Nýlega rifjaðist upp fyrir mér skondin saga sem gerðist þegar ég starfaði á fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar. Pálmi Jónsson á Akri var þá formaður fjárlaganefndar og einhverjum datt í hug að leita álits hans á einhverju þjóðþrifamáli, sennilega vegna þess að tillögur ríkisstjórnarinnar fóru ekki alveg saman við hagsmuni umbjóðenda hans.
Fréttakona hringdi til Pálma íog viti menn!; hann hafði allt á hornum sér vegna tillagna ríkisstjórnarinnar.
Fréttakonan hugsaði sér gott til glóðarinnar, tók viðtal við Pálma upp á band. Reyndur fréttamaður heyrði upptökuna fyrir tilviljun og áttaði sig á því að hér væri eitthvað málum blandið. Var hringt í Pálma á ný sem staðfesti að hér væri vissulega Pálmi Jónsson á ferð en hann starfaði sem verktaki fyrir norðan!
Sami fjölmiðill komst í hann krappann fyrir skemmstu þegar strákpjakkur á Skaganum komst í viðtal með að villa á sér heimildir. Þá var spurt hvort fréttamenn ættu að biðja viðmælendur um skilríki.
Mér flaug þetta í hug í dag þegar í ljós kom að Bjarni Harðarson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, hefði upplýst í nýju greinasafni að hann hefði prívat og persónulega staðið fyrir því að ekki varð úr áfarmahaldandi stjórnarsamstarfi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks eftir alþingiskosningar í fyrra.
Þetta er skondið í ljósi þess að Bjarni sagði sjálfur í viðtali við Fréttablaðið eftir kosningar að hann hefði stutt stjórnarsamstarfið.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, segir allt vera í himna lagi og kosningar komi ekki til greina. Ingibjörg Sólrún segist líka vilja taka þátt í mótmælum gegn sjálfri sér, en ber við önnum vegna setu í ríkisstjórn.
Páll Magnússon, útvarpsstjóri hefur undanfarið vegið mann og annan í deilum við frjálsu útvarpsstöðvarnar og sagt þeim að éta það sem úti frýs þegar þær heimta RÚV af auglýsingamarkaðnum.
2005 sagði Páll þegar tilkynnt var um ráðningu hans í stöðu útvarpsstjóra að RÚV væri betur komið með því að vera ekki á auglýsingamarkaði.
Páll útvarpsstjóri heimtaði svo að G. Pétur Matthíasson skilaði spólu með efni sem sett var á YouTube og sýnir geðvonsku og tuddaskap Geirs Haarde. Hvers vegna heimtar Páll útvarpsstjóri ekki að Eyjan.is skili spólu sem sýnir ósamkomulag Páls Magnússonar útvarpsstjóraefnis (2005) og Páls Magnússonar, útvarpsstjóra (2008) um stöðu RÚV?
Hvers vegna ver hann ekki heiður nafna síns af sömu hörku og hann ver heiður forsætisráðherra? Hvers á Páll Magnússon, útvarpsstjóraefni að gjalda, Páll Magnússon, útvarpsstjóri?
Spyr sá sem ekki veit, því varla vill nokkur manni þessu fólki svo illt að halda því fram að þarna tali sama fólkið.
Hver getur skýringin á þessu verið?
Hvað með þessa kenningu: Er einhver arftaki Pálma Jónssonar verktaka kominn á kreik? Gengur einhver skrattakollur laus, platar sig inn á fjölmiðla og talar í nafni þjóðkunnra persóna þvers og kruss án þess að nokkur fái við ráðið? Eru tvífararar farnir að herja á íslenskt þjóðfélag?
Eða er líkt farið með íslenskum ráðamönnum og Leonard Zelig, kamelljóninu sem varð að gyðingi meðal gyðinga, blökkumanni meðal blökkumanna og nasista meðal nasista – allt eftir hentugleika?
Ef til vill er of langt gengið að líkja þessu ágæta fólki við þessa ágætu söguhetju Woody Allen, en er von að manni finnist eins og mottó þessa fólks sé sótt til ljóðskáldsins Arthur Rimbaud: ”Je suis un autre” – sem hljómaði svo hjá Megasi: “Ég er ekki ég, ég er annar.”
miðvikudagur, 26. nóvember 2008
Pálmi Jónsson, verktaki snýr aftur
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
8 ummæli:
Ertu viss um að þú munir þetta rétt?
Bjarni Harðarson lýsti því yfir daginn eftir kosningar að hann vildi láta mynda vinstristjórn og að hann vildi ekki sjá áframhaldandi stjórnarsamstarf. Hann dró nokkuð í land þegar líða tók á daginn, en engu að síður var óljós staða hans notuð sem rök fyrir því þegar Sjálfstæðismenn tilkynntu samstarfsslitin við Framsókn.
