fimmtudagur, 28. ágúst 2008

Björgvin G,klappstýrurnar og Kína

Björgvin G. Sigurðsson, viðskiptaráðherra sýndi og sannaði að hann er alvöru stjórnmálamaður með því að taka á móti sendinefnd frá Dalai Lama í gær á sama tíma og flestir aðrir stjórnmálamenn íslenskir reyndu hver um annan þveran að nýta sér árangur íslensks handbolta á Ólympíuleikunum í pólitískum tilgangi.

Björgvin er eini íslenski stjórnmálamaður sem hefur haft bein í nefinu til þess að standa uppi í hárinu á kínverskum yfirvöldum og taka mannréttindamál til umfjöllunar á fundum sínum með Kínverjum.

Frammistaða Björgvins er til fyrirmyndar, ekki síst þegar borið er saman við það skjall og undirlægjuhátt sem forseti Íslands gerir sig sekan um í hvert skipti sem hann hittir forseta Kína. Ólafur kiknaði í hnjánum að vanda þegarhann hitti forseta Kína í síðustu Ólympíuleika-heimsókn sinni og hlóð Hu Jintao , fyrrverandi ofsækjanda Tíbeta sem oddviti kommúnista í Tíbet, svo miklu lofi að engu líkara en forsetinn vilji helst að Ísland gangi í sjálft alþýðulýðveldið.

Af einhverjum ástæðum ætlast enginn til þess af Þorgerði Katrínu að hún hafi skoðanir á Kína, enda “bara” varaformaður Sjálfstæðisflokksins. Sjálf virðist hún láta sér nægja það hlutskipti að vera klappstýra lýðveldisins- í harðri baráttu þó við títtnefndan Ólaf Ragnar.

Óneitanlega er illa komið fyrir ágætum stjórnmálamönnum að í stað þess að stunda alvöru stjórnmál skuli þeir nú leggjast svo lágt að keppast um að reyna að ræna sviðsljósinu frá okkar frábæru handboltamönnum.

Ríkisstjórnin hefur ákveðið að styrkja handboltann um fimmtíu milljónir. Síðast þegar fréttist hafði Þorgerður Katrín eytt fimm milljónum í flandur sitt til Kína og þurfti nauðsynlega að hafa eiginmanninum, ráðuneytisstjóranum og maka beggja með. (Ekki er reyndar búið að reikna allan dvalarkostnað inn í töluna. Gleymum ekki að dagpeningana fá ráðherra og forsetinn beint í vasann því allur kostnaður er borgaður.

Ferðakostnaður Ólafs Ragnars og Dorritar og fylgdarliðs er svo tæpast minni en Þorgerðar Katrínar og Kristjáns Ara og sama gegnir með dagpeninga þeirra – beint í vasann.

Þetta er sennilega á við 20% af silfurfé handboltans.

Þorgerður Katrín og Kristján Ara, Ólafur Ragnar og Dorrit kunna ágætlega að styðja okkar stórasta land í orði en hvernig væri að þau létu sína ferðahvetjandi dagpeninga renna í silfursjóð til að styrkja handboltann.

Spyrjið launalausa áhugamenn hvort þeir gætu ekki lyft grettistaki fyrir bara brot af því fé sem það kostaði að senda klappstýrurnar til Kína.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Var það tvífari Björgvins sem spókaði sig á pallinum við Arnarhól í gær?

Nafnlaus sagði...

Pópúlísk grein - en ekki alvitlaus.

Runar sagði...

VAkti athygli mína að Björgvin var svartklæddur frá toppi til táar, svört skyrta, svart bindi osfrv.

Leit út eins og hann væri að fara í jarðarför

Nafnlaus sagði...

Handboltaliðið var nánast án nokkurra stuðningsmanna í Kína þar sem þetta var jú haldið í Kína. Ætli þar hafi ekki verið um 70 stuðningsmenn eða svo, flestir sem búa "á svæðinu"; Hong Kong, Sjanghæ o.s.frv. Auðvitað er ljóst að það kostar peninga að fara til Kína en mér finnst hallærislegt að kvarta endalaust yfir því að bæði forsetinn eða Þorgerður hafi sett allan þann tíma sem þarf til að mæta á svæðið og sýna strákunum þannig þvílíkan stuðning. Við vorum að keppa um gullið; hversu púkalegt hefði það nú verið ef þau hefðu EKKI mætt? Það var bara sjálfsagt mál að Þorgerður og forsetinn fylgdu liðinu í þennan einstaka viðburð.

Nafnlaus sagði...

Það eru fleiri íþróttagreinar en handbolti og það er á gráu svæði að vera að velta tugum milljóna úr ríkiskassanum í eina íþrótt umfram aðra. Ríkisstjórnin hefði átt að nota þennan íþróttalega meðbyr til að efla aðkomu sína að öllum íþróttagreinu, ekki bara einni.

Nafnlaus sagði...

En hvað er málið með þessa ofur dagpeninga sem þessir bestu og fallegustu þegnar Íslands fá ??
Er þetta lið ekki með mjög góð laun þótt það þurfi bara stimpla sig inn í ca 6 mánuði á ári.
Það er kannski í lagi að borga flugfarið, uppihald og gistingu. Auðvitað á einnig að leita hagkvæmra leiða þegar sá pakki er valinn.
Var ekki allur kostnaður greiddur fyrirfram ??
Hvað er þá málið með þessar 400.000 kr ?? Fær kella þá bara þennan pening beint í vasann ofan á sín háu laun fyrir að skemmta sér í Kína ??