Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra réttlætir þá ákvörðun ríkisstjórnar Íslands og forseta Íslands að sniðganga heimsókn friðarverðlaunahafa Nóbels , Dalai Lama til Íslands með þvi að “Dalai Lama sé ekki þjóðhöfðingi ríkis sem Ísland eigi í stjórnmálasambandið við en hans heimsókn sé ekki á sama grunni og þegar um erlenda þjóðhöfðingja (sé)að ræða. " (Mbl.is)
Steingrímur Joð gefur með þessum orðum í skyn að allajafna sé reglan sú að ráðamenn þjóðarinnar hitti ekki að máli nema þá sem gegna álika háum stöðum í heimalandi sínu.
En stenst þetta skoðun?
Forseta Íslands má segja til hróss að forsetaembættið heldur úti prýðilegri heimasíðu www.forseti.is.
Kíkjum á nokkur dæmi af handahófi úr dagskrá forsetaembættisins. Þar kemur meðal annars í ljós að forsetinn átti tvo fundi með kínverskum sendimönnum á síðasta hálfa öðrum mánuðnum fyrir komu Dalai Lama til Íslands.
Hann hitti núverandi sendiherra Kína fyrir hálfum mánuði og hafði einnig tíma til þess að taka á móti fyrrverandi sendiherra Kína á Íslandi rétt í þann mund sem Dalai Lama var að koma til Íslands.
Þessu ágæta fólki er tekið á móti á Bessastöðum. Ef mér skjöplast ekki þá er þetta fólk ekki allt þjóðhöfðingjar- ekki frekar en Dalai Lama. Kíkjum á listann:
“30.5.2009
Samvinna við Kína
Forseti á fund með Wang Ronghua, fyrrum sendiherra Kína á Íslandi, um margvísleg tækifæri til að auka samvinnu Íslands og Kína á sviðum menningar, vísinda og viðskipta.
1.5. 2009
Utanríkisráðherra Sameinuðu furstadæmanna
Forseti á viðræður við utanríkisráðherra Sameinuðu arabísku furstadæmanna og sendimenn hans frá Abu Dhabi um samstarf landanna, nýtingu hreinnar orku, framlag íslenskra vísindamanna til þróunar Masdarverkefnisins og tillögur Sameinuðu furstadæmanna um að höfuðstöðvar nýrrar alþjóðlegrar stofnunar í orkumálum verði í Abu Dhabi.
7.4. 2009
Samstarf við Kína
Forseti á fund með sendiherra Kína á Íslandi Zhang Keyuan um samstarf landanna á ýmsum sviðum sem og þróun efnahagsmála í Kína og á heimsvísu.
11.3. 2009
Brahma Kumaris
Forseti ræðir við fulltrúa andlegu samtakanna Brahma Kumaris og tekur á móti kveðjum og gjöfum frá leiðtoga þeirra Dadi Janki. Starfsemi samtakanna á Íslandi hefur eflst mjög á undanförnum árum. Forseti átti á sínum tíma fund með Dadi Janki á Bessastöðum.
9.3.2009
Alþjóðasamtök Farfugla
Forseti tekur á móti framkvæmdastjórum Farfuglafélaga í ýmsum löndum, Hosteling International, sem halda þing sitt á Íslandi.
16.12. 2009
Forseti ræðir við bandaríska fræðimanninn Paul Hawken um þróun hins nýja hagkerfis, bæði á Íslandi og á heimsvísu, sjálfbærni og græna tækni. Hawken hefur verið á Íslandi í boði Bjarkar Guðmundsdóttur.”
Fæst þessi skoðun Steingríms Joð staðist miðað við þær opinberu upplýsingar sem raktar eru hér að ofan?
Forsetinn hittir þannig ekki bara fyrrverandi og núverandi kínverska sendiherraheldur farfugla, utanríkisráðherra og andlega leiðtoga af aðeins minna kalíberi en Dalai Lama.
Hafa embætti ´forsætis- fjármálaráðherra- og utanríkisráðherra ef til vill hærri standard en embætti forseta?
