mánudagur, 13. júlí 2009

D-listi logar stafna á milli

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins á ekki sjö dagana sæla. Hann hefur það sem af er árinu haft uþb. fjórar skoðanir á aðild Íslands að Evrópusambandinu. Í fljótu bragði mætti ætla að tillaga hans um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu væri verk galins manns, svo mjög sem hún er í andstöðu við fyrri yfirlýsingar formannnsins.

Sýnum Bjarna þó fyllstu sannigirni og lítum yfir sviðið og það sem hann glímir við:

Náfrændi hans Benedikt Jóhannesson, hagfræðingur orðar þetta svo í Morgunblaðinu í dag

“Aldrei hefur verið jafnmikilvægt og nú að þjóðin haldi öllum leiðum út úr kreppunni opnum. Þeir sem segja nei við viðræðum við Evrópusambandið loka dyrum sem vænlegastar eru í peningamálum og alþjóðasamvinnu. Nei er uppskrift að áframhaldandi stöðnun og þrengingum þjóðarinnar um langa framtíð. Hver vill bera ábyrgð á því?”

Björn Bjarnason, ættarlaukur Engeyjarættarinnar og frændi Bjarnans og Benediktsins vill greinilega bera ábyrgð á því enda hraunar hann yfir Carl Bildt gamlan félaga Davíðs og Kjartans úr norrænni stúdentapólitík sem gerði honum það eitt til miska að segjast ætla að fylgjast með gangi mála á Alþingi Íslendinga.

"Má ekki" segir Geðvonsku-Björn,.

Fylgismaður Björns, tukthúslimur nokkur sem setið hefur í fangelsi fyrir þjófnað og umboðssvik, Árni Johnsen, að nafni, sagði á hinu háa Alþingi í dag:

“Við Íslendingar erum ekki fædd til þess að gefast upp. Þess vegna eigum við ekkert erindi inn í nýja Sovét. Og þetta nýja Sovét er miklu hættulegra en hið gamla. Það ætlar sér að kokgleypa Ísland. Og ef hið nýja Sovét kokgleypir Ísland, þá munu menn ekki hafa fyrir því að hrækja beininu.”

Bjarni sjálfur og þingflokksformaður hans Illugi Gunnarsson skrifuðu fyrir rúmu hálfu ári:

“Íslensk stjórnvöld eiga að ganga til viðræðna við Evrópusambandið og kanna hvernig samningum Íslendingar næðu um aðild og bera niðurstöðuna undir þjóðaratkvæði í kjölfar viðræðna.”

Árni Johnsen getur tæplega setið áfram í flokki með mönnum sem hann telur stefna að inngöngu í hið nýja-Sovét.

Við þessar aðstæður er skiljanlegt að Bjarni og félagar reyni að leika þann biðleik sem er að fara fram á tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Að sjálfsögðu er honum og félögum hans engin alvara með þessu. Þetta er einfaldlega liður í innanflokksátökum i Sjálfstæðisflokknum.

Þeir reyna að forðast klofningi með því að láta fara fram atkvæðagreiðslu á þingi um að setja umsókn í þjóðaratkvæði.

Það þarf líka að stinga dúsu upp í Ólöfu Nordal og RagnheiðiRíkharðsdóttur sem hafa gefið svo skýrar yfirlýsingar um nauðsyn ESB aðildar að þær geta gleymt endurkjöri á Alþingi ef þær sýna ekki tennurnar í þessu máli.

Á hinum vængnum væri það út af fyrir sig lítið mál ef Bjarni og félagar væru einungis að glíma við Kalda-Stríðs Bjössa og dæmda tukthúsliminn.

Í kvöld hótaði Davíð Oddsson endurkomu í stjórnmálin. Og þótt tilefnið sé Icesave, verður Davíð Group ekki skotaskuld úr því að gera útrás í ESB málin. Hæfir kjaftur skel.

Og svo ég vitni óbeint í mág minn og einn besta vin Davíðs, Kjartan Gunnarsson er þeim ágæta manni algjörlega skítsama um allt annað en sjálfan sig.

