Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins slær tóninn í baráttu Heimastjórnararms Sjálfstæðisflokksins gegn ESB aðild í ræðu sem birt er vefsíðunni amx.is nýverið.
Þar leggur hann til atlögu við Evrópusinna og ber þeim á brýn að þeir séu reiðubúnir til að afsala yfirráðum þjóðarinnar yfir auðlindum sínum og afhenda útlendingum fullveldi þjóðarinnar.
Styrmir er hins vegar eldri en tvævetur í pólitík og hefur vaðið fyrir neðan sig og talar um að “formleg yfirráð yfir auðlindum hafsins í kringum Ísland,” myndu færast til Brussel.
Þeir sem ekki hafa fylgst náið með núönsum í Evrópuumræðunni átta sig kannski ekki á því hve mikilvægt orðið “formlega” er í þessari röksemdafærslu.
Því að það væri að mestu einungis “formlega sem eitthvað breyttist.” Styrmir gerir ekki einu sinni tilraun til að halda því fram að aðrar þjóðir eigi tilkall til veiðiréttinda í íslenskri lögsögu og er það vel að heimastjórnarmenn viðurkenni það.
En Styrmir lætur það samt hanga í lausu lofti því hann segir að í Brussel “hinar formlegu ákvarðanir teknar um hve mikið má veiða af einstökum fisktegundum, á hvernig skipum, með hvaða veiðarfærum, hvar og hvenær.”
Aftur er það “formlega” sem ákvarðanirnar verða teknar í Brussel. Styrmi viðurkennir meira að segja sjálfur að “við mundum vafalaust hafa sitthvað um það að segja, hvernig nýtingu þeirra yrði háttað.”
Íslenskir vísindamenn og stjórnvöld myndu sem fyrr gera tillögur um alla þætti varðandi veiðar og það þarf ekki mikið hugmyndaflug til að sjá að hinar Evrópusambandsþjóðirnar hefðu lítið um þær að segja því þær hefðu engan rétt til veiða í íslenskri lögsögu.
“Formlega” yrðu tillögur bornar upp til samþykkis í ráðherraráði ESB en af hverju ættu ráðherrarnir að ráðskast með hvernig Íslendingar höguðu veiðum sínum, að því tilskyldu auðvitað að þeir stunduðu ekki grimmilega rányrkju?
Styrmir fullyrðir að Evrópusinnar haldi því fram að hægt sé að fá undanþágur frá sjávarútvegsstefnunni og byggi málstað sinn á þvi. Hann segir að slíkt séu draumórar og eingöngu skammtíma undanþágur fáist. Þar er ég algjörlega sammála honum.
Að mínu mati hefur alls ekki verið sýnt fram á það hvers vegna stórfelldar undanþágur eru nauðsynlegar.
Sá munur er á okkur og Noregi að helstu fiskistofnar okkar eru veiddir innan landhelgi okkar og við eigum að litlu leyti landhelgi samliggjandi að landhelgi annara ríkja, öfugt við Norðmenn.
Okkar staða er ólík vegna þess að enginn hefur veiðireynslu hjá okkur.
Svokallaður hlutfallslegur stöðugleiki sem er kjölfesta sjávarútvegsstefnunnar tryggir þetta. Hvers vegna ættum við að þurfa undanþágu þegar einmitt sjávarútvegsstefnan tryggir helstu hagsmuni okkar?
Í Evrópuskýrslu nefndar Björns Bjarnasonar er það svo slegið út af borðinu og sagt "ólíklegt" að atkvæði yrðu látin ráða til að breyta hlutfallslega stöðugleikanum.
Að sjálfsögðu ættum við að hafa vaðið fyrir neðan okkur og fá ákvæðiið um hlutfallslega stöðugleikann inn í aðildarsamninginn. Hann fengi þá þjóðréttarlega stöðu og væri ekki hægt að breyta því í óþökk Íslendinga.
Menn benda á rányrkju sem ESB ríkin hafa stundað. Það er alveg rétt. En hún er kominn til vegna of rausnarlegra kvóta og lélegs eftirlits. Hvort tveggja yrði áfram í höndum Íslendinga.
Samningar um flökkustofna færðust vissulega yfir á forræði ESB en það er ósannað mál að við bærum mjög skarðan hlut frá borði.
Menn get talað sig hása um að verja fullveldi Íslands en hvers virði var fullveldi okkar i gjaldeyrismálum?
Fullveldi hefur ekki lengur þá merkingu sem hugtakið hafði 1918. Nú deila ríki með sér fullveldi eins og til dæmis innan Evrópusambandið. Þeir sem segja að við glötum fullveldi okkar með inngöngu í ESB verða að útskýra hvers vegna 27 ríki í Evrópu hafa stigið það skref, þar á meðal Bretland, Frakkland og Þýskaland.
Styrmir: gleymdist að segja Sarkozy frá því að Frakkland væri ekki sjálfstætt ríki?
Ekkert ríki hefur hins vegar kosið að fara að dæmi Íslands og Noregs og Efta ríkjanna og láta EES samninginn nægja. Getur verið að enn einu sinni hafi komið í ljós að við Íslendingar séum ekki klárust í heimi?
Ólafur Stephensen, eftirmaður Styrmis á ritstjórastól Morgunblaðsins hefur orðað það þannig að “spurningin um sjávarútvegsmál” sé “miklu fremur tilfinningaleg spurning um fullveldi en spurning um efnahagsmál.”
Ríghéldum við ekki i krónuna af tillfinningalegri afstöðu til fullveldis sem átti sér engar efnahagslegar forsendur ?
