Utanríkisráðherrar Evrópusambandsins sitja í þessum rituðu orðum á fundi í húsnæði ráðherraráðsins í Justus Lupsius byggingunni, við hliðina á Residence Palace þar sem sit ég og hamra þessar línur á tölvu.
Ráðherrarnir munu – vonandi- senda umsókn Íslands til framkvæmdastjórnarinnar. Hafa ber hins vegar í huga að þetta er langt í frá að vera sjálfgefið, jafnvel þótt Íslandsvinurinn Carl Bildt sitji í forsæti fundarins.
Umsóknir ýmissa Austur-Evrópuþjóða hafa ekki verið afgreiddar frá ráðherrunum og vera kann að menn vilji ekki mismuna umsækjendum á svo áberandi hátt. Undirbúningur fyrir aðildarviðræður við Íslendinga er löngu hafinn í framkvæmdastjórninni og það skiptir ekki öllu máli hvort græna ljósið verður gefið í dag eða ekki.
Það væri hins vegar pólitískt merki um að málið væri á réttri leið og að Hollendingar og Bretar ælti sér ekki að vera með uppgerðar mótþróa út af alls óskyldu máli.
Til gamans má geta þess að sýnt verður beint frá blaðamannafundi Carls Bildts að loknum ráðherrafundinum. Tímasetningin er á reiki því ekki er ljóst hvenær fundi lýkur en það ætt að vera einhvern tíman eftir kl. 1 að íslenskum tíma. Hér er linkurinn: http://ec.europa.eu/avservices/ebs/schedule.cfm
mánudagur, 27. júlí 2009
Bildt í beinni
fimmtudagur, 16. júlí 2009
Persónulegur sigur Össurs
Persónulegur sigur Össurs
Samþykkt tillögunnar um að taka upp viðræður við Evrópusambandið er pólitískur sigur fyrir Samfylkinguna og sérstaklega Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra. Það er fyllsta ástæða til að óska Össuri til hamingju. Það er síður en svo sjálfgefið að fá þessa tillögu samþykkta þegar tillit er tekið til þess að Samfylkingin – eini Evrópusinnaði flokkurinn- hefur aðeins 20 þingsæti.
Vinstri-grænir eiga um sárt að binda í þessu máli því klofningur flokksins blasir öllum við. Jón Bjarnason, ætti að sjá sóma sinn í því að segja tafarlaust af sér embætti.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins hefur orðið fyrir miklum álitshnekki í umræðunum. Í ljós hefur komði að þar fer svipminnsti formaður Sjálfstæðisflokksins, hugsanlega að Jóhanni Hafstein undanskyldum. Hann er meira að segja slakari ræðumaður en Geir Hallgrímsson.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hefur valdið gríðarlegum vonbrigðum. Hann hefur gengið á bak orða sinna og snúist gegn aðild að Evrópusambandinu. Það er illa komið fyrir góðum dreng. Ég spái því að hann kúvendi, úr því sem komið er.
Borgarahreyfingin er ein rjúkandi rúst eftir flipp flopp þingmanna flokksins, pólitíska gíslatöku og misheppnaðri tilraun til pólitískrar fjárkúgunar.
Orð fá varla lýst því hve ömurlegur málflutningur Þórs Saari og félaga er. Saari stendur sannarlega undir nafngiftinni pólitískur vindhani. Borgarahreyfingin er aðhlátursefni og ljóst að flestir þingmanna hafa ekkert erindi á Alþingi.
miðvikudagur, 15. júlí 2009
Saari og co fatta ekki djókinn
Stjórnmálamenn hafa löngum verið ákafir bridge- og skákáhugamenn. Bridge og skák eiga margt sameiginlegt; meðal annars það að ekki er allt sem sýnist. Að byrja á einum tígli eða enskum leik segir lítið um lokasögn hvað þá mið- og endatafl.
Með því er ég ekki að segja að fyrsta sögn, leikur eða vörn skipti engu máli; en bæði bridge og skák eru leikir þar sem hótanir, leikir sem hafa þann eina tilgang að kanna áætlanir eða hug andstæðingsins, eða hvers kyns blöff eru stór þáttur leiksins.
