laugardagur, 3. júlí 2010

Á svindl að útiloka Afríku?

Það skyldi engan undra að Afríkubúum þyki stundum sem Guð hafi gleymt Afríku, og heimsmeistarakeppnin er engin undantekning. Úrúgvæinn Luis Suarez kom í veg fyrir að afrískt lið kæmist í fjögurra liða úrslit heimsmeistarakeppninnar með því að verja viljandi með höndum. Suarez hefur síðan sagt að þetta hafi verið hin raunverulega hönd Guðs. Hann er nú þjóðhetja í Úrúgvæ og víða er fórnfýsi hans lofuð.

Tuttugu árum eftir að þetta hugtök "hönd Guðs" varð til í knattspyrnu minnast Englendingar þessa atburðar með reglulegu millibili og á Bretlandseyjum nýtur Maradona aldrei sannmælis sem einn besti knattspyrnumaður allra tíma vegna þessa.

Fyrir örfáum mánuðum var þess krafist að Thierry Henry yrði dæmdur í keppnisbann og franska liðinu vikið af HM þegar Frakkinn handlék boltann áður en hann sendi hann á Gallas sem skoraði. Þetta var í undankeppni, gerðist í aðdraganda marks og talsvert eftir í leik sem snérist um þátttökurétt á HM, en hin nýja hönd Guðs réði úrslitum á síðustu sekúndu í átta liða úrslitum lokakeppni.

Í dag voru þeir Gary Lineker, Alan Shearer og Alan Hansen sammála um að allir hefðu gert það sama í stöðu Suarez. Er nema furða að Afríkubúum þyki sem eitt gildi um Englendinga og Íra og Bretlandseyjar en annað um Ghana og Afríku?

Spyr sá sem ekki veit.

VIð skulum hins vegar vona að heimsmeistarakeppnin verði til þess að draga úr mismunun og kynþáttafordómum. Engum leynist lengur að Afríkubúar fara létt með að halda stærsta íþróttamót heimsins (og það með bros á vör!!)- og það eitt út af fyrir sig verður vonandi lóð á vogarskálarnar.

Það var sérstaklega viðeigandi þegar fyrirliðar Argentínumanna og Þjóðverja lásu eiðstaf fyrir hönd keppenda á HM um að berjast gegn kynþáttahatri og mismunun, fyrir leik þeirra í dag. Navi Pillay, Mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna sem sjálf er Suður-Afríkubúi, orðaði þetta eftirminnilega: "Við skulum sparka mismunun útaf vellinum. Tæklum útilokun. Veiðum kynþáttahatrið í rangstöðugildruna."

Stóra verkefnið er svo að efla Afríku og hjálpa Afríkubúum á leið til betri lífsgæða og þróunar. Franski ráðherrann, Rama Yade, sem sjálf er fædd í Senegal, hitti naglann á höfuðið þegar hún benti á það himinn og haf sem er á milli íþróttamanna á borð við franska landsliðsins sem búa á hótelum sem kosta 600 dolara á nóttina á meðan stór hluti Afríkubúa lifir á einum dollara á dag eða minna.

Ríki heims strengdu þess heit árþúsundaárið 2000 að uppræta sárustu fátæktina í heiminum og nú í haust hittast leiðtogar heims til að fara yfir stöðuna enda aðeins fimm ár þar til markmiðinu á að vera náð.

Þótt gæðum sé vissulega misskipt í Suður-Afríku, sýnir árangur landsmanna við að halda heimsmeistarakeppnina að Afríka er svo mikliu meira en sú eymd og vonleysi sem við heyrum um í fréttum. Veraldarleiðtogarnir voru búnir að lofa því að rífa fátækasta fólk heims upp úr örbirgð og hungri og reynsla Suður-Afríku sýnir að það er hægt.

Ætlum við að leyfa leiðtogunum að verja með höndum á línu og svindla eins og Suarez eða ætlum við að efla Afríku og krefjast efnda á loforðunum á leiðtogafundinum?

14 ummæli:

Friðjón sagði...

Það er himinn og haf á milli svindls Maradona og Henry og brots Suarez.

Maradona og Henry brutu af sér og komust upp með það í leiknum.

Suarez var rekinn útaf og Ghana fékk víti. Hann mun ekki leika næsta leik. Hinum tveim var ekki refsað.

Það sem Suarez gerði var brot, ekki svindl.

Nafnlaus sagði...

Það er enginn munur á þessu og því ef að markmaður Uruguay hefði klippt sóknarmann Ghana niður þegar hann hefði ekkert átt eftir nema renna boltanum yfir marklínuna. Það hefðu þótt eðlileg viðbrögð og það er rétt hjá Ensku sérfræðingunum að allir knattspyrnumenn sem að eru 1 mín og vítakeppni frá undanúrslitum á HM hefðu gert það sama. Engir fordómar í þessu.
Kv.
Guðmundur

Unknown sagði...

Verð að vera ósammála að kalla þetta svindl, hann braut af sér og viðurkenndi og dómarinn dæmdi samkvæmt reglununum.

Maradona og Henry svindluðu hins vegar því þeir brutu af sér án þess að viðurkenna og komust upp með það.

En góður seinni hluti pistils.

Nafnlaus sagði...

Þetta er langsótt tenging

Unknown sagði...

Nei, (nafnlaus) þetta er grundvallaratriði.

Ef þú kallar alla "svindlara" sem brjóta af sér í leik, þá eru allir leikmenn sem fá dæmda á sig aukaspyrnu svindlarar...

Eru allir leikmenn sem hafa brotið á leikmanni sem eru að komast í marktækifæri "svindlarar"?

