Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra er slyngur pólitískur penni. Í skrifum hans, einkanlega í hið ágæta tímarit Þjóðmál, lítur hann á málefni líðandi stundar útfrá mjög víðu sjónarhorni og lætur satt að segja gamninn geisa. Það er góðra gjalda vert og raunar hittar margar athugasemdir Björns í mark, sumar eru frumlegar, aðrar skemmtilega meinfýsnar.
Áður en lengra er haldið vil ég taka fram að það er til fyrirmyndar hversu duglegur Björn er í sínum daglegu skrifum. Hann hefur sterkar skoðanir og lætur þær óspart í ljós. Enginn getur kvartað yfir því að maður viti ekki hvar maður hefur Björn.
Í upphafi ritgerðar sinnar lýsir Björn yfir ákveðnum tilgangi að góðum fræðilegum sið og hann gerir mjög skarplegar athugasemdir um eitt og annað. Aðferð hans eins og svo oft áður er það sem nú er kallað að kópí-peista og birtir glefsur úr samfélagsrýni af vefnum og úr dagblöðum.
Ég er satt að segja ekki mikill aðdáandi franska rithöfundarins og heimspekingsins Jean-Paul Sartre en þó eru æskuminningar hans um að læra að lesa og skrifa stórskemmtilegar. Þar lýsti hann því hvernig hann samdi sína fyrstu skáldsögu barn að aldri. Hann skrifaði nokkurra lína frásögn en staðnæmdist síðan við eitthvað nafnorð. Ef það var orðið krókódíll ritaði hann upp færsluna um krókódíl úr Larousse, frönsku alfræðiorðabókinni.
Útkoman varð algjört rugl þótt alfræðimolarnir og athugasemdirnar um þá væru hver um sig athyglisverðir.
Í þessa gryfju virðist manni Björn hafa fallið því útkoman er við fyrstu sýn samhengislaust rugl.
En þegar betur er að gáð læðist að manni sá grunur að Björn sé vitandi vits fela slóð sína þegar hann glímir við sinn vonda málstað. Hann vilji hafa borð fyrir báru og gefi meðvitað færi á ólíkum túlkunum. Davíð Oddsson, hefur löngum verið átrúnaðargoð Björns og margur molinn hrokkið af gnægtaborði þess ágæta húmorista til dómsmálaráðherrans skapstirða.
Fyrst notaði Davíð hnéaðferðina í Matthilidi, síðan smörklípuaðferðina og loks Seðlabankaaðferðina sem var að hjúpa hugsunina niðdimmri þoku.
Björn veit að hann glímir við erfiðan málstað. Hann á bágt með að losna undan fargi fortíðarinnar og framtíðin er óljós. Þess vegna hvílir Seðlabankaþokan yfir skrifum hans.
Maður er því tilneyddur til að nota aðferðir sem minna á Kremlarlógíuna gömlu til að rýna í skrif Björns.
Og hefst nú lesturinn.
Ég er sammála Birni þegar hann rekur og gagnrýnir þjóðrembu útrásarinnar og auðvitað hefur Björn hárrétt fyrir sér þegar hann tætir í sig ræður og rit Ólafs Ragnars Grímssonar sem telur okkur jafnoka Feneyjinga og Flórensbúa á Endurreisnartímanum svo fátt eitt sé nefnt.
Hann vitnar sérstaklega til þeirra orða forseta Íslands að ein ástæða þess að Íslendingar stæðu öðrum þjóðum framar, væri sú að þeir þorðu þegar aðrir hikuðu, því: “Við vitum líka að ætíð er hægt að hverfa heim til Íslands ef illa fer í leiðangrinum og eiga hér hið besta líf.”
Einmitt.
Einhver hefði svarað Ólafi Ragnari, “étt ' ann sjálfur” en ekki hinn prúði Björn sem lætur sér nægja að segja að þetta séu nú hin “örgustu öfugmæli.”
So far so good hjá Birni.
Næst tínir hann til úr samfélagsumræðunni grein eftir Sumarliða Ísleifsson, sagnfræðing, annan gagnrýnanda forsetans sem telur að við þurfum að byggja í vaxandi mæli á samfélagslegri ábyrgð og náinni samvinnu þjóða. “Þá er ekki afarasælast að leggja áherslu á yfirburði, sérstöðu og hreinleika,” hefur Björn eftir Sumarliða.
