miðvikudagur, 15. júlí 2009

Saari og co fatta ekki djókinn

Stjórnmálamenn hafa löngum verið ákafir bridge- og skákáhugamenn. Bridge og skák eiga margt sameiginlegt; meðal annars það að ekki er allt sem sýnist. Að byrja á einum tígli eða enskum leik segir lítið um lokasögn hvað þá mið- og endatafl.

Með því er ég ekki að segja að fyrsta sögn, leikur eða vörn skipti engu máli; en bæði bridge og skák eru leikir þar sem hótanir, leikir sem hafa þann eina tilgang að kanna áætlanir eða hug andstæðingsins, eða hvers kyns blöff eru stór þáttur leiksins.

Sama máli gegnir um stjórnmál enda er sagt að menn tefli refskák í stjórnmálum, alþingismenn sitja löngum að tafli og bæði Bjarni Benediktsson eldri og Davíð Oddsson hafa löngum setið að bridds-spili.

Bjarni Benediktsson yngri leikur líka refskák í pólitíkinni.

Tillagan um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu er ekkert annað en biðleikur. Um leið og búið er að fella hana og samþykkja aðildarviðræður við ESB, verður Bjarni eins og prins sem leystur er úr álögum.

Honum hefur tekist að láta ofstækisfulla ESB andstæðinga eins og Pétur Blöndal og Árna Johnsen berjast eins og ljón, ekki gegn ESB aðild heldur fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður.

Sagan segir að meira að segja Styrmir Gunnarsson hafi látið blekkjast. Styrmir og aðrir áhugamenn um kalda stríðið þekkja auðvitað hvernig kommúnistar notuðu Salami-taktíkina í Austur-Evrópu og fengu nytsama sakleysingjaí til að gefa eftir í smáskömtum þar til þeim var hent fyrir borð og kommarnir urðu allsráðandi.

Þegar fingurinn bendir á tunglið, horfið fíflið á fingurinn.

Hvernig sem atkvæðagreiðslan á morgun fer, er eitt ljóst að allir Sjálfstæðismennirnir (og margir fleiri) sem hafa talað sig hása fyrir tvöfaldri þjóðaratkvæðagreiðslu eru búnir að kyngja aðildarviðræðum, þökk sé salami taktík Bjarna, Illuga og Þorgerðar.

Þeir munu amk. eiga erfitt með að útskýra fyrir þjóðinni að málflutningur þeirra fyrir því hvernig bæri að standa að því að ákveða aðildarumsókn, væri andstaða við ESB.

Ef þeir eru andsnúnir aðild að ESB, skulda þeir þjóðinni að þeir greiði atkvæði GEGN tillögu Bjarna Benediktssonar yngri um þjóðaratkvæði. Annars er ekkert að marka andstöðu þeirra við ESB.

Um leið og menn á borð við Árna Johnsen hafa greitt atkvæði með tillögu Bjarna eru þeir fastir í ESB netinu. Ef eitthvað er að marka Árna Johnsen þá fer hann ekki að taka áhættu með þvi að þjóðin samþykki aðild að Nýja Sovétinu!!?

Sennilega er Bjarni Ben, yngri klókari en ég hugði. Kannski er þetta bara óskhyggja. Það kemur í ljós.

Falli tillaga hans, stendur hann, samkvæmt þessari teóríu - sem hefur jú amk. einhvern tíman lýst stuðningi við aðild, með pálmann i höndunum. Geðvondi-Björn frændi hans, Davíð og allir hinir hafa jú tekið skrefí í átt til ESB aðildar með því að taka kröftugt undir að skjóta málinu til þjóðarinnar. Til hvers að gera það og vera síðan á móti?

Það fyndnasta við þetta er að borgara-þrímenningarnir hafa ekki fattað djókinn. Að þeir eru peð í valdatafli innan Sjálfstæðisflokksins - þar sem ekki er allt sem sýnist frekar en í nokkru bridds-spili eða góðri skák.

Eru þetta ekki ömurleg örlög byltingarflokksins sem varð til i kjölfar barsmíðanna á pottana og pönnurnar gegn stjórn Sjállfstæðisflokksins?

19 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Nú ertu alveg að missa þig Árni.
Djókinn snýr nefnilega uppá þig og þá sem iðka þessi silkifínu hreintrúarbrögð ESBara. Heimsýn ykkar mætti nú vera örlítið víðsýnni að mínu mati.

Lestu nú aftur yfir nokkra fyrri pistla þína og þá sérðu hvað ég á við. Borgarahreyfingin er ótamið villdýr sem kemur blóði slímsetumanna á þingi á hreyfingu. Borgarahreyfingu. Og ekki vanþörf á.

Lifi byltingin!

Nafnlaus sagði...

Þjóðaratkvæðagreiðsla er alltaf góð.

Doddi D

Nafnlaus sagði...