Sama máli gegnir um stjórnmál enda er sagt að menn tefli refskák í stjórnmálum, alþingismenn sitja löngum að tafli og bæði Bjarni Benediktsson eldri og Davíð Oddsson hafa löngum setið að bridds-spili.
Bjarni Benediktsson yngri leikur líka refskák í pólitíkinni.
Tillagan um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu er ekkert annað en biðleikur. Um leið og búið er að fella hana og samþykkja aðildarviðræður við ESB, verður Bjarni eins og prins sem leystur er úr álögum.
Honum hefur tekist að láta ofstækisfulla ESB andstæðinga eins og Pétur Blöndal og Árna Johnsen berjast eins og ljón, ekki gegn ESB aðild heldur fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður.
Sagan segir að meira að segja Styrmir Gunnarsson hafi látið blekkjast. Styrmir og aðrir áhugamenn um kalda stríðið þekkja auðvitað hvernig kommúnistar notuðu Salami-taktíkina í Austur-Evrópu og fengu nytsama sakleysingjaí til að gefa eftir í smáskömtum þar til þeim var hent fyrir borð og kommarnir urðu allsráðandi.
Þegar fingurinn bendir á tunglið, horfið fíflið á fingurinn.
Hvernig sem atkvæðagreiðslan á morgun fer, er eitt ljóst að allir Sjálfstæðismennirnir (og margir fleiri) sem hafa talað sig hása fyrir tvöfaldri þjóðaratkvæðagreiðslu eru búnir að kyngja aðildarviðræðum, þökk sé salami taktík Bjarna, Illuga og Þorgerðar.
Þeir munu amk. eiga erfitt með að útskýra fyrir þjóðinni að málflutningur þeirra fyrir því hvernig bæri að standa að því að ákveða aðildarumsókn, væri andstaða við ESB.
Ef þeir eru andsnúnir aðild að ESB, skulda þeir þjóðinni að þeir greiði atkvæði GEGN tillögu Bjarna Benediktssonar yngri um þjóðaratkvæði. Annars er ekkert að marka andstöðu þeirra við ESB.
Um leið og menn á borð við Árna Johnsen hafa greitt atkvæði með tillögu Bjarna eru þeir fastir í ESB netinu. Ef eitthvað er að marka Árna Johnsen þá fer hann ekki að taka áhættu með þvi að þjóðin samþykki aðild að Nýja Sovétinu!!?
Sennilega er Bjarni Ben, yngri klókari en ég hugði. Kannski er þetta bara óskhyggja. Það kemur í ljós.
Falli tillaga hans, stendur hann, samkvæmt þessari teóríu - sem hefur jú amk. einhvern tíman lýst stuðningi við aðild, með pálmann i höndunum. Geðvondi-Björn frændi hans, Davíð og allir hinir hafa jú tekið skrefí í átt til ESB aðildar með því að taka kröftugt undir að skjóta málinu til þjóðarinnar. Til hvers að gera það og vera síðan á móti?
Það fyndnasta við þetta er að borgara-þrímenningarnir hafa ekki fattað djókinn. Að þeir eru peð í valdatafli innan Sjálfstæðisflokksins - þar sem ekki er allt sem sýnist frekar en í nokkru bridds-spili eða góðri skák.
Eru þetta ekki ömurleg örlög byltingarflokksins sem varð til i kjölfar barsmíðanna á pottana og pönnurnar gegn stjórn Sjállfstæðisflokksins?
Bjarga borgarar íhaldinu?
Það er vægast sagt sorglegt að sjá hvernig þrír þingmenn Borgarahreyfingarinnar hafa fallið fyrir þeirri freistingu að fara að stunda klækjastjórnmál og pólitísk hrossakaup – einmitt þess konar pólitík sem flestir héldu að þeir væru að berjast gegn.
Litlu skiptir hvort krafa borgaranna þriggja, um að Icesave verði dregið til baka ellegar leggist þeir á sveif með Sjálfstæðismönnum, telst pólítisk gíslataka eða pólitísk fjárkúgun.
Svo mikið er víst að þeir eru komnir á fulla ferð í pólitískum hrossakaupum af verstu tegund – og ætla greinilega ekki að fara eftir samvisku sinni og stefnu flokks sins.
