sunnudagur, 2. ágúst 2009

Vanur rekstri; aðallega brottrekstri

Kristinn Hrafnsson, fréttamaður hóf störf á Ríkisútvarpinu eftir alllangt hlé fyrir þremur dögum, að ég held. Hann hefur engu gleymt og hefur átt sannkallaðan stórleik enda löngu ljóst að hann er í framvarðasveit íslenskrar blaðamennsku.

Það er hins vegar umhugsunarefni að fréttamaður af kalíber Kristins hefur svo oft verið rekinn af íslenskum fjölmiðlum að í eina tíð hugleiddi hann að auglýsa eftir vinnu: “Blaðamaður óskar eftir starfi, er vanur rekstri, einkum brottrekstri.”

Kristinn er sem sagt kominn aftur á þrælavaktina hjá Páli Magnússynim að þessu sinni á RÚV. Síðast þegar fundum þeirra bar saman á Stöð 2 lauk þeim leik með þeim hætti að Páll lýsti yfir í heyranda hljóði að Kristinn væri leiðinlegasti maður sem hann hefði unnið með og ég næstleiðinlegasti.

Ég var grænn af öfund út í Kristin.

Ef farið er yfir listann yfir bestu blaðamenn Íslands 40 plús, er ljóst að ótrúlega margir hafa fengið reisupassann og það oftar en einu sinni. Við skulum láta nægja að nefna Egil Helgason, og Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur , margverðlaunaða blaðamenn sem þekkja á eigin skinni að sitt er hvað gæfa og gjörvileiki þegar íslensk blaðamennska er annars vegar.

Sjálfur stenst ég ekki samanburð með aðeins einn brottrekstur á ferilskránni. Hann var hins vegar í boði Kaupþings sem stöðvaði eftirminnilega fréttaflutning um laxveiðar Geirs H. Haarde fjármálaráðherra á kostnað bankans.

Lauk þeirri rimmu á milli fréttamanna Stöðvar 2 og stjórnenda og eigenda með því að Sigurður G. Guðjónsson, síðar stjórnarmaður í Glitni, rak mig úr starfi á Stöð 2. Honum var vafalaust nauðugur einn kostur enda hafði Sigurjón Sighvatsson lýst því við mann og annan að Kaupþing myndi gera út af við stórskuldugt fyrirtækið ef ekki yrði þaggað niður í fréttamönnunum.

Útaf fyrir sig var það óverðskuldað að mér skyldi hlotnast sá heiður að vera rekinn úr starfi – því ég átti minni þátt en margur annar í andófi fréttamanna gegn ofríki Sigurðar og félaga.

Auðvitað var ég sár. Það lagaðist hins vegar þegar ég fékk þrisvar sinnum betur borgað starf skömmu síðar.

Nú er svo komið að ég faðma Sigga G. sem velgjörðamann minn þá sjaldan að ég hitti hann á götu og er stoltur af skófarinu á rassinum á mér með innsigli Kaupþings.

En þarna er hundurinn grafinn: íslensk blaðamennska er svo illa borguð að það eru einungis örfáir hugsjónamenn sem endast fram yfir fertugt, einmitt þegar blaðamenn eru komnir með þá reynslu og sjálfsöryggi sem nauðsynleg er.

Og ég held að við Íslendingar væru betur staddir ef leiðindaseggir (að mati yfirmannanna) á borð við Kristinn Hrafnsson fengju að leika lausum hala og fengju greitt með þeim hætti að þeir geti lifað mannsæmandi lífi.

Helst án þess að fjárglæframenn geti gripið inn í og gert þá atvinnulausa, hvenær sem þeim hentar.

Það er einlæg von min að Kristinn Hrafnsson haldi áfram að vera öllu yfirvaldi til umtalsverðra ama og leiðinda. Og það er reyndar von mín að íslenskir blaðamenn haldi áfram að vera alveg drepleiðinlegir, því það er þeirra (okkar) hlutverk.

Lengi lifi leiðindin!

13 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Loksins tala fjölmiðlamenn um ofríki eigenda og yfirmanna á fjölmiðlum. Allir vita að ástandið hefur verið svona, það hlaut að vera. Íslenskir fjölmiðlar eru upp til hópa leiðinlegir og gerðir fyrir táninga sem eru á netinu svo engir haldast neytendur nema að fréttaþáttum. Fjölmiðlar hafa grafið sér gröf og lágu launin, hmmm. Þau eru til að við höldum kjafti og vinnum mikið.

Nafnlaus sagði...

Til hamingnju Árni. Besti pistillinn þinn hingað til. Hreint frábær. Hnittinn og hittir í mark.
Batnandi manni er best að lifa.
Rot Front!
Kveðja
"Chucho"
;-)

Nafnlaus sagði...

Það er nokkur huggun að sjá loksins fréttamann á Stöð 2 viðurkenna að fréttir á þeirri stöð hafi sætt pólitískri ritskoðun. Líklega hefur þú lært þína lexíu á þessu og rífur varla kjaft við yfirboðara þína í Brussel, sem borga svona vel, þegar þú verður látinn segja okkur Íslendingum frá dásemdum Evrópusambandsins.

Gísli Baldvinsson sagði...

Sögur segja að Kristinn Hrafnsson verði með fastan bita tekinn úr Kastljósinu. Kannski nefnt Kompuljós!

Nafnlaus sagði...

Kristinn er snillingur.

Nafnlaus sagði...

FRÁBÆR FÆRSLA !!!!

Nafnlaus sagði...

Burt með Pál Magnússon!
Rómverji

Nafnlaus sagði...

Já vonandi verður Kristinn farsæll í starfi á RÚV, ekki veitir okkur af góðum blaðamönnum þar. Sigrún Davíðs er sú sem hefur borið höfuð og herðar yfir aðra í fréttaflutningi tengdum hruninu.

Sigfus sagði...

Snilldarpistill Árni!

Nafnlaus sagði...

Afargóður pistill.
KGK

Unknown sagði...

þetta er hundleiðinlegt lesefni

Carlos sagði...

Vel sagt. Undirborgaðir og ónothæfir ef bugaðir af reynslu. Er það furða að fréttamiðlar eru eins og þeir eru.

Jón B Lorange sagði...

Frjálsir pennar eru vandfundnir en auðreknir. Þegar þaggað er niður í fjölmiðlum þá er það árás á lýðræðið. Takk fyrir pistilinn.