Heyr, heyr segi ég, en nú skyndilega beygir Björn af þeirri leið sem manni sýndist hann vera að stefna í með því að stilla upp þessum andstæðu pólum.
Það er vissulega stundum erfitt að henda reiður á hugsun Björns. Í hvert skipti sem maður þykist sjá rauðan þráð, hendir hann inn alls ótengdum tilvitnunum eins og heimsósómaskrifum Ólafs rithöfundar Gunnarssonar og hugleiðingum Percy Westerlund, sendiherra sem enginn les.
Þetta leiðir nefnilega ekki neitt en í lokin kemur hann síðan aftur að aðalatriðinu.
Hann segir að þótt í EES hafi falist nánari samvinna við aðrar þjóðir en nokkru sinni fyrr, hafi þetta með einhverjum hætti (sem hann útskýrir ekki vel) ýtt undir ofurtrú Íslendinga á sjálfum sér.
Björn segir að krafan um inngöngu Íslands í ESB byggist ekki á uppgjöri við fjórfrelsið sem felst í EES, heldur vantrú á að við getum staðið á eigin fótum; “skapa þurfi þjóðinni nýtt skjól.”
Hér þarf að grípa til textagreiningar. Er Björn að segja að í raun séu tveir möguleikar? Uppgjör við fjórfrelsið; les úrsögn úr EES eða “nýtt skjól”: innganga í ESB?
Þetta er vissulega ekki mjög skýrt.
Fyrr í greininni hafði Björn raunar bent á að eftir bankahrunið hefði “enginn lagt til að EES-samningnum verði sagt upp.” Jafnframt sagði hann að færa mætti fyrir því gild rök að “aðild Íslands að EES án samstarfs við ESB í gjaldeyrismálum hafi ráðið miklu um getuleysi íslenska fjármálakerfisins andspænis ofvexti bankanna.”
Er hann ekki þar með að viðurkenna að “skapa þurfi þjóðinni nýtt skjól?”
Björn svarar því fyrr í ritgerðinni með því að ekki sé hægt að útiloka einhliða upptöku evru á þeim forsendum að þeir “vilja þetta ekki í Brussel.”
En í niðurstöðunum kemst hann síðan að þeirri niðurstöðu að með ESB-aðild værum við að “þrengja svigrúm okkar á of mörgum sviðum” sem hefðu ekkert með það að gera að hafa "hemil á áhættufíkn auðmanna.”
Þetta eru athyglisverð og óvænt rök, því hver hefur haldið því fram að aðild að ESB hefði eitthvað með þetta að gera? Þetta hefur ætíð verið á valdi ríkisstjórna Íslands sem Björn hefur setið í frá 1995 og stutt frá upphafi EES. Enn á ný lætur Björn eins og hann sé fræðimaður sem skrifi tímaritsgreinar stöku sinnum en hafi engin áhrif haft á að móta þann samtíma og stefnu sem hann gagnrýnir.
Ekki hef ég að minnsta kosti haldið þessu fram. Geir H. Haarde, forsætisráðherra og Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherrar hafa báðir svarið af sér alla ábyrgð á regluverki fjármálakerfisins því þetta kæmi allt frá ESB!
Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar með Björn í stuðningsliði sínu seldi hins vegar vildarvinum helmingaskiptaflokkanna bankana á spottprís. Og stjórnvöld, fjármálaeftirlit og seðlabanki létu undir höfuð leggjast að hamla vexti bankanna með því að hækka bindiskyldu, neita þeim um að stofna útibú erlendis með innistæðuábyrgð íslenska ríkisins (amk. eftir Icesave) og setja reglugerð til að takmarka útgáfu jöklabréfa.
EES- aðild eða ESB verður með engu móti kennt um þessi atriði.
EES felur nefnilega í sér að við höfum tekið verulegan hluta löggjafar ESB (75 prósent segir Olli Rehn) sem einhverju máli skiptir, að sjávarútvegi og landbúnaði slepptum. Og meira að segja á þeim vettvangi förum við að mörgu leyti eftir ESB löggjöf jafnvel í viðskiptum við þriðju ríki.
Niðurstaða Björns er síðan þessi:
“Þjóðin hefur þegar fengið að súpa nægilega mikið seyðið af þeirri framgöngu allri, þótt henni séu ekki einnnig settir úrslitakostir varðandi aðild að Evrópusambandinu.”
Hverjir eru þeir úrslitakostir? Að við neyðumst til að ganga í ESB (sem við erum hvort sem er að mestu komin í) út af ónýtu krónunni og okurvöxtunum?
Það er enginn að setja Íslandi neina úrslitakosti.
Í skýrslu nefndar undir forsæti hans sjálfs var komist að þeirri niðurstöðu að sáralitlar líkur væru til þess að aðrar þjóðir fengju veiðihemildir í íslenskri lögsögu, margt benti til þess að á komandi árum nyti íslenskur landbúnaður “meira skjóls innan en utan ESB,” miklir möguleikar væru á byggðastyrkjum, kostnaður við aðild væri hverfandi og svo mætti lengi telja.
Aðild að ESB eru engir afarkostir: Við höfum tilboð um “klæðskerasaumaðar” lausnir eins og Olli Rehn, stækkunarstjóri ESB orðar það, til að geta gengið reynslunni ríkari í það sem ég kalla efnahagslegt og pólitiskt varnarbandalag evrópskra lýðræðisríkja.
Nýr gjaldmiðill með bakhjarl í Seðlabanka Evrópu kemur í kaupbæti. Innganga í ESB og upptaka evru gæfi svo vissa en takmarkaða möguleika á að hafa áhrif á peningastefnuna í stað þess að kasta fullveldi á þessu sviði algjörlega fyrir róða og afhenda Evrópubankanum í Frankfurt.
Með ESB og evru fylgdu svo að vextir myndu lækka til samræmis við evrusvæðið og verðlag, sérstaklega matvælaverð, myndi væntanlega snarlækka.
Munurinn á því sem stóð Írum og evrulausum Ungverjum til boða en ekki Íslendingum í bankakreppunni er svo loks sláandi
Í ljósi þessa er undarlegt hvernig jafn gáfaður og gegn maður og Björn sveiflast svo til og frá í einni og sömu ritgerð. Hann segist vera að skrifa gegn ES B en virðist þó í rauninni vera óafvitandi (?) að skrifa gegn EES. Á sama tíma segir hann að enginn hafi dregið þá ályktun að segja þeim samningi upp í kjölfar bankahruns!!
En Björn er ekki bara gáfumaður, hann er stjórnmálamaður. Hann vill hafa vaðið fyrir neðan sig og áttar sig fyllilega á því að staða hans sem ESB andstæðings er mjög þröng.
Lykilatriðið í grein Björns er nefnilega orðið “úrslitakostir.” Fyrr í ritgerðinni hafði hann nefnilega gefið vörn krónunnar upp á bátinn, þannig að honum virðist nægja til að réttlæta sinnaskipti í Evrópumálum, að rætt verði við Evrópusambandið um einhliða upptöku evru.
Ég tel að slíkar viðræður séu tímaeyðsla, ef þær snérust eingöngu um leyfi til að taka einhliða upp Evru, án þess að nokkuð annað hengi á spítunni.
Slíkar viðræður gætu hins vegar hugsanlega (og vonandi) leitt til þess að í ljósi sérstakra aðstæðna, EES aðildar og möguleikans sem Björn nefnir á gjaldeyrissamstarfi ESB við þriðju ríki, muni ESB láta gott heita að Ísland þjófstarti í upptöku evru – að vissum skilyrðum uppfylltum.
Eitt þeirra væri að sjálfsögðu að við lýstum yfir aðild að Evrópusambandinu eða hefðum þegar samið um inngöngu en fengjum einhvern afslátt í aðlögun.
Átrúnaðargoð Björns, húmoristinn Davíð Oddsson var á sokkabandsárum sínum í Spaugstofu síns tíma undir nafninu Matthildi í útvarpi allra landsmanna. Þar gerði hann ásamt félögum sínum Þórarni og Hrafni, grín að ístöðuleysi og hentistefnu Framsóknarmanna í hermálinu.
Í einum söngtextanum sem vafalaust átti að koma úr munni Óla Jó og félaga, var talað um að ”í huga mínum/rennur kaninn inn og út/ upp og niður og í gegnum sjálfan sig/ í hnút.”
Við þurfum einhvern veginn að hjálpa mönnum á borð við Björn við að leysa evrópsku hnútana sem hafa niðurnjörfað hugsun þeirra.
Kannski eru þetta þó eftir allt saman öfugmælavísur hjá Birni, til þess eins fallnar að stika leiðina út úr heimastjórnarstefnunni og þeim ógöngum sem hún hefur leitt íslensku þjóina út í. Að stilla upp tveimur kostum sem báðum er lýst sem ómögulegum og segjast síðan fallast á málamiðlun og feta meðalveginn. Skyldi þó aldrei vera!
Svarið er nefnilega einfalt. Rétt eins og árið 1949 eigum við að taka kjarkmikið skref til ganga til liðs við evrópskar lýðræðisþjóðir. Í félagsskap þeirra eigum við heima og hvergi annars staðar.
Kostirnir sem Björn og þjóðin standa frammi fyrir eru að vissu leyti svipaðir þeim sem Bjarni faðir hans Benediktsson stóð frammi fyrir árið 1949.
Annað hvort fylgjum við ofstækisfullum einangrunarsinnum að málum og skellum í lás, eða lærum af reynslunni af EES og stígum skrefið til fulls í átt til aðildar að ESB.
Í annari ritgerð í Þjóðmálum bregður Hallur Hallsson, blaðamaður upp framtíðarsýn úr nýútkominni skáldsögu sinni Váfugli. Þar glíma íslenskir sjómenn við viðbjóðslega ÚTLENSKA fiskimenn eftir inngöngu Íslands í ESB.
“Þau höfðu hrifist af eldmóði og orðheppni stúdentaleiðtogans og fylgst með baráttu lýðveldis gegn ofurveldi Evrópu. Átökin á Austurvelli höfðu hneykslað þjóðina....”
Söguhetjan Krummi siglir svo lítandi "fráneygður" út um gluggann með “birtu yfir karlmannlegu andlitinu” og togvíraklippur að vopni til að “halastýfa helvítin”, “bilbæsku skrattakollana”, kyrjandi lag Gyfa Ægissonar “Stolt siglir fleyið mitt stórsjónum á!”
Val Björns og Sjálfstæðismanna stendur nefnilega á milli málstaðar okkar Evrópusinna annars vegar og málstaðar þjóðrembu-útrásarmanna með Ólaf Ragnar í broddi fylkingar og fáfróðra þjóðernissinnaðra heimalinga á borð við Hall Hallsson sem kann ekki einu sinni að stafsetja nafn Brussel á íslensku.
Ætlar Björn að skipa sér í hóp grjótkastaranna sem Hallur spáir að verði á Austurvelli gangi Ísland í ESB eins og varð 1949, þegar við gengum í NATO? Hvort ætlar Björn Bjarna að vera Bjarni Benediktsson eða Brynjólfur Bjarnason?
Er ekki kominn tími til að Seðlabankaþokunni létti og Sjálfstæðismenn rati út úr blindgötunni?
Hvort velja þeir Stolt siglir fleyið mitt eða Óðinn til gleðinnar? Gylfa Ægisson eða Beethoven?
Þið vitið hverju ég myndi svara. Gleðileg jól!
fimmtudagur, 25. desember 2008
Fram og aftur blindgötuna með Birni Bjarna
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
9 ummæli:
Ber er hver að baki
nema sér Björn eigi.
Glæsileg grein hjá þér og eldskörp.
Gleðileg jól
Á evropunefnd.is er alveg kostuleg grein eftir einn sjallann sem sér rautt ef minnst er á esb.
Ég viðurkenni að ég skil hana ekki alveg eða tenginguna en í lok greinarinnar er engu líkara en óbeint sé verið að líkja tilvonandi esb inngöngu við samning Chamberlain og Hitlers á fyrri helmingi 20.aldar.
Ég bara skil ekki hugsunarhátt þessarra kalla.
En mér sýnist samt að þeir sem ákafastir voru í denn á aðdáun á US sjái einfaldlega rautt ef minnst er á Evrópu.
Þetta er allt umhugsunarvert. Ísland var alltaf sjálfstætt lýðveldi með leyfi US. Það er ekki liðinn nógu langur tími til að fólk almennt sjái það skýrt. Ísland var US puppet.
Og eins og nær allsstaðar þar sem US nær áhrifum var stjórnað óbeint gegnum yfir og aðalsstéttina. Ýtt undir hana og völd hennar efld.
Nú er gamli aðallinn á krossgötum.
Vel útfærður pistil.
Björn er ótrúlegur penni og oft hefur þurft tvær umferðir yfir pistlana hjá honum til að staðfesta grun sinn.
Nú er farið að halla á andstæðinga ESB, það er auðvelt að sjá það í gegnum þeirra málflutning þessa dagana að þeir eru nauðvörn.
Ég viðurkenni að vera hræddur um hvaða spil skrýmsladeild Sjálfstæðisflokksins muni nota á næstkomandi landsfundi. Væntanlega verða það órökstuddar og illa tuggnar fullyrðingar sem eiga sér ekki stað í raunveruleikanum.
Ég hef þó trú á fólkinu í flokknum.
Gleðileg jól.
Ingi
Frábær greining hjá þér. Ég er alveg sammála þér í því að "baráttan" snýst um það hvort við verðum eyland í samfélgi þjóðanna eða við verðum menn meðal manna. Rök Björns eru sömu og alkans: áfengi er ekki gott af því að ég misnotaði það, því á enginn að drekka.
Það var nú alger óþarfi að minnast á þessa fasísku, bók hans Halls Hallssonar, því líkt rugl sem þar er skrifað. Einfaldlega lélegast bók sem komið hefur út á íslenska tungu, slær Dömufríi Jóninu Ben út!
Hvað fengu Írar og Ungverjar, gætirðu frætt mig? Sem okkur stóð ekki til boða?
einstaklega góður pistill. Það sem Björn vill raunverulega er gamla einræðið, þegar Flokkurinn réði öllu og Kolkrabbinn gerði samninga við SÍS á bak við tjöldin.
Frekar Fram og aftur Blindgötuna með Megasi fyrir mig takk en takk samt fyrir kremlarlógíuna.
Forystumenn Sjálfstæðisflokksins munu koma sér saman um að vera Skeptískir ESB Sinnar. Þannig draga þeir athygli frá þeirri staðreynd að þeir eru að kasta einum af grunnstoðunum í stefnu flokksins á bálið.
Sjálfstæðisflokkurinn mun fela "ESB andstæðingnum" BB að leiða aðildarviðræður við ESB.
Gott ef hann verður ekki orðinn utanríkisráðherra eftir áramót.
Æ, æ félagi Árni.
Minn gamli félagi á Stöð 2, Árni Snævarr, sparar ekki stóryrðin á heimasíðu sinni um grein mína um Váfugl sem birtist í Þjóðmálum: Valið stendur á milli okkar Evrópusinna og „þjóðrembu-útrásarmanna með Ólaf Ragnar í broddi fylkingar og fáfróðra þjóðernissinnaðra heimalinga á borð við Hall Hallsson sem kann ekki einu sinni að stafsetja nafn Brussel á íslensku.”
Ja, hérna – nú dámar mér.
„Fáfróður heimalingur” kann ekki að stafsetja nafn Brussel á íslensku. Merkilegt að vinur minn Árni skuli ekki hafa hugarflug til þess að geta sér til um ástæður ritháttar Brüsssel í Váfugli.
Árni Snævarr er ekki í vafa um hvort hann velji Gylfa Ægis eða Beethoven; Stolt siglir fleyið mitt eða Óð gleðinnar. Það þarf mikið hugarflug til þess að bera saman Gylfa og Beethoven. Gylfa dytti aldrei í hug að bera sig saman við Beehoven. Gylfi hins vegar snertir íslenska þjóðarsál, þó Árni kunni að hafa týnt Íslendingnum í sjálfum sér.
Skrifa ummæli