnum. Er ekki vitlaust gefið í þessu spili?

þriðjudagur, 3. febrúar 2009

Kosning Árna væru skilaboð um ESB

Það eru góð tíðindi að Árni Páll Árnason skuli hafa boðið sig fram til varaformennsku í Samfylkingunni. Það er fyllsta ástæða til þess að efla Evrópusinna innan Samfylkingarinnar enda finnst mér þetta samkrull við VG ekki boða neitt gott fyrir okkur áhugamenn um þátttöku Íslands í þessu pólitíska og efnahagslega varnarbandalagi.

Össur Skarphéðinsson er að mörgu leyti vindhani íslenskra stjórmmála. Hann lyftir fingri og finnur hvaðan áttin er og hagar svo seglum samkvæmt vindi. Aðild að ESB var mál janúarmánaðar hjá Samfylkingunni en jafnskjótt og febrúar rann upp, virtist málið að mestu gleymt. Ein vond skoðanakönnun kom og þá var málið gleymt -- í bili.

Össur var ekki fyrr sestur í utanríkisáðuneytið en hann hóaði í Kristján Guy Burgess, hægri hönd Ólafs Ragnars Grímssonar í klappliði útrásarinnar til að setjast sér við hlið í ráðuneytinu. Össur er allra karla bestur á góðum degi en má illa við vondum félagsskap. Ólafur Ragnar hefur alltaf haft slæm áhrif á Össur.

Kristján Guy Burgess er alls góðs maklegur. Dagsfarsprúður drengur, vel menntaður og vel kvæntur (enda svili Dags Eggertssonar ef mér skjöplast ekki – skyldi þó ekki skipta máli?). En það breytir ekki því ekki að þetta eru vond pólitísk skilaboð.

Þau eru ekki skilaboð til ESB um að nýi utanríkiráðherrann ætli sér að færa okkur nær aðild. Þau eru heldur ekki skilaboð um að Samfylkingin ætli að hafa augun á boltanum en eyða ekki kraftinum í minna verða hluti eins og öryggisráðsframboðið.

Allra síst eru þetta pólitísk skilaboð um að Samfylkingin hafi snúið baki við útrásarvíkingunum og hallelújakór forsetans í eitt skipti fyrir öll með því að efla til áhrifa náinn samstarfsmann Ólafs Ragnars, Björgólfs Thor og Róberts Wessmann.

Kristján Guy er maður áhugasamur um Barbados og Indland en öllu minna á Evrópu eins og fóstrar hans og vinnuveitendur. Síðast þegar fréttist var útflutningur Íslands til Indlands á við þokkalegt einbýlishús í Vesturbænum en útflutningur til Evrópu hundraðfaldur á við Kína.

Það hefur aldrei legið eins mikið á því og núna að koma upp pólitískum og efnahagslegum vörnum eftir þau skakkaföll sem við urðum fyrir með því að reyna að dansa línudans án öryggisnets með allt bankakerfið á herðunum.

Þetta gerir það enn brýnna fyrir Evrópusinna innan Samfylkingarinnar að styðja við bakið á Árna Páli Árnasyni í kjöri til varaformennsku í flokknum. Hann er á kjöraldri og hefur bæði menntun á sviði Evrópumála, reynslu úr pólitík og ekki síst lögmennsku sem kemur að góðum notum.

Bæði Samfylkingin og aðrir flokkar hljóta að viðurkenna hversu dýrkeypt það var Íslendingum að láta til dæmis dýralækna og sagnfræðinga (með fullri virðingu!) halda merki Íslands á lofti í stjórnmálum á alþjóðavettvangi þegar óveðrið skall á.

Emilíana slær í gegn!

Emilíana Torrini hóf tónleikaferð sína um Evrópu og Bandaríkin með tónleikum hér í Brussel. Ég hafði að vísu misst af miðum enda uppselt nánast samstundis á tónleikana í Ancienne Belgique.

En viti menn þar sem ég var á leið heim á leið á laugardagskvöld rakst ég á þann öndvegishöld Sigtrygg Baldursson, trommuleikara úti á götu í Brussel. Bauð hann mér á tónleika Emilíönu og er óhætt að segja að það hafi verið hið besta mál.

Ég hef aldrei séð Emilönu á sviði og var eilítið efins um hvort sumt af lágstemmdara efni hennar, sérsaklega af Fisherman´s woman, kæmist til skila í tiltölulega stórum tónleikasalnum.

Það er skemmst frá því að segja að Emilíana heillaði áhorfendur upp úr skónum. Þessi stórglæsilega söngkona gaf sér góðan tíma til að spjalla við áhorfendur á milli laga (stundum fullgóðan kannski!) og gerði óspart grín að sjálfri sér.

