miðvikudagur, 5. ágúst 2009

Vanur maður, vönduð vinna

Nýja Kaupþing hefur runnið á rassinn með sína fáranlegu lögbannstilraun á frétt Ríkisútvarpsins um lánabók gamla Kaupþingsins, enda er hún aðgengileg hverjum tölvulæsum manni.

Ef skilja má yfirlýsingar fyrirtækisins telur Kaupþing leka lánabókarinnar mikinn glæp og að lekandinn, “the whistleblower” verði fundinn og honum refsað.

Mér fannst sem ég væri að upplifa gamla tíma í boði Kaupþings þegar ég heyrði þessa frétt. Eins og dyggum lesendum eyjunar er kunnugt, rifjaði ég upp á dögunum hvernig ég mátti þola brottrekstur sem fréttmaður Stöðvar 2 í kjölfar frétta um laxveiðar Geirs H. Haarde, fjármálaráðherra í boði Kaupþings í sumarlok 2003.

Ég ætla ekki að endurtaka þá frásögn en bendi á athugasemd Jóhanns Hlíðar Harðarsonar í athugasemdakerfinu þar sem hann segir vel og ítarlegar frá málinu en ég gerði. Þar endir hann á þá merkilegu staðreynd að ég hvorki samdi fréttina né var ég helsti andófsmaður í hópi fréttamanna sem á endanum knúðu Sigurð G. Guðjónsson forstjóra og Karl Garðarsson fréttastjóra til að birta fréttina.

En hvers vegna fékk ég þá hinn (núna) eftirsótta reisupassa í boði Kaupþings?

Fréttir bárust af andófi fréttamanna á netsíðunni frettir.com. Það voru hæg heimatökin því umsjónarmaður síðunnar var Steingrímur Sævarr Ólafssson, áður fréttamaður á Stöð 2 og síðar fréttastjóri.

Það þurfti ekki mikið hugmyndaflug til að sjá að Steingrímur átti góða(n) heimildarmann/menn á fréttastofunni því fréttir birtust af málinu með stuttu millibili.

Sigurður G. Guðjónsson forstjóri boðaði fréttamenn á sinn fund og krafðist þess að heimildarmaður gæfi sig fram. Hann neyddi menn til að neita því í heyrandi hljóði að þeir hefðu skýrt Steingrími okkar gamla félaga frá gangi mála.

Ég hins vegar harðneitaði að svara þeirri spurningu játandi eða neitandi hvort ég væri uppljóstrarinn. Ég taldi að við sem fréttamenn gætum ekki sætt slíkum afarkostum. Stjöð 2 sem fjölmiðill gæti augljóslega ekki refsað heimildarmönnum og ætlast siðan til þess að fólk úti í bæ treysti miðlinum fyrir upplýsingum.

Ég er enn þessarar skoðunar og mun enn þann dag í dag fullyrða að það hafi verið í almannaþágu að skýra frá ritskoðun stjórnenda Stöðvar 2 á þessa frétt.

Ef ég var ekki heimildarmaðurinn, þá er skýringin einfaldlega sú að ég var ekki í jafngóðu talsambandi við Steingrím Ólafsson og aðrir fréttmenn.

Rétt eins og nú þegar RÚV gleymir upphaflega málinu og sökkvir sér í lögbannsmálið, var fjallað um brottrekstur minn í einn eða tvo daga (eða bara hálfan?) en ekki um það sem hékk á spýtunni.

Hvers vegna var Kaupþing að bjóða fjármálaráðherra í lax og hvers vegna var svo mikið pukur í kringum það? Og hvernig mátti það vera að fjölmiðill hæfi nornaveiðar gegn uppljóstrara? Hvaða trúverðugleiki gat slíkur fjölmiðill haft? Seinna hefði svo mátt spyrja Geir H. Haarde af því hvort han n hefði talið laxveiðiferðina fram til skatts. Kannski að það sé ekki of seint að spyrja.

Enn þann dag í dag skil ég ekki hvers vegna Blaðamannfélag Íslands greip ekki í taumana yfir þessari skoðanakúgun og raunar varð þetta seinna til þess að ég sagði mig úr félaginu.


En aftur að nútímanum:

Er ekki upplagt fyrir Kaupþing að fá Sigurð G. til að draga uppljóstrarann fram í dagsljósið? Vanur maður, vönduð vinna; maður með reynslu bæði af rekstri og brottrekstri.

Hvort rétti maðurinn fær að taka pokann sinn eftir að rannsóknarréttur Sigurðar G. hefur kafað ofan í málið, er svo annað mál.

5 ummæli:

Andrés sagði...

Ég man mjög vel eftir þessu máli. OG ekki síst hvað því var illa fylgt eftir sem sneri að Geir Haarde fjármálaráðherra og Kaupþingi.

Ég hygg að þarna hafi fjölmiðlarnir verið illa haldnir af ótta of meðvirkni sem herjaði á opinbera umræðu um nokkurra ára skeið í kringum aldamótin og ég tengi við ægivald Davíðs Oddssonar, en kann að eiga sér flóknari skýringar.

Ég skil heldur ekki að fjármálastofnanir séu enn að bjóða í lax, þrátt fyrir hrunið. Eins og ég frétti nýlega.

Þetta eru ekki réttlætanleg útgjöld.

Og alls ekki að stjórnmála- embættismenn taki við slíkum gjöfum.

Nafnlaus sagði...

Pistlarnir þínir eru yfirleitt magnaðir og hárbeittir. A.m.k. finnst mér það!

- Hlynur Þór Magnússon

Nafnlaus sagði...

Góður Árni, sem endranær. En alveg sérstaklega góður núna, Kominn í fantaform. Þið bræður eruð a must read!
Keep it coming.
Forza Aquilani!
:-)

Riflepro sagði...

Góður Árni og heilsteyptur.
Fer ekki bráðum að fréttast af
Serious Fraud Office í UK.
Líklega eru ýmsir fjárglæfra dólgarnir búnir að kaupa farseðil frá London til Tortola eða Tonga.
Og þá verða fisk viðskipti í uppnámi þegar handjárnunum verður sveiflað löggulega í L city.
Scotland Yard hefur nú harma að hefna í Icesave 20 Mills punda!. Best væri ef þeir fenju áhuga á að kíkja á málin á Fróni.

Nafnlaus sagði...

Skrítnast í þessu Kaupþings-lekamáli er að fréttastofa RÚV hafi yfirleitt farið eftir lögbanninu. Það sýnir undarlegan undirlægjuhátt gagnvart stjórnvöldum. Staðreyndin er sú að lögbannið var ekki sett á tilveru lánabókarinnar á netinu, heldur á FRÉTTAFLUTNING af því sem þar stóð.

Hvernig má það vera að virtasta fréttastofa landsins hafi látið einhvern embættimann banna sér að fjalla um það sem er fyrir allra augum? Hvaða rétt hafði þessi embættismaður til að banna fréttaflutning?

Vonandi er þetta í síðasta skipti sem íslenskur fjölmiðill lætur stjórnvöld kúga sig varðandi fréttaflutning. Nógu slæm eru afskipti eigenda fjölmiðlanna, eins og dæmin sanna.

Og Sigurð G. Guðjónsson ætti eiginlega að stoppa upp og hafa til sýnis á furðuverkasafni Ripleys.