Eina lógíska niðurstaða hennar verður að núverandi ríkisstjórn fellur og íslenskur efnahagur mun riða til falls. Alþjóðleg einangrun landsins verður algjör og kannski tómt mál að tala um aðild að ESB.
Að minnsta kosti tveir af þremenningunum staðfestu um helgina að þeir ætluðu að greiða atkvæði með tillögu utanríkisráðherra. En á þriðjudegi var annað hljóð komið í strokkinn.
Þór Saari, alþingismaður Borgarahreyfingarinnar hefur komið mjög á óvart með því að skipta svo ört um skoðun að undrun sætir. Virðast hvorki Sigmundur Davíð né Bjarni Benediktsson, hinir oddvitar stjórnarandstöðunnar, sem skipta um skoðun á tveggja mánaða fresti komast með tærnar þar sem Þór hefur hælana.
Tíu mínutum fyrir kosningar skrifaði Þór: “Stefna Borgarahreyfingarinnar í Evrópumálum er að ekki sé hægt að taka afstöðu til málsins nema að undangengnum aðildarviðræðum..Að..kynningu lokinni yrði svo samningurinn borinn undir þjóðaratkvæði.”
Og síðar bætti hann við: “Sá fyrirsláttur Sjálfstæðisflokks að það þurfi fyrst að kjósa um aðildarviðræður er ömurleg birtingarmynd kjarkleysis þeirra sem ekki einu sinni þora að viðurkenna að þeir hafi skoðun á móti ESB.”
Þór ætlar sem sé að taka afstöðu til máls á þann hátt sem hann segir vera “ömurlegi(a)birtingarmynd kjarkleysis,” ESB andstæðinga sem þori ekki að koma út úr skápnum. Munurinn er hins vegar sá að Þór hefur hingað til sagst vera fylgjandi aðild!
Stjórn Borgarahreyfingarinnar og Þráinn Bertelsson, alþingismaður hafa ítrekað fyrri yfirlýsingar. “Ef þau ætla að gera þetta þá eru þau, í mínum huga, klárlega að fara á bak orða sinna," segir Herbert Sveinbjörnsson, formaður stjórnarinnar.
Það er ótrúlegt að horfa upp á þremenningana troða stefnu hreyfingarinnar fótum og taka afstöðu eftir pólitískri vindátt augnabliksins.
Með afstöðu sinni munu þremenningarnir uppskera fall ríkisstjórnarinnar, algjört uppnám í efnahagsmálum landsmanna. Sjálfstæðismenn – aðalhöfundar hrunsins – stæðu upp sem sigurvegarar. Var Borgarahreyfingin stofnuð til þess að koma þeim til valda á ný?
Kaupþings-Pétur stofni nýjan flokk
Pétur Blöndal, alþingismaður og stofandi Kaupþings réðst harkalega á flokksystur sína Ragnheiði Ríkharðsdóttur á Alþingi í gær:
“Það er ljóst á ræðu háttvirts þingmanns, að hún vill að Ísland gangi í Evrópusambandið,” sagði Pétur eftir að Ragnheiður hafði lokið ræðu sinni.
“Því vil ég spyrja háttvirtan þingmann hvort hann vilji ekki stofna annan sjálfstæðisflokk?” spurði Pétur.
Pétur var greinilega búinn að gleyma því að Bjarni Benediktsson, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Illugi Gunnarsson, Ólöf Nordal, svo einhver séu nefnd, hafa öll lýst því yfir að Ísland ætti að taka upp viðræður um aðild að Evrópusambandinu.
Þau eru hins vegar fylgjandi tvöfaldri þjóðaratkvæðagreiðslu.
Sammála þeim um aðild að Evrópusambandinu eru fulltrúar nær alls atvinnulífsins á Íslandi (að kvótagreifum og bændaeigendum undanskildum) auk verkalýðshreyfingarinnar.
Er það virkilega Ragnheiður Ríkharðsdóttir sem er einangruð í sínum Evrópuskoðunum?
Ætti kannski stofnandi Kaupþings að stofna nýjan flokk?
mánudagur, 13. júlí 2009
D-listi logar stafna á milli
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins á ekki sjö dagana sæla. Hann hefur það sem af er árinu haft uþb. fjórar skoðanir á aðild Íslands að Evrópusambandinu. Í fljótu bragði mætti ætla að tillaga hans um tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu væri verk galins manns, svo mjög sem hún er í andstöðu við fyrri yfirlýsingar formannnsins.