Og þótt fórnarkostnaðurinn sé með orðum Sjálfstæðismannsins Benedikts Jóhannessonar: "uppskrift að áframhaldandi stöðnun og þrengingum þjóðarinnar um langa framtíð," þá er Davíð alveg sama. Honum er nefnilega í raun og veru skítsama um allt nema sjálfan sig.

(PS: Orð Kjartans voru látin falla á opinberum fundi Sjálfstæðisflokksins í Valhöll. Var greint frá honum i íslenskum fjölmiðlum og síðar í bók Guðna Th. Jóhannessonar Hrunið. Kjartan neitaði síðar að hafa átt við Davíð Oddsson. Það er því röng ályktun í athugasemd að ég sé að skýra frá einhverri einkavitneskju minni.)

19 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Maður fær nú hálfpartinn gæsahúð við að lesa um viðbrögð Árna Johnsen í fjölmiðlum. Einangrunarstefnan minnir á afdankaða þjóðarflokka á hinum Norðurlöndunum.

Það er öllu áhugaverðara að sjá hve sundurtætt íslensk stjórnmál eru í dag.

Ætli geti verið að fjórflokkakerfið sé að liðast í sundur?

P

Nafnlaus sagði...

Þar er þá semsagt flokkur þar sem flokksmönnum leyfist að hafa skoðanir?

Nafnlaus sagði...

Þetta ætti nú frekar að vera "Ríkisstjórnin logar stafnana á milli"

Nafnlaus sagði...

Árni...held bara að þetta sé flottasta færsla frá þér sem ég hef lesið.

Þetta er allt rétt en því miður þá virðist almenningur hér á landi svo vitlaus eða illa lesin að hann les stöðuna oftast vitlaust.

Á meðan svo er þá geta lýðskrumarar likt og Davíð og Co. farið sínu fram og dregið ástandið á langinn.

Það er stórfurðulegt að fylgjast með Sjálfstæðisflokknum fresta því stöðugt að klofna... berja í brestina aftur og aftur og almenningur kveikir ekki á því einu sinni að flokkurinn er að vinna gegn hagsmunum sínum.

Fyrr á tímum þá komumst við sem þjóð upp með að eiga heimska og illa upplýsta alþýðu. Það var bara heppni en nú þegar illa árar þá kemur í ljós hversu hættulegt það er því að fólk greinir vandann vitlaust og lætur segja sér hluti í stað þess að kynna sér þá sjálft.

Íslandi verður allt að ógæfur og kannski er það bara eitthvað sem þarf að gerast til þess að hér hreinsist ógeðið út.

Þetta er auðvitað skítakarma sem fylgir okkur og mun gera það áfram á meðan fólk er sofandi.

Nafnlaus sagði...

já sæll!

Er kjartan gunnarsson svona náungi sem baktalar vini sína og þú svona náungi sem hleypur með það á bloggið sitt? eða eru kjartan og davíð bara ekki vinur lengur?

Nafnlaus sagði...

Það tekur nú enginn með fullu viti mark á Davíð lengur.

En með Sálfstæðisflokkinn þá er hann að verða eins og breski Sjálfstæðisflokkurinn - ef hann hefur ekki hálfpartinn alltaf verið þannig flokkur.

Getur ekki verið að íhaldsmenn eða hófsamir hægrimenn vilji vera í þessum flokki lengur. Getur bara ekki verið.

Nafnlaus sagði...

Guðmundur 2 Guðmundsson

Verð að dást af "smekklegheitunum" í þér Árni, að reyna að gefa 2 mönnum sem þér er augljóslega afar illa við, saman eitt fáránlegt pungspark sem hittir þig sennilega sjálfan verst fyrir.

Nafnlaus sagði...

Þú ert greinilega orðinn hræddur Árni minn um að landráðaflokkurinn sé að tapa málinu. (Samfó)

Nafnlaus sagði...

greinilegt að þú ert starfandi fyrir áróðursráðaneyti Baugs, ég meina Samfylkingarinnar (á setja mun á dótturfyritæki og móðurfyrirtæki?) í þessu ESB máli. Enda verður að bjarga útrásinni með því að ganga í ESB.
-fannar

Nafnlaus sagði...

Bensi Jó. er stærðfræðingur en ekki hagfræðingur.

Nafnlaus sagði...