Heimild mín er frétt í Fréttablaðinu/Visir.is í dag: "Í viðtali við Fréttablaðið eftir alþingiskosningar 2007 hafði Bjarni aðra sögu að segja. Um stjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokk sagði hann: „Þó svo að ég telji að mörgu leyti hag Framsóknarflokksins betur borgið utan þeirrar stjórnar, þá gerði ég mönnum ljóst að ef til þessa stjórnarsamstarfs kæmi stæði ég með því."
b.kv. Árni
Jamm, skil eftir slóð á Palla Magg og Pál Magnússon, tvo fjölhæfa af ætt Reykáss: http://www.youtube.com/watch?v=A5TDlS54pr8
Páll Magnússon sendi þessa athugasemd:
Sæll Árni minn
Ég veit, að af inngróinni meinfýsi þætti þér vænt um að ég væri ósamkvæmur sjálfum mér um RÚV og auglýsingarnar. Mér þykir leitt að hryggja þig með því að svo er ekki. Skoðun mín var 2005, er 2008 og verður sennilega 2011 sú sama: Það felst í því ákveðin þversögn fyrir almannaþjónustuútvarp á borð við RÚV að þurfa að sækja hluta tekna sinna inn á auglýsingamarkaðinn, - og það væri eðlilegra fyrir RÚV að þurfa ekki að gera það. Það er hins vegar skárra fyrir RÚV að lifa með þessari þversögn en án þeirra tekna sem auglýsingarnar gefa - yrðu þær ekki bættar.
Og ef þú hefðir nennt að lesa það sem ég sagði um þjófstolnu spóluna og misnotkun á henni þá hefðirðu komist að raun um að ég var ekki að verja heiður forsætisráðherra. Ég var að gæta hagsmuna Ríkisútvarpsins og verja starfsheiður þeirra sem þar vinna.
En þú hefur nú sjaldnast nennt að vera sérstaklega nákvæmur og ferð varla að taka upp á því úr þessu.
Bestu kveðjur,
Páll Magnússon
Ég hefði nú mátt vita að ég riði ekki feitum hesti frá því að ybba gogg við sjálfan Pál Magnússon, útvarpsstjóra, minn gamla félaga, fréttastjóra, fyrirmynd og átrúnaðargoð til margra ára.
Kæri Palli.
Þú tekur í hnakkadrambið á mér nú eins og svo oft áður en læt ég það vera sveinki að ég kvarti yfir örlítilli opinberri rassskellingu. Ekki í fyrsta og ekki síðasta skipti sem það gerist.
Allavega fæ ég ekki sömu trakteringar frá þér og Jakob Bjarnar fékk frá Jónasi Kristjánssyni um daginn,þegar gamli ritstjórinn sagði að sér hefði misheppnast að kenna honum blaðamennsku!
En þekkjandi þig átti ég svo sem að vita að einhvers staðar væri núans. Raunar held ég að við séum alveg sammála um þetta mál – auðvitað verður RÚV að fá auglýsingatekjurnar bættar. En þú lást nú býsna vel við höggi.
Um heiður forsætisráðherra: ég ætla að vona að írónían hafi skinið í gegn! Sannast sagna væri að æra óstöðugan ef þú ætlar að senda lögfræðinga til að sækja spólur stofnunarinnar út um hvippinn og hvappinn. Kíktu bara á YouTube.
En þú hefur skýrt þín sjónarmmið og er það vel. Hafa skal það sem sannara reynist, þótt þú hljótir að viðurkenna að hér eru nokkur hárfín túlkunaratriði á ferð.
En allavega fékk ég einn gúmorren í lokin og hafði unnið fyrir þvi, hafðu það sem allra best gamli félagi og skilaðu kveðju til allra í Efstaleitinu, bestu kv. Árni
Bjarni Harðarson er ekki bara tvísaga, heldur þrísaga og jafnvel fjórsaga. En er það ekki misnotkun að senda auglýsingu um bók úr netfangi alþingis? Það er heldur betur að falla á helgimyndina af Bjarna Harðarsyni
Pálmi Jónsson, fv alþingismaður á heima á Akri í Austur Húnavatnssýslu. Pálmi Jónsson, verktaki á hins vegar heima í Skagafirði og eðlilegt að hann svari þegar hringt er í hann og hann spurður að einhverju sem tengist Skagafirði. Og auðvitað er fjarri lagi að Pálmi gamli verktaki á Krók sé athyglissjúkur "skrattakollur" sem lýgur sig inn á fjölmiðla í nafni nafna síns og flokksbróður. Eða eigum við kannski ekki að láta sannleikann spilla góðri sögu?
Árni Gunnarsson
Sæll nafni, ja satt segirðu að sannleikurinn er ævinlega til óþurftar þegar góðar sögur eru annars vegar. Vera kann þó að viðkomandi hafi ekki áttað sig í flýtinum á að þessir menn voru ekki sömu sýslu. Kannski ekki áttað sig heldur á því að Húnvetningar og Skagfirðingar hverja aðra tæpast vera af sömu dýrategund sem og kunnugt er. Sagan er sönn, en hins vegar er alrangt að lesa úr henni að Pálmi Jónsson verktaki hafi gert nokkurn skapaðn hlut af sér, hann svaraði þegar hann var spurður og öfugt við suma aðra er ég viss um að hann kannaðist við skoðanir sínar. En í þessu máli má einu gilda um Jón Hreggviðsson.
Lagaði færsluna örlítið til í samræmi við þetta. Bestu kv. Árni
Skrifa ummæli