fimmtudagur, 20. nóvember 2008

Forsetinn sem fórnarlamb

Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands á það sameiginlegt með Davíð Oddssyni, Seðlabankastjóra að hafa aldrei sagt skilið við leðjuglímu stjórnmálanna.

Nú þegar bókin Saga af forseta er að koma út, þarf einhvern veginn að beina athyglinni að einhverju öðru en því að forsetinn hafi breytt embætti sínu í klappstjórn útrásarinnar.

Spunameistarar forsetans hafa bersýnilega talið það þjóðráð að sýna forsetann sem fórnarlamb nýjasta skúrks Íslands: gamals félaga ÓRG úr leðjuglímunni sjálfs Davíðs úr Svörtuloftum.

Og sakarefnin eru ekkert smávegis enda slá íslenskir fjölmiðlar þessu upp með viðeigandi hætti:

1. ) Davíð skrifaði forsetanum og minnti hann á að hann væri undir sömu lög settur og aðrir þegnar þegar þeir gengju í hjónaband.

2.) Júlíus Hafstein impraði á því að ef til vill þyrfti forsetinn ekki að leggja einn blómsveig á sautjánda júní.

Bréf Davíðs var ósmekklegt því vandséð verður hvers vegna það var á hans valdsviði að gera slíkt.

Þetta er hins vegar nauðaómerkilegt mál og ef þetta er það skársta í bókinni þá er hún ekki mikils virði. Auðvitað vilja allir lesa um "you ain´t seen nothin yet" klappstjórn forsetans og kjamsa á öðrum feitum bitum úr Ólafs Helgasögu - sjálfs helgramannasöguritara lýðveldisins, Guðjóns Friðrikssonar.

Hins vegar gæti Davíð verið fullsæmdur af nýjustu smjörklípu Ólafs Ragnars: að beina athyglinni frá útrásar-klappsýrunni Ólafi og að fórnarlambinu, forsetanum.

Þetta tekst í einn dag enda forsíðufrétt Fréttablaðsins og uppsláttur í Mogganum. Sé ekki ljósvakamiðlana hér í Brussel en geri ráð fyrir beinni útsendingu að minsta kosti á Stöð 2 og svo sérútgáfu af DV.

PS Mér er orðið ljóst að ég hef haft Guðjón Friðriksson, sagnfræðing fyrir rangri sök. Hann er að sjálfsögðu ekki höfundur bókarinnar um forseta Íslands enda hefur hann einungis skrifað bækur um mikilmenni þjóðarinnar. Mér hefur verið bent á það að nafni sagnfræðingsins, fyrrverandi undirmaður Ólafs Ragnars á Þjóðviljanum hafi ritað bókina. Eins og sést af athugsemdum í fjölmiðlum myndi enginn sagnfræðingur nota svo léleg vinnubrögð sem raun ber vitni. Á Þjóðviljanum tíðkuðust hins vegar önnur vinnubrögð sem kunnugt er. Beðist er velvirðingar á þessu.

PS II Eins og bent er á hér í athugasemdum þá leikur grunur á að bókinni hafi verið breytt eftir að útrásin sigldi í strand. Tek ég undir með athugasemdaritara um að fjölmiðlar sýni og sanni að þeir séu ekki klappstýrur eigenda sinna og upplýsi málið hið snarasta.

13 ummæli:

Birgitta Jónsdóttir sagði...

það er auðvitað ekki skringilegt að Ólafur hafi verið klappstýra með útrásinni - sá skjal í vikunnu þar sem kemur í ljós að dóttir hans er/var í stjórn Haga með Jóhannesi og Jóni Ásgeiri... gott væri ef einhver myndi rannsaka þræðina á milli útrásarvíkinga - því ólíklegt er að þeir voru ekki alltaf að gera vinagreiða sín á milli með fyrrum bönkum sínum.

ég er komin með ógeð á fórnarlambs heilkenni ráðamanna - hvar eru hetjurnar???

Nafnlaus sagði...

þar eigast þeir einir við og megi þeir aldrei þrífast - en samt: þetta er örugglega hreint lögbrot hjá Davíð Oddssyni - hann virðir ekki
valdmörk stjórnvalda, þetta er enn eitt dæmið um löglausa misbeitingu valds.

Nafnlaus sagði...

Davíð var yfirmaður hagstofunar og gerningurinn stóðst ekki lög. eða er forsetinn yfir lög hafinn ?

Unknown sagði...