Það logar allt stafna á milli allsstaðar eða ætlar þú að halda því fram að einhver eining ríki innan VG og þar með innan stjórnarsamstarfs. Ætlar þú að halda því fram að XS sé heil...hafandi haldið um taumana í hruninu en vill nú ekkert við það kannast. jújú...þetta er allt XD að kenna, alveg rétt þeir bera mikla ábyrgð en þýðir það að allt sé í sóma hjá XS. Er til einhver lína og ef þú ferð ekki yfir hana ertu stikkfrí....

Nafnlaus sagði...

Benedikt er líka mentaður í hagfræði. Var með hagfræði sem aukarein í BS námi í University of Wisconsin. Þ.e.a.s. hann er BS í stærðfræði með hagfræði sem aukagrein.

Síðan einbeitti hann sér að stærð og tlnafræði. MS og Doktor og eg veit ekki hvað.

Þessi maður ætti að vera formaður Sjálfstæðisflokksins.

http://www.heimur.is/heimur/upload/images/heimur/starfsmenn/benedikt/benedikt_1974.jpg

Nafnlaus sagði...

Þú ert greinilega á villigötum.

Unknown sagði...

góð grein Árni. Auðvitað loga eldar í öllum flokkum á tímum sem þessum. ég verð samt að segja að Samfó og trú þeirra á ESB er gegnheil. Það ganga allir í takt vegna sanfæringar, það er ekki verið að berja fólk til hlíðni, hvað varðar ESB.

Það er sorglegt að horfa upp á Sjálfstæðisflokkin í stjórnarandstöðu. Þeir hafa ekki en getað horft í spegil og gert upp nýliðna fortíð. frekar kasta þeir fýlubombum, búa til tortryggni og leiðindi.

Það er auðvitað hægt að gagnrýna Samfó heilmikið undanfarna mánuði og ár. En ESB er stefnan skýr og heilsteypt. ég er líka hundleiður á því að vera kallaður samfylkingar maður þó að ég sé ESB sinni. Það er Barnnalegt af fólki að skvetta á árna baygs og samfó stimpli. Hef ekki hugmynd um hvar hann er í pólitík. Þó hann sé ESB sinni. Það er alltaf verið að setja umræðuna í svo þrönga kassa.

Nafnlaus sagði...

"Skítsama um alla nema sjálfan sig". Það (eina) virðingarverða við D flokkinn er að hann viðurkennir að vera flokkur eiginhagsmunaseggja.
Svo er annar flokkur sem segist vera flokkur samhjálpar (og var það) en eiginhagsmunir eru nú orðið drifkraftur nær allra sem olnboga sig áfram í pólitík.

Nafnlaus sagði...

Árni, ertu búinn að finna húsnæði handa þér niður í Brussel?

Ertu agent fyrir Samfylkinguna þarna niður í Brussel?

Ofurtrú á ESB er sjúkleg og það er jafn sjúklegt að halda því fram að ESB sé einhver mæðrastyrksnefnd sem bjargi Íslandi.

Staðreyndin er sú að eina stefnumál Samfylkingarinnar er það að selja Ísland í ESB hvað sem það kostar.
Landsöluflokkurinn Samfylkingin hefur í því augnamiði virkjað fult af fótgönguliðum til að tala fyrir ESB-aðild.
Nái ekki þetta eina stefnamál Samfylkingarinnar fram að ganga, mun Samfylkingin liðast í sundur, enda mun tilverugrundvöllur hennar við það hverfa.

Best væri að Samfylkingin gengi í ESB, þá yrðum við hin lausir við hana fyrir fullt og allt þannig að hægt væri að takast á við uppbyggingu landsins að nýju.

Nafnlaus sagði...

Ég er hálf brunninn á bakinu! Enda stend ég í miðjum þessum logum!

Takk fyrir skemmtileg skrif!

Hjörtur J. Guðmundsson sagði...

Haha Árni, you wish! :)

Hjörtur J. Guðmundsson sagði...

Þess utan, þegar skiptar skoðanir eru innan Sjálfstæðisflokksins segja andstæðingar hans að hann logi stafna á milli og þegar lítið ber á slíku er talað um skoðanakúgun innan hans. Það er erfitt að gera sumum til geðs ;)