mánudagur, 13. júlí 2009

Stefna Borgarahreyfingarinnar var skýr

Þór Saari, frambjóðandi Borgarahreyfingarinnar skrifaði á heimasíðu hreyfingar hennar daginn fyrir kjördag: “Stefna Borgarahreyfingarinnar í Evrópumálum er að ekki sé hægt að taka afstöðu til málsins nema að undangengnum aðildarviðræðum. Að þeim loknum mun aðildar samningurinn verða kynntur öllum landsmönnum með beinum kynningum um allt land og með víðtækri umræðu og fjölmiðlaumfjöllum í allt að sex til tólf mánuði ef með þarf.
Að þeirri kynningu lokinni yrði svo samningurinn borinn undir þjóðaratvæði."

Birgitta Jónsdóttir, alþingismaður Borgarahreyfingarinnar er sem sagt á móti stefnu eigin flokks eins og hún var kynnt daginn fyrir kosningar og reyndar á móti sínum eigin orðum: "Já, við viljum sækja um og leggja það í dóm þjóðarinnar.“

Birgitta skrifaði athugasemd við skrif mín um helgina: “Ég man ekki eftir því að hafa lofað því að ganga í ESB og ég man ekki til þess að það að segja eitthvað eftir kosningar sé skilgreint sem kosningaloforð.”

Ég hef aldrei sagt neitt um að Birgitta hafi lofað því að ganga í ESB.
Og eru það svo frambærileg rök siðbótarkonu í íslenskri pólitík að hvað sem sinnaskiptum hennar líði þá sé ekki hægt að flokka yfirlýsingu sem var gefin örfáum klukkustundum eftir lokun kjörstaða sé ekki kosningaloforð? Skiptir það máli?

Er hún að halda því fram að orð Þórs Saari þar sem hann segir hreint út að stefna Borgarahreyfingarinna sé að fara í aðildarviðræður og bera samninginn undir þjóðina, sé ekki stefna hreyfingarinnar?

Talaði Þór ekki fyrir hönd hreyfingarinnar og þar með Birgittu í jafn mikilvægu máli?

Er það siðbótarkona í íslenskri pólitík sem hér talar?

Kjarni málsins er sá að Birgitta snýst eins og skopparakringla og hefur tekið aljgörum sinnaskiptum í lykilmáli í íslenskri stjórnmálaumræðu á aðeins rúmum tveimur mánuðum.

Nýjustu skoðunum hennar lýsir Þór Saar flokksbróðir hennar svo: “Sá fyrirsláttur … að það þurfi fyrst að kjósa um aðildarviðræður er ömurleg birtingarmynd kjarkleysis þeirra sem ekki einu sinni þora að viðurkenna að þeir hafi skoðun á móti ESB.”

PS Lesandi benti mér á að ég hafi misritað nafn Þórs Saari. Ég vil biðja hann velvirðingar á þessum mistökum sem ég hef nú leiðrétt.

17 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Birgitta er greinilega að átta sig á að eitt er að gaspra útí loftið ábyrgðarlaust sem einstaklingur. Annað er að vera komin á þing og þurfa að taka ígrundaðar og rökstuddar ákvarðanir. Þetta tvennt fer víst ekki saman og það er hún að reka sig á núna.

Nafnlaus sagði...

Eins og hún Birgitta byrjaði vel, þá veldur hún miklum vonbrigðum nú.

Gísli Baldvinsson sagði...

Og hægri pressan byrjuð að berja á þér Árni. Ég get fullyrt að þú berð á öllum hægri vinstri. Það er öllum hollt.

Daði Ingólfsson sagði...

Því miður verður að viðurkennast að hér hljóp Borgarahreyfingin á sig daginn fyrir kosningar. Það er ekkert í stefnu Borgarahreyfingarinnar um ESB. Stefnuna má lesa í heild sinni hér: www.borgarahreyfingin.is/stefnan/ - annað er ekki stefna hennar. Þegar þessum markmiðum er náð leggur hreyfingin sig niður.

