Skrif mín um einkavinkonuvæðingu Ingibjargar Sólrúnar mælast misjafnlega fyrir. Flestir þeir sem tjá sig í athugasemdakerfinu eru að vísu sammála mér en hins vegar vekja andmælin mig til umhugsunar.
Nafnlaus skrifar: “Hatur þitt gangvart ISG er með ólíkindum Árni hvern andskotann ertu að drekka þarna í Brussel.Ingibjörg Sólrún hefur fyrir löngu stimplað sig inn sem besti stjórnmálamaður landsins.”
Annar nafnleysingi sagði mig hata Ingibjörgu og Ólaf Ragnar og spurði hvort þau hefðu gert eitthvað á minn hlut.
Og Kristín skrifar:
“Árni, mér finnst þú óbilgjarn maður.Hvernig væri að þú kæmir með eitthvað uppbyggilegt í umræðuna sem hjálpar í kreppunni heldur en að elta ólar við að leyta að einhverju málenfni,einungis til þess að kleggja (svo) á Ingibjörgu Sórúnu.Hún hefur sannað sig sem einn besti stjórnmámálaskörungur sem þjóðin hefur átt í áraraðir, enda kvenkyns.”
Þetta er svona kynjafræðileg útgáfa af “Right or wrong my country.”
Þetta eru mjög dæmigerðar röksemdafærslur hjá Íslendingum. Málefnalegri gagnrýni er ekki svarað einu orði með því að leggja mat á röksemdirnar, heldur er gagnýnandinn vændur um 1.) Persónulega óvild. 2.) Drykkjuskap 3.) Óbilgirni 4.) Gagnrýni eigi ekki rétt á sér, aðeins “uppbyggileg” umræða. (Stalín og Brésnef notuðu svipað orðalag en það er önnur saga!)
Ég vísa því á bug að um einhvers konar persónulega óvild sé að ræða. Ingibjörg Sólrún og Ólafur Ragnar hafa hins vegar gagnrýnt andstæðinga sína mjög harðlega fyrir ýmiss konar siðferðisbrest og talið sig vera á siðferðilega hærri plani en aðrir.
Ég hef haft talsverð samskipti við Ingibjörgu Sólrúnu faglega og raunar lítils háttar persónulega og mér er afskaplega vel við hana. Þess vegna gagnrýni ég hana því vinur er sá sem til vamms segir.
Þau gefa óneitanlega færi á sér.
Þannig hefur Ingibjörg Sólrún talið sig stunda annars konar stjórnmál, “samræðustjórnmál” og gefið til kynna að konur hefðu aðra nálgun en karlar sem væru meira eða minna að hygla klíkubræðrum sínum í "valdastjórnmálum."
Ég hef spurt hvort sú staðreynd að hún ráði nána vinkonu sína sem hefur litla reynslu í utanríkismálum sem sendiherra og fela henni að stjórna ráðherraskrifstofunni vegna veikinda ráðherra og ráðuneytisstjóra.
Hvers vegna í ósköpunum telst það hatur að gagnrýna utanríkisráðherrann á málefnalegan hátt?
Það er fráleitt að ég hatist við forseta lýðveldisins. Hann er hins vegar ekki undanskilinn gagnrýni og hann gefur svo sannarlega höggstað á sér, vikulega nú orðið.
Íslendingar eiga almennt mjög erfitt með að þola gagnrýna umræðu og viðbrögðin eru oftast af þessu tagi: sverta andstæðinginn, segja málflutninginn af annarlegum rótum eða höfundinn fyllibyttu eða geðsjúkling.
En umræðuhefð eigum við enga.
Skortur á gagnrýni er ein helsta ástæða þess hve illa er komið fyrir íslenskum efnahagi.
Fjölmiðlar voru meðvirkir og stjórnmálamennirnir líka. Þeir tóku íslensku bankamennina trúanlega og tóku þátt í að ata erlenda gagnrýnendur aur. Ég minni á blogg færslur Björgvins G. Sigurðssonar sem hann hefur nú tekið af netinu og klappstjórn Ingibjargar Sólrúnar á fundum í Kaupmannahöfn og kannski víðar með Sigurði Einarssyni og Kaupþingi.
Og menn á borð við Þorvald Gylfason voru úthrópaðir. Ég hef sumt af því sem klínt var á hann af valdhöfum þegar hann gagrnýndi efnahagsstjórn ekki einu sinni eftir.
Ég vísa því á bug að ég sé óbilgjarn. Það má hins vegar vel gagnrýna mig og aðra fjölmiðlamenn fyrir að vera ekki nógu óbilgjarnir og gagnrýnir.
föstudagur, 28. nóvember 2008
Óbilgjarn? Nei ekki nógu óbilgjarn
fimmtudagur, 27. nóvember 2008
Frekar húmor Davíðs en ráðningar
Það er dapurlegt að þurfa að viðurkenna opinberlega að maður sé sammála Framsóknarflokknum en svona er nú komið fyrir mér og íslenskum stjórnmálum. Birkir Jón Jónsson gagnrýnir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur harðlega fyrir skipan Kristínar Á. Árnadóttur, vinkonu sinnar og samstarfskonu til margra ára í sendiherraembætti.
