föstudagur, 29. febrúar 2008

Glæsileg hátíð og glötuð tækifæri

Ég fæ ekki betur séð en að menningarhátíðin Iceland on the Edge fari glæsilega af stað og fyllsta ástæða til að óska aðstandendum hennar til hamingju með þau Sverri Hauk sendiherra og verkefnastjórann Höllu Hrund Logadóttur í broddi fylkingar. Sýningin hefur fengið góða kynningu, til dæmis á forsíðu Le Soir, útbreiddasta blaðs á frönsku í Belgíu. Einnig var góð grein í the Bullettin sem er mikið lesið af útlendingum í Brussel. Hjá Evrópusambandinu einu vinna um 25 þúsund manns og síðan alls kyns viðhengi, lobbýistar og bissnessmenn og svo fjölmennasta sveit erlendra blaðamanna í heiminum, fjölmennari en í Washington eða London. Það er hins vegar dapurlegt að Icelandair, einn helsti styrktaraðili kynningarinnar, mun tæpast fá mikið fyrir sinn snúð– þó svo að sumir sjái ofsjónum yfir því hve margir Íslendingar –stjórnmála-, lista- og embættismenn - sækja hátíðina. Það hefur farið framhjá Icelandair að vegna þessa mikla fjölda upplýstra, velmenntaðra og vel launaðra, ferðaglaðra alþjóðlegra embættismanna er Brussel kjörmarkaður fyrir Íslandsferðir. Það útilokar nefnilega langar helgar á Íslandi að þurfa fyrst að koma sér til Amsterdam, Lundúna eða Parísar. Það fælir frá að að tekur ekki minna en sjö tíma að komast frá Brussel til Reykjavíkur.

Engin ummæli: