Það skyldi engan undra að Afríkubúum þyki stundum sem Guð hafi gleymt Afríku, og heimsmeistarakeppnin er engin undantekning. Úrúgvæinn Luis Suarez kom í veg fyrir að afrískt lið kæmist í fjögurra liða úrslit heimsmeistarakeppninnar með því að verja viljandi með höndum. Suarez hefur síðan sagt að þetta hafi verið hin raunverulega hönd Guðs. Hann er nú þjóðhetja í Úrúgvæ og víða er fórnfýsi hans lofuð.
Tuttugu árum eftir að þetta hugtök "hönd Guðs" varð til í knattspyrnu minnast Englendingar þessa atburðar með reglulegu millibili og á Bretlandseyjum nýtur Maradona aldrei sannmælis sem einn besti knattspyrnumaður allra tíma vegna þessa.
Fyrir örfáum mánuðum var þess krafist að Thierry Henry yrði dæmdur í keppnisbann og franska liðinu vikið af HM þegar Frakkinn handlék boltann áður en hann sendi hann á Gallas sem skoraði. Þetta var í undankeppni, gerðist í aðdraganda marks og talsvert eftir í leik sem snérist um þátttökurétt á HM, en hin nýja hönd Guðs réði úrslitum á síðustu sekúndu í átta liða úrslitum lokakeppni.
Í dag voru þeir Gary Lineker, Alan Shearer og Alan Hansen sammála um að allir hefðu gert það sama í stöðu Suarez. Er nema furða að Afríkubúum þyki sem eitt gildi um Englendinga og Íra og Bretlandseyjar en annað um Ghana og Afríku?
Spyr sá sem ekki veit.
VIð skulum hins vegar vona að heimsmeistarakeppnin verði til þess að draga úr mismunun og kynþáttafordómum. Engum leynist lengur að Afríkubúar fara létt með að halda stærsta íþróttamót heimsins (og það með bros á vör!!)- og það eitt út af fyrir sig verður vonandi lóð á vogarskálarnar.
Það var sérstaklega viðeigandi þegar fyrirliðar Argentínumanna og Þjóðverja lásu eiðstaf fyrir hönd keppenda á HM um að berjast gegn kynþáttahatri og mismunun, fyrir leik þeirra í dag. Navi Pillay, Mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna sem sjálf er Suður-Afríkubúi, orðaði þetta eftirminnilega: "Við skulum sparka mismunun útaf vellinum. Tæklum útilokun. Veiðum kynþáttahatrið í rangstöðugildruna."
Stóra verkefnið er svo að efla Afríku og hjálpa Afríkubúum á leið til betri lífsgæða og þróunar. Franski ráðherrann, Rama Yade, sem sjálf er fædd í Senegal, hitti naglann á höfuðið þegar hún benti á það himinn og haf sem er á milli íþróttamanna á borð við franska landsliðsins sem búa á hótelum sem kosta 600 dolara á nóttina á meðan stór hluti Afríkubúa lifir á einum dollara á dag eða minna.
Ríki heims strengdu þess heit árþúsundaárið 2000 að uppræta sárustu fátæktina í heiminum og nú í haust hittast leiðtogar heims til að fara yfir stöðuna enda aðeins fimm ár þar til markmiðinu á að vera náð.
Þótt gæðum sé vissulega misskipt í Suður-Afríku, sýnir árangur landsmanna við að halda heimsmeistarakeppnina að Afríka er svo mikliu meira en sú eymd og vonleysi sem við heyrum um í fréttum. Veraldarleiðtogarnir voru búnir að lofa því að rífa fátækasta fólk heims upp úr örbirgð og hungri og reynsla Suður-Afríku sýnir að það er hægt.