Ég ætla þeim ekki svo illt að vilja gjöra glæpakvendinu Mörthu Stewart veislu með utrásarvíkingum á kostnað skattgreiðenda, en það er alveg ljóst að afsakanir Steingrims Joð er fráleitar og honum ekki sæmandi.
Ekkert fær hins vegar bitið á réttlætiskennd Ögmundar Jónassonar og Katrín Júlíusdóttir sýnir gamla takta með því að hitta Dalai Lama og er það vel, en hyggjum að fleiri þáttum.
Þannig væri gaman að vita hvenær heimsókn Össurs “Möltufálka” Skarphéðinssonar utanríkisráðherra til heimaeyjar ránfuglsins góða var ákveðin og athuga samhengið við tilkynningu um komu Dalai Lama. Skemmtilega hentug tilviljun að Össur skuli "óvart" hafa verið að heiman.
Þarf ég að minna á að forsætis- og utanríkisráðherrar Dana, hittu baðir Dalai Lama að máli?
Jafnframt væri gaman að vita hvort fundir hans með kínverskum sendimönnum hafi verið jafn tíðir og forseta Íslands, eða fékk hann bara að vita skilaboðin símleiðis?
Og hefur einhver séð heilaga Jóhönnu? Síðast þegar sást til hennar var hun í grárri kápu og hélt á ófleygum og ryðguðum geislabaug.
þriðjudagur, 2. júní 2009
Tveir kínverskir sendiherar en ekki Dalai Lama
mánudagur, 1. júní 2009
Kína, Jóhanna, Össur og ÓRG
Forsetinn, Össur og Kína
Það eru gríðarlega mikil vonbrigði að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra og Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra að ekki sé minnst á forseta lýðveldisins, Ólaf Ragnar Grímsson skuli sniðganga Dalai Lama, fiðarverðlaunahafa Nóbels í Íslandsheimsókn hans.
Það er vissulega hið besta mál að Ögmundur Jónasson skuli hitta hann að máli en vitaskuld eru það eingöngu panik viðbrögð við gagnrýni og seint verður sagt að það sé í hans verkahring sem heilbrigðisráðherra að hitta þjóðarleiðtoga Tíbeta.
Ekki frekar en Svandísar Svavarsdóttur, umhverfisráðherra eða Árna Páls Árnasonar, félagsmálaráðherra. Þau reyna vissulega að bera í bætifláka fyrir stjórnina. En þetta er vinstri stjórn til skammar.
Takk samt öll þrjú.
Um forseta lýðveldisins þarf ekki að fjölyrða, botninum er löngu náð. Það er reyndar umhugsunarefni að á sama tíma og Ísland stefnir að umsókn um ESB, er Ólafur Ragnar að hitta forseta Kýpur - á kostnað skattgreiðenda. Hvort talaði hann málstaði meirihluta eða minnihluta Alþingis við forsetann um ESB aðild Íslendinga? Og hvað mun hann gera í framtíðinni?
Svo aftur sé vikið að aðalmálinu þá vita allir um áhugaleysi Jóhönnu á útlöndum en spjótin hljóta að beinast að Össuri Skarphéðinssyni sem hefur verið yfirlýsingaglaður um allt sem nöfnum tjáir að nefna. Þar á meðal um Kína.
Ég hef áður fjallað um hin slæmu áhrif forseta lýðveldisins á Össur og látið í ljós ótta um að hinn Kínasinnaði aðstoðarmaður hans, Kristján Guy Burgess kunni að véla þarna um.
Reyndist ég forspár?
Össur og Jóhanna skulda okkur skýringu á framkomu sinni. Það er öllum sama um Ólaf Ragnar hins vegar.
Er Heimssýn á móti EES?
Anna Ólafsdóttir Björnsson, stjórnarmaður í Heimssýn skrifar pistil á blogg sitt um lýðræðishallann í Evrópusambandinu. Hún hefur að vissu leyti ýmislegt til síns máls en hún er hins vegar slegin ídeológískra blindu þegar hún kallar til vitnis Danann Jens-Peter Bonde og sakar “fjölmiðlafólk” (les: Árni Snævarr) um að halda því fram að “Jens Peter sé ekki lengur andvígur ESB, en “....það hefur alltaf verð vitað að afstaða hans til ESB er margslungin....”