"Eru þetta ekki ömurleg örlög byltingarflokksins sem varð til i kjölfar barsmíðanna á pottana og pönnurnar gegn stjórn Sjállfstæðisflokksins?"

Yup - þessir pottormar höfðu ekkert við ráðherra Samfylkingar, sem voru síjarmandi um ótrúlega snilli íslenskra útrásarvíkinga á alþjóðavettvangi, að athuga.

Nafnlaus sagði...

Gallinn við svona skýringar er að þær gera ráð fyrir að einhver rökhugsun sé í pólitíkinni. Hvenær hefur það háð stjórnmálamönnum að segja eitt í dag og annað á morgun? Hvað hefur Bjarni orðið margsaga í ESB málinu? Árni Johnsen er væntanlega miklu rökfastari eða hvað?

Nafnlaus sagði...

Ekki þori ég að fullyrða að þetta hafi verið hugsað svona, en ég þori að fullyrða að hljómurinn í málflutningi Sjálfstæðismanna hætti að vera holur þegar þeir fóru að berjast fyrir tvöföldun. Sú barátta varð óvart frelsisbarátta því samþykki þjóðar á viðræðum hefði frelsað evrópuarminn undan þeim "heimsku" í flokknum og styrkt hann.
Stefán Benediktsson

Nafnlaus sagði...

Það eru meiri líkur á því að Dabbi verði orðinn forsætisráðherra í haust en að Bjarni Ben sýni klókindi og festu.

Nafnlaus sagði...

Þú gengur út frá því að Sjálfstæðismönnum verði EKKI að ósk sinni um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. En hugsaðu þér ef þeirra sjónarmið fá fylgi á þinginu og þjóðin FELLIR tillögu um aðildarviðræður.

Er þá ekki þar með búið að koma í veg fyrir allt framhald ESB mála? Er ekki ljóst að þá verða engar aðildarviðræður og þarmeð þarf enga seinni þjóðaratkvæðagreiðslu? Er sú niðurstaða virkilega það sem Sjáflstæðismennn sækjast eftir? En kannski eru þeir bara að djóka eins og þú gefur í skyn.

Hvort skyldi nú vera lýðræðislegra, að fá að kjósa um útkomu úr aðildarviðræðum, eða að kjósa um að kanna ekkert hvað gæti komið út úr slíkum viðræðum.

Árni Snævarr sagði...

Gaman, gaman! fullt af fínum athugasemdum.

Já það má margt segja um hollustu Össurs, Ingibjargar Sólrúnar og Björgvins G. við útrásarvíkingana.

Og já, ég held að framboð Borgarahreyfingarinnar hafi verið af hinu góða.

Jafnframt tel ég að þjóðaratkvæðagreiðslur séu af hinu góða.

Mér finnst líka skemmtileg kenningin um rökhugsun eða vöntun á henni í íslenskri pólitík.

Stebbi Ben minn gamli listasögukennari er alltaf góður.

En svo kemur einn nafnleysinginn með þett snillarkomment:

Þú gengur út frá því að Sjálfstæðismönnum verði EKKI að ósk sinni um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. En hugsaðu þér ef þeirra sjónarmið fá fylgi á þinginu og þjóðin FELLIR tillögu um aðildarviðræður.

Er þá ekki þar með búið að koma í veg fyrir allt framhald ESB mála? Er ekki ljóst að þá verða engar aðildarviðræður og þarmeð þarf enga seinni þjóðaratkvæðagreiðslu? Er sú niðurstaða virkilega það sem Sjáflstæðismennn sækjast eftir? En kannski eru þeir bara að djóka eins og þú gefur í skyn.

Hvort skyldi nú vera lýðræðislegra, að fá að kjósa um útkomu úr aðildarviðræðum, eða að kjósa um að kanna ekkert hvað gæti komið út úr slíkum viðræðum.

Nafnlaus sagði...

Árni,

Þú verð ekki í aðildarviðræður til að kanna hvað þú færð. Þú verð í aðildarviðræður til að ná samkomulagi vegna þess að þú hefur áhuga á því að Ísland gangi í ESB.

Það verður að vera heil brú í málflutningi og gjörðum annars erum samningarmenn með hangandi haus.

Nafnlaus sagði...

Samfylkingin er að blekkja þjóðina til að þurfa ekki að feisa rannsókn á bankahruni, spillingu, kúlulánum og styrkjum. Þið færið ekki góð rök fyrir máli ykkar.
Ég er Evrópusinni en vil að þjóðin fái faglegar upplýsingar en ekki að Samfylkingin fari inn með sitt fólk í aðildarviðræður og samkomulag bak við tjöldin. Samfó er spillingarflokkur leyndarmálanna. Sveiattan.

Nafnlaus sagði...

Skildi ég pistilinn rétt svona: "Borgarahreyfingin hefur sýnt sig að stunda klæki eins og við hinir eldri klækjarefirnir, og því hef ég fulla afsökun fyrir því að styðja hrun Íslands fullum fetum og ætla að halda áfram að híja á ykkur sem voruð svo vitlaus að halda annað! Lifi Fjórflokkurinn!"