Málsvörn Ingibjargar er fátækleg. Hún ber við veikindum sínum og ráðuneytisstjóra og segir að þar sem Kristín hafi verið skipuð skrifstofustjóri hafi orðið að gera hana að sendiherra.
Einmitt!
Þetta væru ágæt rök ef ráðherra hefði ráðið hjúkrunarkonu eða væri að skipa Kristínu tímabundið ráðuneytisstjóra í veikindaleyfi ráðuneytisstjóra. Það gerir hún ekki heldur skipar hana sendiherra, væntanlega til æviloka. Auk þess fjölgar hún í yfirstjórn ráðuneytisins. Mér sýnist raunar Ingibjörg hafa gefist upp á að halda því fram að hvítt sé svart og kostnaðaraukning sé sparnaður eins og hún gerði í fyrstu.
Auðvitað hafa allir ríka samúð með Ingibjörgu Sólrúnu og sannarlega varð ógæfu Íslands allt að vopni þegar hún veiktist um sama leyti og efnahagslega óveðrið skall á. Stjórnmál og stjórnsýsla eiga hins vegar ekki að snúast um hagsmuni einstaklinga sem veljast til forystu. Ingibjörg Sólrún getur ekki afsakað ófaglega ráðningu með veikindum sínum. Ekki frekar en Davíð.
Kristín hefur starfað undanfarið eitt ár í ráðuneytinu en hún var kölluð inn af götunni til að stýra kosningunni til öryggisráðsins. Er þetta nægileg reynsla af utanríkismálum til þess að vera sett yfir utanríkisráðuneytið á umbrotatímum?
Er það ofmælt að kalla þetta klikuskap? Eru það ekki dapurleg örlög fyrir Kristínu – sem er á mörgum sviðum prýðilega hæf manneskja- að verða eins konar Júlíus Hafstein Ingibjargar. Vissulega er hún betur menntuð en her ins vegar skipuð í mun hærri stöðu en Júlíus í gegnum sams konar klíkuskap.
Birkir Jón bendir réttilega á að ráðherra hefði fremur átt að taka sér Valgerði Sverrisdóttur, frábæran utanríkisráðherra framsóknar, til fyrirmyndar sem réði enga nýja sendiherra hvorki hæfa né óhæfa – en Davíð Oddsson sem skipaði vini sína út um allt.
Málsvörn Ingibjargar um að það vanti konur í sendiherrastörf er ágæt ef hún væri að senda hæfa konu á póst. En það er hún ekki að gera.
Ingibjörg Sólrún er vön að réttlæta flest með því að benda á að Davíð Oddson hafi verið helmingi verri. Nú sé einfaldlega komið að konunum. “Þori bæði get og vil” gæti hún verið að segja: konur séu komnar að kjötkötlunum og þeim sem bæði hafi klíku og píku verði nú raðað í embættin.
Gallinn er bara sá að ráðning Kristínar minnir einna helst á brandarann úr Matthildi um manninn sem sótti um sem götulögreglumaður í Matthildi en var umsvifalaust skipaður yfirmaður leyniþjónustunnar!
Ég hef ekkert út á Kristínu að setja en hún ætti að sinna einhverju þar sem óumdeildir hæfileikar hennar njóta sín betur en að vera sett blaut á bak við eyrun yfir gervalla utanríkisþjónustuna.
Ef Ingibjörg Sólrún vill endilega feta í fótspor Davíðs Oddsonar ætti hún frekar að taka sér húmor hans til fyrirmyndar en makalausar mannaráðningar.
miðvikudagur, 26. nóvember 2008
Pálmi Jónsson, verktaki snýr aftur
Nýlega rifjaðist upp fyrir mér skondin saga sem gerðist þegar ég starfaði á fréttastofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar. Pálmi Jónsson á Akri var þá formaður fjárlaganefndar og einhverjum datt í hug að leita álits hans á einhverju þjóðþrifamáli, sennilega vegna þess að tillögur ríkisstjórnarinnar fóru ekki alveg saman við hagsmuni umbjóðenda hans.
Fréttakona hringdi til Pálma íog viti menn!; hann hafði allt á hornum sér vegna tillagna ríkisstjórnarinnar.
Fréttakonan hugsaði sér gott til glóðarinnar, tók viðtal við Pálma upp á band. Reyndur fréttamaður heyrði upptökuna fyrir tilviljun og áttaði sig á því að hér væri eitthvað málum blandið. Var hringt í Pálma á ný sem staðfesti að hér væri vissulega Pálmi Jónsson á ferð en hann starfaði sem verktaki fyrir norðan!
Sami fjölmiðill komst í hann krappann fyrir skemmstu þegar strákpjakkur á Skaganum komst í viðtal með að villa á sér heimildir. Þá var spurt hvort fréttamenn ættu að biðja viðmælendur um skilríki.
Mér flaug þetta í hug í dag þegar í ljós kom að Bjarni Harðarson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, hefði upplýst í nýju greinasafni að hann hefði prívat og persónulega staðið fyrir því að ekki varð úr áfarmahaldandi stjórnarsamstarfi Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks eftir alþingiskosningar í fyrra.