Að öðru leyti finnst mér umræðan á ömurlegu plani hjá öllum flokkum. Hvaða máli skiptir hver sagði hvar hvenær? Þetta snýst um kosti og galla þess að ganga í sambandið, annað er tímasóun. Hver er td. afstaða þín Árni gagnvart hermálastefnu (varnarmálastefnu) ESB?

Nafnlaus sagði...

Borgarar töluðu gjörsamlega einum rómi í öllum opinberum umræðum fyrir kosningar.

Fara í aðildarviðræður og síðan að kjósa.

Agjörlega skýrt.

Birgitta talaði alveg í samræmi við ofannefnt.

Er hún að segja núna að þór Saari hafi platað sig? Er Borgaraflokkurinn að klofna?

Skrítið líka hve lítið heyrist frá Bertelssyni

Nafnlaus sagði...

Birgitta er vonbrigði ársins.

Ekki er rök henar fyrir því a vera moti sannfærandi.

Nafnlaus sagði...

Þetta kemur ekki á óvart. Birgitta er, eða allavega var skráð í VG síðast þegar ég vissi. Hún sagði það á undirbúningsfundi Borgarahreyfingarinnar fyrir kosningar.
Annars eru Borgarahreyfingin að mínu mati eftir að hafa mætt á nokkra fundi með þeim fyrir kosningar og séð vinnibrögðin og skoðanirnar, alveg sannfærður að þar eru ALLIR á móti ESB.
Á einum fundinum stakk einn nýliðinn upp á því að flokkurinn yrði að hafa stefnu í þessum málum og Birgitta, Þór Saari, Lilja Skafta, Baldvin, Sigurlaug (Cilla) og fleiri á fundinum gersamlega trompuðust. Öskur,læti og hávaði allt gegn þessum nýliða sem vildi vera með í hreyfingunni. Eftir þá meðferð sem uppástunga hans hafði í för með sér, þá mætti hann að sjálfsögðu ekki aftur, enda persona non grata eftir að hafa stungið uppá því að hafa skoðun á málinu.

Nafnlaus sagði...

Smá nit-picking.

Er það ekki "Þór Saari" en ekki "Þór Saar"? Þar sem um er að ræða nafn viðkomandi finnst mér sjálfsagt að gera athugasemd um stafsetninguna í þessu tilfelli :)

Héðinn Björnsson sagði...

Það er ekkert um ESB í stefnu Borgarahreyfingarinnar og það var klárt mál að utan þess sem var í stefnu hreyfingarinnanr var samþykki um að þingmenn hefðu frelsi til að komast að hvaða niðustöðu sem þeim þætti best fyrir Ísland. Þetta verður prufusteinninn á það hversu vel slíkt gengur.

Annars er flótti bæði ESB-sinnum og andstæðingum á þingi frá eigin stefnu í þessu máli bestu rökin fyrir því að setja málið í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hver sem niðurstaðan verður mun alltaf sitja eftir að aðilar báðum megin við deiluna mun telja sig vera svikna af fulltrúum sínum og ekki síst sökum þess hversu viðkvæmt ástandið er þessa dagana þar sem litlir neistar geta vakið mikið bál er best að taka þessa ákvörðun saman. Fólk sættir sig mun betur við að verða undir í stórum málum ef það telur að ákvörðunin hafi lögmæti. Slíkt mun alltaf skorta í komandi atkvæðagreiðslu á þingi sem aftur mun verða þess valdandi að jafnvel þó aðildarsinnar fái sitt í gegn geti nýjar kosningar valdið viðræðuslitum.

Nafnlaus sagði...

"Svo má böl bæta að benda á eitthvað annað" kvað skáldið hér um árið.

Hvað segirðu þá með allt það sem Samfylkingin sagði fyrir kosningar og snýr á haus eftir kosningar? Ráðgefandi stjórnlagaþing? Ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur? Persónukosningar þar sem enn er ýtt undir FLokkshagsmuni í stað þess að hlusta á þjóðarviljann? Skjaldborg um heimili sem breyttist í Skuldborg heimilanna? Ekki yrði ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur, en fyrst farið í niðurskurð hjá öryrkjum og eldri borgurum? Opin og gangsæ stjórnsýsla? Þarf að hafa nokkuð fleiri orði um orð og efndir Samfylkingarinnar?

Birgitta er algjörlega sjálfri sér samkvæm og efi hennar er skiljanlegur og endurspeglar umræðuna í samfélaginu þessa dagana, þegar öllu sem hægt er að leyna er leynt fram á síðustu stundu. Sjálfur er ég á því að einföld þjóðaratkvæðagreiðsla dugi í Evrópumálinu, en ALLS, ALLS EKKI ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla Samfylkingarinnar.

FLokksdindlaháttur fer þér ekki vel Árni, til þess ertu allt of skýr í höfðinu. Sannaðu til þú munt á endanum fá þitt skrifborð í Brüssel :-Þ - en það þarf bara að gerast án þessa ofríkis framkvæmdavaldsins og skipulagðra FLokksofsókna

Bestu kveðjur
Þorvaldur Óttar Guðlaugsson

Nafnlaus sagði...

Að lesa þetta mjálm í eiganda þessarar síðu sem og þeirra sem hér hafa sett inn athugasemdir.

Birgitta hefur kynnt sér þessi mál enda er hún nú í mun betri aðstöðu til þess en hún var áður en hún komst á þing.
Henni líkaði greinilega ekki það sem hún sá .. og hefur skipt um skoðun.

Borgarahreifingin hefur enga stefnu í ESB og geta þingmenn hreifingarinnar skipt um skoðun hvað varðar svona mál... eða ég veit ekki betur.

Ótrúlegur pistill alveg...

Einar Einars.

Nafnlaus sagði...

Guðmundur 2 Gunnarsson

Það á að setja lög um að engir stjórnmálamenn og flokksdindlar fái að starfa fyrir hönd þjóðarinnar í ESB, þegar og ef að við göngum inn.

Ný lög um Seðlabankastjóra voru löngu tímabær, enda út í hött að senda útbrunna þingmenn og ráðherra í einhver hægindastörf hvert sem er á vegum þjóðarinnar, og eða einhverjar afætur og pólitískar blóðsugur flokkanna og aðra tækifærisinna.

Það þarf fólk sem kann og vill starfa ópólitískt fyrir og að hagsmunum þjóðarinnar, en ekki afbrygðilegum hagsmunum flokksskrýmsla hvaða flokkum sem þau skríða úr.

Ætli það myndi ekki fækka verulega í hópi þeirra í Samfylkingunni 1 & 2 VG, sem myndu kjósa inngöngu í "dýrðarveröld" ESB.

Nafnlaus sagði...

Árni er pólitísk og steinrunnin ESB tröllskessa.

Þú heldur kannski að heimurinn snúist í kringum þetta ESB mál. En það er ekki svo.

1. Þingmenn Borgarahreyfingarinnar töluðu meira um það að fara eftir sinni eigin sannfæringu fyrir kosningar en ESB.

2. Ekkert er um ESB í stefnuskrá hreyfingarinnar.

3. Birgitta vill skoða málið betur áður en hún tekur ákvörðun sem er auðvita stór undarlegt séð frá bæjardyrum manns sem er vanur að fólk fari eftir pólitískum línum.

Svo virðist að Birgitta sé of heiðarleg fyrir gamla stjórnmála hunda. Þeir fatta hana ekki.

Nafnlaus sagði...

Mér sýnist Skrýmsladeildin vera með þig sem skotmark Árni.

Huggaðu þig við þá hugsun að því meira sem þeir segja, þeim mun meira styrkist málstaður okkar.

Nafnlaus sagði...

Daði, Héðinn og nokkrir nafnlausir:

Það er einfaldlega RANGT að halda því fram að Borgarahreyfingin hafi haft enga stefnu varðandi ESB-umsókn.

