fimmtudagur, 28. febrúar 2008

Geiri grín

Því miður hafði ég ekki tækifæri til að hitta Geir H. Haarde forsætisráðherra á meðan á dvöl hans hér í Brussel stóð. Hann opnaði Íslandskynninguna Iceland on the Edge í Bozar-listamiðstöðinni á þriðjudaginn en slíkur var mannfjöldinn að ég reyndi ekki einu sinni að brjóta mér leið til hans.

Sem var synd því ég sé á ummælum Geir í fjölmiðlum að hann er kátur og hress og hefur engu tapað af sinni kunnu kímnigáfu. Hver nema alvöru húmoristi færi að ræða við Barroso, svo ekki sé minnst á Olli Rehn án þess að tala við þá um hugsanlega inngöngu Íslands í ESB? Olli Rehn starfar við það eitt að semja við ný aðildarríki Evrópusambandsins. Nei Geiri er alltaf sami grínkarlinn og sagðist einungis hafa rætt við Rehn um aðild annara landa en Íslands að Evrópusambandinu!!! (Til hvers? Af hverju ekki bara að tala um veðrið?)

Og svo talar Geir eins og að 300 þúsund Íslendingar muni fá betri viðskiptasamninga við Kína og Indland en 500 milljónir ESB búa. Bara alvöru húmoristi lætur svona út úr sér. Útflutningur okkar til Indlands er 79 milljónir á ári – sem þætti ekkert sérstakur starfslokasamningur hjá íslenskum forstjóra. Útflutningur til Kína er tveir og hálfur milljarður, einn hundraðasti af útflutningi til EES svæðisins.

Nei það hefði svo sannarlega verið gaman að hlusta á ólíkindahúmor Geirs Haarde og taka bakföll af hlátri. Því auðvitað getur þetta ekki verið annað en grín því enginn frýr Geir Hilmari Haarde vits, hvað þá að halda því fram að hann sem forsætisráðherra leiti ekki lausna á þeim vanda sem gjaldmiðill okkar á við að glíma svo aðeins eitt dæmi sé nefnt. Nei, að sjálfsögðu ekki -- en Geir er ekki bara afbragðs stjórnmálamaður. Geir er grínisti. Fyrsta flokks.

5 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Sæll,

Varnir Íslands eru ákveðnr einhliða í Washington, flest annað sem máli skiptir í Brussel.

Er nokkuð eftir fyrir hina spöku landsferður okkar að gera en að skemmta okkur?

Og ákveða í hvaða eyðifjörð næst verði lögð göng. Eða útdeila hlunnindum til vina sinna?

Kv,

Sveinn

Nafnlaus sagði...

Þú verður að kynna þér betur hvernig Hagstofan vinnur tölum um útflutning. Allar tölur eru unnar samkvæmt tollafgreiðsluhöfn sem í tilfelli Asíu-viðskipta er Rotterdam. Þar af leiðandi sem viðskipti við ESB.
Kv
Kári

Nafnlaus sagði...

Sæll Kári. Ég hafði samband við Hagstofuna og hún staðfesti að þetta eru réttar tölur. Útflytjendur gefa upp endanlegan áfangastað vörunnar. Þetta eru bestu fáanlegar tölur. Hún kann vissulega að vera seld á markaði í Rotterdam og enda í Kína,en jafnvel þótt gert sé ráð fyrir því er þetta mjög nærri lagi. Skora á þig að hafa sjálfur samband við Hagstofuna ef þú trúir þessu ekki. Bestu kveðjur, Árni Snævarr

Nafnlaus sagði...

Heill og sæll Árni! Þetta stefnir strax í að verða einhver allra skemmtilegasti leiðarinn á netinu. Fer strax inn í daglega rúntinn! :-) Takk fyrir mig.

Nafnlaus sagði...

Sæll Árni,
Geir er með strúts-syndrómið ásamt fleiri skoðanabræðrum sínum - stingur hausnum í sandinn ef minnst er á ESB-aðilarviðræður. Samkvæmt nýrri Capacent-könnun er fylgi Sjálfstæðisflokksins að dala á kostnað Samfylkingarinnar. Ég tel meginástæðu þess vera tregða D-listans í ESB-umræðunni. Flokkurinn á eftir að missa meira fylgi eftir því sem fleiri íslenskir borgarar hoppa á ESB-hraðlestina. Geir, þúr verður að skoða hug þinn betur! Þorgerður er að átta sig á þessu.
Sverrir