Hversu lengi ætla íslenskir neytendur að láta bjóða sér það óöryggi sem fylgir því að ekki þarf að nota talnakóda til að nota íslensk VISA kort og önnur hérlend greiðslukort?
Sú spurning af hverju íslenskir notendur VISA korta njóta ekki verndar af þessu tagi og nánast allir aðrir greiðslukortanotendur í hinum siðaða heimi, rifjaðist upp fyrir mér síðastliðinn mánudag, þegar VISA í Belgíu, þar sem ég er búsettur, hafði samband við mig. Kurteis starfsmaður spurði mig hvort það gæti staðist að ég hefði verið að nota kortið mitt belgíska í Maceys í Seattle í Bandaríkjunum daginn áður!
Ég kvað nei við og starfsmaðurinn sagðist ekki hissa, því allt benti til þess að kortið hefði verið kóperað. Hins vegar hefði því verið hafnað því þjófarnir höfðu ekki réttan talnakóda.
Nokkrar færslur höfðu verið gerðar hér og þar en VISA sagði slíkt á ábyrgð annað hvort kortafyrirtækisins eða verslunareigenda, ef þeir hefðu ekki leitað heimildar eða kannað undirskrift.
Fín þjónusta – ég beið engan skaða af, enda var ég fórnarlamb falsara sem stálu upplýsingum um kortið mitt.
Fyrir ári síðan sagði ég hins vegar upp öllum viðskiptum við VISA Ísland, klippti kortið mitt í sundur og sendi bútana til forsvarsmanna fyrirtækisins eftir að hafa fengið einhverja verstu þjónustu sem ég minnist þess að hafa fengið nokkurs staðar – og hef ég þó víða farið og marga fjöruna sopið.
Einn góðan veðurdag fékk ég VISA reikning og þar bar hæst færslu upp á 1100 Evrur, hátt á annað hundrað þúsund íslenskar krónur. Það vildi svo til að þegar þetta átti sér stað var ég fótbrotinn og því ekki mjög hreyfanlegur og því auðvelt að muna hvar og hvenær ég hafði notað kortið.
Ég hafði samband við VISA, fékk sendan reikning staðarins sem virtist vera fjarri heimili mínu í hverfi sem ég á sjaldan erindi. Þetta virtist vera einhvers konar bar, en það þarf ekki að hafa mörg orð um að það þarf svakalega neyslu til að þurfa að borga 1100 evrur á bar. Miðað við bjórverð á dýrum bar hefði upphæðin dugað fyrir 275 stórum bjórum!
Eftir eftirgangsmuni hafði VISA upp á kvittuninni og kom þá í ljós að ekki einasta var undirritun mín ekki þar að finna, viðkomandi hafði ekki einu sinni haft fyrir því að skrifa nafn mitt – þarna mátti sjá eitthvað allt annað nafn!
VISA sagði sannað að kortið hefði verið á staðnum og því væri ábyrgðin mín. Undirskrift skipti engu máli! VISA neitaði algjörlega að kanna málið og neitaði meira að segja að gefa upp nafn og heimilisfang fyrirtækisins sem skráð var fyrir vélinni sem notuð var.
Lögreglan í Brussel gat lítið gert án þess að vita hvern ætti að kæra og rannsaka en VISA hreyfði sig ekki. Að vísu googlaði starfsmaður þar fyrirtækið og lét mig fá þá niðurstöðu - það var eina vísbending mín um hvaða staður þetta var og hvers kyns meint viðskipti hefðu verið.
Lögreglan benti hins vegar á að þessi vél hefði getað verið hvar sem var og kortinu hefðu verið rennt í gegnum vél annars staðar þar sem ég hefði verslað grunlaus. Eða kortið hefði einfaldlega verið kóperað. Hæg heimatökin þegar ekki þarf að setja inn neinn talnakóda! Lögreglan sagði þetta fátítt en ekki dæmalaust. Dæmi af þessu tagi kæmu afar sjaldan upp enda þurfa notendur greiðslukorta nær alls staðar í heiminum að nota talnakóda en ef ekki gildi undirritun.
Bara ekki hjá VISA Ísland!
Ég harðneitaði að borga reikninginn og VISA tilkynnti mér að viðskiptabanki minn myndi fara í hart við mig og ganga að mér fjárhagslega.
Næsta sem gerðist var það að vinkona mín heyrði starfsfólk sem hafði haft með málið að gera, skeggræða málið á vertshúsi í Reykjavík! Bankaleynd? Ekki hjá VISA. Mér er sem ég skilji núna hvernig upplýsingar um ferðir og einkamál ýmissa berast sífellt út um allan bæ. VISA reikningarnir eru jú vísbending um ferðir og athafnir fólks.