Þetta er skondið í ljósi þess að Bjarni sagði sjálfur í viðtali við Fréttablaðið eftir kosningar að hann hefði stutt stjórnarsamstarfið.
Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, segir allt vera í himna lagi og kosningar komi ekki til greina. Ingibjörg Sólrún segist líka vilja taka þátt í mótmælum gegn sjálfri sér, en ber við önnum vegna setu í ríkisstjórn.
Páll Magnússon, útvarpsstjóri hefur undanfarið vegið mann og annan í deilum við frjálsu útvarpsstöðvarnar og sagt þeim að éta það sem úti frýs þegar þær heimta RÚV af auglýsingamarkaðnum.
2005 sagði Páll þegar tilkynnt var um ráðningu hans í stöðu útvarpsstjóra að RÚV væri betur komið með því að vera ekki á auglýsingamarkaði.
Páll útvarpsstjóri heimtaði svo að G. Pétur Matthíasson skilaði spólu með efni sem sett var á YouTube og sýnir geðvonsku og tuddaskap Geirs Haarde. Hvers vegna heimtar Páll útvarpsstjóri ekki að Eyjan.is skili spólu sem sýnir ósamkomulag Páls Magnússonar útvarpsstjóraefnis (2005) og Páls Magnússonar, útvarpsstjóra (2008) um stöðu RÚV?
Hvers vegna ver hann ekki heiður nafna síns af sömu hörku og hann ver heiður forsætisráðherra? Hvers á Páll Magnússon, útvarpsstjóraefni að gjalda, Páll Magnússon, útvarpsstjóri?
Spyr sá sem ekki veit, því varla vill nokkur manni þessu fólki svo illt að halda því fram að þarna tali sama fólkið.
Hver getur skýringin á þessu verið?
Hvað með þessa kenningu: Er einhver arftaki Pálma Jónssonar verktaka kominn á kreik? Gengur einhver skrattakollur laus, platar sig inn á fjölmiðla og talar í nafni þjóðkunnra persóna þvers og kruss án þess að nokkur fái við ráðið? Eru tvífararar farnir að herja á íslenskt þjóðfélag?
Eða er líkt farið með íslenskum ráðamönnum og Leonard Zelig, kamelljóninu sem varð að gyðingi meðal gyðinga, blökkumanni meðal blökkumanna og nasista meðal nasista – allt eftir hentugleika?
Ef til vill er of langt gengið að líkja þessu ágæta fólki við þessa ágætu söguhetju Woody Allen, en er von að manni finnist eins og mottó þessa fólks sé sótt til ljóðskáldsins Arthur Rimbaud: ”Je suis un autre” – sem hljómaði svo hjá Megasi: “Ég er ekki ég, ég er annar.”
mánudagur, 24. nóvember 2008
Að tala við fólk eins og fífl
Mig setti hljóðan þegar ég las eftirfarandi um flokkstjórnarfundiSamfylkingarinnar.
"(Ingibjörg Sólrún) sagði einnig að fólk, sem mætti á útifundi og borgarafundi til að mótmæla ástandinu ætti hrós skilið fyrir málefnalega baráttu. „Ef ég væri ekki í ríkisstjórn væri ég þar," sagði Ingibjörg Sólrún
Gerir formaður Samfylkingarinnar sér virkilega ekki grein fyrir því að fólkið er að mótmæla meðal annars henni?
Og þegar flokksmenn hennar krefjast kosninga til þess að endurnýja umboð Alþingismanna, sakar formaðurinn þá um að setja flokkshagsmuni ofar þjóðarhagsmunum!!!! Egill Helgason hittir naglann á höfuðið þegar hann kallar þetta veruleikafirringu.
Samfylkingin virðist ekki hafa nokkurn skapaðan hlut fram að færa en hálfvolga andstöðu við Davíð Oddsson, seðlabankastjóra. Bókað er í ríkisstjórn að hann njóti ekki trausts Samfylkingarinnar en látið við það sitja. Davíð er vissulega óhæfur til að gegna sínu embætti en að greining flokksins á vandanum sé ekki dýpri er makalaust.
Í rauninni hefur Samfykingin verið einstaklega aðgerðalítil síðan hún settist í ríkisstjórn, að öðru leyti en því að gefa ráðherrum sínum kost á að kanna framandi lönd á kostnað skattgreiðenda.
Undirbúningur aðildarviðræðna hefur setið algjörlega á hakanum í utanríkisráðherratíð hennar og þá ekki síst nauðsynleg kynning á málefnum Evrópusambandsins.
Getur einhver sagt með hönd á hjarta að Ingibjörg Sólrún hafi sem formaður flokksins og ráðherra stundað samræðustjórnmál? Hefur lýðræði verið virkt innan Samfylkingarinnar? Hefur fagmennska í ráðningum verið í fyrrirúmi?
Ingibjörg Sólrún hefur gert viðskiptaráðherra sinn að algjöru fífli með því að upplýsa að hún hafi setið sex fundi með helstu ráðherrum Sjálfstæðismanna og seðlabankastjóra um bankamál án þess að boða bankamálaráðherrann á fund. Eru þetta samræðustjórnmál?