Sýnum Bjarna þó fyllstu sannigirni og lítum yfir sviðið og það sem hann glímir við:
Náfrændi hans Benedikt Jóhannesson, hagfræðingur orðar þetta svo í Morgunblaðinu í dag
“Aldrei hefur verið jafnmikilvægt og nú að þjóðin haldi öllum leiðum út úr kreppunni opnum. Þeir sem segja nei við viðræðum við Evrópusambandið loka dyrum sem vænlegastar eru í peningamálum og alþjóðasamvinnu. Nei er uppskrift að áframhaldandi stöðnun og þrengingum þjóðarinnar um langa framtíð. Hver vill bera ábyrgð á því?”
Björn Bjarnason, ættarlaukur Engeyjarættarinnar og frændi Bjarnans og Benediktsins vill greinilega bera ábyrgð á því enda hraunar hann yfir Carl Bildt gamlan félaga Davíðs og Kjartans úr norrænni stúdentapólitík sem gerði honum það eitt til miska að segjast ætla að fylgjast með gangi mála á Alþingi Íslendinga.
"Má ekki" segir Geðvonsku-Björn,.
Fylgismaður Björns, tukthúslimur nokkur sem setið hefur í fangelsi fyrir þjófnað og umboðssvik, Árni Johnsen, að nafni, sagði á hinu háa Alþingi í dag:
“Við Íslendingar erum ekki fædd til þess að gefast upp. Þess vegna eigum við ekkert erindi inn í nýja Sovét. Og þetta nýja Sovét er miklu hættulegra en hið gamla. Það ætlar sér að kokgleypa Ísland. Og ef hið nýja Sovét kokgleypir Ísland, þá munu menn ekki hafa fyrir því að hrækja beininu.”
Bjarni sjálfur og þingflokksformaður hans Illugi Gunnarsson skrifuðu fyrir rúmu hálfu ári:
“Íslensk stjórnvöld eiga að ganga til viðræðna við Evrópusambandið og kanna hvernig samningum Íslendingar næðu um aðild og bera niðurstöðuna undir þjóðaratkvæði í kjölfar viðræðna.”
Árni Johnsen getur tæplega setið áfram í flokki með mönnum sem hann telur stefna að inngöngu í hið nýja-Sovét.
Við þessar aðstæður er skiljanlegt að Bjarni og félagar reyni að leika þann biðleik sem er að fara fram á tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu. Að sjálfsögðu er honum og félögum hans engin alvara með þessu. Þetta er einfaldlega liður í innanflokksátökum i Sjálfstæðisflokknum.
Þeir reyna að forðast klofningi með því að láta fara fram atkvæðagreiðslu á þingi um að setja umsókn í þjóðaratkvæði.
Það þarf líka að stinga dúsu upp í Ólöfu Nordal og RagnheiðiRíkharðsdóttur sem hafa gefið svo skýrar yfirlýsingar um nauðsyn ESB aðildar að þær geta gleymt endurkjöri á Alþingi ef þær sýna ekki tennurnar í þessu máli.
Á hinum vængnum væri það út af fyrir sig lítið mál ef Bjarni og félagar væru einungis að glíma við Kalda-Stríðs Bjössa og dæmda tukthúsliminn.
Í kvöld hótaði Davíð Oddsson endurkomu í stjórnmálin. Og þótt tilefnið sé Icesave, verður Davíð Group ekki skotaskuld úr því að gera útrás í ESB málin. Hæfir kjaftur skel.
Og svo ég vitni óbeint í mág minn og einn besta vin Davíðs, Kjartan Gunnarsson er þeim ágæta manni algjörlega skítsama um allt annað en sjálfan sig.
Og þótt fórnarkostnaðurinn sé með orðum Sjálfstæðismannsins Benedikts Jóhannessonar: "uppskrift að áframhaldandi stöðnun og þrengingum þjóðarinnar um langa framtíð," þá er Davíð alveg sama. Honum er nefnilega í raun og veru skítsama um allt nema sjálfan sig.
