miðvikudagur, 17. desember 2008

Bachman, Turner, Ólafur og Össur

Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra og fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar er maður sem hefur ríka réttlætiskennd. Nú þegar Íslendingar eru þúsundum saman að missa atvinnuna, húsnæðið og sjálfsvirðinguna er ekki við öðru að búast en af þessum sjálfskipaða sóma íslenskrar alþýðu, sverði og skildi, en að hann rísi upp til varnar þeim sem standa höllustum fæti á Íslandi.

Það gerir þessi mál- og ritglaðasti samtímamaður okkar með stæl á heimasíðu sinni.
Össur sem þekktur var fyrir andvökunætur sínar við tölvuna, varð svo kjaftstopp þegar gaf á bátinn hjá íslensku þjóðinni, að ekki heyrðist hósti né stuna frá honum svo vikum skipti. Og þegar Össur þegir er það eins og að mállausir menn hrópi þúsundum saman á torgum!

En nú hefur Össur fengið málið og ekki verður það af honum skafið að hann rís upp til varnar þeim sem minnst mega sín. Forseta lýðveldisins og demantadrottningunni hans.

Gefum Össuri orðið:

“Forsetinn á þessa stundina við að glíma hnitmiðað áhlaup óvildarmanna, sem á tímum þegar forbyltingin (svo!) hefur lækkað alla siðræna standarda, virðast hafa komist yfir stolin gögn úr stjórnsýslunni um bókhald þeirra hjóna. Afhverju skoðar lögreglan ekki hver stal bókhaldsgögnum forsetans? Samkvæmt því áhugaleysi virðist yfirmanni löggæslu finnast í góðu lagi þó farið sé inn í opinber skjöl sem ég hefði haldið að þyrfti sérstakan bókhaldslykil til að komast í. Kanski ríkislögreglustjóri sé farinn að virða upplýsingalögin á sinn hátt.”

Skorar fyrrverandi formaður Samfylkingarinnar lögregluna að skoða bókhald Baugs? FL Group? Kaupþings? Landsbankans? Greiðslur auðmanna til forsetans? Að fara í saumana á spillingu og lögbrotum sem hvarvetna blasa við í rústum útrásarinnar?

Nei, hann hefur engan áhuga á því.

Hann hefur einungis áhuga á því að komast að því hver sagði satt og rétt frá masi forsetans um ágæti íslensku útrásarinnar og mannanna sem settu lýðveldið Ísland á hausinn.

Hér má ekki hagga orði. Hér kemur íslenskur stjórnmálamaður út úr skápnum. Hann kallar sig víst jafnaðarmann og hefur eins og forsetinn verið í tveimur flokkum sem kenndu sig við ALÞÝÐU. Ekki einum heldur tveimur. Fínt skal það vera.

Stingur hann niður stílvopni til að verja fólkið sem er að missa vinnuna? Beitir hann ritsnilld sinni til að biðja alþýðumanninum griða sem er að missa húsnæðið sitt? Grípur hann til varna til að verja sparifjáreigandann sem tapaði lífeyri sínum? Er hann að verja Jóa á bolnum?

Nei, Össur er ekki að verja þetta fólk. Eina sem Össur hefur til málanna að leggja í pólitík á þeirri vargöld sem nú stendur yfir, er að verja símakostnað forsetaembættisins.

Össur og forsetinn eiga það sameiginlegt – fyrir utan að þykjast vera að vinna fyrir alþýðuna- að hafa verið háværar klappstýrur útrásarinnar. Og þeir eiga það sameiginlegt að fyrirlíta íslenskt alþýðufólk. Það gildir nefnilega það sama um þá og ágætur “Eyjarskeggi” sagði um stöllu þeirra, Ingibjörgu Sólrúnu “Mikið rosalega förum við í taugarnar á henni sem þjóð.”

Ólafur Ragnar og Össur eiga það líka sameiginlegt að hafa mikið dálæti á Bachman-Turner Overdrive: “You ain´t seen nothin´yet.”

Og ef einhver væri svo góður að opinbera hvernig Ólafur Ragnar hefur látið forsetaembættið borgað alla sína einkaneyslu, myndi það vafalaust fara í taugarnar á Össuri Skarphéðinssyni. Ef óumdeildar upplýsingar um símakostnað forsetans fara svo fyrir brjóstið á Össuri, hvað myndi hann segja ef bruðlið yrði upplýst?

Einu sinni fyrir langa löngu var stjórnmálamaður sem hét Vilmundur Gylfason. Hann hefði sagt: Löglegt en siðlaust um þá staðreynd að Össur og Ólafur Ragnar skuli kalla sig jafnaðarmenn og kenna sig við alþýðu manna.

Hver veit nema að einn góðan veðurdag muni einhver fara með trúarjátningu þessa aðdáendahóps Bachman Turner Overdrive, Björgúlfs, Baugsfeðga og Kauþings: “You ain´t seen nothin´yet.”

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Vel skrifað.
bb

Nafnlaus sagði...

Amen.

Ekkert við þetta að bæta.

Nafnlaus sagði...

Bloggari fær varla orðu úr hönd herra Ólafs um þessi áramót.

Nafnlaus sagði...

Skil ekki að nokkur einasti maður nenni orðið að hlusta á Össur. Það virðist hvort sem er allt vera "omvent" sem sá gapuxi segir. Hann þarf ekki nema að skipa fíflið sem iðnaðarráðherra og álverð í heiminum hrynur.

Um leið og Össur snýst svona myndarlega til varnar forsetanum er ekki hægt að búast við öðru en Ólafur verði hrakinn úr starfi fljótlega, miðað við þann mátt sem felst í orðum gapuxans.

Hvernig stendur á að þessar skoðanakannanir sem birtust svo að segja daglega á síðum Fréttablaðsins eru horfnar? "á davíð að segja af sér" var nú fræg könnun, þar sem Fréttablaðið náði að snúa nei eða neita að svara úr 65% sér í hag 10%.

Mæli með að lögð verði upp könnun sem mælir vinsældir forsetans með sama hætti og könnunin um davíð var framkvæmd. Hræðast stuðningsmenn forsetans þetta eitthvað? Þyrfti Solla Stirða að bruna í borgarnes og taka eina "baugsræðu" til að rétta malstað forsetans líkt og hún gerði við málsstað baugs á sínum tíma

Nafnlaus sagði...

Jamm, alþýðupungurinn Össur, eins og hann kallar sig sjálfur þegar hann fílaði sig og samsamaði frægum starfsmanni á plani!