Jens Peter var einn af stofnendum Júní-hreyfingarinnar en kjarninn í málstað hennar var að ekki þýddi að berja hausnum við steininn; eina leiðin til þess að vinna sjónarmiðum vinstri manna fylgis væri að berjast fyrir þeim innan Evrópusambandsins.
Ef þetta þýðir ekki í reynd að Jens Peter hafi hætt baráttu gegn úrsögn Dana úr Evrópusambandinu, ja þá eru sjónarmið hans býsna margslungin.
Í rauninni er það svo að einungis ofstækismenn á vinstri og hægri kanti stjórnmála í Evrópu eru á móti Evrópusambandinu. Þótt Danir, Írar og Hollendingar hafi verið duglegir að malda í móinn og neitað að láta hvað sem er yfir sig ganga, hafa skoðanakannannir sýnt svo árum skiptir að það er lítill áhugi á að standa utan ESB.
Það tala mjög fáir um andstöðu við aðild að ESB í aðildarríkjunum. Það er dálítið eins að segjst vera á móti fjármálum, manni getur verið uppsigað við magt í fjármálakerfinu en það er þýðingarlaust að vera á móti fjármálakerfinu og sama gildir um ESB. ESB er staðreynd.
Við getum ekki einu sinni selt fisk til Rússlands án þess að ESB komið við sögu.
Og fyrst Anna talar yfilætislega um að andstæðingar hennar fylgist ekki með, langar mig til að forvitnast um hvort hún hefur séð viðtal mitt við Jens-Peter Bonde sem hægt er að nálgast á síðu Samtaka iðnaðarins.
Þar líkir Jens Peter EES samningnum við að Ísland og Noregur gangist sjálfviljug undir nýlendustefnu. Samkvæmt EES samningnum hefur Ísland tekið upp a.m.k. 65% lagaramma ESB – án þess að hafa neitt um það að segja.
Við munum vissulega hafa tiltölulega lítil áhrif á gang mála vegna smæðar okkar, en við verðum alltaf tiltölulega áhrifalítið smáríki hvort sem við verðum innan eða utan ESB.
En mig langar til að spyrja Önnu Ólafsdóttur Björnsson eftirfarandi spurnniga:
1. Telur hún að lýðræðishallinn aukist hvað Íslendinga varðar, þegar við fáum sæti við samningaborðið þar sem ákvarðanir eru teknar?
2. Eykst fullveldið við það að hafa engin áhrif á lagasetningu sem okkur er gert að taka upp?
3. Er hún sammála eða ósammála Jens Peter um að EES sé nýlendusamningur?
4. Telur hún rétt að segja EES samningnum upp?
Ég hlakka til að sjá svör Önnu. Og í kjölfarið verður áhugavert að heyra sjónarmið td. Iluga Gunnarssonar og Sigurðar Kára Kristjánssonar, stjórnarmanna í Heimssýn.
Vilja þeir kannski að við segjum upp EES?
sunnudagur, 31. maí 2009
Íslenskir ráðamenn sniðganga Dalai Lama
Það er ótrúlegt hneyksli að hvorki forseti Íslands né ráðherrar i ríkisstjórn vilji hitta Dalai Lama.
Hvað hefði Össur Skarphéðinsson sagt á sínum tima ef Halldór Ásgrimsson eða Davíð Oddson hefðu sniðgengið tibetska Nóbelsverðlaunahafann?
Nú bý ég í útlöndum og fylgist kannski ekki með en þessi Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra getur ekki verið glaðbeitti stjórnarandstöðuþingmaðurinn og ritstjórinn sem barðist fyrir frelsi á öllum sviðum hér í eina tíð.
Og það er engin afsökun fyrir Jóhönnu Sigurðardóttur að enskan sé henni ekki töm. Nicolas Sarkozy talaði t.d. áreiðanlega við Dalai Lama á sínu móðurmáli.
Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands, er hins vegar samkvæmur sjálfum sér í því að sleikja upp kínverskra harðstjóra. Hann hefur áður verið talsmaður þess að fórna mannréttindaboðskap á altari hagsmuna útrásarvíkinga.
