fimmtudagur, 21. ágúst 2008

Frettir.com: In memorian

Vilhjálmur Vilhjálmsson, Björn Ingi Hrafnsson og Guðlaugur Þór Þórðarsson segjast ekki hafa haft hugmynd um að Baugur hefði haft laxveiðiá á leigu; þeir hafi þegið boð um laxveiði hjá Hauki Leóssyni, þáverandi stjórnarformanni Orkuveitu Reykjavíkur.


Guðlaugur Þór segist hafa endurgreitt Hauki kostnaðinn og hlýtur því að hafa talið óeðlilegt að þiggja slíkan greiða. Þar með hefur Guðlaugur Þór óneitanlega sett Vilhjálm og Björn Inga í mjög erfiða stöðu.

Trúðu forseti borgarstjórnar, heilbrigðisráðherra og leiðarahöfundur Fréttablaðsins að Haukur Leósson borgaði þetta úr eigin vasa?

Þetta eru áleitnar spurningar. Ástæða er til að hrósa Fréttablaðinu og Vísi.is fyrir að taka þetta mál upp og jafn undarlegt að Morgunblaðið þegir þunnu hljóði.

Sama gerir Stöð tvo. Að nefna laxveiðiboð til ráðamanna hefur lengi verið eins og að nefna snöru í hengds manns húsi þar á bæ. Ég hef prófað það á eigin skinni.

Heilli vefsíðu var raunar haldið úti í þeim eina tilgangi að koma höggi á Stöð 2 fyrir fimm árum og þar var fjallað af mikum áhuga sumarið 2003 um þá staðreynd að forsvarsmenn stöðvarinnar stöðvuðu birtingu fréttar um laxveiðar Geirs H. Haarde i boði Kaupþings.

Á vefsíðunni frettir.com voru birtar daglegar fréttir af ágreningi á Stöð 2 um birtingu fréttarinnar um laxveiðina.

Umsjónarmaður vefsíðunnar var minn góði gamli vinnufélagi, Steingrímur Ólafsson, fréttastjóri Stöðvar 2 og fyrrverandi blaðafulltrúi Halldórs Ásgrímssonar í aðstoðarmannstíð Björns Inga Hrafnssonar.

Áhugi Steingríms á laxveiðiferðum ráðamanna hefur minnkað að því er virðist í takt við aukinn áhuga Björns Inga á stangveiðum – í boði annara.

Leitt ef Steingrímur fjallar ekki um málið því ekki mun Markaður Fréttalblaðsins gera það.

Og verst að frettir.com lifa einungis í minningu aðdáenda Steingríms, því hann hefur eytt efni hennar. Leiðinlegt því undirmenn Steingríms vinar míns hefðu getað lært mikið af umfjöllun hans á sínum tíma sem einkenndist af næmum skilningi og tilfinningu fyrir þeim fjölmörgu siðferðilegu og pólitísku álitamálum sem upp koma þegar ráðamenn þiggja boð um rándýrar laxveiðiferðir í boði einkafyrirtækja.

PS Fátt gleður hjarta bloggara jafn mikið og þegar skrif manns bera tafarlausan árangur. Í athugasemd við þessa færslu kemur fram að hægt er að nálgast frettir.com á netinu. Þetta er mikið ánægjuefni fyrir alla aðdáendur Steingríms Sævarrs Ólafssonar. Þykir mér ekki ólíklegt að teknir verði upp húslestrar úr þessu efni á fréttastofu Stöðvar 2.

Og ég er viss um að ef Sigurðar G. Guðjónssonar nyti enn við á Stöð 2 tæki hann líklega í að gefa þetta efni út. Maður hefði nú átt að geta sagt sér sjálfur að þetta kæmi í leitirnar, því þegar Stöð 2 er annars vegar má alltaf stóla á Steingrím!

7 ummæli:

Unknown sagði...

Það er ekki alveg rétt. Reyndar þarf kannski aðeins að fikta í því hvernig stafirnir eru sýndir:

http://web.archive.org/web/*/http://frettir.com

Nafnlaus sagði...

jamm internetið gleymir aldrei...

Nafnlaus sagði...

Elsku karlinn minn og gamli samstarfsmaður.

Það fer að verða minn eini tilgangur hér að leiðrétta missagnirnar hjá þér :-) Þú segir:
"Og verst að frettir.com lifa einungis í minningu aðdáenda Steingríms, því hann hefur eytt efni hennar."
Þetta er náttúrulega alrangt. Ég eyddi ekki neinu. Ég leigði þessa vefslóð á sínum tíma undir áhugamálið mitt og áskriftin rann út þegar eitthvert útlent fyrirtæki hækkaði leiguna allskyndilega um hundruð dollara á ári. Ég tímdi nú þeim pening ekki til að halda síðunni úti. Veist þú um einhvern sem vill leggja út fyrir þessu?

Að auki var þessari vefsíðu alls ekki haldið úti til að koma höggi á Stöð 2, þ.e.a.s. ef þú vísar í frettir.com, langt í frá. Það komu bara svo margar fréttir frá fyrirtækinu á þessum tíma...rétt eins og þú veist kannski manna best, eða er það ekki? :-) Fréttir af Stöð 2 vöktu vissulega athygli, en voru langt, langt, langt í frá það eina sem þar birtist. Nema um valkvætt minni þitt sé að ræða :-)

kært kvaddur

Steingrímur

Nafnlaus sagði...

Ég tek undir með Steingrími, en þetta er all sérstök útlegging frettir.com. Sem aðdáandi á sínum tíma fylgdist ég með ýmsum mjög áhugaverðum fréttum og slúðri. Síðan var "Orð götunnar" á sínum tíma, þar sem hægt var að finna vel skrifað slúður. Stöð 2 var bara eitt af þessu.

Nafnlaus sagði...

Frettir.com má finna inni á slóðinni: http://web.archive.org/web/*/http://frettir.com

Til að breyta stafabrengli yfir á læsilegt íslenskt mál veljið: View -> Character Encoding -> More Encodings -> Western European -> Western (ISO-8859-1)

Voilá! :-)

Nafnlaus sagði...

Að pólitískur loddari og tækifærissinni eins og Steingrímur skuli vera fréttastjóri sýnir nú bara á hvaða plani fjölmiðlar eru.

Nafnlaus sagði...

Já, þetta er...

Það sem mér þykir merkilegast, nú öllum þessum árum seinna, þegar ég skoða frettir.com, er að 90% skúbba núverandi fréttastjóra Stöðvar2 eru nákvæmlega um Stöð2. Og svo nákvæmlega er skráð að þeir sem ráða í þá stöðu (fréttastjóra Stöðvar2) geta varla litið hjá slíkum öryggi í fréttaflutningi og vænta líklega hins sama þegar aðrir þættir samfélagsins eru annars vegar. Enda hefur ekki staðið á því. Eða ætlar einhver að halda öðru fram?

Kveðja,
Jakob