miðvikudagur, 3. september 2008

Tær og næstum falleg spilling

Einhvern veginn væri það svo viðeigandi endir á stjórnmálaferli Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar að hann yrði skipaður forstjóri Landsvirkjunar í krafti pólitískra tengsla einna. Það væri svo tær pólitísk spilling að það væri næstum því fallegt. Það væri einhvern veginn svo fallega harmónískt ef sagan um borgarstjórnarskandal Sjálfstæðismanna endaði á þennan hátt.

Vilhjálmur virðist algjörlega blindur á sjálfan sig ef marka má viðtal í DV. En þora Sjallarnir? Forstjórastaða í Landsvirkjun er klassísk leið til að losna við óhæfa stjórnmálamenn. Vilhjálmur Þ. Hefur sýnt slíkt hæfileikaleysi í stjórnun bæði sem borgarstjóri í REI málinu og með því að stofna meirihluta með Ólafi F. Magnússyni að leit er að öðru eins.

Samfylkingin mælist nú stærri en Sjálfstæðisflokkurinn á landsvísu og með tæpan helming atkvæða í borgarstjórn á meðan D listinn mælist með minna en 30%. Þetta er auðvitað glæsilegt en það er langt í næstu kosningar hvort heldur sem er í borg eða á landsvísu og íslenskir kjósendur eru frægir fyrir sitt gullfiskaminni.

Og hvað borgina varðar sýnast mér talsverðar töggur í Hönnu Birnu.

PS Það er að verða hefð að ég éti eitthvað ofan í mig í þessum Eyju-pistlum...en ég vil staka skýrt fram að með orðum mínum átti ég alls ekki við að Friðrik Sophusson hafi verið óhæfur stjórnmálamaður. Það var Friðrik hreint ekki. Ég átta mig hins vegar á því að það mátti skilja orð mína á þennan veg og ég biðst afsökunar á því. Það breytir því ekki að eftirmaður hans geti verið óhæfur stjórnmálamaður.

12 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Tær og falleg spilling. Vel orðað.

Hvaða bittling ætli Kjartan Magnússon fái?

Nafnlaus sagði...

Verði Vilhjálmur Vilhjálmsson ráðinn í starf forstjóra Landsvirkjunar staðfestist það endanlega að við búum í bananalýðveldi.

Nafnlaus sagði...

Sæll,

Vilhjálmur er ekki nógu stórtækur í spillingunni til að geta orðið forstjóri Landsvirkjunnar eða Seðlabankastjóri enda hefur hann helgað sig sveitatjórnarmálum og ekki komist á þing eða í ráðherrastól.

Hæfilegra embætti fyrir hann væri að gerast forstöðumaður Sorphirðunnar.

Kv,

Sveinn

Nafnlaus sagði...

Ef Villi vitleysingur verður forstjóri landsvirkjunar þá flyt ég úr landi!

Nafnlaus sagði...

Mér finnst illa vegið að Friðriki Sophussyni að segja starf forstjóra Landsvirkjunar "klassíska leið til að losna við óhæfa stjórnmálamenn".
Hann var langt í frá óhæfur stjórnmálamaður, reyndar ákaflega góður fjármálaráðherra, líklega sá besti í áraraðir.

Ég er búinn að heyra orðróm um þessa löngun VÞV í marga mánuði, löngu áður en hann lét af starfi oddivita. Það fylgdi sögunni að undirtektir hafa verið ákaflega dræmar á öllum vígstöðvum. Greinilega svo dræmar að hann fer með hana í fjölmiðla í geggjaðri trú um að pupullinn rísi upp og segi loksins, loksins, forstjóri vor er kominn...


Ég skal éta hatt Hallgríms Helgasonar ef VÞV verður forstjóri Landsvirkjunar. Stjórn Landsvirkjunar með þau Ingimund Sigurpálsson og Bryndísi Hlöðversdóttur í fararbroddi ráða VÞV þarf að skipta um stjórn.

Nafnlaus sagði...

Ef svo ólíklega vill til að VÞV verði valinn þá vona ég að varaformaður stjórnar Landsvirkjunar, trúnaðarvinkona utanríkisráðherra, verði fyrir valinu, fyrir hönd stjórnar, til að útskýra gjörninginn.

Nafnlaus sagði...

Ég tek undir það sem Friðjón segir um Friðrik Sophusson- hann var hinn ágætasti fjármálaráðherra og hefur staðið sig með mikilli prýði sem forstjóri Landsvirkjunar. Það er síðan annað mál með ánægju mína með allar þær virkjanaframkvæmdir sem orðið hafa til í hans tíð.. En almættið forði okkur frá því að Vilhjálmur sveitastjórnarmaður setjist í þann stól... Þá held ég að fylgi Sjálfstæðisflokks jafnist fljótt á við Framsókn...

Nafnlaus sagði...

Alltaf hefur mér fundist það móðgun við bananalýðveldi að setja Ísland í þann hóp !
Ef Árni Matt, fær ekki stöðuna , þá veðja ég á " mann " sem datt út af þingi síðast og kemur sem málamiðlun á armakrísuna í Flokknum

Nafnlaus sagði...

Ég hef hingað til kosið sjálfstæðisflokkinn. Hann virðist þó ekki standa lengur fyrir þau gildi sem ég kaus fyrst og ef Villi verður settur í forstjóra stólinn tekur það steininn úr. Ég get ekki gefið flokki atkvæði sem sýnir fólki puttann á slíkan hátt.

Nafnlaus sagði...

Ég held að líkurnar á því að Villi setjist í forstjórastól Landvirkjunnar séu álíka því að píanó detti á hausinn á göngumanni á Hornströndum....

Nafnlaus sagði...

Ja píanó... hafa ekki beljur fallið af himnum ofan?

Helga Sigurrós sagði...

ég vona heitt og innilega að VÞV taki við þessari stöðu sem allra fyrst. Helst ætti ég von á því að hann tæki við lyklavöldum þar á bæ íklæddur mussu skreyttri myndum af sjálfum sér á la Mugabe.

Skyldi hann ekki eiga slíka flík í safni sínu myndi ég glaður splæsa henni á hann.