(PS: Orð Kjartans voru látin falla á opinberum fundi Sjálfstæðisflokksins í Valhöll. Var greint frá honum i íslenskum fjölmiðlum og síðar í bók Guðna Th. Jóhannessonar Hrunið. Kjartan neitaði síðar að hafa átt við Davíð Oddsson. Það er því röng ályktun í athugasemd að ég sé að skýra frá einhverri einkavitneskju minni.)
Stefna Borgarahreyfingarinnar var skýr
Þór Saari, frambjóðandi Borgarahreyfingarinnar skrifaði á heimasíðu hreyfingar hennar daginn fyrir kjördag: “Stefna Borgarahreyfingarinnar í Evrópumálum er að ekki sé hægt að taka afstöðu til málsins nema að undangengnum aðildarviðræðum. Að þeim loknum mun aðildar samningurinn verða kynntur öllum landsmönnum með beinum kynningum um allt land og með víðtækri umræðu og fjölmiðlaumfjöllum í allt að sex til tólf mánuði ef með þarf.
Að þeirri kynningu lokinni yrði svo samningurinn borinn undir þjóðaratvæði."
Birgitta Jónsdóttir, alþingismaður Borgarahreyfingarinnar er sem sagt á móti stefnu eigin flokks eins og hún var kynnt daginn fyrir kosningar og reyndar á móti sínum eigin orðum: "Já, við viljum sækja um og leggja það í dóm þjóðarinnar.“
Birgitta skrifaði athugasemd við skrif mín um helgina: “Ég man ekki eftir því að hafa lofað því að ganga í ESB og ég man ekki til þess að það að segja eitthvað eftir kosningar sé skilgreint sem kosningaloforð.”
Ég hef aldrei sagt neitt um að Birgitta hafi lofað því að ganga í ESB.
Og eru það svo frambærileg rök siðbótarkonu í íslenskri pólitík að hvað sem sinnaskiptum hennar líði þá sé ekki hægt að flokka yfirlýsingu sem var gefin örfáum klukkustundum eftir lokun kjörstaða sé ekki kosningaloforð? Skiptir það máli?
Er hún að halda því fram að orð Þórs Saari þar sem hann segir hreint út að stefna Borgarahreyfingarinna sé að fara í aðildarviðræður og bera samninginn undir þjóðina, sé ekki stefna hreyfingarinnar?
Talaði Þór ekki fyrir hönd hreyfingarinnar og þar með Birgittu í jafn mikilvægu máli?
Er það siðbótarkona í íslenskri pólitík sem hér talar?
Kjarni málsins er sá að Birgitta snýst eins og skopparakringla og hefur tekið aljgörum sinnaskiptum í lykilmáli í íslenskri stjórnmálaumræðu á aðeins rúmum tveimur mánuðum.
Nýjustu skoðunum hennar lýsir Þór Saar flokksbróðir hennar svo: “Sá fyrirsláttur … að það þurfi fyrst að kjósa um aðildarviðræður er ömurleg birtingarmynd kjarkleysis þeirra sem ekki einu sinni þora að viðurkenna að þeir hafi skoðun á móti ESB.”
PS Lesandi benti mér á að ég hafi misritað nafn Þórs Saari. Ég vil biðja hann velvirðingar á þessum mistökum sem ég hef nú leiðrétt.
laugardagur, 11. júlí 2009
Birgitta svíkur kosningaloforð
Þessi ummæli eru höfð eftir Birgittu Jónsdóttur, þingmanni Borgarahreyfingarinnar í leiðtogaumræðum í Sjónvarpinu 26. apríl: „Já, við viljum sækja um og leggja það í dóm þjóðarinnar.“
Ef rétt er haft eftir, hvernig ætlar Borgarahreyfingin að skýra það að sú kona sem kom fram fyrir alþjóð í leiðtogaumræðum fyrir hönd hreyfingarinnar, hefur nú lýst yfir að hún ætli þvert á móti að greiða atkvæði gegn aðild?
Var Borgarahreyfingin stofnuð til þess að svíkja rúmlega tveggja mánaða gamalt kosningaloforð? Hún er þá ekkert skárri en fjórflokkurinn og hefur engan tilverurétt.
föstudagur, 10. júlí 2009
Þegar hóran sakar nunnuna um vergirni
Pétur Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins er meiri húmoristi en flestir halda. Hann er reyndar meiri húmoristi en hann heldur sjálfur.