Í samskiptum mínum við VISA Ísland mátti ég þola dylgjur og dónaskap sem ég nenni ekki að hafa eftir.
Ég vil að vísu taka fram að hvað viðskiptabanka minn Landsbankann, varðar hef ég yfir engu að kvarta og þar kom starfsfólk vel fram við mig og bar engan skugga á áratugalöng viðskipti. Bankinn getur þó ekki þvegið hendur sínar af VISA Íslandi sem einn af eigendunum.
Sama máli gildir með talnakódann hjá öðrum íslenskum greiðslukortafyrirtækjum og nú síðast lenti dóttir mín í því að há upphæð var skráð sem úttekt hjá henni erlendis. Í bankanum hafði henni hins vegar verið sagt að engin heimild hefði verið og því fékk hún enga peninga.
Í þessum tilfellum hefði talnakóda breytt öllu og tryggt hagsmuni notandans.
Hvers vegna íslensk greiðslukortafyrirtæki taka ekki upp talnakóda er mér óskiljanlegt.
Getur verið að bankarnir sem njóta hæstu vaxta í heimi, tími ekki að breyta kerfinu? Bankarnir sem borga stjórnendum sínum 60 milljónir á mánuði og láta svo íslenska skattgreiðendur taka lán til að þeir fari ekki á hausinn? Sagt er að aðeins eitt sé verra en einokun og það sé tvíkeppni eins og tíðkast á íslenska markaðnum.
Ég hef allavega kosið að eiga framvegis viðskipti við erlent kortafyrirtæki sem er bæði öruggara og ódýrara í en á Íslandi þar sem svo við bætist að bankaleynd er svo óþekkt að hún er einn helst talin heiti á þorpi í Síberíu.
fimmtudagur, 4. september 2008
Ekki á VISAn að róa
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
6 ummæli:
Sæll, Vísa(nú Valitor) er í eigu kaupþings og brotabrot í eigu sparisjóða. Landsbankinn á ekkert félag í kortaútgáfu þar sem Glitnir á Borgun(áður kreditkort)
Talnakóðarnir snúast um aukið öryggi, það er erfiðara að misnota kort þegar þeir eru til staðar. Með því að taka upp talnakóða (chip & pin) tekur verslunin á sig meir ábyrgð á misnoktun en fær á móti lægri færslugjöld. Þetta er kerfi sem gengur afskaplega vel að innleiða erlendis þar sem kortamisnotkun er landlæg. En á Íslandi er kortnamisnotkun lítil sem engin. Kortafyrirtækin hafa einfaldlega reiknað það út að það borgar sig ekki að taka upp þetta nýja kerfi af því að það einfaldlega lækkar hjá þeim tekjurnar (verslanir fá mun lægri færslugjöld) og eykur kostnaðinn (nýjir chip & pin terminalar um allt land). Enda hefur innleiðing chip & pin dregist það lengi að þetta er orðinn einn stór brandari. Fyrstu terminalarnir áttu að rúlla út í ársbyrjun 2005 og núna - þremur og hálfu ári seinna - bólar ekkert á þessu.
Enn og aftur sést því hve íslensk kortafyrirtæki bera hag neytendanna fyrir brjósti.
Er ekki öruggt að þessi þörfu skrif komist inn á borð hjá ráðamönnum Valitor?
"Bollocks"... PIN númer leysa ekki vandann með kortasvindl. Það er ekki fyrr en kortin verða laus við segulröndina að það gæti séð fyrir endann á því og það er alþjóðavandamál, ekki séríslenskt !
Þó svo að pin númer sé krafist á kortinu þá er hægt að stela upplýsingum af segulröndinni á því og misnota þannig kortið.
Visa Ísland hefði á hinn bóginn átt að geta fundið seljandann í gegnum kerfið hjá sér og troðið þessari færslu ofan í kokið á honum í staðinn fyrir að níðast á þér !
Góður pistill.
Ein spurning.
Er ekki dýrt að vera með erlent kort og nota það á Íslandi vegna gegniskostnaðar? Eða hefurðu fundið einhverja ódýra leið í því sambandi?
Ekki alveg rétt með eignarhaldið.
VALITOR er í eigu tveggja banka og nítján sparisjóða. Eignaraðild þeirra er: Kaupþing 39.5%, Landsbanki Íslands 38.0% og Sparisjóðir 22.5%.
Skrifa ummæli