fimmtudagur, 27. nóvember 2008

Frekar húmor Davíðs en ráðningar

Það er dapurlegt að þurfa að viðurkenna opinberlega að maður sé sammála Framsóknarflokknum en svona er nú komið fyrir mér og íslenskum stjórnmálum. Birkir Jón Jónsson gagnrýnir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur harðlega fyrir skipan Kristínar Á. Árnadóttur, vinkonu sinnar og samstarfskonu til margra ára í sendiherraembætti.

Málsvörn Ingibjargar er fátækleg. Hún ber við veikindum sínum og ráðuneytisstjóra og segir að þar sem Kristín hafi verið skipuð skrifstofustjóri hafi orðið að gera hana að sendiherra.

Einmitt!

Þetta væru ágæt rök ef ráðherra hefði ráðið hjúkrunarkonu eða væri að skipa Kristínu tímabundið ráðuneytisstjóra í veikindaleyfi ráðuneytisstjóra. Það gerir hún ekki heldur skipar hana sendiherra, væntanlega til æviloka. Auk þess fjölgar hún í yfirstjórn ráðuneytisins. Mér sýnist raunar Ingibjörg hafa gefist upp á að halda því fram að hvítt sé svart og kostnaðaraukning sé sparnaður eins og hún gerði í fyrstu.

Auðvitað hafa allir ríka samúð með Ingibjörgu Sólrúnu og sannarlega varð ógæfu Íslands allt að vopni þegar hún veiktist um sama leyti og efnahagslega óveðrið skall á. Stjórnmál og stjórnsýsla eiga hins vegar ekki að snúast um hagsmuni einstaklinga sem veljast til forystu. Ingibjörg Sólrún getur ekki afsakað ófaglega ráðningu með veikindum sínum. Ekki frekar en Davíð.

Kristín hefur starfað undanfarið eitt ár í ráðuneytinu en hún var kölluð inn af götunni til að stýra kosningunni til öryggisráðsins. Er þetta nægileg reynsla af utanríkismálum til þess að vera sett yfir utanríkisráðuneytið á umbrotatímum?

Er það ofmælt að kalla þetta klikuskap? Eru það ekki dapurleg örlög fyrir Kristínu – sem er á mörgum sviðum prýðilega hæf manneskja- að verða eins konar Júlíus Hafstein Ingibjargar. Vissulega er hún betur menntuð en her ins vegar skipuð í mun hærri stöðu en Júlíus í gegnum sams konar klíkuskap.

Birkir Jón bendir réttilega á að ráðherra hefði fremur átt að taka sér Valgerði Sverrisdóttur, frábæran utanríkisráðherra framsóknar, til fyrirmyndar sem réði enga nýja sendiherra hvorki hæfa né óhæfa – en Davíð Oddsson sem skipaði vini sína út um allt.

Málsvörn Ingibjargar um að það vanti konur í sendiherrastörf er ágæt ef hún væri að senda hæfa konu á póst. En það er hún ekki að gera.

Ingibjörg Sólrún er vön að réttlæta flest með því að benda á að Davíð Oddson hafi verið helmingi verri. Nú sé einfaldlega komið að konunum. “Þori bæði get og vil” gæti hún verið að segja: konur séu komnar að kjötkötlunum og þeim sem bæði hafi klíku og píku verði nú raðað í embættin.

Gallinn er bara sá að ráðning Kristínar minnir einna helst á brandarann úr Matthildi um manninn sem sótti um sem götulögreglumaður í Matthildi en var umsvifalaust skipaður yfirmaður leyniþjónustunnar!

Ég hef ekkert út á Kristínu að setja en hún ætti að sinna einhverju þar sem óumdeildir hæfileikar hennar njóta sín betur en að vera sett blaut á bak við eyrun yfir gervalla utanríkisþjónustuna.

Ef Ingibjörg Sólrún vill endilega feta í fótspor Davíðs Oddsonar ætti hún frekar að taka sér húmor hans til fyrirmyndar en makalausar mannaráðningar.

18 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sammála

Nafnlaus sagði...

Talað útúr mínu hjarta. Reginmistök að ráða vinkonu sína í starfið. Og tímasetning maður, syndi af sér þvílíkan siðferðisbrest.

Nafnlaus sagði...

var hún ekki í vinnu við að eyða 500-800 millj. til að koma okkur ekki í öryggisráðið. skandall þetta fólk

Nafnlaus sagði...

Frábær pistill!

Nafnlaus sagði...

Með þessari skipan húflúraði ISG "spillt" á ennið á sér. Fínn pistill og réttilega bent á að aðrar leiðir til lausnar því vandamáli sem ISG sagði sig glíma við.