Kristján G. Kristjánsson

Nafnlaus sagði...

Staðreyndin er að margir þingmenn sjálfstæðisflokks vilja hreinlega aðild að esb eða allavega aðildarviðræður. (Framsókn hafði það nú beinlínis á stefnuskránni)

Þessi kenning sem sett er fram í upphafi, jú gæti etv. verið eitthvað til í henni.

Samt kemur mér þetta fyrir sjónir sem algjört ábyrgðarleysi Sjálfstæðismanna. Fyrst og fremst eru þeir að reyna að koma höggi á stjórnina. Veita heni fyrirsát í brekku og vega að henni.

Afhverju ábyrgðarleysi? Jú vegna þess að það vita allir skynsamir menn og konur að ísland á engan annan möguleika en að gerast aðili að esb. Annars einangrast landið bara enn meir en orðið er og allt er meir og minna uppí loft um komandi ár. Engin fótfesta. Taka ber eftir því að engar aðrar hugmyndir hafa komið fram, engin stefna, ekkert. Engir aðrir kostir. Að sjálfsögðu er ESB engin "töfralausn" en veitir ramma og undirstöðu sem byggja á lausnir íslands á í framtíðinni. Ef menn skilja það ekki, þá skilja menn ekki mikið.

Þetta með að kosning um hvort fara skuli í aðildarviðræður verði kannski felld, það gengi auðvitað ekkert upp. Það væri enginn endapunktur. Umræður byrjuðu strax aftur, td. hjá Sjálfst.flokki og Framsóknarflokki um hvort ekki væri best að fara í aðildarviðræður! Sjá hvað kæmi upp o.s.frv.

Ég skal segja ykkur það að kosning um hvort eitthvað megi hreifa sig er arfavitlaus tillaga og getur bara ekki verið að mönnum sé alvara með þetta. Væri stórslys ef hún ýrði samþykkt.

Nafnlaus sagði...

Þið kratar skiljið ekki það valdatafl sem þið eruð bara peð í.

loki sagði...

Mér finnst þetta áhugaverður punktur sem þú kemur með. En ég get ekki samþykkt þetta grunnstef að BB Jr. og IG séu svona snjallir. Mér finnst líklegra að þeir séu bara að reyna reka fleyg í stjórnarsamstarfið.

Þetta (ESB-umsóknin)var sá hluti stjórnarsáttmálans sem virkilega stóð í VG-fólki. BB jr. er að freista þeirra með tillögu sem virðist fría þau ábyrgð. Nokkrir þingmanna VG munu falla í freistni. Spurningin hve margir.
kk.

Nafnlaus sagði...

Og fatta hann vonandi aldrei. Gömlu klækjarefirnir munu á endanum falla á eigin bragði.

Toni

Nafnlaus sagði...

Ég held þetta sé í raun ekki flókið. Reyna á allt til að fella ríkisstjórnina. Ekki vegna þess að það sé eftirsóknarvert að stjórna við þessar aðstæður. Heldur til þess að stöðva óþægilegar rannsóknir.

Ólafur St. Arnarsson

Nafnlaus sagði...

Þjóðaratkvæðagreiðsla vanhæfrar þjóðar sem kýs stöðugt sömu klaufa og kúlulið og endurkaus að fulltrúafjölda vanhæfu stjórnina sem felld var með pottum og pönnum.
Kaus þá sem áttu að setja lög og hafa eftirlit til þess að borgararnir yrðu ekki rændir um hábjartan dag.
Kaus þá sem lýstu því yfir fyrir kosningar að réttur ræningjanna væri æðri rétti hinna rændu.
Kaus þá sem afhentu ræningjum ríkiseignir án þess að borga.
Það eina jákvæða við inngöngu í ESB er að þá koma Íslendingar minna að stjórn landsins, sem getur aldrei orðið verri en hjá okkur sjálfum.

Nafnlaus sagði...

Það er ljóst að ESB andstæðingar töpuðu þessari lotu en það er ekki þar með sagt að þeir hafi ekki séð við refskák Bjarna Ben. Hins vegar er ég ekki svo viss um að þjóðin hefði sagt já við aðildarviðræðum á þessum tímapunkti. Margir Sjálfstæðismenn vita vel að Bjarni leikur tveimur skjöldum og rætt er um það í alvöru í grasrótinni að nú þurfi að knýja á nýjan landsfund hið skjótasta því ekki sé hægt að ganga í aðildarviðræður með ESB sinna í forystu.

Nafnlaus sagði...

Það sem stendur upp úr í þessu öllu er að hér er þjóð tilbúin í enn einn dansinn með sjálfstæðinu & framsókn. Sú þjóð á sér enga von & enga framtíð!
Pétur Eyvindsson