Pétur réðst rétt í þessu á Alþingi skjálfandi brostinni röddu á borð við amerískan sjónvarpsprédikatar á Lilju Mósesdóttur, þingmann VG fyrir stefnuleysi flokks hennar til aðildar að ESB. Lilja hafði vissulega farið eins og köttur í kringum heitan graut um hvort hún vildi að Ísland gengi í Evrópusambandið.
Pétur krafði hana svara og var nánast ljóðrænn í kröfu sinni um að hún gæfi upp afstöðu sína til aðildar að ESB. "Þjóðin á rétt á svari", sagði þingmaðurinn og stofnandi Kaupþings orðrétt í ræðu sinni.
Pétur er í flokki með manni að nafni Bjarni Benediktsson. Sá ágæti maður hefur haft fjórar skoðanir á aðild að Evrópusambandinu síðan í byrjun desember á síðasta ári.
Að heyra Sjálfstæðismenn saka vinstri græna um stefnuleysi í Evrópumálum er eins og að heyra vændiskonu saka prestsmadömmu um fjöllyndi.
Er ekki nóg komið Bjarni Ben?
Það er ömurlegt að fylgjast með Sjálfstæðisflokknum þessa dagana. Þótt ég sé sjaldnast sammála flokknum, verður þó að segjast eins og er að lengstum hefur starf flokksins einkennst af þeirri ábyrgðartilfinningu, hófsemi og stefnufestu sem gömlum íhalds- og valdaflokki sæmir.
En nú er öldin önnur.
Sjálfstæðismenn berjast nú hatrammri baráttu gegn lausn á Icesave-harmleiknum sem reikningur til íslensku þjóðarinnar fyrir einkavinavæðingu bankanna og raunar illskárri en sú sem Sjálfstæðisráðherrar skrifuðu upp á fyrir nokkrum mánuðum.
Í Evrópusambandsmálinu hefur Bjarni Benediktsson haft svo margar skoðanir undanfarna mánuði að það væri að æra óstöðugan að telja þær upp.
Í lok síðasta árs skrifuðu þeir félagarnir Bjarni og Illugi Gunnarsson í Fréttablaðið:
Íslensk stjórnvöld eiga að ganga til viðræðna við Evrópusambandið og kanna hvernig samningum Íslendingar næðu um aðild og bera niðurstöðuna undir þjóðaratkvæði í kjölfar viðræðna. Þessa leið ætti að fara - þótt landsfundur sjálfstæðisflokksins kæmist að þeirri niðurstöðu að hagsmunum Íslands væri betur borgið utan Evrópusambandsins.
Nú snýst Bjarni í hringi eins og skopparakringla og vill þjóðaratkvæðagreiðslu um umsókn. Þetta hefur hvergi verið gert áður í Evrópu enda er þetta ekkert annað en óþarfur biðleikur ráðþrota stjórnmálaforingja sem þorir ekki að taka afstöðu af ótta við klofning í flokki sínum.
Tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla tefur eingöngu fyrir því að hægt sé að ljúka samningum og taka raunverulega afstöðu til málsins. Hún mun tefja fyrir endurreisn íslensks efnahagslífs og upptöku evru á Íslandi. Ætla Sjálfstæðismenn að hafa þetta líka á samviskunni? Er ekki nóg komið Bjarni Ben?
Tvöföld þjóðaratkvæðagreiðsla er ekkert annað en frestun á því að taka afstöðu til hins óumflýjanlega. Aðildarumsóknar. Afstöðu til aðildar er hins vegar ekki hægt að taka fyrr en samningur liggur fyrir.
Nýjasta yfirlýsing Bjarna er þessi: „Þingið er nánast í frumeindum vegna þessa. Það er ekki skýr þingvilji til staðar, ekki meðal þjóðarinnar, ekki einu sinni innan ríkisstjórnar.“
Það sem hann meinar hins vegar er: “Sjálfstæðisflokkurinn er nánast í frumeindum sínum vegna þessa. Það er ekki skýr flokksvilji til staðar, ekki meðal flokksmanna, ekki einu sinni innan flokksforystunnar.”
