laugardagur, 12. júní 2010

Sveittur skalli Zidane í beinni útsendingu frá Mars

Fjögur ár? Getur það verið? Fjögur ár...ég var bara
fjörutíu og fjögurra ára snáðí með villta drauma...

Fjögur ár síðan við krakkarnir fórum í
þrautskipulagðasta sumarfrí allra tíma? Fjögur ár síðan
ég og börnin mín (KR-ingar í fjórða lið í móðurætt)
hittumst í Lundúnum, flugum til Dubrovnik, pantaður
leigubíll beið á flugvellinum, keyrði í loftkostum suður
Króatíu og beið heila eilífð á landamærum hins nýfrjálsa
Svartfjallalands. ( Magnað hvað ný ríki hafa mikla ánægju
af að setja upp landamærastöðvar. Ætli ferðalangar sem
komu til Íslands 1944 séu ekki ennþá að bíða í
passaskoðun í gömlu flugstöðinni sálugui? )

Græddum ekki sekúndu á að Ísland varð fyrst til að
viðurkenna sjálfstæði Svartfjallalands en pinninn á
Benzinum var kitlaður til að ná í leik. Skipti engu þótt
eigendur íbúðarinnar sem við höfðum leigt höfðu gleymt
okkur ferðalöngunum. Hver þarf þak yfir höfuðið þegar
úrslitaleikur heimsmeistarakeppninnar er að byrja?
Sjónvarp takk.

Og sjá: risaskjár birtist á notalegu kaffihúsi,
snekkjur dönsuðu í hægum valsi á fagurbláu Adríahafinu,
yndislegu börnin mín með nánast hreinræktuð KR-gen in sín
sæl í sólinni og Zidane og félagar að hita upp í Berlín.
Hamingja. Hósanna heisanna. Og allt þetta í
Svartfjallalandi þar sem hótel bjóða gestum upp á
endurgreiðslu ef það kemur dropi úr lofti. Slíkt gerist
ekki á sumrin. Ekki í Svartfjallalandi.

Nema þennan dag auðvitað. Einmitt þegar
úrslitaleikurinn um sjálfan HEIMSMEISTARATITILINN Í
KNATTSPYRNU er í húfi. Reyndi fyrst að afgreiða
þotugnýjinn í fjarska sem enn eina æfingu albanska
flughersins en smátt og smátt lék enginn vafi á því sem
var í aðsigi.

Skyndilega var skjárinn tekinn niður, stólunum raðað upp
og barnum lokað. Jörðin nötraði og eins og hendi væri
veifað breyttust tígulsteinsstéttirnar í Budvar í
beljandi stórfljót."My Kingdom for a TV", gargaði ég
þegar ég falbauð íslenska lýðveldið, forsetann, Dorrit og
Fjallkonuna fyrir hótelherbergi. Já þak yfir höfuðið eða
amk. sjónvarpið.

"Single room or double", spurði resefsjóninn. "Just a a
TV room please, NOW", var svarið.

Skömu síðar ríkti hamingjan á ný hjá litlu fjölskyldunni
í rúmlausu hótelherbergi í Budvar þar til
listamaðurinn Zinedine Zidane fékk brjálæðiskast
aldarinnar og setti sveittann skallann í bringuna á
ítalska götustráknum Materazzi. Tröllið hafði troðið á
ballerínunni; Frakkar töpuðu fyrir Ítalíu.

Hið illa hafði unnið hið góða: Sögulegt stórslys hafði
gerst. Það sem ekki átti að gerast hafði gerst: Eins og
Karþago hefði unnið Róm; Valur unnið Kr; McCain unnið
Obama; Kaupþing unnið sérstakan saksóknara.

Til að bíta höfuðið af skömminni hafði allt þetta gerst
í biluðu sjónvarpstæki á stærð við farsíma. Þrumurnar og
eldingarnar höfðu farið svo illa í skelfingu lostnu tækið
að litirnir höfðu gert uppreisn og það leit út eins og
við værum að horfa á beinu útsendingu frá Mars en ekki
Berlín.

Nógu slæmt var það sem Zidane gerði. Slæmt hefði verið
að sjá það í lit. Vont í svart hvítu. Verst að sjá
snillinginn fremja þetta harakíri eiturgrænn á hörund í
bleikum bol.

Þvílík vonbrigði. Það voru þung spor út í endurkomna
sólargeisla Svartfjallalands eftir að hafa tékkað út af
ónotuðu hótelherberginu og horfa á ítalska túrista kætast
yfir því grettistaki sem Materazzi hafði lyft með því að
kalla systur Zidane terrorista -hóru eða hvað það nú var.

En fljótlega tóku góðu HM minningarnar yfirhöndina og
brjálæðiskast Zidane og sláarskot Trezeguet sem skildu á
mlli feigs og ófeigs í úrslitaleiknum, urðu hluti af
minningaflóði um hið frábæra drama sem HM er.

Það hafði nefnilega ekki verið leiðinlegt að búa í
fjöþjóðlegri borg dagana á undan þegar tjaldað var til
alþjóðlegrar fótboltaaveislu.

Og nú þegar ég ilja mér við endurminningarnar er enn á
ný veislumánuður framundan. Skotist verður í snitsel á
þýskar krár til að horfa á Mannsjaftið við undirleik
Deutschland Deutschland uber alles. Einhvers staðar
hristast breiðir svartir rassar við trumbuleik bongónegra
þega "les Elephants "Fílabeinsstrandarinnar töfra fram
sinn svarta galdur.

Útum allt munu Englendingar kyrja God save the Queen-
ekki í Sex Pistols útgáfunni mér til mikillar furðu og
jesúsa sig yfir Rooney og dómaranum. Hér og þar munu
svoa Danir súpa sinn faðöl, en þvi miður eru danskir
fánar ófáanlegir - múslimarnir löngu búnir að brenna þá.

Og þegar þessar línur eru skrifaðar heyrist tangó úr
suður-ameríska kúltúrhúsinu á horninu og glaðbeittir
strákar í blá hvítum röndóttum treyjum strjúka fingrum í
gegnum langa dökka lokkana og dreyma um að bursta
Nígeríu.

Og stelpurnar halda svo auðvitað með Ítalíu. "Af því
þeir eru í flottustu búningunum", skrifaði einhver snótin
á Facebook um daginn. Je je, og ég les Plabyoy útaf
viðtölunum.

1 ummæli:

Unknown sagði...

Skemmtilegur pistill Árni :-)