Þegar kreppan var hvað dýpst setti ISG á svið leikrit þar sem hún sagðist spara með því að sameina tvær skrifstofur í ráðuneyti sínu þegar hún var í raun að auka útgjöld með þvi að skipa reynslulausa vinkonu sína yfirráðuneytisstjóra með sendiherratign.
Er þetta fagleg ráðning? Eru það ekki vinnubrögð af þessu og svona grímulaus klikuskapur sem fólkið er að mótmæla? Og útúrsnúningum og rangfærslum og hálfsannleika? Að komið sé fram við fólk eins og fífl?
Ingibjörg Sólrún hefur tekið þátt í þvi´að halda upplýsingum skipulega ekki aðeins frá almenningi heldur samflokksmönnum sínum. Er það gagnsæi?
Hver er munurinn á Davíð Oddssyni og Ingibjörgu Sólrúnu? Stigsmunur- ekki eðlis.
Ógæfa Samfylkingarinnar og Íslands er að þrátt fyrir hroka sinn, gerræði og urræðaleysi; skort á sjálfsgagnrýni og auðmýkt, er ISG skársti kostur flokksins. Björgvin G. hefur misst traust allra, Þórunn er ekki líkleg til stórræðna, Ágúst Ólafur er tja hvað skal segja, efnilegur en varla meira en það.
Mistök Össurar í Giltnismálinu sýndu svo og sönnuðu að Davíð Oddsson spilar á hann eins og píanó. Hann er of ístöðulaus til að gegna forystuhlutverki. Og nú loks þegar hann fékk málið aftur, virðist hann telja að helsta von Íslendinga sé að leita að olíú. Af hverju ekki leita að gulli?
Ljóst er að nú þegar viðræður um aðild Íslands að ESB fara í hönd er það óheppilegt að utanríksráðherrann sé ekki heill heilsu. Þá er hætt við því að það verði óhentugt fyrir flokksformann að þurfa að dvelja svo vikum skiptir erlendis þegar viðræðurnar standa yfir.
Lausnin gæti falist í því að Ingibjörg Sólrún settist annað hvort í viðskipta- eða umhverfisráðuneytið. Þórunn Sveinbjarnardóttir er prýðilega vel að sér í utanríkismálum og væri gott utanríkisráðherraefni á venjulegum tímum. Einn er hins vegar sá maður í þingflokki Samfylkingarinnar sem hefur hárréttan bakgrunn. til að valda þessu verkefni.. Lögmaðurinn Árni Páll Árnason er þrautreyndur og slyngur samningamaður og sérfræðingur í Evrópumálum.
Í raun væri hann kjörið utanríkisráðherraefni til að takast á við Evrópumálin en hann gæti einnig fúnkerað sem eins konar Evrópuráðherra með þvi´að taka við af Björgvin G. Til vara legg ég til að hann verði gerður að aðalsamningamanni Íslendinga og sendiherra í Brussel ef henta þykir. Hans tími er kominn.
föstudagur, 21. nóvember 2008
Björgvin G. – því miður
Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra segist fylgjandi því að þing verði rofið og kosið verði í vor. Björgvin lætur þessa skoðun í ljós sem ráðherra í ríkisstjórn Íslands en lætur sem skoðanir hans sjálfs komi honum ekki við. Þórunn Sveinbjarnardóttir hefur tekið í sama streng en nú hefur Ingibjörg Sólrún slegið á puttana á þeim. En eftir slíkar yfirlýsingar er auðvitað bara tímaspursmál hvenær stjórnin fer frá og boðað verður til kosninga.
Ráðherra sem lætur slíka skoðun í ljós getur ekki annað en sagt af sér og það ætti Björgvin raunar löngu að vera búinn að gera.
Ég vil taka það fram áður en lengra er haldið að ég er persónulega kunnugur Björgvin og er afar hlýtt til hans. Því tekur það mig sárt að samvisku minna vegna get ég ekki annað en fest þessar línur á blað. Björgvin hefði átt að vera búinn að segja af sér embætti um leið og ljóst varð að allir helstu bankarnir hrundu á hans vakt.
Ekki nóg með að hann hafi sungið útrásarsönginn fram á síðustu mínútu, heldur réðist hann gegn "úrtölumönnum" sem óttuðust að útrásin væri að sigla í strand og tók síðan niður heimasíðu sína til að fela slóðina. Þarna varð góðum dreng á í messunni og viðbrögð hans eru því miður af strútakyni.
Björgvin segir að hann þurfi þess ekki vegna þess að hann hafi ekki vitað neitt vegna þess að Fjármálaeftirlitið sagði honum ekki neitt og að formaðurinn sniðgekk hann. Síðan hvenær nægja slíkar röksemdir til að víkja sér undan ábyrgð?
Raunar hefur komið fram að Ingibjörg Sólrún sat sex fundi með varaformanni Sjálfstæðisflokksins, - afsakið forsætisráðherra- og Seðlabankastjóra um málefni bankanna án þess að boða bankamálaráðherrann á fund.
En þetta er bara enn ein ástæða fyrir Björgvin til að segja af sér. Formaðurinn treysti honum ekki til að sitja fundi um málefni bankanna. Hvers vegna ættu þá kjósendur að teysta honum?
Vissulega má margt um stjórnunarhætti Ingibjargar Sólrúnar að segja (samræðustjórnmál? gagnsæi? fagmennska?) og allar hennar þversagnir, en látum það vera að sinni.