Egill Helgason segir um þetta: “Þessi aðferð hentar hins vegar huglausum og lafhræddum stjórnmálamönnum og stjórnmálaflokkum sem þora ekki fyrir sitt litla líf að taka afstöðu til málsins.”
Það er nefnilega þannig að hugleysingjar og skoðanaleysingjar eru í öllum flokkum, rétt eins og framsóknarmenn eru alls staðar og kerlingar eru af báðum kynjum.
fimmtudagur, 9. júlí 2009
Öryggisnetið minna en vasaklútur
Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur hefur eftir viðmælanda sínum í nýlegri úttekt á Hruninu að þótt bankarnir hafi verið orðnir tífaldir á við efnahagslega stærð Íslands hafi öryggisnetið verið á stærð við vasaklút.
Við getum rifist um hitt og þetta i þáskyldagatíð og viðtengingarhætti en þetta er kjarni málsins.
Með þátttöku okkar í Evrópska efnahagssvæðinu opnuðum við fyrir frjálst flæði fjármagns á milli okkar á Evrópusambandsins um leið og við gengumst inn á það að ESB setti okkur nær einhliða löggjöf á öllum þeim sviðum sem snerta hinn innri markað.
Ice Save harmleikurinn er skyldgetið afkæmi þeirrar stefnu að taka þátt í frjálshyggju efnahagssvæðisins og innri markaðarins en neita því að taka þátt í því pólitíska og efnahagslega varnarbandalagi sem Evrópusambandið er.
Ríkisbankarnir voru seldir fyrir spottpris til vildarvina Sjálfstæðis- og Framsóknarmanna með ósannindum um annars vegar tengsl við erlenda aðila og hins vegar ósannindum um stórfellda flutninga fjár til landsins. Og svo voru kaupin fjármögnuð með lánum á víxl úr ríkisbönkunum!
Þrátt fyrir þessa spillingu og allt lánafylleríið, sérgæskuna og glórulausan vöxt og óráðsíu þessara manna og reynsluleysi þeirra í bankarekstri, hefði verið hægt að verjast því þjóðargjaldþroti sem nú stefnir í. Ekki skakkaföllunum en álitsmissinum og vinaleysinu.
Frammistaða Geirs Haarde og Árna Mathiesen, Ingibjargar Sólrúnar og Björgvins G. Sigurðssonar og fleiri ráðherra var auðvitað með ólíkindum. Þau steinsváfu í aðdraganda bankahrunsins þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir og viðbrögðin voru fullkomið klúður.
Samt liggur það fyrir að Ísland galt fyrir það að standa utan Evrópusambandsins og varð að sæta afarkostum i samskiptum við Breta. Hefði slíkt gert ef Ísland hefði haft atkvæði innan Evrópusambandsins? Ég hallast að því að svo hefði ekki verið en slíkt er ósannanlegt.
Hitt er hins vegar augljóst að Seðlabanki Evrópu lánar nú fé á engum eða eins prósenta vöxtum til að forðast hruni í aðildarríkjum sambandsins og eru þar engir þurfandi undanskildir. Þarf ég að rifja upp vextina á Ice Save lánunum?
Sagt er að upptaka evrunnar myndi ekki breyta neinu hér og nú fyrir Ísland. Segjum að það sé rétt.
Ég spyr hins vegar fullorðna Íslendinga; feður og mæður, afa og ömmur þessa lands: er eki mál að linni? Eigum við ekki að hætta að láta allt reika á reiðanum og taka áhættuna á þvi að ábyrgðarleysi okkar steypi börnum okkar og barnabörnum í óvissu og skuldafjötra?
Í ljósi þessa vona ég að Alþingismenn, þar á meðal Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins íhugi feril afabróður hans og nafna, Bjarna forsætisráðherra.
Hefði ekki verið auðveldara fyrir Bjarna heitinn Ben að láta undan þrýstingi (sennilega meirihluta þjóðarinnar?) og stinga hausnum í sandinn og hunsa boði Bandaríkjamanna um hervernd og NATO aðild? Hefði hann ekki keypt sér stundarvinsældir?
Ég held að Bjarni sé innst inni sammála mér um að happadrægra sé hlutskipti frænda hans og fyrirmyndar en hlutskipti ábyrgðarlausra lýðskrumara á borð við Einar Olgeirsson og Hermann Jónasson.