Ætlum við að leyfa leiðtogunum að verja með höndum á línu og svindla eins og Suarez eða ætlum við að efla Afríku og krefjast efnda á loforðunum á leiðtogafundinum?
laugardagur, 3. júlí 2010
Á svindl að útiloka Afríku?
mánudagur, 28. júní 2010
Sjáumst í Ulan Bator 2910
Jæja þá eru Englendingar farnir heim. Eins og venjulega voru þeir heimsmeistarar fyrir mótið í enskum og íslenskum fjölmiðlum, (hvað skyldi verða um Arnar Björnsson og börnin?) en í dag er magnað að lesa ensku blöðin.
John Terry, var í gær talinn besti varnarleikmaður alheimsins, ef ekki alls sólkerfisins, en miðað við útreiðina sem liðið fær í fjölmiðlum í dag, ætti hann ekki að sleppa í þokkalegt firmalið.
En það var enn magnaðara að lesa ensku blöðin FYRIR leik. Enn einu sinni virtist síðari heimsstyrjöldin vera nýliðinn atburður. En einhvern veginn held ég að ekki hafi það sama gilt um þýska liðið. Varla var maður á borð við Thomas Muller sem fæddur er í kringum 1990, með hugann við orustuna um El Alamein, fall Stalíngrad eða flóttann frá Dunkirk, þegar hann tætti ensku vörnina í sig.
Tæpast hafa hinir pólskfæddu Podolski og Klose verið miður sín yfir innrásinni í Pólland 1939 sem hratt síðari heimsstyrjöldinni af stað! Og þegar við þetta bætist að tyrkneskt blóð rennur í æðum Özil og Cacau er brasilískur í húð og hár, þótt passinn sé þýskur, verður manni ljóst að í þessu spili var vitlaust gefið.
Fótbolti er hluti – stór hluti – af enskri sjálfsmynd. Einhverju sinni skömmuðust ensku blöðin yfir því að Frakkar hefði beðið ósigur í fótbolta, rúgbí og tennis sömu helgina og það hefði ekki einu sinni komist á forsíðu frönsku blaðanna, hvað þá að gerð hefði verið tilraun til að brjóta franska þjóðarsál til mergjar í kjölfarið.
Fyrir nokkrum árum tapaði enska fótboltaliðið, enn eina ferðina og skorti á vinstrifótarmönnum var einkum kennt um. Einn dálkahöfundur fór aftur til daga Vilhjálms sigursæla í leit að skýringu og kvaðst ekki muna eftir í svipinn nokkrum örvhentum Normanna á Bayeux-reflinum sem tíundar síðustu heppnuðu innrás á Bretlandseyjar – níu hundruð áður en Bobby Moore lyfti Jules Rimet styttunni á Wembley sællar minningar.
Næstu daga munu ensku blöðin telja ósennilegt að þeir vinni tititlinn næstu níu hundruð árin; hugsanlega ekki fyrr en á HM í Úlan Bator árið 2910 þegar þátttökulið verða 600 og hverju liði leyft í fyrsta skipti að hafa tvö vélmenni og sérþjálfaða apa í hverju liði. (Verður að vísu ekki enn farið að nota vídeó til að dæma hvort boltinn hafi farið inn fyrir línu, en...)
Englendingar munu svo væntanlega harma daginn þegar foreldrar Johns Terry feldu hugi saman og endursýna markið sem var dæmt af milljón sinnum. Að minnsta kosti.
Frakkar fóru ekki síðri sneypuferð á HM. Mér sýnist að viðbrögð fransks almennings séu fyrst og fremst að skammast sín ofan í tær fyrir frammistöðu og óíþróttamannslega hegðun sinna manna. Að góðum frönskum sið eru hrakfarirnar ekki mál þjóðarinnar heldur mál ríkisins: Une affaire d´Etat.
Thierry Henry var boðaður í skyndi á fund forsetans enda "le grandeur de la FRANCE" í veði, og fundi um málefnið “hungur í heimi” umsvifalaust aflýst. Boðað var til “états généraux” um málefni fótboltans. états généraux var einmmiti franska heitið á stéttaþingunum sem voru undanfari frönsku byltingarinnar.
