þriðjudagur, 18. ágúst 2009

Að blogga eða grilla á kvöldin

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor hefur fyllst miklum áhuga á heimildanotkun bloggara og blaðamanna á síðustu misserum. Undanfarnar vikur hefur hann þrásinnis krafið Karl Th. Birgisson, ritstjóra Herðubreiðar um að hann sýni fram á með tilvitnun í heimildir að prófessorinn hafi sakað Samfylkinguna um að þiggja fé af Baugi.

Enn ryðst Hannes fram á ritvöllinn og vegur að meintum heimildafúskurum. Að þessu sinni er það Guðni Elísson sem Hannes beinir spjótum sínum að en þeir áttu í ritdeilu um loftslagsmál. Og síðan er það garmurinn ég.

Hannes virðist þurfa að sannfæra sjálfan sig og lesendur um að það sé orðum á mig eyðandi því hann skrifar: "Það er auðvitað ekkert stórmál, hvað Árni Snævarr bloggar á kvöldin og næturnar. En hann er þó aðsópsmikill í umræðum og einn af föstum höfundum á eyjan.is."

(Það er engu líkara en Hannes hafi farið í einkatíma hjá háttvirtum þingmanni Margréti Tryggvadóttur í að dylgja um mannlegan breyskleika hjá þeim sem hann telur andstæðinga sína, en sleppum því.) .

Nú er það svo að þótt sumir hafi hér í eina tíð, “grætt á daginn og grillað á kvöldin,” þá þurfa sumir að vinna launavinnu og hafa lítinn sem engan tíma til að skrifa á daginn og verða því að gera það á kvöldin.

Ég veit að þetta á ekki við um prófessorinn sem hefur getað skrifað sinn pólitíska boðskap undanfarna áratugi á daginn í boði íslenskra skattgreiðenda sem starfsmaður Háskóla ríkisins. Og væntanlega grillað á kvöldin - vonandi með betri árangri en einkavinir hans sem Davíð gaf bankana náðu í því að græða á daginn.

Ég taldi mig reyndar hafa svarað skrifum Hannesar, en finn þess ekki stað í athugasemdakerfi Eyjunnar og hlýt því að draga þá ályktun að ég hafi einungis skrifað á samskiptasíðuna facebook. Eða ég hafi ruglast og sent tölvupóst eitthvað allt annað í skjóli nætur eins og tíðkast nú um stundir.

Skiptir ekki öllu máli en ég biðst samt velvirðingar á því.

Ég skrifaði á Eyjuna: “Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor og einn umtalaðasti "sérfræðingur" þjóðarinnar í Halldóri Laxness heldur því líka fram að jörðin sé ekki að hlýna og raunar væri það bara gaman að geta stundað sjóböð á íslenskum ströndum þótt svo kynni að fara að aðrir jarðarbúar stiknuðu.”

Þetta var mín túlkun á orðum Hannesar þar sem hann sat einn fyrir svörum í sjónvarpsþættinum Silfri Egils fyrir alllöngu.

Það virðist hins vegar hafa farið framhjá mér (og öðrum) að Hannes hafði lætt inn í eina grein sína þar sem hann gagnrýnir málstað þeirra sem hafa áhyggjur af loftslagsbreytingum, eftirfarandi setningu. "Jafnvel þótt hlýnunin nú sé að einhverju leyti af mannavöldum (sem kann vel að vera), sé ekki af henni bráð vá."

Og ekki nóg með það því hann skrifaði í Fréttablaðið 18. apríl 2008: “Sjálfur efast ég ekki um þær niðurstöður vísindaheimsins, að jörðin hafi hlýnað um tæpt eitt stig síðustu 100 árin, að koltvísýringur í andrúmslofti hafi aukist um 30% á sama tímabili og að eitthvert samband sé á milli þessa.”

Það kom reyndar til tals um svipað leyti og Hannes skeggræddi við Egil að ég myndi rökræða við Hann um málið í sjónvarpi og minnir að ég hafi skorað á hann í kappræður. Ekki kom fram hjá neinum að það væri misskilngur hjá mér að Hannes efaðist um hlýnun jarðar af mannavöldum.