Björgvin er ágætlega menntaður í sagnfræði og heimspeki og hefur starfað við stjórnmál alla ævi – en fátt annað. Kannski hafði hann ekki það sem til þurfti til að verða bankamálaráðherra að sinni.
Ekki bætti úr skák að kannski var framhjá honum gengið þegar mest á reið vegna þess að svili hans var bankaráðsmaður í Glitni.
Mér þykir það leitt að þurfa að segja þetta en Björgvin verður að segja af sér ætli Samfylkingin að ganga til kosninga í vor eins og hann leggur til. Ella hefur hvorki flokkurinn né hann nokkurn trúverðugleika.
Björgvin var óheppinn en hann er ungur og hann á eftir að koma aftur og verður mun sterkari og flokkurinn líka ef hann skynjar sinn vitjunartima – fyrstur manna.
fimmtudagur, 20. nóvember 2008
Forsetinn sem fórnarlamb
Ólafur Ragnar Grímsson forseti Íslands á það sameiginlegt með Davíð Oddssyni, Seðlabankastjóra að hafa aldrei sagt skilið við leðjuglímu stjórnmálanna.
Nú þegar bókin Saga af forseta er að koma út, þarf einhvern veginn að beina athyglinni að einhverju öðru en því að forsetinn hafi breytt embætti sínu í klappstjórn útrásarinnar.
Spunameistarar forsetans hafa bersýnilega talið það þjóðráð að sýna forsetann sem fórnarlamb nýjasta skúrks Íslands: gamals félaga ÓRG úr leðjuglímunni sjálfs Davíðs úr Svörtuloftum.
Og sakarefnin eru ekkert smávegis enda slá íslenskir fjölmiðlar þessu upp með viðeigandi hætti:
1. ) Davíð skrifaði forsetanum og minnti hann á að hann væri undir sömu lög settur og aðrir þegnar þegar þeir gengju í hjónaband.
2.) Júlíus Hafstein impraði á því að ef til vill þyrfti forsetinn ekki að leggja einn blómsveig á sautjánda júní.
Bréf Davíðs var ósmekklegt því vandséð verður hvers vegna það var á hans valdsviði að gera slíkt.
Þetta er hins vegar nauðaómerkilegt mál og ef þetta er það skársta í bókinni þá er hún ekki mikils virði. Auðvitað vilja allir lesa um "you ain´t seen nothin yet" klappstjórn forsetans og kjamsa á öðrum feitum bitum úr Ólafs Helgasögu - sjálfs helgramannasöguritara lýðveldisins, Guðjóns Friðrikssonar.
Hins vegar gæti Davíð verið fullsæmdur af nýjustu smjörklípu Ólafs Ragnars: að beina athyglinni frá útrásar-klappsýrunni Ólafi og að fórnarlambinu, forsetanum.
Þetta tekst í einn dag enda forsíðufrétt Fréttablaðsins og uppsláttur í Mogganum. Sé ekki ljósvakamiðlana hér í Brussel en geri ráð fyrir beinni útsendingu að minsta kosti á Stöð 2 og svo sérútgáfu af DV.
PS Mér er orðið ljóst að ég hef haft Guðjón Friðriksson, sagnfræðing fyrir rangri sök. Hann er að sjálfsögðu ekki höfundur bókarinnar um forseta Íslands enda hefur hann einungis skrifað bækur um mikilmenni þjóðarinnar. Mér hefur verið bent á það að nafni sagnfræðingsins, fyrrverandi undirmaður Ólafs Ragnars á Þjóðviljanum hafi ritað bókina. Eins og sést af athugsemdum í fjölmiðlum myndi enginn sagnfræðingur nota svo léleg vinnubrögð sem raun ber vitni. Á Þjóðviljanum tíðkuðust hins vegar önnur vinnubrögð sem kunnugt er. Beðist er velvirðingar á þessu.
PS II Eins og bent er á hér í athugasemdum þá leikur grunur á að bókinni hafi verið breytt eftir að útrásin sigldi í strand. Tek ég undir með athugasemdaritara um að fjölmiðlar sýni og sanni að þeir séu ekki klappstýrur eigenda sinna og upplýsi málið hið snarasta.
þriðjudagur, 18. nóvember 2008
Davíð kveikir í húsinu
Davíð Oddsson hefur engu gleymt. En hann hefur heldur ekkert lært. Ræða hans á Viðskiptaþingi er ekki ræða formanns stjórnar Seðlabanka Íslands heldur ræða stjórnmálamanns sem falið var að stjórna Seðlabanka Íslands, en hætti aldrei í pólitík.
Af ræðu Davíðs að dæma gæt hann rétt eins hafa dvalið á plánetunni Mars þangað til hann settist í stól Seðlabanka. Það er ekki af lestri ræðunnar að sjá að Davíð beri neinu ábyrgð á nokkrum sköpuðum hlut. Samt var hann forsætisráðherra frá 1991 til 2004 og beitti sér fyrir einkavæðingu bankanna og því hömluleysi sem því fylgdi.