Gleymum því ekki heldur að að hann hélt sérstakt boð fyrir Mörthu Stewart, dæmda fjárglæframanneskju en nú vill hann ekki hitta friðarverðlaunahafann Dala Lama. Þarf að segja meira?
Menn eru dæmdir af verkum sínum. Gömlu Þjóðviljaritstjórarnir Ólafur Ragnar og Össur hafa fallið á prófinu og sama máli gegnir um heilaga Jóhönnu.
sunnudagur, 24. maí 2009
Þó líði ár og öld er Björk bara best
Ég er mikill aðdáandi bloggarans Margrétar Hugrúnar Gústavsdóttur bloggara hér á Eyjunni. Tek það fram að ég er ekki einu sinni málkunnugur henni; hún er einfaldlega frumlegur og áhugaverður penni. Hún skrifar mjög skemmtilega athugasemd á bloggið sitt, þar sem hún ber saman nyju Evróvisjónstjörnuna Jóhönnu og Björk.
“Björk Guðmundsdóttir hefur unnið fleiri verðlaun fyrir tónlist en allir aðrir íslenskir tónlistarmenn. Alls 14, og þar af 52 tilnefningar m.a. Grammy og Óskarsverðlaun. Og þetta þykja almennt mun virðingarverðari keppnir en Júrótrashvision. Samt hefur aldrei verið smalað á Austurvöll. Hvernig ætli standi á þessu?.”
Þetta er býsna vel athugað hjá Margréti Hugrúnu.
Af kynnum mínum af Björk ræð ég að ef haldin yrði samkoma á Austurvelli henni til heiðurs, myndi hún ekki mæta (!) en það er aukaatriði í þessu máli. Og það er jafnframt aukaatriði að Jóhanna er frábær átján ára söngkona sem á lífið framundan og engin ástæða til að vera neikvæður í hennar garð.
Hins vegar er það mér ráðgáta hvers vegna Björk nýtur ekki sannmælis á Íslandi. Kannski er skýringin sú að þegar minnst er á náttúrvernd, evrópska samvinnu og hvalveiðar, virðist hálf þjóðin missa vitið...
Í mínu starfi á alþjóða vettvangi (ef ég má vera svo hátíðlegur) hef ég unnið að einu verkefni með Björk og hef síðan ekki haft undan að svara alls kyns beiðnum til hennar frá -stundum- heimsfrægu fólki. Ég hef að sjálfsögðu bara beint þessum tilmælum til Bjarkar en gjarnan með þeim orðum að ég sé landi hennar en ekki umboðsmaður!
En þetta er ekki bara spurning um frægð: Madonna er miklu frægari svo dæmi sé tekið. En Björk nýtur virðingar; einmitt vegna þess að hún er hún sjálf. Stundum óþolandi mikið hún sjálf, vitum við sem höfum unnið með henni. En Björk verður bara að fá að vera Björk: annars væri hún ekki Björk.
Það breytir því hins vegar ekki að við Íslendingar og forsvarsmenn okkar stofnum til veislu til að fagna býsna mörgu: Bermúdabikarnum, Jóhönnu í öðru sæti, tukthusliminum Mörthu Stewart svo ekki sé minnst á blessaða útrásarvíkingana okkar.
(Að Ásdísi Rán ógleymdri og heimsókn hennar í Playboy-setriði – skítt og lago með að Hugh Hefner hafi ekki verið heima. Hann sendi jú sínar bestu kveðjur.)
Og man einhver eftir Svölu Björgvins? Fín söngkona. Stöð 2/Skífan ætlaði á sínum tíma að gera hana að megastjörnu, gaf út diska hennar, bjo til vídeói og hélt úti heimasíðunni Svala dott com.
Þar sagði hin svala Svala frá “her shopoing with her friends Hrafnhildur and Unnur in LA” eða eitthvað álika og svo dillaði hún sér í dansatriðummeð alvöru gengjum í Kaliforníusólinni.
Hún söng vel og dansaði enn betur en sá galli var á gjöf Njarðar að hún var sæt og smart en bara ... ekkert sérstök.
En það er Björk og það erum við Íslendingar- innst inni.
Við sem búum í hinum frönskumælandi heimi sjáum í búðargluggum tvö síðustu hefti hins víðlesna timartits GEO. Í öðru er hin sólríka Katalónía á forsíðu en í nýjasta heftinu Ísland.
Það er helvítis skítaveður á hverri einustu dramatísku glæsimyndinni frá Íslandi- en sannleikurinn er bara sá að við getum aldrei logið okkur upp á alheiminn sem sólarparadís. Katalónía myndi alltaf vinna, rétt eins og Barcelona myndi alltaf vinna KR í fótbolta! Með fullri virðingu fyrir vinum mínum í hinni ástsælu fjölskyldu Baltasar Samper – okkar ágætu íslensku-katalóna!
Við eigum að leggja á sérstöðu okkar – ekki hermi-hæfileikum okkar. Páfagaukar eru ekki góð fyrirmynd. LA liðið mun alltaf rótbursta okkur í Kaliforníustuðinu, sama hvað við gerum.
Þess vegna er Björk súperstjarna en ekki Svala og ….Bjöggi pabbi. Sorrý to say so, en það breytist ekki "þó líði ár og öld."
þriðjudagur, 19. maí 2009
Var Hitler sérfræðingur um gyðinga?
Var Hitler sérfræðingur um gyðinga af þvi hann var á móti þeim? Eða Stalín um kúlaka? Davíð Oddsson um Baug? Bill Clinton um repúblikana? Nú eða til dæmis Ragnar Arnalds um herinn?
Ragnar var á sinum tíma forkólfur baráttunnar gegn hernum en varla hefði honum dottið í hug að vera boðið í sjónvarpssal og viðtal við hann birt sem sérfræðing um herinn.
En nú er svo komið hjá Kastljósi Sjónvarpsins að það væri hreinlega rökrétt að bjóða Ragnari að fá að halda einræðu sem "sérfræðingi um Evrópumal" á kjörtima í sjónvarpi allra landsmanna.
Í kvöld var þannig tekið viðtal við tvo Nroðmenn sem voru kynntir í tvígang – fyrst í fréttatímanum og síðan í upphafskynningu þáttarins sem sérfræðnga í Evrópumálum.
Viðtalið var sýnt þannig að umsjónarmaður, Þóra Tómasdóttir, sagði sem minnst en lét Norðmennina hafa orðið. Þeir töluðu lengi um aðildarviðræður Norðmanna og þjóðaratkvæðagreiðsluna 1994 og án þess að nefna eitt einasta konkret atriði drógu þeir þá ályktun að Ísland fengi sama díl og Norðmenn 1994 eða td. Litháar 2004.
Þóra Tómasdóttir spurði fyrir Kastljos, fárra spurninga en til dæmis þessara:
--Það var þá af lýðræðisástæðum sem Norðmenn sögðu Nei?
--þú hefur lengi verið á móti ESB, hvað er mikilvægast fyrir Íslendinga að heyra?
Þóra kinkaði síðan svo vel kolli að aðdáunarvert var, þegar Norðmennirnir sögðu frá því að Ísland og Noregur væru fiskútflytjendur en samsæri væri gegn þeim í ESB af því þar væru menn fiskkaupendur!!!!
Þóra hafði ekkert við þennan málflutning að athuga.
Fyrir fagmenn má svo bæta því við að eftir að viðtalið við norsku “sérfræðingana” hafði verið margkynnt í fréttum og Kastljóskynningunni var allt í einu snúið við blaðinu þegar innslagið var kynnt og sagt að þarna væru á ferðinni “baráttumenn”.
Og síðan var klínt aftan við viðtalið – greinlega á síðustu stundu – símaviðtali við formann já hreyfingarinnar í Noregi.
Hvað varð um sérfræðingana sem fréttatíminn hjá RÚV byrjaði á og alltí einu breyttust í baráttumenn? Hmmmm dularfullu sérfræðingarnir sem hurfu hefði Enid Blyton sagt.
Hitler og Kastljósið
Ef Norðmennirnir tveir úr Nei til EU sem voru í Kastljósi í kvöld voru sérfræðingar í Evrópumálum, var Hitler sérfræðingur í málefnum gyðinga.