Þar sem ég bjó og bý erlendis varð ekki við því komið að við tækjumst á um málið og eins gott því nú hefur Hannes tekið af öll tvímæli um það að hann viðurkennir – með semingi- hlýnun jarðar og að einhverju leyti sé um að kenna aukningu koltvíserings í andrúmsloftinu. Ekkert fútt í sjónvarpsþætti þar sem deilendur eru sammála!

Þótt Hannes segi það ekki beinum orðum að aukning koltvíserings sé af mannavöldum virðast orð mín um að hann tryði ekki á hlýnun jarðar af mannavöldum ekki eiga sér stoð.

Mér er mikil ánægja að biðjast afsökunar á því enda eiga sagnfræðingar eins og ég og Hannes að virða amk. trúnað við heimildir. En við Hannes erum ekki óskeikulir og stundum verður okkur fótaskortur á sleipu svelli heimildarýni. Ég á blogginu og hann í margra binda doðranti um Laxness.

Batnandi er manni best að lifa og vonandi rýnir Hannes betur í fræðin og þá ekki síst niðurstöður Loftslagsnefndarinnar sem hann vitnar í þar sem honum hentar. Hann sleppir að geta þess að nefndin telur einmitt möguleika á því að spyrna við fótum með breyttri hegðun okkar mannanna.

Hannes hefur áður sýnt að hann hefur þann hæfileika að geta lært af mistökum sínum og því hef ég tröllatrú á honum í þeim efnum, eins og glögglega má sjá af nýtilkomnum áhuga hans á heimildanotkun.

Betur hefði auðvitað farið á því ef Hannes hefði þegar fengið þennan áhuga á notkun heimilda þegar hann skrifaði Laxness doðrantana; því þá hefði hann ekki komist í kast við lögin og rýrt fræðimannsheiður sinn.

Það breytir því ekki að eins og Hannes sýnir fram á, þá hefur hann amk. í seinniu
tíð viðurkennt að það kunni að vera að loftslag jarðar hafi hitnað eitthvað örltíð og kannski þá pínu ponsulítið af mannavöldum. Hann vill bara ekki að neitt sé gert í málinu!

Og allt þetta gerir hann á daginn meðan aðrir verða að velja á milli þess að blogga eða grilla á kvöldin.

10 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þú ert alveg heillaður af þessum Hnnesi. Telst til að þú nafngreinir hann u.þ.b. 20 sinnum í þessum stutta pistli þínum, fyrir utan að tala um manninn í þriðju persónu álíka oft.

Mér sýnist nú fleiri og fleiri hafa góðan tíma til að blogga bæði kvölds og morgna, þar sem ríkisstjórnin hefur tekið þann pólinn í hæðina að vera ekki að grila á kvöldin, heldur virðist hún upptekin við að grilla íslensku þjóðina eins og hún leggur sig daginn út og inn með röngum ákvörðunum, innri skætings og vitleysisháttar í hvívetna.

Það er svo sem ágætt ef vinstra fólkið í landinu er sátt við að hafa vinstri stjórn. Gamalt máltæki segir að það eigi að halda konung til frægðar en ekki langlífis. Vinstra fólkið á Íslandi gefur lítið fyrir árangurinn, en hangir á því að þessi ríkisstjórn geti lifað sem lengst, þó það eigi eftir að kosta alþýðu landsins það litla sem hún þó átti eftir.

Heiða sagði...

Fyndinn pistill, þrátt fyrir grafalvarlegan undirtón, fyrir Hannes amk.

Nafnlaus sagði...

Hannes skrifar líka annað merkilegt 27.10.2007

"Viðvörun Rachel Carsons í Raddir vorsins þagna 1962 við skordýraeitrinu D. D. T. leiddi til banns við notkun þess, svo að milljónir manna í suðrænum löndum hafa látist úr mýrarköldu (malaríu), en D. D. T. er nær hættulaust." HHG

http://www.whale.to/v/images/ddt.jpg

Augljóst er af stuttum lestri á Wikipediu hvernig bækur Hannes hugsar:

Investigative journalist Adam Sarvana characterizes this notion as a "myth" promoted principally by Roger Bate of the pro-DDT advocacy group Africa Fighting Malaria (AFM) in service of his anti-regulatory, free market ideology.[105]"

Reyndar leiðir Hannes vísindin að mestu hjá, þegar hann byggir upp rök fyrir málstað sínum.