Þungamiðjan í málsvörn Davíðs er sú að bankaeftirlit hafi verið flutt frá Seðlabankanum með lagabreytingu 1998 og það flutt til Fjármálaeftirlitsins. Væntanlega hefur það hins vegar verið Davíð sjálfur sem stóð fyrir þeirri lagabreytingu!?
Davíð segir réttilega að eitt helsta hlutverk Seðlabankans sé að berjast gegn verðbólgu. Hann sleppir hins vegar algjörlega að nefna bindiskylduna. Ekki nóg með að bindiskyldan hafi verið lækkuð á hans vakt, heldur var ekki gripið til þess ráðs að hækka hana jafnvel þó Davíð viðurkenni í ræðu sinni að hann hafi varð við því í hvað stefndi í febrúar á þessu ári.
Davíð sleppir bindisskyldunni og lætur sem það mál hafi ekki komið Seðlabankanum við!
Yngvi Örn Kristinsson, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbankans, tók þátt í pallborði á fundi Viðskiptaráðs og benti þar á að þau stjórntæki sem hafa þurfti til að bregðast við stöðu bankanna væru til í Seðlabankanum. „Eitt af því sem ég benti á er að Seðlabankinn er birgur af stjórntækjum sem hefði mátt beita til að bregðast við stöðu bankanna. Seðlabankinn getur stjórnað bindiskyldu bankanna og hann hafði heimild til þess að setja á þá lausafjárreglur þannig að þeir legðu meira til hliðar af lánum til þess að mæta hugsanlegum erfiðleikum. Stjórntækin eru hvergi betri en í Seðlabankanum," segir Yngvi á Vísir.is.
Í ræðunni skýtur hann föstum skotum á ríkisstjórnina, fjölmiðla, fjármálaeftirlitið og bankana. Hann segist hafa talað við ráðherra ríkisstjórnarinnar hvað eftir annað, þeir hins vegar talað við bankastjórana og þeir sagt allt vera í lagi.
Þótt Seðalbankastjórinn kannist ekki við að Seðlabankinn hafi haft eftirlitsskyldu með bönkunum má samt lesa í skýrslu bankans um fjármálastöðugleika að hann og Fjármálaeftirlitið hafi gert álagspróf og niðurstaðan sé sú ”að fjármálakerfið
sé í meginatriðum traust. Íslenska bankakerfið uppfyllir kröfur
sem gerðar eru til þess og stenst álagspróf sem Fjármálaeftirlitið og
Seðlabankinn hafa gert.”
Þetta sagði Seðlabankinn í skýrslu í maí nokkrum mánuðum eftir að Davíð segist hafa varað við hruni bankakerfisins. Davíð bendir á hins vegar á í ræðu sinni að óhugsandi sé að nokkur seðalbanki ”hversu órólegur” sem hann væri, myndi nokkru sinni segja að allt benti til að ”bankar í hans landi, einstakir, jafnvel margir, að ekki sé talað um allir, stefndu innan skamms eða rakleiðis í þrot. Slíkir spádómar gætu nefnilega ræst fyrir sinn eigin tilverknað.”
Með þessum orðum gengisfellir Davíð allar skýrslur og yfirlýsingar Seðalbankans, og grefur undan sínum eigin trúverðugleika. En það er önnur saga.
Ræða Davíðs er reyndar innsýn inn í hið alltof nána samband Seðlabankans og stjórnvalda. Til að koma flokksfélögum sínum ekki illa, talaði Davíð opinberlega eins og að það gæfi örltíð á bátinn en ekkert meira.
Og það jafnvel þótt hann hafi í febrúar 2008 hafi sagt Geir og Ingibjörgu Sólrúnu og fleirum að niðurstaða bankamanna í Lundúnum væri að bankarnir hefðu komið sér og íslensku fjármálalífi,” í mikla hættu, og jafnvel ógöngur, með ábyrgðarlausri framgöngu……ef menn láta sér nægja að lifa í voninni verður of seint að bregðast við þegar ljóst verður að vonin rætist ekki.”
Nú er ljóst að allir vissu hvert stefndi – en enginn gerði neitt. En ef svo er hvers vegna sat hann auðum höndum og lét sér nægja að hringja í Geir?
Bindiskyldan sem hafði verið lækkuð eins og fyrr greinir, var ekki hækkuð eins og Kristján Vigfússon bendir á hér á Eyjunni. Og nú vitum við að eftir að Davíð og stjórnvöldum var ljóst í hvert stefndi var ekkert gert til að hindra útþenslu Icesave til Hollands sem var í maí.
Geir, Ingibjörg Sólrún og Björgvin G. Sigurðsson að ekki sé talað um Fjármálaeftirlitið hljóta að þurfa að skýra sitt mál.
Davíð Oddsson gerir enga greinarmun á sér sem stjórnmálamanni og embættismanni. Af ræðu hans sést best að hans helsta áhugamál er að verja arfleifð sína sem stjórnmálamanns. Allt annað verður að víkja.
En þótt hann klíni sökinni á Geir, Ingibjörgu Sólrúnu, bankana og fjölmiðlana er ljóst að hann ber mikla sök.
Og þá ekki síst fyrir hvernig hann stóð að Glitnismálinu þar sem hann virtist hafa minna áhuga á að bjarga því sem bjargað varð í bankakerfinu en að koma höggi á eigendur Glitnis.