Saga forsetans verður sorglegri og sorglegri í hvert sinn sem eitthvað fréttist af honum og hans.

Nafnlaus sagði...

Gott að sjá þig aftur á Eyjunni. Haltu áfram
kv
Har. Ingi ritstj. Nausttimarit.is

Nafnlaus sagði...

Forsetinn beitir nú öllum brögðum til að draga athygli frá beinni ábyrgð hans á gjaldþroti íslensku þjóðarinnar.
Forsetinn var klappstýra auðmanna og gerði sjálfan og það sem verra er þjóðina alla ítrekað að fíflum í útlöndum. Erlendis ganga ræður forsetans á milli manna í tölvupósti sem aðhlátursefni.
Hann gekk í lið með auðmönnum og þáði af þeim greiða, jafnvel gjafir.
Hann fór fyrir þeim sem skipulega lugu að þjóðinni.
Og lagði jafnan áherslu á að hann einn væri "þjóðkjörinn" embættismaður.
Sennilega er það ekki óskiljanlægra en annað að þjóðinni skuli hafa tekist að kjósa þetta yfir sig. Þjóð sem kýs ráðamenn til að koma sér á hausinn getur varla búist við miklum afrekum í kosningum til embættis valdalausrar skrautfígúru.
Og nýjasti spuninn mun skila árangri með hjálp samfylkingar/baugsmiðla.
Ömurlegt að horfa upp á spunann og lygina. Hefur gjaldþrot landsins ekki einu sinni megnað að opna augu fólks?

Unknown sagði...

Svo vill hann væntalega selja sem mest af bókinni, sem svo undarlega vill til að kom út í dag.

Nafnlaus sagði...

Er það satt að tveir kaflar hafi verið teknir úr bókinni og myndir af forsetanum með auðmönnum?

Ætlar enginn fjölmiðill að spyrjast fyrir um þetta?

Nafnlaus sagði...

Frá þessu hefur reyndar verið sagt í fjölmiðlum. Sjá t.d. þessa frétt Þóru Kristínar Ásgeirsdóttur á mbl.is

http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/10/14/forsetabok_afturkollud_ur_prentsmidju/

Nafnlaus sagði...

Það er kostulegt að sjá þetta klúður hjá þér, Árni. Þarna gerirðu í senn lítið úr forsetanum, Guðjóni Friðrikssyni sagnfræðingi og svo einhverjum nafna hans sem hefur unnið sér það til að saka að vinna á Þjóðviljanum. Þú hefur ekki haft fyrir því að kynna þér málið áður en þú hjóst og setur hiklaust út á vinnubrögð annarra án þess að hafa nokkuð fyrir þér. Það er kannski eins gott þú ert hættur í fréttunum. Auðvitað var það Guðjón Friðriksson sagnfræðingur sem skrifaði bókina - þannig að væntanlega neyðistu til að birta leiðréttingu á leiðréttingunni.
Hvað breytingarnar á bókinni varðar þá hefur margsinnis verið fjallað um það mál í fjölmiðlum - formála og eftirmála var breytt eftir hrunið og lái höfundi það hver sem vill.
Jón H. Brynjólfsson

Nafnlaus sagði...

Þótt Dorrit stundum stuðli skakkt
stórasta landið fagnar.
Ekki verður sama sagt
um signor Ólaf Ragnar.

Nafnlaus sagði...

Sæll Jón H. Brynjólfsson, mér sýnist að þér sé margt til lista lagt, en húmor er greinilega ekki einn af þeim hæfileikum sem guð gaf þér, bestu kv. ÁS

Nafnlaus sagði...

Ef ég hitti einhverja gellu í partíi í London,kem með hana heim til Hafnarfjarðar,og vill giftast.
Þá verður hún líklega að hafa einhverja pappíra,tala nú ekki um ef hún hefur verið gift áður.
Í tilfelli Ólafs Ragnars voru þessi
lög,formsatriði brotinn af Sýslumanni.Kemur ekki á óvart þegar
ráðamenn eiga í hlut.
´OLAFUR RAGNAR ÞÚ ERT EKKI HAFIN YFIR LÖG ÞRÁTT FYRIR AÐ SIÐBLINDAN
HAFI HELTEKIÐ ÞIG Í STÖRFUM ÞÍNUM
SEM ÚTRÁSARKLAPPSTÝRA GLÆPAMANNA.

Benedikt Sig Kristjánnsson
( sem lagði sig fram til þess að þú
gætir orðið forseti,því miður)