Ef taugaveiklunar gætti stundum í kynningunum þá var flutningurinn oftast nær framúrskarandi, þótt enn eigi eftir að spila söngvara og hljóðfæraleikarana hundrað prósent saman.

Emilíana hefur einstaka rödd og henni vex ásmeginn sem lagasmiður með hverri plötu. Me and Amini er firnafínn diskur, þótt ég haldi meira upp á Fisherman´s woman sem er magnað verk. En þetta eru ólík verk og hverjum þykir sinn fugl fagur. Í rauninni telst það Emilíönu til tekna hve fjölbreytt verk hennar eru.

Bandið er þétt, samspil gítarleikaranna til fyrirmyndar og vanur maður og vönduð vinna á trommunum.

Emilíana er rétt að byrja.

Takk fyrir mig!

mánudagur, 2. febrúar 2009

Evrópuvörn Samfylkingar

Árni Páll Árnason, sá ágæti Evrópusinni sendi mér nokkrar línur sem ég birti hér með ánægju:"

"Í verkefnaskrá ríkisstjórnar Samfylkingar og Vinstri grænna eru tekin mikilvæg skref í átt til aðildar að ESB. Breytingar verða gerðar á stjórnarskrá sem gera kleift að breyta stjórnarskránni með sérstakri þjóðaratkvæðagreiðslu. Með því er aflétt þeirri hindrun sem stjórnarskrá setur í veg aðildarferlisins að óbreyttu, þar sem þörf er á samþykki tveggja þinga með kosningum á milli til að stjórnarskrá verði breytt. Þegar þessar breytingar verða gengnar í gegn mun unnt að breyta stjórnarskránni til samræmis við aðild að Evrópusambandinu í sömu þjóðaratkvæðagreiðslu og fara mun fram um aðildarsamninginn sjálfan. Hér er því tryggt að af aðild geti orðið fljótlega á næsta kjörtímabili, ef vilji ríkisstjórnar stendur til aðildar. Samfylkingin mun leggja höfuðáherslu á aðild í kosningunum."

Þetta eru góð tíðindi og nú skiptir miklu máli að menn á borð við Árna Pál vinni að því öllum árum að halda Össuri Skarphéðinssyni nýjum utanríkisráðherra við efnið.
Össur er Evrópusinni frá fornu fari en hættir til að gleyma hugsjóninni þegar hann lendir í vondum félagsskap, sérstaklega á Bessastöðum.

Fréttir herma að sá ágæti maður Kristján Guy Burgess verði aðstoðarmaður Össurar í bráðabirgðastjórninni. Sá ágæti piltur er of handgenginn forsetanum fyrir minn smekk enda hefur mér fundist á stundum eins og hann vilji frekar að Ísland gangi í Indland en ESB.
Eins og forsetinn.

Hvað breyttist með ESB?

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar lýsti því yfir fyrir örfáum vikum að ríkisstjórnarsamstarfinu væri sjálfhætt ef Sjálfstæðisflokkurinn samþykkti ekki á landsfundi að ganga til aðildarviðræðna við Evrópusambandið.
Nú hefur ríkisstjórn undir forystu Samfylkingarinnar verið sett á stofn og bregður þar svo við að engin ákvæði eru um aðild önnur en þau að enn ein Evrópunefndin skuli skila niðurstöðu.

Hvað breyttist? Er það trúverðugur stjórnmálaflokkur sem sveiflast á þennan hátt öfganna á milli í þýðingarmiklu máli? Hvernig á að útskýra þetta fyrir kjósendum?

Viðbót: Auðvitað er ég ekki sá asni að ætlast til þess að Samfylkingunni tækist að sannfæra VG um aðildarviðræður. Og minnihlutastjórn myndi ekki gera slíkt á 2 mánuðum fyrir kosningar. En fyrst ESB málið er svona veigalítið þegar upp er staðið í huga Sf, af hverju þurfti þá að rjúfa stjórnarsamstarfið og mynda aðra stjórn? Af hverju mátti ekki láta stjórnina sitja fram yfir kosningar?

Svarið er auðvitað óttinn við að VG fitnaði eins og púki á fjósbita utan stjórnar. Gallinn er bara sá að nú fær VG tækifæri til að sýna að flokkurinn sé stjórntækur og þá veit ég ekki til hvers maður ætti að kjósa Sf. Stofnun stjórnarinnar bendir ekki til að ESB aðild sé flokknum fast í hendi, svo ekki sé meira sagt.

Nú ríður á að Össur Skarphéðinsson komi okkur á óvart og skori prik á evrópskum vettvangi! Go Össi go!