Í morgun var engu líkari en morgunþáttur BBC væri í beinni útsendingu frá heimsenda,ef ekki helvíti, og allt tengdist ósigrinum; meira að segja veðrið. Það er afrek útaf fyrir sig þegar spáin er 30 stiga hiti og sól um allt land....
Í Frakklandi bölva menn ríkisstjórninni og fara í fótboltaverkfall, að góðum frönskum sið. Menn hætta bara að hafa áhuga á fótbolta, narta í næstu bagettu, kjamsa á hvítlauk og sturta í sig meira rauðvíni og eru jafn sannfærðir eftir sem áður um yfirburði franska kynstofnsins. "C´est la vie...c´est tout segja menn í Hexagoninu eins og heimamenn kalla Frakkland..
Hinum megin við Ermasundið munu menn stunda sjálfspyntingar langt fram á næsta ár en viti menn, það líður ekki á löngu áður en Rooney verður aftur orðinn bestur í heimi og bara spurning hvort Englendingar fái á sig mark í næstu heimsmeistarakeppni.
.
Fyrst maður er byrjaður að sletta með frönskum klisjum, enda ég á enn einni: "Plus ça change (plus c'est la même chose.
Ekkert er nýtt undir sólinni.
sunnudagur, 27. júní 2010
Ef þeir hefðu átt skó
Ég hefði ekki þurft að horfa á sjónvarpið í gær til að frétta hver hefði unnið leik Ghana og Bandaríkjamanna. Um leið og dómarinn flautaði leikinn af voru bílflautur þeyttar og blásið var til sigurhátíðar í Kongó-hverfinu Matonge sem er spölkorn frá heimili mínu í Brussel.
En hvað hefur Kongó með Ghana að gera? Ghana er nú eina Afríku-ríkið sem eftir er í heimsmeistarakeppninni og vonir heillar heimsálfu eru nú bundnar við "Svörtu stjörnurnar" eins og liðsmennirnir eru gjarnan kallaðir. "Fílarnir" frá Fílabeinsströndinni, nígerísku "Ofur-Ernirnir" og "Eyðimerkur-úlfarnir" frá Alsír eru farnir heim, en blása örugglega í vúvuzela-lúðra af lífs og sálar krafti til stuðnings fyrrum keppinautum sínum frá Ghana.
Margir telja að leikmenn á borð við Didier Drogba og Samuel Eto´o, svo einhverjir séu nefndir, hafi hreinlega sprungið úr þreytu. Þeir er ekki aðeins lykilmenn í liðum á borð við Englandsmeistara Chelsea og Ítalíu- og Evrópumeistara Inter Mílanó, heldur bættu þeir á sig Aríkukeppninni um miðjan vetur og voru því enn þreyttari en félagar þeirra í evrópsku liðunum - hvort heldur sem er Evrópumenn, Asíubúar, Kanar eða Suður-Ameríkumenn.
Ég leyfi mér að stórefast um að franskir eða ítalskir knattspyrnuáhugamenn haldi frekar með evrópskum liðum á borð England eða Spán nú þegar lið þeirra hafa verið send í frí.
Vissulega getur heimsmeistarakeppnin á vondum degi verið farvegur fyrir þjóðernisofstæki af versu sort. Enskir knattspyrnuáhugamenn fagna oft og tíðum sigri með því að berja næsta pakistanska blaðasala og einu sinni braust út stríð á milli Hondrúas og El Salvador út af fótboltaleik.
Föðurlandsást er hins vegar góða systir þjóðernishyggju. Hún nýtur sín líka í Suður-Afríku og við sjáum mörg dæmi um að við þurfum að venja okkur við nýjar aðstæður og hugsa tengsl þjóðernis og þjóðríkis upp á nýtt.
