mánudagur, 28. júní 2010

Sjáumst í Ulan Bator 2910

Jæja þá eru Englendingar farnir heim. Eins og venjulega voru þeir heimsmeistarar fyrir mótið í enskum og íslenskum fjölmiðlum, (hvað skyldi verða um Arnar Björnsson og börnin?) en í dag er magnað að lesa ensku blöðin.

John Terry, var í gær talinn besti varnarleikmaður alheimsins, ef ekki alls sólkerfisins, en miðað við útreiðina sem liðið fær í fjölmiðlum í dag, ætti hann ekki að sleppa í þokkalegt firmalið.

En það var enn magnaðara að lesa ensku blöðin FYRIR leik. Enn einu sinni virtist síðari heimsstyrjöldin vera nýliðinn atburður. En einhvern veginn held ég að ekki hafi það sama gilt um þýska liðið. Varla var maður á borð við Thomas Muller sem fæddur er í kringum 1990, með hugann við orustuna um El Alamein, fall Stalíngrad eða flóttann frá Dunkirk, þegar hann tætti ensku vörnina í sig.

Tæpast hafa hinir pólskfæddu Podolski og Klose verið miður sín yfir innrásinni í Pólland 1939 sem hratt síðari heimsstyrjöldinni af stað! Og þegar við þetta bætist að tyrkneskt blóð rennur í æðum Özil og Cacau er brasilískur í húð og hár, þótt passinn sé þýskur, verður manni ljóst að í þessu spili var vitlaust gefið.

Fótbolti er hluti – stór hluti – af enskri sjálfsmynd. Einhverju sinni skömmuðust ensku blöðin yfir því að Frakkar hefði beðið ósigur í fótbolta, rúgbí og tennis sömu helgina og það hefði ekki einu sinni komist á forsíðu frönsku blaðanna, hvað þá að gerð hefði verið tilraun til að brjóta franska þjóðarsál til mergjar í kjölfarið.

Fyrir nokkrum árum tapaði enska fótboltaliðið, enn eina ferðina og skorti á vinstrifótarmönnum var einkum kennt um. Einn dálkahöfundur fór aftur til daga Vilhjálms sigursæla í leit að skýringu og kvaðst ekki muna eftir í svipinn nokkrum örvhentum Normanna á Bayeux-reflinum sem tíundar síðustu heppnuðu innrás á Bretlandseyjar – níu hundruð áður en Bobby Moore lyfti Jules Rimet styttunni á Wembley sællar minningar.

Næstu daga munu ensku blöðin telja ósennilegt að þeir vinni tititlinn næstu níu hundruð árin; hugsanlega ekki fyrr en á HM í Úlan Bator árið 2910 þegar þátttökulið verða 600 og hverju liði leyft í fyrsta skipti að hafa tvö vélmenni og sérþjálfaða apa í hverju liði. (Verður að vísu ekki enn farið að nota vídeó til að dæma hvort boltinn hafi farið inn fyrir línu, en...)

Englendingar munu svo væntanlega harma daginn þegar foreldrar Johns Terry feldu hugi saman og endursýna markið sem var dæmt af milljón sinnum. Að minnsta kosti.

Frakkar fóru ekki síðri sneypuferð á HM. Mér sýnist að viðbrögð fransks almennings séu fyrst og fremst að skammast sín ofan í tær fyrir frammistöðu og óíþróttamannslega hegðun sinna manna. Að góðum frönskum sið eru hrakfarirnar ekki mál þjóðarinnar heldur mál ríkisins: Une affaire d´Etat.

Thierry Henry var boðaður í skyndi á fund forsetans enda "le grandeur de la FRANCE" í veði, og fundi um málefnið “hungur í heimi” umsvifalaust aflýst. Boðað var til “états généraux” um málefni fótboltans. états généraux var einmmiti franska heitið á stéttaþingunum sem voru undanfari frönsku byltingarinnar.

Í morgun var engu líkari en morgunþáttur BBC væri í beinni útsendingu frá heimsenda,ef ekki helvíti, og allt tengdist ósigrinum; meira að segja veðrið. Það er afrek útaf fyrir sig þegar spáin er 30 stiga hiti og sól um allt land....

Í Frakklandi bölva menn ríkisstjórninni og fara í fótboltaverkfall, að góðum frönskum sið. Menn hætta bara að hafa áhuga á fótbolta, narta í næstu bagettu, kjamsa á hvítlauk og sturta í sig meira rauðvíni og eru jafn sannfærðir eftir sem áður um yfirburði franska kynstofnsins. "C´est la vie...c´est tout segja menn í Hexagoninu eins og heimamenn kalla Frakkland..

Hinum megin við Ermasundið munu menn stunda sjálfspyntingar langt fram á næsta ár en viti menn, það líður ekki á löngu áður en Rooney verður aftur orðinn bestur í heimi og bara spurning hvort Englendingar fái á sig mark í næstu heimsmeistarakeppni.
.
Fyrst maður er byrjaður að sletta með frönskum klisjum, enda ég á enn einni: "Plus ça change (plus c'est la même chose.

Ekkert er nýtt undir sólinni.

6 ummæli:

Illugi Jökulsson sagði...

Stórfín grein, náttúrlega. Má ég samt, af því maður er pedant og nörd og allt það, minna á að síðasta vel heppnaða innrásin á England átti sér stað 1688 þegar Vilhjálmur staðarhaldari í Óraníu gerði innrás frá Niðurlöndum. Hann hrifsaði svo til sín völdin í landinu frá tengdaföður sínum enska kónginum með stuðningi landráðamanna innanlands, og þeir endurskrifuðu í sameiningu söguna og kölluðu þessa innrás "the Glorious Revolution".

Nafnlaus sagði...

flottur pistill.

en það er margt lýkt með skildum. enskir og hm eru svipað par og íslenskir og evrovision söngvakeppnin. hvoru tveggja jafn fyrirsjánalegt og aumkunarvert

Zorglúbb sagði...

Reyndar er sólkerfið minna en alheimurinn... þ.a. orðalagið í upphafi pistilsins er ekki lógískt.

Árni Snævarr sagði...

Gat nú verið að það ætti að eyðileggja góða sögu með staðreyndum!

Nafnlaus sagði...

Þegar mark Englendinga var dæmt af, þá var staðan 2 - 1 fyrir Þýskaland... sem gjörbreytti stratígískri stöðu í leiknum.

Alltaf sér maður þegar fjallað er um fótbolta... hverjir hér hafa tekið þátt í fótbolta. Sófabullur ættu að hlífa íþróttamönnum við skoðunum sínum.

Enska liðið er eitt það besta í heimi og gæti unnið HM any time.

Eitt vandamál þeirra er 6.5 milljón punda þjálfarinn Capello... hann nær engu hjarta eða leikgleði fram... líkt og t.d. Maradona.

Hópíþrótt...sófasportistar er stemmingsíþrótt... spyrjið bara Óla Stef.

Áberandi Bandaríkjahatur Illuga og Árna... að minnast ekki á 2 mörk sem ranglega voru dæmd af USA... fyrir utan aðra hlutdræga dómgæslu gegn þeim sem hefur afhjúpað pólitíkina á HM.

Ragnheiður sagði...

Stórskemmtileg grein. Takk fyrir mig :)