Yfirlýsing hans um að greiða ekki skuldir óreiðumanna, gerði endanlega út af við orðstír Íslands og rak síðasta naglann í líkkistu hinna bankanna. Hvers vegna þurfti hann að gefa þessa yfirlýsingu? Hvers vegna lét hann sér ekki nægja að segja eins og ábyrgur Seðlabankastjóri að farið yrði eftir gildandi lögum og reglum?
Enn og aftur hlýtur maður að spyrja sig hvers vegna maður sem gat talað jafn tæpitungulaust þegar allt var komið í óefni, gat ekki varað íslensku þjóðina við því sem hann vissi að vofði yfir án þess að tala ”örlítið þokukennt” eins og hann orðaði það í dag?
En hvers vegna fór Davíð ekki í Kastljósið til Sigmars eins og venjulega eða hringdi í Elínu Hirst? (svo við höldum okkur aðeins við fjölmiðla ótengda bönkunum í eignarhaldi.) Eina skýringin á þessu, ef við höldum okkur við skýringar Davíðs, er sú að hann hefði ekki viljað rugga bátnum af tillitssemi við ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Flokkssins sem hann stýrði þar til fyrir fjórum árum og kom Landsbankanum í hendur Bjögganna fyrir hans atbeina.
Ræða Davíðs er lifandi sönnun þess að fagmenn eiga að ráða í Seðlabankanum ekki stjórnmálamenn.
föstudagur, 14. nóvember 2008
Loksins!Loksins!
Loksins loksins
Þá er Geir H. Haarde loksins hættur að berja höfðinu við steininn og er tilbúinn að viðurkenna staðreyndir: Sjálfstæðismenn eru búnir að opna á ESB. Loksins! Loksins!
Það þurfti þjóðargjaldþrot til að Sjálfstæðismenn viðurkenndu það sem öllum hefði átt að vera ljóst fyrir löngu að Ísland gæti ekki verið eitt og yfirgefið út í miðju Atlantshafi.
Nú tekur við slagurinn við Heimastjórnarmenn og spennandi verður að sjá viðbrögð Davíðs Oddssonar, Björns Bjarnasonar og Hannesar Hólmsteins. Kannski eru þeir búnir að gefast upp, hver veit?
Ekkert smávegis sem þessir menn þurfa að éta ofan í sig ef þeir ætla að halda áfram í pólítik og þar er Davíð jú enn, gamall slagsmálahundur lúinn og særður. Nú er ekkert eftir af því sem hann hefur staðið fyrir í pólitík: landið er herstöðvalaust, það er búið að þjóðnýta allt sem hreyfist, efnahagslifið í kaldakoli og við á leið í ESB.
Ef Ísland ætlar að hafa einhvern trúverðugleika hljóta þessir menn og forsætisráðherrann líka að víkja því þeir sáu ekki ljósið fyrr en eftir að hafa eyðilagt efnahag Íslendinga og einni samningsstöðu okkar við Evrópusambandið.
Haldið þið að einhver í ESB ríkjunum telji Geir og Davíð trúverðuglega eftir það sem á undan er gengið. Loksins loksins
Þá er Geir H. Haarde loksins hættur að berja höfðinu við steininn og er tilbúinn að viðurkenna staðreyndir: Sjálfstæðismenn eru búnir að opna á ESB. Loksins! Loksins!
Það þurfti þjóðargjaldþrot til að Sjálfstæðismenn viðurkenndu það sem öllum hefði átt að vera ljóst fyrir löngu að Ísland gæti ekki verið eitt og yfirgefið út í miðju Atlantshafi.
Nú tekur við slagurinn við Heimastjórnarmenn og spennandi verður að sjá viðbrögð Davíðs Oddssonar, Björns Bjarnasonar og Hannesar Hólmsteins. Kannski eru þeir búnir að gefast upp, hver veit?
Ekkert smávegis sem þessir menn þurfa að éta ofan í sig ef þeir ætla að halda áfram í pólítik og þar er Davíð jú enn, gamall slagsmálahundur lúinn og særður. Nú er ekkert eftir af því sem hann hefur staðið fyrir í pólitík: landið er herstöðvalaust, það er búið að þjóðnýta allt sem hreyfist, efnahagslifið í kaldakoli og við á leið í ESB.
Ef Ísland ætlar að hafa einhvern trúverðugleika hljóta þessir menn og forsætisráðherrann líka að víkja því þeir sáu ekki ljósið fyrr en eftir að hafa eyðilagt efnahag Íslendinga og einni samningsstöðu okkar við Evrópusambandið.
Það er nauðsynlegt að hreinsa til með nýrri stefnu og það verða Sjálfstæðismenn að gera. Ísland hefur engan trúverðugleika við samningaborðið, sitji Geir og Davíð áfram.
En nú er landið örlítið farið að rísa: Jibbí gaman gaman.
Hvítt er svart í sirkus Sólu smart
Það verður að segjast eins og er að margt er í tilkynningu um sparnað í utanríkisráðuneytinu orkar tvímælis. Eini umtalsverði niðurskurðurinn sem tilkynntur er, er á kostnað fátæka mannsins í Afríku. Beinn sparnaður er lþó tiltölulega ítill, fyrst og fremst er frestað fyrirhugaðri aukningu útgjalda.
