miðvikudagur, 10. september 2008

Bannað að vitna í dóma hæstaréttar?

Einhver heimskulegasta og dapurlegasta uppákoma í seinni tíð á Íslandi eru hótanir Árna Johnsen um að höfða mál á hendur Agnesi Bragdóttur fyrir meiðyrði en hún sagði að Árni væri skandall og benti á þær staðreyndir að hann væri dæmdur mútuþegi og fjársvikamaður.

Þetta var ekki einasta heimskulegt heldur einstaklega ósanngjarnt því að þegar mál Árna kom upp sem hann seinna var dæmdur fyrir, tók Morgunblaðið með Agnesi í broddi fylkingar málstað nafna míns af miklum krafti.

Þetta þekki ég frá fyrstu hendi. Vissulega var það fréttastofa útvarps með Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur í fararbroddi sem átti “skúbbið” en við á Stöð 2 vildum þessa Lilju kveðið hafa en þrátt fyrir fína frammistöðu okkar konu Evu Bergþóru Guðbergsdóttur áttum við ekki roð í útvarpsfólkið.

En á meðan við spiluðum aðra fiðlu var ömurlegt að horfa upp á félaga okkar á Morgunblaðinu.

Árni var á síðari stigum málsins sakaður um að hafa flutt til Eyja dúk nokkurn. Nafni minn vísaði því á bug og boðaði blaðamann og ljósmyndara Morgunblaðsins á sinn fund og sýndi dúkinn. Blaðið birti frétt þess efnis að dúkþjófnaðurinn væri staðlausir stafir og fréttastofa Stöðvar 2 og útvarpsins hefði báðar orðið uppvísar að lygum.

Í ljós kom að sett hafði verið á svið sýning fyrir Morgunblaðið og starfsfélagar Árna blekktir með því að flytja stolna dúkinn til Reykjavíkur á ný. Sjálfur hafði ég – aldrei þessu vant – einhver tímabundin mannaforráð á fréttastofu Stöð 2 þegar þetta var og kom í minn hlut að svara frétt Morgunblaðsins.

Agnes Bragadóttir varð fyrir svörum og trúði hún sem von var sínum manni fremur en mér og sendi mér reyndar tóninn í leiðinni.

Agnes varð síðar að viðurkenna að hún hafði verið höfð að fífli og vafalaust hugsar hún nafna þegjandi þörfina.

Árni Johnsen þorir greinilega ekki að fara í mál við Agnesi Bragadóttur. Í yfirlýsingunni segir hann hins vegar að það væri "fróðlegt...að láta reyna á þau lög sem banna umfjöllun um málsatvik hjá fólki sem hefur gert upp að fullu við dómskerfið og hlotið uppreist æru, banna umfjöllun að viðlögðum sektum eða fangelsi."

Ég ætla rétt að vona að það sé ekki bannað samkvæmt íslenskum lögum að vitna í dóma sjálfs hæstaréttar og nefna almælt tíðindi og rekja staðreyndir. Um eitt get ég verið sammála Árna og að það hefði verið forvitinlegt að fá úrskurð hæstaréttar um það mál! Nema að það væri þá bannað að nefna úrskurð hæstaréttar um úrskurð hæstaréttar?

Nú veit ég að það tekur ekki nokkur maður - utan Eyja- mark á Árna Johnsen en þar sem ég ber virðingu fyrir lögum og reglum, alþingi og dómstólum, tel ég að taka ætti af allan vafa um þetta atriði. Alþingismenn geta að minnsta kosti lýst skoðunum sínum og fróðlegt væri að vita hvort Sjálfstæðismenn - sjálfskipaðir talsmenn frelsis- séu tilbúnir að kyngja slíkum takmörkunum á tjáningarfrelsi að ekki megi lengur tíunda staðreyndir á borð við dóma.


Það sýnir svo innræti Árna að hann skuli halda því fram í yfirlýsingu sinni að hann hafi ekki átt neitt sökótt við sinn gamla vinnufélaga, Agnesi. Þetta sýnir betur en nokkuð annað hve forhertur þingmaðurinn er og algjörlega laus við alla iðrun enda minnir blaðakonan hann á að hann hafi haft sinn gamla fjölmiðil og samstarfsmenn að “ginningarfífli með hreinum lygum í sambandi við vaxdúkinn góða.”

Átti Árni von á því að Moggamenn teldu allt vera í góðu eftir að hann, blaðamaðurinn sjálfur og vinnufélagi, laug þá fulla og lét þá hlaupa apríl frammi fyrir alþjóð?

Með framkomu sinni hefur Árna tekist hið ótrúlega: að sökkva enn dýpra en hann hafði þegar gert. Geri aðrir betur.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hér er á ferð undarleg fréttaskýring þar sem sagan er skrifuð án þess að rétt sé rétt. Semsagt sögufölsun. það var DV sem átti skúbbið, Árni og Stöð 2 voru líklega á fimmtu fiðlu í allt annari sinfóníu. Man að fyrirsögn DV var: Starfsmaður BYKO klagaði þingmann. Þar fylgdi mynd af fölsuðum afhendingaseðli. Fréttastofa útvarps fylgdi í kjölfarið með tímamótaviðtali Kristjáns Guy Bugrgers við Árna sem fór í hringi, lygi úr lygi og endaði vitanlega út í hött. Morgunblaðið var í þokklegra fastri vörn í málinu og gaf ekkert eftir fyrr en DV og útvarpið höfðu afhjúpað þjófinn og Morgunblaðið. Þá kom Stöð 2 til skjalanna og sagði frá fréttum þessara miðla. Slíkt telst varla til stór skúbba. Heldur að fylgja löngu genginni götu.
Sérlega var athyglisvert þegar Árni Johnsen mætti í drottningaviðtal í Ísland í dag þar sem hann var spurður hvort ekki væri sárt að verða fyrir svona fréttaflutningi, hionum sýnd hluttekning og vorkunn. Hvað svo sem það átti að þýða.

Kveðja, Guðm. Sig

Nafnlaus sagði...

Þegar ég las þessa athugasemd datt mér í hug gamall frasi: "Þegar fingurinn bendir á tunglið, horfir fíflið á fingurinn."
Þessi athugasemd er kennslubókardæmi um íslenskt nöldur. Tekið er algjört aukaatriði úr greininni og ráðist á höfundinn með stóryrðum á borð við "sögufölsun". Ég eignaði Stöð 2ekki upphaflega skúbbið og allra síst sjálfum mér enda skrifaði ég ekki stafkrók um málið. Hef ekki hugmynd um hver Guðm. Sig er og ætla mér ekki að taka þátt í hallærislegu karpi um hver var fyrstur - enda algjört aukaatriði, þótt ég fari ekki ofan af því að fréttaflutningur Útvarpsins hafi verið til fyrirmyndar.
Í greininni er fyrst og fremst verið að fjalla um tjáningarfrelsi og makalausa ósanngirni og ofstopa nafna míns. Kv. Árni Snævarr