miðvikudagur, 3. september 2008

Bjargvætturinn Gústav

Demókratar héldu glæsilegt flokksþing þar sem hver stjarnan af öðrum skein skært (Clinton-hjónin, Biden, frú Obama) og engin skærar en sjálfur kandídatinn Barack Obama.

Á sama tíma urðu Repúblikanar fyrir skakkaföllum vegna Gústavs en það kann hins vegar að hafa verið lán í óláni fyrir McCain hvernig fór. Repúblikanastjórninni tókst þokkalega að eiga við fellibylinn enda var hann varla skæðari en almennilegt íslenskt vetrarveður.

Gústav varð hins vegar til þess að val McCains á varaforseta-kandídatnum Söru Palin féll strax í skuggann, en þó ekki fyrr en að hið óvænta val hafði dreift athyglinni frá lokaræðu Obama.
Sara Palin virðist algjörlega óhæf til að gegna forsetaembættinu og með vali hennar hefur McCain veikt þær röksemdir repúblikana að Obama sé reynslulaus glanni.

Þrátt fyrir gott flokksþing og raunir repúblikana hefur Obama hins vegar ekki tekist að ná forskoti á McCain.

Og Gústav mun hins vegar hugsanlega ríða baggamuninn því þökk sé honum þarf McCain ekki að láta stilla sér upp við hlið Bush og Cheney.

Ef Obama ætlar að ná kjöri verður hann að beina athygli almennings að stöðu efnahagsmála, óstjórn og ofríki Bush og Cheney.

Mín tilfinning er sú að fyrst hann náði ekki góðu forskoti eftir frábæra ræðumennsku og glæsilegt þing í Denver, kunni það að reynast honum þrautin þyngri. Tækifæri hans hlýtur að vera í kappræðum við McCain sem er slakur ræðumaður og oft ferkantaður í framkomu.

Glæsileiki og mælska Obama virðist hins vegar fara í taugarnar á sumum kjósendum sem finnst hann of “fullkominn”. Mistök McCains gera hann nefnilega mannlegan.

En ég óttast persónulega að Obama nái ekki kjöri, einfadlega vegna þess að Bandaríkjamenn séu ekki tilbúnir til að sjá hörundsdökkan mann í Hvíta húsinu.

McCain er raunar miklu hæfara forsetaefni en George W. Bush. En það þarf ekki mikið til. ´
Heimsbyggðin hefur samt fyllstu ástæðu til að vona að Obama nái kjöri því McCain mun halda áfram öfgafullri utanríkisstefnu Bush, þar sem hnefarétturinn gildir og ýta undir ömurlega íhaldssemi, fordóma og þröngsýni móralska meirihlutans.

PS Bent er réttilega á í athugasemdum að í Gallup dagsins hafi Obama náð 50-42% forskoti á McCain. Mér er sönn ánægja að tíunda þetta hér - en því miður verð ég að halda mig við svartsýni mína á Obama. En ég vona auðvitað að ég hafi rangt fyrir mér!

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Samkvæmt Gallup.com er staðan nú þannig að Obama hefur 50% fylgi en McCain 42%.

Hvaðan hefur þú það að Obama hafi ekkert forskot?

Nafnlaus sagði...

Svo ég bæti við, hér er frétt gallup frá því í gær þar sem sagt er frá því að Obama hafi í fyrsta skipti komist í 50%.

Unknown sagði...

Fjandakornið, ég klúðraði vísun :-)

Fréttin er hér.

Bið velvirðingar á athugasemdaflóði.

Nafnlaus sagði...

Mæli með þessari síðu:

http://pollster.com/

Hér sést glögglega kjörmannafjöldinn. Hann sýnir töluvert betri stöðu fyrir Obama heldur en þessar landskannanir.

Pétur Maack sagði...

Sæll Árni,

Þú kemur inn á áhyggjur í grein þinni sem ég held þú deilir með mjög mörgum (ég sjálfur meðtalinn) - að Bandaríkjamenn "séu ekki tilbúnir fyrir hörundsdökkan forseta". Vil því vekja athygli þína, og annarra, á góðri athugasemd Friðjóns hér á eyjunni þar sem hann spyr hvort eða hvenær Evrópubúar verði tilbúnir fyrir hörundsdökka leiðtoga. Þessi litla athugasemd opnaði a.m.k. augu mín svolítið..

Nafnlaus sagði...

Eg tek undir margt i greininni og vil jafnframt benda a ad i forkosningum kom itrekad fram ad nokkud stor hluti kjosenda sagdist myndu veita Obama atkvaedi sitt en gerdi sidan ekki. Ad jafnadi leit ut sem ad fengi hann t.a.m. 45% atkvaeda i konnunum, skiludu 40% atkvaeda ser til hans. Thetta gerdist of oft og of vida til ad unnt se ad kenna pollsterum um og bendir sterklega til ad otti vegna litarafts og/eda umtalads 'reynsluleysi' segi til sin thegar a reyni inni klefanum. Bill Clinton gaf mjog gott svar adspurdur hvort Obama hefdi naegilega reynslu og vaeri tilbuinn. Hann sagdi ad thad vaeri i raun enginn tilbuinn til ad taka thetta ad ser, starfid vaeri thad vidamikid ad fullyrdingar i tha att vaeru hreinlega oraunhaefar. Sidar benti hann rettilega a ad hann vard fyrir mjog svipadri gagnryni og Obama a lokaspretti sinnar fyrstu barattu fyrir embaettinu. - h.thorsson