sunnudagur, 27. júní 2010

Ef þeir hefðu átt skó

Ég hefði ekki þurft að horfa á sjónvarpið í gær til að frétta hver hefði unnið leik Ghana og Bandaríkjamanna. Um leið og dómarinn flautaði leikinn af voru bílflautur þeyttar og blásið var til sigurhátíðar í Kongó-hverfinu Matonge sem er spölkorn frá heimili mínu í Brussel.

En hvað hefur Kongó með Ghana að gera? Ghana er nú eina Afríku-ríkið sem eftir er í heimsmeistarakeppninni og vonir heillar heimsálfu eru nú bundnar við "Svörtu stjörnurnar" eins og liðsmennirnir eru gjarnan kallaðir. "Fílarnir" frá Fílabeinsströndinni, nígerísku "Ofur-Ernirnir" og "Eyðimerkur-úlfarnir" frá Alsír eru farnir heim, en blása örugglega í vúvuzela-lúðra af lífs og sálar krafti til stuðnings fyrrum keppinautum sínum frá Ghana.

Margir telja að leikmenn á borð við Didier Drogba og Samuel Eto´o, svo einhverjir séu nefndir, hafi hreinlega sprungið úr þreytu. Þeir er ekki aðeins lykilmenn í liðum á borð við Englandsmeistara Chelsea og Ítalíu- og Evrópumeistara Inter Mílanó, heldur bættu þeir á sig Aríkukeppninni um miðjan vetur og voru því enn þreyttari en félagar þeirra í evrópsku liðunum - hvort heldur sem er Evrópumenn, Asíubúar, Kanar eða Suður-Ameríkumenn.

Ég leyfi mér að stórefast um að franskir eða ítalskir knattspyrnuáhugamenn haldi frekar með evrópskum liðum á borð England eða Spán nú þegar lið þeirra hafa verið send í frí.

Vissulega getur heimsmeistarakeppnin á vondum degi verið farvegur fyrir þjóðernisofstæki af versu sort. Enskir knattspyrnuáhugamenn fagna oft og tíðum sigri með því að berja næsta pakistanska blaðasala og einu sinni braust út stríð á milli Hondrúas og El Salvador út af fótboltaleik.

Föðurlandsást er hins vegar góða systir þjóðernishyggju. Hún nýtur sín líka í Suður-Afríku og við sjáum mörg dæmi um að við þurfum að venja okkur við nýjar aðstæður og hugsa tengsl þjóðernis og þjóðríkis upp á nýtt.

Sautján af 23 landsliðsmönnum Alsír eru fæddir í Frakklandi en langflestir frönsku landsliðsmannanna eru af afrísku eða arabísku bergi brotnir. En samt hneykslast sumir í Frakklandi yfir því að þeir taki ekki allir hraustlega undir þjóðsönginn Marseillasinn, þar sem hvatt er til þess að úthella "óhreinu" erlendu blóði!

Mesut Ösil helsta vonarstjarna Þýskalands tekur ekki undir í Deutschland uber alles heldur fer með vers úr kóraninum og svo mætti lengi telja.

Og af hverju ættu Afríkubúar að halda með þjóðríkjum sem urðu til á landakortum evrópskra nýlenduherra á nítjándu öld? Oft ræður tilviljun ein því hvort menn teljast Ghanabúar, Nígeríumenn, Tsjadverjar eða Lýbíumenn. Einn frambærilegasti rithöfundur Afríku, Nígeríukonan Chimamanda Ngozi Adichie (höfundur Half of a yellow sun) orðaði þetta á mjög skemmtilegan hátt í nýlegri grein í the Guardian.

Hún segir að þjóðernishyggja Afríkubua í fótbolta þjóni þeim tilgangi að takast á við sögulega og pólitíska arfleifð.

"Við eigum ekki fulltrúa á meðal G 8 ríkjanna sem ákveða örlög heimsins. Við verðum kannski alltaf á botninum á lista yfir bestu heilsugæslu, stjórnsýslu og efnahag og stofnanir okkar og innviðir eru í rjúkandi rúst. En, halló!- við vinnum í krafti hreinna hæfileika og útsjónarsemi. Og margir strákanna áttu ekki einu sinni skó þegar þeir byrjuðu að spila.

Ímyndið ykkur hvað við gætum öll gert ef við hefðum - í eiginlegri og óeiginlegri merkingu - gengið í skóm frá byrjun, skrifar Chimamanda Ngozi Adichie
( Sjá http://www.guardian.co.uk/football/2010/jun/11/chimamanda-ngozi-adichie-world-cup)

Engin ummæli: