Það er ævinlega gaman að geta bent á það sem vel er gert. Til dæmis hversu þefvís fréttastofa útvarps er að varpa hulunni af því að Adolf Guðmundsson, nýr formaður LÍÚ, sé andsnúinn aðild Íslands að Evrópusambandinu.
Eins og allir forverar hans og stjórn samtakanna frá upphafi… Ja hérna, hvar værum við ef RÚV segði okkur ekki stórfréttirnar!!??
Eftir þetta skúbb heldur svo rannsóknarblaðamennskan áfram:
Adólf segir að innganga í Evrópusambandið sé “ávísun á viðvarandi atvinnuleysi og launalækkun.”
Ekki er minnst einu orði á það í fréttinni hvernig á launalækkun myndi standa en því næst segir:
“Adolf lagði áherslu á að lítið hefði farið fyrir göllunum við ESB-aðild í umræðunni. Kostirnir hefðu hins vegar óspart verið tíundaðir. Adolf sagði að samkvæmt nýjustu tölum væri 17,7% fólks undir 25 ára innan ESB án atvinnu.”
Í alvöru talað: Eru þetta frambærilegar röksemdir? Nú er mér ekki kunnugt um hvað margir undir 25 ára aldri verða atvinnulausir innan skamms. Þótt mig gruni að hér sé eitthvað málum blandið og setji fyrirvara, bendi ég á að það er ekkert sem segir að slíkt myndi gerast á Íslandi. Ekki frekar en við yrðum skáeygð við að ganga í Kína eða upp til hópa sjálfsþurftabændur ef við gengjum í Indland; eins og sumir stjórnmálamenn virðast einna helst vilja.
En þetta er ekki neitt. Adolf segir: "Það er alveg skýr afstaða LÍÚ að inn í Evrópusambandið viljum við ekki fara því þá þurfum við að afsala okkur yfirráðarétti yfir auðlindinni og það kemur bara ekki til greina." Hann sagði sjávarútveg flokkaðan með landbúnaði í Evrópusambandinu og félli þar af leiðandi ekki undir frumrétt.
Fréttastofa útvarps hefur ekki fyrir því að skýra um hvað Adolf er að tala. Hann áttar sig á því að miðað við núverandi reglur hefur engin þjóð rétt á fiskveiðikvótum í íslenskri lögsögu, Íslendingar myndu sjálfir semja tillögur um skiptingu kvóta og sjá um fiskveiðieftirlit, þó vissulega þyrfti ráðherraráðið að gefa endanlegt grænt ljós.
Adolf grípur því í ógöngum sínum til þess ráðs að blanda sjávarútvegi og landbúnaði saman og þar sem það sé ekki ”frumréttur”, sé hægt að breyta reglunum okkur í óhag.
Þetta er smjörklípa að hætti Davíðs.
Adolf nefnir ekki að engin þjóð hefur lýst áhuga á að breyta ”hlutfallslega stöðugleikanum” sem myndi tryggja Íslendingum áframhaldandi yfirráð yfir eigin lögsögu. Og hvort heldur sem er vilja það mörg ríki (og framkvæmdastjórn ESB einnig) halda fast í þessa reglu að litlar sem engar líkur eru á nokkrum breytingum.
En það er sjálfsagt að hafa vaðið fyrir neðan sig. Norðmenn sömdu um tryggingar fyrir slíku í aðildarsamningi sínum að ESB. Ef Íslendingar færu að dæmi þeirra, væri þar með ekki hægt að hrófla við þessu án samþykkis Íslendinga því aðildarsamningurinn hefur þjóðréttarlega stöðu.
Maður spyr sig þegar útvegsmenn halda áfram málflutningi af þessum toga, hvar eru íslenskir Evrópusinnar? Ráðherrar Samfylkingarinnar eru víst í þagnarbindindi og kann það að vera af hinu góða, miðað við frammistöðu þeirra að undanförnu. En hvers vegna í ósköpunum hefur ekki verið gerð nein tilraun til að auka þekkingu á málum ESB á Íslandi? RÚV hefur sem kunnugt er lagt stein í götu þeirra sem hafa viljað stuðla að slíku - þótt tímarnir hafi nú breyttst.
Verður bulli af þessu tagi látið ósvarað?
miðvikudagur, 3. desember 2008
Stórfrétt: LÍÚ á móti ESB!
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
4 ummæli:
Þessi þögn evrópusinna er að verða ærandi. Það er kominn NEI-hreyfing sem emjar og skrimjar yfir hugtökum sem hún telur sig skilja eins og sjálfstæði og fullveldi. En hvar er JÁ-hreyfingin og hennar talsmenn því svona illa rökstuddum fullyrðingum verður að svara á gagnrýnin hátt. Því sé lyginn sögð nógu oft, byrja menn að trúa henni.
Hagræðing á sannleikanum er nokkuð sem LÍÚ eru sérfræðingar í, því hvernig stendur á því að einn stétt gat gert ævisparnað hundruð íslendinga að engu í nafni hagræðingar, og sloppið með það.
Þegar arðræningjarnir í LÍÚ byrja að væla þá þarf að svara þeim strax og spyrja spurninga á móti.
Svoldið fyndið með LÍÚ-menn að það svoleiðis kraumar í þeim þjóðernisvitundin og umhyggjan fyrir Íslandi þegar kemur að ESB-málum. Þegar hins vegar stendur upp á þá að skila gjaldeyristekjunum sínum inn í þjóðarbúið svo ekki fari allt í bál og brand fer miklu minna fyrir samkenndinni og þurfti á endanum lagasetningu til þess að þessir peningar skiluðu sér til landsins sem þeir elska svona svakalega.
Alveg satt. Það er alveg kostulegt að fylgjast með hvað sumir bera á borð fyri fólk varðandi ESB og hafa gert í gengum tíðina.
Þeir hljóta bara að treysta því að almenningur sé upp til hópa hálfvitar !
Svo er fyrir neðan allar hellur hve ruv kóar með vitleysunni.
Ótrúlegur andskoti.
LÍÚ á Sjálfstæðisflokkinn sem á RÚV. Flokkurinn er systematískt búinn að eyðileggja fjölmiðlafólk í þessu guðs-volaða-landi.
Gangist við því, þið sem þekkið fjölmiðla erlendis: Hér er svo ólíku saman að jafna að grátlegt er að horfa upp á "beittustu" fréttamennina missa af góðum spurningum af því þeir voru ekki vel undirbúnir undir viðtölin. Og heima í stofu öskrar almenningur: af hverju spurði hann ekki að þessu?
Fjölmiðlafólk er allsnakið frammi fyrir þjóðinni núna. Þið eruð rúin trausti. Moggafólk eru börn stjórnenda – Fréttablaðsliðið undir járnhæl baugsins. Takið eftir að þetta fólk er illa máli farið og illa skrifandi. Þið sem hafið starfað á fjölmiðlunum vitið þetta.
Barnunga stúlkan sem tók viðtalið við Adólf Guðmundsson, flissaði stundum því hún var svo feimin. Þetta var hreinræktuð krana-fjölmiðlun. Og hann var í Hamrahlíð á þeim árum sem allt almennilegt fólk var EKKI í Heimdalli. döö
Skrifa ummæli