Er ekki tími til kominn að við hættum að láta tilfinningarnar ráða ferðinni?
mánudagur, 8. desember 2008
Formlegt fullveldi er lítils virði
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
10 ummæli:
Já ég held að það sé varla hægt að telja okkur búa við fullveldi nema formlega. Það lýðræði sem við búum við er í hæsta máta formlegt eða allavega virkar það ekki fyrir þegna landsins eins og hefur sýnt sig nú á síðustu vikum. Á Íslandi búa í raun tvær þjóðir þ.e.a.s. þeir sem eiga eða skammta sér og njóta þess besta sem landið hefur uppá að bjóða. Svo eru það við hin sem borgum fyrir veisluna. Fyrir okkur venjulega íslendinga er fullveldi tálsýn og hefur enga merkingu í raunveruleikanum.
Carthago delenda est
Þetta er góð grein hjá þér Árni.
Ég get ekki skilið hvernig menn geta óttast um fullveldi Íslands ef við göngum til efnahagslegs samstarfs við þær þjóðir sem gáfu okkur stjórnarskrána okkar, færðu okkar fullveldið og hafa leyft okkur að vera sjálfstæð þjóð frá 1944.
Er einhver sem telur að Frakkar og Ítalir líti ekki á sig sem sjálfstæð og fullvalda þjóðríki þó þó taki þátt í þessu efnahagssamstarfi?
Við þurfum að fara að þora horfa í augun á sjálfum okkur, líka Styrmir. Ísland stal sjálfstæði sínu úr hernuminni Danmörku með aðstoð Bandaríkjamanna 1944. Þar til fyrir nokkrum árum vorum við skilgreint leppríki USA.
Með því að ganga inn í ESB og taka upp evru þá styrkjum við stöðu okkar sem sjálfstæð fullvalda þjóð. Við verðum þá með sömu stöðu og önnur þjóðríki Vestur Evrópu.
Tímamótagrein
Þarna ertu bestur Árni.
Með röksemdir en ekki róg að vopni.
Haltu áfram að skrifa.
Við megum ekki við bloggbindindi hinna skarpskyggnu.
Takk fyrir það Árni.
Það er full þörf að slá á innustæðulausa frasaflóðið gegn Evrópu.
Sækja um strax!
Góð grein Árni.
Haltu hinni faglegu umræðu áfram.
takk
Sigurður Ásbjörnsson
Formlegt fullveldi er afar mikils virði þegar til lengri tíma er litið. Því er vitaskuld ekki fórnandi fyrir "efnahagslegt skjól"
sem er vægast sagt óljóst og óútskýrt, ef frá er talinn gjaldmiðill sem hægur vandi er að taka upp án innlimunar í stórríkið.
Gömlu nýlenduveldin ráða ferðinni í hinu verðandi evrópska stórríki. Þau munu beita ríkinu í þágu eigin hagsmuna og tilviljun ein ræður hvort þeir fara saman við hagsmuni Íslendinga.
Það getur vel verið að hið evrópska stórríki vilji leyfa Íslendingum að halda íslensku sem opinberu tungumáli í straumlínulögun árið 2020. Kannski og kannski ekki. Það verður þeirra ákvörðun ef Ísland verður í ríkinu. Það er heldur ekki víst að stórríkið muni vilja geyma geislavirkan úrgang á Íslandi árið 2030. Kannski og kannski ekki. Það verður þeirra ákvörðun ef Ísland verður í ríkinu.
Það jaðrar við sturlun að afhenda aðilum sem er skítsama um Ísland æðsta yfirvald á landinu. Slíkt hlytur að enda illa, fyrr eða síðar.
Og enn og aftur er farið af stað... Haraldur minn, þú hefur greinilega ekki svo mikið sem grundvallarvit á því sem þú ert að tala um. Það má öllum sem hafa kynnt sér málið vera ljóst að íslensk tunga er betur komin innan ESB en utan því ESB leggur gríðarlega mikið í að viðhalda menningarlegum sérkennum og núönsum meðal bandalagsþjóðanna. Því er ljóst að menningararfurinn er töluvert betur kominn innan ESB en í höndunum á þeim plebbum sem hafa stýrt umræðu og skoðanamyndun í landinu undanfarin ár.
Hvað varðar heimskulegan hræðsluáróður um geislavirkan úrgang þá er hann svo gífurlega heimskulegur að það tekur því varla að minnast á nokkuð annað við hann en það hvað hann er heimskulegur.
Styrmir er risaeðla eins og svo margir aðrir af þeim gömlu körlum sem eru að springa af gamaldags þjóðrembingi.
Unga kynslóðin í dag hugsar ekki á sömu nótum og þeir.
Unga kynslóðin sér ekki samnefnarann í því að lýsa yfir sjálfstæði frá dönum og að gera sjálfviljug samning við evrópuþjóðir um aukna samvinnu.
Unga kynslóðin á að sjálfsögðu að hlusta á eldri kynslóðir en hefur jafnframt fullt leyfi til að fara ekki eftir ráðleggingum hennar.
Þegar farið verður í samningaviðræður við evrópusambandið kemur í ljós hvort að það borgar sig að ganga til liðs við það eða ekki.
Eins og í öllum öðrum samningsgerðum þarf að gefa eftir einhverstaðar en það vinnst til baka annarstaðar, einfallt og þægilegt.
Evrópusambandið er hinsvegar ekki að fara að redda okkur núna, það er alveg ljóst að það að hlaupa inn í sambandið haldandi að það geti reddað heimsku íslendinga síðustu ár er ekki það sem á að vera grundvöllur viðræðna um inngöngu.
Atli
Skrifa ummæli