Síðan verður að segjast eins og er að sú fullyrðing að spara eigi fé með því að sameina skrifstofur ráðherra og ráðuneytisstjóra er beinlínis villandi.
Skrifstofa ráðherra er í raun aðeins ráðherrann og einn ritari. Sparnaður sem felst í sameiningu skrifstofa getur því ekki verið mikill: hugsanlega verður einn ritari rekinn. Og ekki sparar það neitt því nú á að ráða inn nýjan skrifstofustjóra með sendiherratign til viðbótar - dýrasta starfskraft sem hægt er að hugsa sér. Sendiherrann er ekki fenginn innan úr ráðuneytinu þar sem mun fleiri sendiherrar eru en póstar fyrir þá.
Nei Ingibjörg Sólrún réð eina bestu vinkonu sína úr kvennalistanum og fyrrverandi pólitískan aðstoðarmann úr borginni, Kristínu Á. Árnadóttur og skipaði hana sendiherra. Hver var sparnaðurinn í því? Er ekki Samfylkingin margbúin að lýsa því yfir að fagleg hæfni skuli ráða en ekki pólitískur klíkuskapur?
Kristín kom fyrst við sögu utanríkismála þegar hún var ráðin til að vera kosningastjóri framboðs Íslands til öryggisráðsins á síðasta ári. Árangurinn þar var sem kunnugt er mikil vonbrigði þótt vafalaust hafi ekki verið við hana að sakast.
Kristín er vissulega frambærileg manneskja. Það verður hins vegar að segjast eins og er að það er falskur tónn í þessari ráðningu. Með fullri virðingu fyrir Kristínu, þá er fátt ef nokkuð í ferli hennar sem bendir til að hún hafi reynslu eða þekkingu til þess mikla starf sem hennar bíður sem yfirráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins með það verkefni að stokka upp utanríkisþjónustuna.
Kristín er ekki eina nýráðningin til utanríkisþjónustunnar því þar starfar nú verkefnaráðin Þórhildur Þorleifsdóttir fyrrverandi þingkona Kvennalistans. Leikstjórinn góðkunni hefur það verkefni að halda alþjóðlegt málþing um ályktun Öryggisráðsins númer 1325 og er reyndar ekki eina konan sem fengin er utan úr bæ til að sinna því þarfa verkefni.
Það er ekkert nýtt að ráðherrar skipi góðkunningja sína í embætti og á það ekki síst við um utanríkisráðuneytið. Það væri að æra óstöðugan að telja upp alla þá sem Davíð Oddsson skipaði í sendiherrastörf og fæstir þeirra höfðu nokkuð komið nálægt utanríkismálum.
Samfylkingarmenn gagnrýndu skipanir á valdaárum Davíðs Oddssonar og Halldórs Ásgrímssonar og kröfðust faglegra ráðninga. Sama var upp á teningnum við ráðningu Seðlabankastjóra.
Er skipan Kristínar Á. Árnadóttur trúverðug í ljósi þessa? Væri ekki nær að sleppa því að tala um gagnsæi, faglegar ráðningar, ráðdeild og sparnað og kalla hlutina réttum nöfnum?
Það var að vísu flott smjörklípa að klæða ráðninguna í umbúðir sparnaðarátaks og enn flottara að senda Albert Jónsson, pólitískt skipaðan (en prýðis hæfan) sendiherra frá Washington til Færeyja.
Skilaboðin með þessum ráðningum og einkum ráðningu Kristínar eru að þrátt fyrir mikla fjölgun starfsmanna sé utanríkisráðuneytisins svo illa skipað að þar sé ekki að finna mannskap og þekkingu til að halda málþing um öryggisráðsályktun 1325 og að stokka upp ráðuneytið.
Gárungarnir munu vafalaust tala um einkavinkonuvæðingu...
Til að bíta höfuðið af skömminni er það svo kallað sparnaður sem í raun og veru felur ekkert annað í sér en að fjölga í æðstu stjórn utanríkisráðuneytisins. Það er vissulega erfitt að viðurkenna slíkt þegar verið er að tala um sparnað og niðurskurð á öllum sviðum. Þó held ég að margir hefðu haft samúð með Íngibjörgu Sólrúnu ef hún hefði sagt hreint út að við núverandi aðstæður þyrfti hún að bæta við sig pólitískum aðstoðarmanni -- tímabundið.
Það er hins vegar á skjön við málflutning Samfylkingarmanna að gera pólitískan aðstoðarmann að fastráðnum sendiherra.
Þið munið Spilverkið sem söng (næstum því): "Við í Sirkus Sollu Smart/ trúum því að hvítt sé svart/Og bíðum eftir næstu frakt/ Í buxnadragt."
Ingibjörg Sólrún: það er einn sirkus í bænum og við megum ekki við því að þú bætir öðrum við. Láttu Geira um þetta - þetta fer þér ekki.
PS: Ég er sem sagt byrjaður að blogga upp á nýtt. Aðstæður hafa breyst og málfrelsi mitt aukist. Sjáum svo til hvað ég nenni að nöldra mikið....