mánudagur, 8. desember 2008

Aðild að efnahagslegu varnarbandalagi

Upptaka evru án aðildar aað ESB er tæknilega möguleg en kostnaðartölur sem hafðar eru eftir forstjóra Novators (tengdasyni Björns Bjarnasonar) eru vægast sagt ótrúverðugar svo mikil er óvissan. Hvað verður til dæmis um jöklabréfin margfrægu í íslenskum krónum? Andvirði þeirra hlaupa ekki á tugum milljarða heldur hundruðum.

Og á hvaða gengi ættum við að fastsetja evruna við íslensku krónuna? Nú er búið að fleyta henni, þótt ekki séu viðskipti með hana frjáls. Þeir sem hangið hafa á gjaldeyri sínum, neyðast nú til að flytja hann heim – einfaldlega vegna komandi áramóta og uppgjöra, segir vinur minn hagfræðingur mér. En hvað gerist eftir það?

Örmyntir sem fylgdu gömlu evrópsku myntunum frá fornu fari fylgdu inn í Evruna og sama gilti með Svartfjallaland og Kósovo. Eru það fordæmi fyrir Íslendinga? Nei segja forsvarsmenn ESB og benda á að sérmeðferð þessara ríkja eigi rætur að rekja til styrjaldarátaka og að í raun hafi þýska markið verið gjaldmiðill þessara þjóða.

Ef Ísland tæki upp evru einhliða væri slíkt dæmalaust í veraldarsögunni. Ríki hefur aldrei áður tekið upp mynt annars ríkis eða ríkjasambands í óþökk viðkomandi. Það veit engin hvaða afleiðingar slíkt hefði. Er slík áhætta það Ísland þarfnast einna helst á þessum óvissutímum? Er EES samningurinn svo traustur, eftir það sem á undan er gengið, að á þetta sé hættandi?

Og hefur reynsla síðustu mánaða ekki einmitt sýnt okkur að við þurfum bakhjarl í Seðlabanka Evrópu og ekki síður traust pólitískt bandalag við vinaþjóðir? Lánveitingar Seðlabankans undanfarið sýna að hann stendur við bakið á ESB ríkjum, meira að segja utan evrusvæðisins.

Til hvers að taka upp evruna, ef ekki fylgir með einn helsti kosturinn: að eignast bakhjarl í evrópska seðlabankanum? Og eignast hlutdeild í því fullveldi sem aðildarþjóðirnar deila með sér – Ísland ætti fulltrúa í stjórn hans.

Ein af mörgum þversögnum í máli Styrmis Gunnarssonar í ræðu sem hann flutti á fullveldisdaginn er einmitt hve fús hann virðist til að fórna enn meira fullveldi, þ.e sjálfstæðri mynt í Sýsifusar baráttu sinni við að halda okkur utan ESB í nafni þessa sama fullveldis.

Bandarísku herforingjarnir sem Styrmir studdi á sínum með ráðum og dáð í Víetnamstríðinu, orðuðu það þannig að til að bjarga tilteknu þorpi hefðu þeir þurft að eyða því. Einhvern veginn finnst mér eins og það sé nákvæmlega það sem Styrmir og vinur hans Davíð Oddssonar eru að gera, á fleiri en einu sviði.

Er það ekki mergurinn málsins að við þurfum að eiga aðild að því efnahagslega- og pólitíska varnarbandalagi sem Evrópusambandið er?

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Einhliða upptaka evru (hvað þá dollars) er bara rugl.

Ótrúlegt að nokkur skuli láta hafa sig útí að bulla um að slík sé raunverulegur kostur.

Held það sé ekki í lagi með menn !

Nafnlaus sagði...

Sammála þér um að við þurfum aðilda að pólitísku og efnahagslegu varnarbandalagi.
Mér sýnist hins vegar að við eigum þess engan kost að halda í krónuna - hún flýtur ekki sjálf og verður til eilífra vandræða. Ef við svo munum sjá á eftir láninu frá IMF til að bjarga henni - án þess að takast það - þá erum við í afar djúpum. Hef fylgst með röksemdum Daniel Gros og kynnst þeim rökum sem Dollaravæðing í S- og Mið-Ameríku fór í og þeir Ársæll Valfells og Hreiðar Már hafa kynnt þá sýnist mér að við gætum tekið upp EVRU, - en fyrst þurfum við að biðja um að fá að gera það í sátt við ESB - af því að hér er efnahagslegt neyðarástand - og við biðjum um leið um hraðleið til aðildarsamnings. Ef þeir neita hvoru tveggja þá kann að vera eina leiðin að segja "því miður við eigum ekki annarra kosta völ" - en við skulum taka upp Nýja-krónu og fara í aðlögunarferli þegar við höfum fengið aðildarsamning og heimild til að vinna okkur inn í EMU-pakkann allan.
Sláum þetta ekki útaf borðinu: - - við erum í svo hroðalegum málum og verðum að horfast í augu við það