föstudagur, 21. nóvember 2008

Björgvin G. – því miður

Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra segist fylgjandi því að þing verði rofið og kosið verði í vor. Björgvin lætur þessa skoðun í ljós sem ráðherra í ríkisstjórn Íslands en lætur sem skoðanir hans sjálfs komi honum ekki við. Þórunn Sveinbjarnardóttir hefur tekið í sama streng en nú hefur Ingibjörg Sólrún slegið á puttana á þeim. En eftir slíkar yfirlýsingar er auðvitað bara tímaspursmál hvenær stjórnin fer frá og boðað verður til kosninga.

Ráðherra sem lætur slíka skoðun í ljós getur ekki annað en sagt af sér og það ætti Björgvin raunar löngu að vera búinn að gera.

Ég vil taka það fram áður en lengra er haldið að ég er persónulega kunnugur Björgvin og er afar hlýtt til hans. Því tekur það mig sárt að samvisku minna vegna get ég ekki annað en fest þessar línur á blað. Björgvin hefði átt að vera búinn að segja af sér embætti um leið og ljóst varð að allir helstu bankarnir hrundu á hans vakt.

Ekki nóg með að hann hafi sungið útrásarsönginn fram á síðustu mínútu, heldur réðist hann gegn "úrtölumönnum" sem óttuðust að útrásin væri að sigla í strand og tók síðan niður heimasíðu sína til að fela slóðina. Þarna varð góðum dreng á í messunni og viðbrögð hans eru því miður af strútakyni.

Björgvin segir að hann þurfi þess ekki vegna þess að hann hafi ekki vitað neitt vegna þess að Fjármálaeftirlitið sagði honum ekki neitt og að formaðurinn sniðgekk hann. Síðan hvenær nægja slíkar röksemdir til að víkja sér undan ábyrgð?

Raunar hefur komið fram að Ingibjörg Sólrún sat sex fundi með varaformanni Sjálfstæðisflokksins, - afsakið forsætisráðherra- og Seðlabankastjóra um málefni bankanna án þess að boða bankamálaráðherrann á fund.

En þetta er bara enn ein ástæða fyrir Björgvin til að segja af sér. Formaðurinn treysti honum ekki til að sitja fundi um málefni bankanna. Hvers vegna ættu þá kjósendur að teysta honum?

Vissulega má margt um stjórnunarhætti Ingibjargar Sólrúnar að segja (samræðustjórnmál? gagnsæi? fagmennska?) og allar hennar þversagnir, en látum það vera að sinni.

Björgvin er ágætlega menntaður í sagnfræði og heimspeki og hefur starfað við stjórnmál alla ævi – en fátt annað. Kannski hafði hann ekki það sem til þurfti til að verða bankamálaráðherra að sinni.

Ekki bætti úr skák að kannski var framhjá honum gengið þegar mest á reið vegna þess að svili hans var bankaráðsmaður í Glitni.

Mér þykir það leitt að þurfa að segja þetta en Björgvin verður að segja af sér ætli Samfylkingin að ganga til kosninga í vor eins og hann leggur til. Ella hefur hvorki flokkurinn né hann nokkurn trúverðugleika.

Björgvin var óheppinn en hann er ungur og hann á eftir að koma aftur og verður mun sterkari og flokkurinn líka ef hann skynjar sinn vitjunartima – fyrstur manna.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Árni,

Gæti verið sammála þér að því leytinu að enginn myndi græða meira á afsögn BGS en hann sjálfur. Það er hins vegar firra að Samfylkingin fengi einhvern trúverðugleika út á það, viðkvæðið yrði þannig bara; to little, to late. Annað hvort axlar öll þessi ríkisstjórn ábyrgð eða enginn, einstaka undanhlaum junior-ráðherra er kattarþvottur.

Nafnlaus sagði...

ESB: Tilslakanir í veiði ólíklegar
Olli Rehn, framkvæmdastjóri stækkunarmála hjá ESB.Olli Rehn, framkvæmdastjóri stækkunarmála hjá ESB, býst við að fiskveiðar verði erfiðasta úrlausnaefnið í hugsanlegum aðildarviðræðum við Ísland. Hann segir Íslendinga tæpast geta átt von á verulegum tilslökunum frá sjávarútvegsstefnu sambandsins.

Embættismenn í Brussel telja að Ísland geti fengið inngöngu í ESB innan fárra ára en framvinda aðildarviðræðna ráði þó miklu í því sambandi. Íslensk stjórnvöld þurfa vitanlega fyrst af öllu að leggja fram umsókn og að sögn Rehns fengi leiðtogaráð ESB þá framkvæmdastjórnina til að leggja á hana mat.



Rehn segir einhverjar tilslakanir á stefnunni mögulegar en þó geti Íslendingar ekki búist við að fá meiriháttar undanþágur frá henni.

Hans Martens, hjá hugveitunni European Policy Centre, býst einnig við að sjávarútvegsmál verði erfiðasta úrlausnarefnið en hann hvetur Íslendinga til að reyna að breyta stefnu ESB innan frá.

Bara til ullýsingar.

Miðbæjaríhaldið

Unknown sagði...

Það þurfa allir ráðherrar Samfylkingarinnar að segja af sér og þá ekki síst ISG

Nafnlaus sagði...

Hef það eftir áræðanlegum heimildum að BGS hafi haft puttana í því hverjir fengu lán hjá Landsbankanum eftir að hann féll.
Hélt að það væri hlutverk stjórnar bankans að ákveða svona en ekki bankamálaráðherra. Þetta er spilling í verstu mynd og það í ríkisstjórninni.

D

Nafnlaus sagði...

Hræddur um að fylgið fari að týnast af samfó á næstu dögum. þeir eru að missa coolið. Ingibjörg er ekki sú sama Ingibjörg og hún var. Virðist ekki hafa stjórn á mannskapnum. ráðherrar farnir að tala í kross.

Enn og aftur fara kratarnir fram og eyðileggja allt fyrir sjálfum sér. Tortíma sér innan frá. Það er ekki í fyrsta skiptið.

samfó gæti bjargað sér fyrir horn með því að láta þórunni og björgvin segja af sér á morgun. Ef ekki verður þetta ósamstíga grúppa með lítinn trúverðugleika út á við.

hvað með alla þessu ESB hjalara? Hvað með þá? ESB aðild á korteri til þremur vikum segir varaformaður samfó.Nú stígur yfirmaður stækkunarmála ESB og segir fjögur ár hið minnsta, ef og bara ef okkur tekst að semja við ESB um að ganga inn í fiskveiðisystemið hjá þeim, sem verður aldrei, aldrei.

Sammála Árna að það er allt of mikið af fólki sem hefur aldrei unnið við neitt annað en vera í skóla og í pólitík. Það er miður. Það vantar raunverulega fulltrúa vinnandi afla annars vegar og atvinnurekenda hins vegar. Bæði verkalýðshreyfingin og Samtök Atvinnulífs eru ekki í takti við það sem er að gerast í þjóðfélaginu í dag. Þetta er sorgleg staðreynd.