Þó að það standi ekki í einhverri stefnuyfirlýsingu, þá voru þau öll þráspurð um þetta fyrir kosningar og töluðu þá einum rómi; að það ætti að sækja sem fyrst um aðild og leggja svo samning í dóm þjóðarinnar.

Orð og yfirlýsingar frambjóðenda í aðdraganda kosninga er ekkert minni stefnuyfirlýsing en formlegt plagg.

Auk þess var málflutningur Þórs Saari birtur á heimasíðu hreyfingarinnar og í bæklingi hennar, þar sem hann talar um "stefnu Borgarahreyfingarinnar".

Þá hefur Birgitta líka viðurkennt að hafa skipt um skoðun, hún afsakar sig með því að hún hafi verið blekkt áður fyrr og að hún hafi misskilið umsóknarferlið. Hvort sem það er nú rétt eða ekki, þá staðfestir hún sjálf að hún hafi skipt um kúrs, sem er auðvitað ótækt svo skömmu eftir kosningar.

Og Daði: skiptir það virkilega engu máli hver sagði hvað og hvenær? Auðvitað skiptir það höfuðmáli, annars getum við bara sleppt stefnumálum, framboðsfundum, osfrv.

Með þessu eruð þið að segja að það skipti engu hvað frambjóðendur Borgó sögðu fyrir kosningar. Það eru ekki miklar kröfur, sem þið gerið á þessa þingmenn, - að þeir geti bara sveiflast einosg lauf í vindi hvað sem þeir sögðu áður og hverju sem þeir lofuðu, kæmust þeir á þing.

Þúsundir kjósenda greiddu XO atkvæði sitt með þá fullvissu að þingmenn hennar myndu allir sem einn styðja aðildarumsókn að ESB. Sinnaskipti Birgittu eru ekkert annað en svik við þessa kjósendur.

Daði Ingólfsson sagði...

Ég endurtek: Borgarahreyfingin hljóp á sig. Ég er einn af þeim sem samdi stefnu hreyfingarinnar og það var kristaltært að þetta var stefna hennar og ekki annað. Svo hljóp pólitískur hiti í hreyfinguna og hún varð að hefðbundnum stjórnmálaflokki. Það má til kannski til sanns vegar færa að þetta hafi rétt fyrir kosningar orðið að einhvers konar stefnu, en það var ekki það sem lagt var upp með, og það er afar dapurlegt.

Þú talar svo eins og þingmenn hafi ekki leyfi til að skipta um skoðun. Ég er á öndverðu meiði. Ég tel að þeir eigi að fylgja sannfæringu sinni hverju sinni, og sérstaklega ef þeim snýst hugur. Það er fólkið og samviska þess sem við kjósum, ekki flokkana. Þess vegna er líka núverandi stjórnkerfi ónýtt - efsta lag stjórnarflokkana (venjulega einn eða tveir menn) hafa ekki einungis algert kverkatak á eigin þingmönnum, heldur á löggjafar- og framkvæmdavaldinu eins og þau leggja sig. Á meðan þetta fyrirkomulag er óbreytt heldur Alþingi áfram að vera sá skrípaleikur sem hefur sett þjóðina á hausinn og misst tiltrú almennings nær algerlega. Lítt duldar hótanir núverandi leiðtoga stjórnarflokkana er gott dæmi um það.

Mér finnst auk þess sorglegt að heyra, ef rétt er, að þér finnst mikilvægara að grafa í fortíðinni heldur en að spá í framtíðina. Við þurfum að komast að eins gáfulegri og vel upplýstri niðurstöðu um þetta mál óháð flokkadráttum. Taktu eftir: niðurstaðan fékkst ekki við niðurstöðu síðustu kosningar, heldur við að athuga málið eins og það liggur fyrir núna.

Nafnlaus sagði...

Það er Þráinn "hárlausi" sem er svikarinn.

Hann styður þjóðaratkvæðagreiðslu sem er ráðgefandi.

Hinir þrír styðja tillögu sem gerir ráð því að þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB sé bindandi.

Því líkur brandari.