miðvikudagur, 3. desember 2008

"...hér á eftir ræði ég við sjálfan mig.:"

Gamlir félagar mínir af Ríkisútvarpinu (ég vann þar á öndverðri síðustu öld) eru komnir í uppreisn gegn Páli Magnússyni, útvarpsstjóra og segja lok, lok og læs og allt í stáli – fréttirnar lokaðar fyrir Páli.

Ég skil vel að fólki svíði brottrekstrar og launalækkun, ekki síst í ljósi þess hve örfáum starfsmönnum eru greidd há laun.

Á hinn bóginn er Páli nauðugur einn kostur: eigið fé Ríkisútvarpsins er á þrotum og miklar líkur á að möguleikar stofnunarinnar á að sækja sér fé á auglýsingamarkað verði takmarkaðir. Ef Páll hreinsaði ekki til og nýtti sér ekki reynslu sína í að reka “Bónus” útvarps- og sjónvarpsstöðvar á einkamarkaðnum væri hann ekki að standa sig í stykkinu.

Það má svo deila um það hvort eðlilegt sé að útvarpsstjóri sé hæst launaði ríkisforstjórinn. Einfaldlega vegna þess að þess hefur hingað til hvorki sést staður í dagskrá né rekstri.

Innlend dagskrárgerð er nánast engin og það er tímanna tákn að það þyki nægja að sami maður sé yfirmaður innlendrar dagskrárgerðar, stjórnandi Kastljóssins og helsti kynnir þess að auki. Það er freistandi að draga þá ályktun að innlend dagskrárgerð sé einfaldlega ekki það tímafrek að það þurfi ekki séstakan mann til að sinna henni.

Kastljósið státar af einu best launaða starfsfólki RÚV og nýtur þess að vera nánast eina framleiðsla stofnunarinnar í sjónvarpi.

Það hlýtur hins vegar að vera RÚV umhugsunarefni að Egill Helgason skaut þeim öllum ref fyrir rass og vann tvenn Eddu verðlaun á dögunum fyrir Silfrið og Kiljuna,(var hann líka besti sjónvarpsmaður?) og hlýtur því að teljast margra manna maki.

Félag fréttamanna beitti Pál Magnússon hins vegar skemmtilegum gambít með því að afþakka fréttalestur hans. Allir vita að Páli finnst það jafn eðlilegt og að draga andann að smeygja sér inn í stofur landsmanna og fylla upp í skjáinn um kvöldmatarleytið. Páll hefur brugðið sér í ýmissa kvikinda líki á síðustu áratugum en aldrei kveður hann fréttasettið. Jafnvel þegar hann var sjónvarpsstjóri Sýnar las hann fréttir á Stöð 2!


Forsendurnar fyrir því að afþakka “vinnuframlag” Páls í fréttatímum eru þó vægast sagt hæpnar eins og þær eru setta fram. – hann er jú prýðilegur fagmaður; tekur ekki krónu fyrir og sparar því aura skattgreiðenda.

Það þekkist hvergi á byggðu bóli að forstjóri fjölmiðlafyrirtækis lesi líka fréttir. Það er vissulega skringilegt að útvarpsstjóri lesi sjónvarpsfréttir, þótt það sé gaman að ímynda sér Andrés Björnsson og Vilhjálm Þ. Gíslason í fréttasetti.


Það segir sig hins vegar sjálft að ríkisútvarpið verður stundum að segja fréttir af sjálfu sér, til dæmis af hópuppsögnum útvarpsstjóra. Gefur það ekki auga leið að það skýtur skökku við að hann sjálfur sé að segja slíkar fréttir? Að hann segi fréttir og sé fréttaefni til skiptis?

Páll gæti hæglega þurft að segja: “Farið ekki langt, hér á eftir ræði ég ítarlega við sjálfan mig um stöðu RÚV á auglýsingamarkaðnum. Bara hér á RÚV!”

Það er augljóslega ekki heppilegt fyrir stofnunina að Páll sem liggur undir ámæli fyrir ofurlaun, tekur afstöðu til menningarpólitískra álitaefni og stýrir stórfyrirtæki sé jafnframt í hlutverki hlutlauss fréttalesara.

(Ekki stórmál, en pínu innlegg í debatt gamalla vinnufélaga minna og tækifæri til að lýsa samúð með því hvernig komið er fyrir RÚV, eins og svo mörgum öðrum vinnustöðum á landinu.)

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ríkisútvarpið - það er ég.

Nafnlaus sagði...

Þakka þér fyrir að minna á eina augljósustu staðreynd þess Íslands sem var fyrir kreppu: Það eru engin tengsl á milli ofurlauna og hæfni. Aftur á móti eru greinileg tengsl á milli þess að fá ofurlaun og vera frekur og leiðinlegur karl sem hefur komið sér áfram í gegnum valdaklíku.