Sagan mun dæma Bjarna yngra hart ef hann á ögurstundu bregst því sögulega hlutskipti Sjálfstæðisflokksins að leiða þjóðina inn á nánari samvinnu vestrænna lýðræðisþjóða.
Valkosturinn er að snúa baki við því þjóðfélagi sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur barist fyrir um áratugaskeið í bandalagi við vestrænna ríki.
Á tímum kalda stríðsins var valkosturinn rétt eins og nú að segja sig úr lögum við vina og nágrannaríki eða standa ein norður í Ballarhafi með óljósa von um stuðning einhverra vafasamra óskildra skúrka. Nú stöndum við frammi fyrir því að segja já eða nei við orðnum hlut: að samþykkja eða hafna orðnum hlut fyllerísára frjálshyggjunar: aðgerðum eða aðgerðarleysi ríkisstjórna Davíðs og Geirs.
Á sínum tíma var valkosturinn sá að hafna frænda- og vinaþjóðunum og halla sér að Sovétríkjunum. Sama er upp á teningnum nú, nema engin eru Sovétríkin. Hvaða vinum vill Bjarni halla sér að : Kúbu eða Norður-Kóreu?
Le Soir: Rausn Íslands kom Belgum á óvart
Í umræðunum sem nú standa yfir um Icesave, hefur ekki farið hátt um belgíska sparifjáreigendur sem áttu innistæður hjá Kaupþingi. Raunar má segja að mjög lítillar samúðar gæti með þeim útlendingum sem eiga um sárt að binda vegna íslenskra fjárglæfra.
Belgíska stórblaðið Le Soir hefur alla þessa viku birt greinaflokk um Kaupþingsævintýrið í Belgíu og Lúxemborg og er það forvitnileg lesning – því sjónarhóllinn er annar en við eigum að venjast.
“Kaupþingsmálið er fyrst og framst harmleikur: önnur eins ógn hefur ekki stafað að jafn mörgum belgískum sparifjáreigendum síðan í síðari heimstyrjöldinni,” segir í byrjun vandaðrar úttektar blaðsins.
Frásagnir blaðsins af umsvifum Kaupþings er forvitnileg að ýmsu leyti, hlutlæg og fordómalaus með öllu í garð okkar Íslendinga. Þannig er skýrt frá ofsóknum á hendur Íslendingum í Lúxemborg. Börnum sagt að þau yrðu rekin úr skóla í kjölfar gjaldþrots Kauþþings og nágrannar bönkuðu upp á til að reyna að fá sjónvarpstæki og íbúðir fyrir lítið.
En það sem veldur manni áhyggjum er frásögn af fundi ráðamanna í Belgíu og Lúxemborg með íslenskum ráðamönnum í tengslum við millilendingu Yves Leterme, þáverandi forsætisráðherra á Íslandi 17. október.
Að sögn Le Soir mætti af Íslands hálfu á fundinn helmingur íslensku ríkisstjórnarinnar, fulltrúar Seðlabankans og nefndar sem skipuð var til varnar bankahruninu.
Síðan segir í frásögn blaðsins: “Eftir kurteisisumræður um nauðsyn samstöðu smáríkja, snéru menn sér að alvörumálunum. Og þá gall í fulltrúa björgunarnefndar bankanna: “Allt er leyst.” Belgísku og lúxemborgísku fulltrúarnir voru steinhissa: “Hvernig ætlið þið að gera það?”. “Við ætlum að borga allt út í reiðufé”, svaraði fulltrúinn sallarólegur.
“Enn þann dag í dag,” segir okkur einn belgísk-lúxemborgísku nefndarmaðurinn, “skiljum við ekki hvers vegna fulltrúi nefndarinnar lýsti þessu yfir við okkur.”
Burtséð frá því hvaða máli þessi yfirlýsing skiptir og hver það var sem lét þessi orð falla; verður ekki framhjá því litið að þetta er dæmigert fyrir þann óprófessjónalisma sem íslensk stjórnvöld sýndu af sér í bankahruninu. Og gera kannski enn.
Sjá: http://www.lesoir.be/actualite/economie/2009-07-09/comptes-kaupthing-debloques-ici-fin-juillet-716800.shtml