Nafnlaus sagði...

eins og talað út úr mínu hjarta. ISG hefur ekki einasta valdið mér vonbrigðum, þessar gerðir hennar misbjóða siðgæðisvitund minni. Það er líka alveg hreint með ólíkindum hvað samfylkingarfólk er að líkjast sjöllum í hegðun sinni. Enginn æmtir eða skræmtir yfir þessu siðleysi ISG, slík er foringjahollustan. Var að velta því fyrir mér ef Framsókn hefði verið í ríkisstjórninni og Guðni Ágústsson orðið sekur um allar undangengnar bommertur ISG - að meðtöldum ummælum um þátttöku í mótmælum á Austurvelli gegn sjálfri/um sér - hvernig samfylkiingarmenn hefðu brugðist við. Bara svona léttar hugrenningar. kv. HTH

Nafnlaus sagði...

Hatur þitt gangvart ISG er með ólíkindum Árni hvern andskotann ertu að drekka þarna í Brussel.Ingibjörg Sólrún hefur fyrir löngu stimplað sig inn sem besti stjórnmálamaður landsins.Ég er dyggur stuðningsmaður hennar og það eina sem ég er ósáttur við hjá henni er að hún skuli vera að lengja dauðastríðið hjá Íhaldinu. Það er með endemum hvað hún stendur keik eftir allt það ótrúlega einelti sem hún hefur mátt þola á sínum stjórnmálaferli.Þessi ráðning orkar kannski tvímælis en ég held að fólk ætti nú að vera velta sér upp úr einhverjum öðrum mikilvægari hlutum heldur en þessum tittlingaskít.

Nafnlaus sagði...

Frábær pistill!! Hvernig er hægt að gera slík mistök eftir áralanga gagnrýni á óráðsíu og vinavæðingu.

Nafnlaus sagði...

Fair enough.

En verður svona dæmi til þess að fólk kjósi ekki ISG við næstu kosningar?

Varla.

Vitleysan endurtekur sig. Í boði kjósenda.

Nafnlaus sagði...

joð

Rökstuðningur Ingibjargar varðandi ráðninguna er frábær brandari út af fyrir sig.

Nafnlaus sagði...

ISG ætti bara að halda áfram að feta í fótspor Daviðs og fara til Mexikó.þar væri hun best geymd

Nafnlaus sagði...

"..hefur fyrir löngu stimplað sig inn sem besti stjórnmálamaður landsins."

hahhhhahaha!

Nafnlaus sagði...

Schnilld!

Nafnlaus sagði...

Ingibjörg stendur sig með "sóma".
Hún er bara alveg eins og Davíð,
þolir ekki sína þjóð.
Alveg magnað hvað við förum í
taugarnar á henni!

SG

Unknown sagði...

Árni, mér finnst þú óbilgjarn maður.
Hvernig væri að þú kæmir með eitthvað uppbyggilegt í umræðuna sem hjálpar í kreppunni heldur en að elta ólar við að leyta að einhverju málenfni,einungis til þess að kleggja á Ingibjörgu Sórúnu.
Hún hefur sannað sig sem einn besti stjórnmámálaskörungur sem þjóðin hefur átt í áraraðir, enda kvenkyns.

Nafnlaus sagði...

Mér er hlýtt til Ingibjargar Sólrúnar en þarna gerði hún mistök. Ég reikna með að nóg sé til af hæfum "karríerdiplómötum" í flest sendiherraembætti.

En til að draga úr áfalli þínu yfir að vera sammála framsóknarmanni sem vísar í meydóm Valgerðar - hvað skipaði Halldór Ásgrímsson marga flokksbræður og félaga í embætti á meðan hann var utanríkisráðherra? Nennir einhver að telja?

Nafnlaus sagði...

Það þarf einbeitt alvöruleysi að kalla þær búsifjar sem Davíð hefur valdið þjóðinni "húmor". Hjá þeim verður ráðning á einni kellíngu hjóm eitt.

Hatur Árna Snævarr á ISG og ÓRG er varla einleikið. Var einhvern tímann stjakað við stubbnum?

Er það orðin einhver tíska að stimpla sig reglulega út af blogginu með harmkvælum og mæta svo alltaf aftur í tuðið?

Nafnlaus sagði...

Auðvitað á öll málefnaleg gagnrýni rétt á sér og spurningin er hvort gagnrýni Árnaér málefnaleg.
Ráðning Ingibjargar telst varla til einkavinavæðingar. Einstök ráðning hennar á konu sem hún hefur starfað með og gjöþekkir og treystir er ekki óeðlileg sem slík. Ef reglur eru þannig að ekki er hægt að ráða hana sem skrifstofustjóra en ISG vill nýta starfskrafta hennar vegna reynslu sem hún hefur af að starfa með henni er henni það frjálst og ekkert óeðlilegt við það. Eis og ég segi hér að ofan er einstök ráðning ekki "væðing". Ef ISG fer hinsvegar að raða inn samflokksmönnum og vinum þá er það einkavina... Ég sé því í raun ekkert athugavert við þessa eistöku ráðningu. Látum svo reynsluna tala í framtíðinni. Annað er "finni hann laufblað fölnað eitt, fordæmir hann skóginn". Varastu þetta Árni og í reynd ertu alltof góður gagnrýnandi til að fala í svo einfalda gryfju.