þriðjudagur, 25. ágúst 2009

Að mála bæinn rauðan eða húsin

Nýlegar frásagnir um að hús útrásarvíkinga hafi verið máluð rauð þykja eðlilega fréttnæmar. En er hin raunverulega frétt ekki sú að menn á borð við Sigurð Einarson og Björgólf Thor skuli enn eiga húsnæði og Hummer-bíla á Íslandi eftir að þeir hafa sett alla nágranna sína og afkomendur þeirra á hausinn?

Meiðar Hrár – afsakið Hreiðar Már, fyrrverandi Kaupþingsforstjóri komst upp með það í viðtali nýlega að segjast ekki þurfa að biðja neinn afsökunar, jafnvel þótt öllum sé ljóst (nema spyrlinum í sjónvarpsþættinum), að Kaupþing var ein allsherjar svikamylla þar sem allt gekk út á að kjafta upp gerfi gróða í formi útbólgins hlutabréfaverðs og þeim frændum öllum, EBITU, eigið fé og hvað allt þetta KAUPTHINKING hét á KAUPSPEAK.

Enda af hverju ætti Hreiðar að þurfa að biðjast afsökunar á hlut sínum í að setja íslensku þjóðina á hausinn?

Ó þetta fólk er svo móðgunargjarnt!

Er ekki Jonni á lyftaranum og almennir starfsmenn á gólfi ekki óþarflega hörundsárir út í hann fyrir að taka stöðu gegn krónunni á sama tíma og bankinn hans hvatti Jonna og Siggu í afgreiðslunni til að taka gengislán?

Eða ég meina orðstír Íslands sem hefur hvorki verið í Úrvalsvísitölunni né á Nasdaq? Altso, var þetta ekki bara deildin hans Ólafs Ragnars? Var ekki Örnólfur Thors búinn að teika kjer of ðis stöff? Þetta hvað það heitir.... eitthvað með Orðstír sem lifir að eilífu...

Að ekki sé minnst á ósvífnina í íslenskum blaðamönnum að fetta fingur út í að Kampavínsklúbbur the Icelandic Viking WAGS (Wifes- and-girlfriends) , skuli halda í sólarlandaferð til Arabaríkja til að fá sér afréttara eftir útrásarfylleríið?

Altso, þekkir íslenskur almenningur ekki hvað menn (konur) geta verið timbraðar eftir kampavínsdrykkju?

Má nú ekki mála barina í Dúbæ og allan þann bæ rauðan, á meðan eiginmennirnir eru uppteknir við að hylja slóðina, ha? Hvernig er þessi heimur að verða?

Og Björgólfur Thor þarf auðvitað ekki að biðjast afsökunar á að hafa farið ránshendi um sparisjóðsbækur Breta og Hollendinga og kært sig kollóttan um að íslenska þjóðin í þriðja lið þurfi að borga skuldirnar.

Honum til hróss má þó segja að hann sýndi þá þjóð(f)rækni að taka upp merki forfeðra okkar Víkinganna og fara rænandi og ruplandi um Bretlandseyjar og nágrannasveitir. Að mála Hummerinn hans rauðan, hvers lags fólk er þetta eiginlega? Hann sem setti bara íslensku þjóðina á hausinn?

Vissulega fór stór hluti þessa (ráns)fjár til Íslands, eins og gamli Bjöggi hefur hamrað á. Já það er rétt hjá gamla séntilmanninum og hvers manns hugljúfa að fénu var til dæmis varið í að fjármagna þyrlukaup og brask Magnúsar Eyjamanns Kristinssonar.

-Þvi hvað er sægreifi án þyrlu?

Nú veit ég ekki hvort hús (í fleirtölu) Magnúsar hafa verið máluð rauð. Hins vegar er staðreyndin sú að þessi ágæti sægreifi og máttarstólpi íslenskra útgerðarmanna er eftir öllum sólarmerkjum að dæma gjaldþrota persónulega og skuldar Landsbankanum 50 milljarða - í gegnum pappírsfélög- án þess að nokkrar eignir komi á móti.

Hugsið ykkur: Magnús getur enn farið til Reykjavíkur og eytt því fé sem hann fékk gefins í gegnum kvótann og margfaldaði í gegnum einkavinavæðingu Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrimssonar, án þess að nota þær samgöngur sem Eyjamönnum standa til boða.

Gjaldþrota maðurinn gat sem sagt keypt sér einkaflugvél - í félagi við aðra. Þegar vondu kommarnir tóku af honum þyrluna. Hugsið ykkur mannvonskuna.

Niðurstaðan er hins vegar su að á meðan deilt er um hvað göng til Eyja kosta, þarf auðmaðurinn ekki að hafa neinar áhyggjur af því að fá far með stopulum ferðum flugfélagsins eða Herjólfs.