Henry og Maradona voru ekki skammaðir fyrir að brjóta af sér heldur fyrir að viðurkenna það ekki...

Nafnlaus sagði...

valli, ég var ekki að reyna að kommenta á þitt komment heldur færsluna sjálfa, tenging heimsfótboltans við heimspólítíkina.
Svo vill til að ég er sammála þínu kommenti! ;)

Asturiano sagði...

Maðurinn varði með hendi, fékk rautt spjald um leið og þar með úr leik.

Tekið er víti vegna þessa. Vítið klúðrast. Málið dautt.

Á myndbandi er auðvelt að sjá að boltinn hefði farið beint í andlitið á Suarez og hvort eð er ólíklegt að þarna hefði orðið mark.

Uruguay fer annars ekkert lengra, Holland er langtum betra lið. Ghana hefði heldur ekkert komist lengra.

Leikur þeirra skipti ekki máli.

Jóhann Hlíðar sagði...

Pistillinn er fínn, nema hvað það var dæmt eftir reglunum. Eigum við að dæma öðruvísi af því að Afríkuríki átti möguleika á að komast í fyrsta sinn í undanúrslit á HM? Ég held ekki.

Þó hef ég gríðarlega mikla samúð með Ganverjum fyrir að detta út með þessum hætti. Óendanlega mikla.

En hvað? Viltu setja inn nýja reglu í fótbolta sem er þannig að ef leikmaður ver með hendi á línu þá skuli dæma mark? Reglan núna er þessi: Ef leikmaður ver með hendi á línu, þá skal dæma víti og sýna viðkomandi leikmanni rauða spjaldið. Dómarinn fór eftir reglunum. Hvað annað gat hann gert? Búið til sínar eigin reglur?

Nafnlaus sagði...

Hárrétt greining Jóhann.
Reyndar fyndist mér mætti dæma mark ef svona er, en það er annað mál.

Nafnlaus sagði...

Mikið er þetta "naíft" hjá þér. Hver einasti leikmaður á HM og þó víðar væri leitað hefði gert hið sama. Þetta var brot en ekki svindl. Suarez barg Uruguay í þetta sinnið og hver veit nema að hann hafi tryggt þeim sæti í úrslitaleik á HM 11. júlí n.k.

Nafnlaus sagði...

Varðandi seinni hluta greinarinnar þá virðast kínverjar að vera takast það sem vestuveldin hafa ekki tekist að rífa afríku upp, allavega skv. grein í síðasta hefti Times.

Á meðan vesturveldin hafa vorkennt afríku og komið fram við afríkubúa sem annars flokks þá líta kínverjar á afríku sem tækifæri, land til að vinna með.

Núverandi vorkunarstefna hefur ekki skilað neinu. Það á að auðvelda verslun og viðskipti við afríku, í stað þess að kaupa sér sálaarfrið með ölmusu. Þar virðast kínverjar vera að ná forustu.

Með fótboltan þá er hann svolítið eins og lífið, drullu ósanngjarnt. En þýðir ekki vera velta sér upp úr því heldur halda áfram.

mbk
Magnús B.

Unknown sagði...

Það er reyndar nokkuð ljóst á myndum af "atvikinu" að þetta átti hvorki að vera víti eða rauttspjald. Þetta sést sérstaklega vel á 0:35 hér fyrir neðan.

http://img.casttv.com/video/4a0apx/ghana-uruguay-last-minute-situation-offside-not-penalty-video

Ef dómarinn hefði staðið sig í starfi þá hefði hann dæmt rangstöðu á þá tvo Ghani sem voru augljóslelega fyrir innan þegar að sendingin kemur inn í markteiginn. Þessir menn voru svo þeir tveir sem áttu fyrst skotið á markið og svo skallann sem Suarez varði.

Það eina vafasama við þetta er því að þessi mistök dómarans veittu Ghana vítaspyrnu sem þeir áttu ekki að fá og kostuðu Úrúgvæ bestu vítaskyttuna þeirra í vítakeppninni og í næsta leik.

Ég geri mér grein fyrir því að það er ekki hægt fabúlera um stöðu Afríku í alþjóðasamfélaginu út frá þeirri staðreynd að Fífa dómari var næstum búinn að veita afríkuþjóð ólöglegt mark til að koma þeim í undanúrslit á HM, en því miður er ekkert alltof mikið samhengi á milli fótbolta og alþjóðamála.

Nafnlaus sagði...

Ghana fékk vítaspyrnu og Harry Kewell var rekinn útaf í leik Ghana og Ástrala fyrr í mótinu. Leiknum lauk með jafntefli 1-1. Kewell hafði varið markið með hendi.

Þetta víti var á 24. mínútu leiksins. Ghanamenn komust upp úr riðlinum með 4 stig, jafnmörg og Ástralía, en á markamun.

Væri sama umræða uppi ef Ghana hefði klikkað á vítinu, tapað leiknum og ekki komist upp úr riðlinum?

Kewell var rekinn útaf, Ghana græddi á því. Suarez var rekinn útaf, Ghana klikkaði á vítinu.

Er það svindl ef Ghana fær ekki að skora úr vítaspyrnu?

Eiga Afríkuþjóðir að fá forgjöf, skjóta á autt mark, vegna nýlendukúgunar?

Núna er eg farinn að bulla jafn mikið og greinarhöfundur...

Nafnlaus sagði...

Las Vegas Sands Casino | A Resort in Las Vegas, NV | Sega
Located just a 5-minute drive from ラッキーニッキー the famous strip, Sands Casino offers all the thrills 샌즈카지노 and excitement that Vegas has to offer. gioco digitale