Mæli sterklega með Leo Panitch

http://www.tvo.org/TVO/WebObjects/TVO.woa?video?TAWSP_Int2_20090501_779503_0

Nafnlaus sagði...

enHannes Hólmsteinn er vitlaus. Hann er holdgerfingur yfirborðsmennsku, trúðadýrkunnar og þráir "eins og fleiri" af hans vinum að geta skrifað. "Eins og fleiri" getur hann það ekki og gríður þá til ristuldar. Hann hugsar eingöngum um eigið rassgat "ens og fleiri" og flokkast því undir skilgreiningu sálfræðinga sem siðvillingur "eins og sumir". Honum ber að vorkenna, reka úr virðulegri stofnun sem HÍ og svo getur hann setið heima hjá sér í íbúðinni hans Kjartans sem Landsbankinn eignaðist svo við eigum hana núna, og haldið áfram að stela ritverkum annara, milli þess sem hann þusar um sín hjartans mál. Hvernig er það - getur hann ekki farið aftur til Brasilíu? það var víst svo nice hjá honum þar - eða þannig.

Nafnlaus sagði...

Alveg er hann sérkennilega absúrd þessi sperringur langskólagenginna manna á netbloggi hingað og þangað.

Þetta er álíka vorkunnarvert og frægur bumbuslagur hjá löggunum á Selfossi. Nema ekki eins græskulaust.

Nafnlaus sagði...

Hvernig færðu þig til að svíða svona skeggið á þessum ærulausa vesalingi?!

Nafn hans verður óafmáanlega tengt íslenska hruninu og ógæfu tugþúsunda íslendinga.

Sigurjón Sveinsson sagði...

Árni, þú segir: "Það er engu líkara en Hannes hafi farið í einkatíma hjá háttvirtum þingmanni Margréti Tryggvadóttur í að dylgja um mannlegan breyskleika hjá þeim sem hann telur andstæðinga sína, en sleppum því"
Er það ekki nákvæmlega þetta sem þú og Karl Th. Birgisson leyfið ykkur gagnvart Hannesi? Dylgjur? Gera honum upp skoðanir? Því ekki hafið þið fundið "orðum ykkar stað" bara svarað Hannesi með skætingi og útúrsnúningi.
Ef maður vissi ekki betur þá myndi maður ætla að "blaðamaður" eða "fréttamaður" væri betri í heimildanotkun en dæmdur ritþjófur. En það er nú svo að maður er löngu hættur að hafa væntingar um gæði þessarar stéttar fjölmiðlamanna og því verður maður ekki fyrir vonbrigðum.
Hvernig væri samt, Árni, að segja bara: "Hei, Hannes, sorrí, tók of stórt upp í mig. Sorrí." Og vanda sig svo næst.
Mundu líka eitt Árni, eitt ráð sem pabbi kenndi mér fyrir margt löngu. Það er að ef þú tekur skít og reynir að henda í einhvern, þá verður þú skítugur á höndunum, hvort sem þú hittir viðkomandi eður ei.

Höski sagði...

Það er vissulega ljúft að hann viðurkenni að einhverju leiti þá staðreynd að mennirnir eigi sök á hlýnun jarðar, en jafnframt sárgrætilegt að hann skuli þá ekki finna þörf hjá sér til að þeysast út á ritvöllinn og hvetja til stórminnkunar á losun CO2 út í andrúmsloftið.

svatli sagði...

Það er eitt form afneitunar að vilja ekki gera neitt við vandanum. Hannes hefur viðurkennt að vandinn sé til staðar, en vill þó ekkert gera, þar með hefur hann, að mínu mati, afneitað vandanum að stórum hluta.

Gunnar Th. Gunnarsson sagði...

Afskaplega er þetta aumt hjá þér, Árni.
Hannes gagnrýnir þig fyrir að fara með staðlausa stafi og þú svarar um skorti á notkun Hannesar á heimildum í verkum alls óskyldu þessu máli.
Tja... lágt leggjast menn.