Bíddu, var þessi maður ekki kostunarmaður á bakvið bjartýnisspá Árna Johnsen og félaga um að það mætti bora göng til Eyja? (Af hverju geta þeir ekki bara borað göng til Færeyja?)

Allavega þegar Magnús fer til Reykjavíkur til að mála bæinn rauðan og eyða kvótagróða sínum sem liggur óhreifður í hans sægreifahirslum, þarf hann núorðið að - haldið ykkur fast-- að fljúga í einkaflugvél en ekki í einkaþyrlu!

O tempora O mores, þvilíkir tímar þvilikir siðir, sögðu latínugránar hér í eina tíð.

Er einhver furða að menn máli hús slikra manna rauð, sem mála bæinn rauðan eins og ekkert hafi í skorist, án þess að sæta ábyrgð?

Og í raun máluðu þeir ekki bara bæinn rauðan, heldur landið rautt og kannski heiminn líka í félagi við XIV. Alþjóðasamband braskara. Það verður langt þangað til – því miður – að einkaframtak njóti sannmælis hvort heldur sem er á Íslandi eða á alþjóðavettvangi, eftir einkavinavæðinguna og gróðærið sem sigldi í kjölfarið í boði Daviðs, Kjartans og Hannesar.

Einu sinni var sagt að sá sem væri ekki rauður á unglingsárum hefði ekki hjarta; en sá sem yrði ekki blár með aldri og reynslu, hefði ekki heila.

Ég veit ekki hvaða svar við höfum við þessu í dag; eina sem ég veit að það eru ansi margir landar mínir sem virðast hvorki hafa heila né hjarta.

7 ummæli:

Unknown sagði...

Svo sannlega mælt Árni og alltaf er jafn hressandi að lesa þína pistla.

Nafnlaus sagði...

Útrásarböðlarnir eru enn að. Þeir mála hús sín og bíla að næturlagi, fara síðan á fund Finns (sem finnur fé) og í Sjóvá (þar sem eru nýir 16 milljarðar) og heimta skaðabætur. Þeir ljúga til um málarana og segja það hafa verið góðborgarar en ekki þeir sjálfir em máluðu að næturlagi.

Nafnlaus sagði...

Góður pistill hjá þér Árni og ekki hægt að mótmæla neinu, sem þú segir.
En verðum við ekki að gjalda svolítinn varhug gagnvart þessum vandalisma, hvar endar þetta, ef við mælum svona löguðu bót. Þykir það kannski í lagi í náinni framtíð að ráðist verði á eigur þínar og fjölskyldu, ef viðkomandi líkar ekkí við skrif þín og þær skoðanir, sem þar koma fram. Ég bara spyr.

Nafnlaus sagði...

Kæri nafnlaus. Ég er útaf fyrir sig alveg sammála því að svona getur þetta ekki gengið. Þú mátt ekki skilja mig svo að ég sé sáttur við eignaspjöll.

Á hinn bóginn er staðreyndin bara sú að það er ekki nóg með að þetta lið hafi valdið miklu tjóni, heldur ráðast þeir og pólitískir fulltrúar þeirra á slökkvliðið að störfum.

Lögreglan hefur nánast verið lögð niður að slagsmálasveitinni undanskilinni og það hefur ekki einu sinni verið hirt um að gera stjórnmálamann ábyrgan fyrir dómsmálunum. Til hvers kjósum við til Alþingis ef skriffinnar stjórna mikilvægustu málaflokkum?

Það hefur enginn enn verið ákærður. Ef ég væri nógur ungur til að vera rauður og reiður, myndi ég vafalaust taka til hendinni. kv.Árni

Nafnlaus sagði...

Bæjinn ???

Nafnlaus sagði...

Sigmar var ósköp slappur í þessu viðtali. Álíka slappur og þegar Helgi Seljan var að reyna að sauma að Sigurði G. sem er verjandi Sigurjóns Árnas. í Stóra LífeyrissjóðsLáninu.

Nafnlaus sagði...

Þar hittirðu naglann á höfuðið. Alþingi og framkvæmdavaldið, hafa afsalað sér völdum og ábyrgð til embættismannakerfisins, vegna stundargagnrýni um vöntun á "fagmennsku" í ráðuneytin.
Það er einmitt á tímum sem þessum að reynir á að stjórnmálamenn taki þá ábyrgð , sem þeim ber, og mér finnst minnstu máli skipta hvort viðkomandi þingmaður eða ráðherra er jarðfræðingur, dýralæknir eða flugfreyja,þó góð menntun sé kostur, aðalatriðið er að þetta sé sæmilega skynsamt og heiðarlegt fólk og hafi karakter til þola það álag sem á það er sett. aðgangur stjórnmálamanna að öllu því fagfólki, sem það þarf á að halda, er nægur, en þingmenn eru kosnir til að taka pólitíska ábyrgð og hana ber þeim að axla