Sautján af 23 landsliðsmönnum Alsír eru fæddir í Frakklandi en langflestir frönsku landsliðsmannanna eru af afrísku eða arabísku bergi brotnir. En samt hneykslast sumir í Frakklandi yfir því að þeir taki ekki allir hraustlega undir þjóðsönginn Marseillasinn, þar sem hvatt er til þess að úthella "óhreinu" erlendu blóði!
Mesut Ösil helsta vonarstjarna Þýskalands tekur ekki undir í Deutschland uber alles heldur fer með vers úr kóraninum og svo mætti lengi telja.
Og af hverju ættu Afríkubúar að halda með þjóðríkjum sem urðu til á landakortum evrópskra nýlenduherra á nítjándu öld? Oft ræður tilviljun ein því hvort menn teljast Ghanabúar, Nígeríumenn, Tsjadverjar eða Lýbíumenn. Einn frambærilegasti rithöfundur Afríku, Nígeríukonan Chimamanda Ngozi Adichie (höfundur Half of a yellow sun) orðaði þetta á mjög skemmtilegan hátt í nýlegri grein í the Guardian.
Hún segir að þjóðernishyggja Afríkubua í fótbolta þjóni þeim tilgangi að takast á við sögulega og pólitíska arfleifð.
"Við eigum ekki fulltrúa á meðal G 8 ríkjanna sem ákveða örlög heimsins. Við verðum kannski alltaf á botninum á lista yfir bestu heilsugæslu, stjórnsýslu og efnahag og stofnanir okkar og innviðir eru í rjúkandi rúst. En, halló!- við vinnum í krafti hreinna hæfileika og útsjónarsemi. Og margir strákanna áttu ekki einu sinni skó þegar þeir byrjuðu að spila.
Ímyndið ykkur hvað við gætum öll gert ef við hefðum - í eiginlegri og óeiginlegri merkingu - gengið í skóm frá byrjun, skrifar Chimamanda Ngozi Adichie
( Sjá http://www.guardian.co.uk/football/2010/jun/11/chimamanda-ngozi-adichie-world-cup)
laugardagur, 12. júní 2010
Sveittur skalli Zidane í beinni útsendingu frá Mars
Fjögur ár? Getur það verið? Fjögur ár...ég var bara
fjörutíu og fjögurra ára snáðí með villta drauma...
Fjögur ár síðan við krakkarnir fórum í
þrautskipulagðasta sumarfrí allra tíma? Fjögur ár síðan
ég og börnin mín (KR-ingar í fjórða lið í móðurætt)
hittumst í Lundúnum, flugum til Dubrovnik, pantaður
leigubíll beið á flugvellinum, keyrði í loftkostum suður
Króatíu og beið heila eilífð á landamærum hins nýfrjálsa
Svartfjallalands. ( Magnað hvað ný ríki hafa mikla ánægju
af að setja upp landamærastöðvar. Ætli ferðalangar sem
komu til Íslands 1944 séu ekki ennþá að bíða í
passaskoðun í gömlu flugstöðinni sálugui? )
Græddum ekki sekúndu á að Ísland varð fyrst til að
viðurkenna sjálfstæði Svartfjallalands en pinninn á
Benzinum var kitlaður til að ná í leik. Skipti engu þótt
eigendur íbúðarinnar sem við höfðum leigt höfðu gleymt
okkur ferðalöngunum. Hver þarf þak yfir höfuðið þegar
úrslitaleikur heimsmeistarakeppninnar er að byrja?
Sjónvarp takk.
Og sjá: risaskjár birtist á notalegu kaffihúsi,
snekkjur dönsuðu í hægum valsi á fagurbláu Adríahafinu,
yndislegu börnin mín með nánast hreinræktuð KR-gen in sín
sæl í sólinni og Zidane og félagar að hita upp í Berlín.
Hamingja. Hósanna heisanna. Og allt þetta í
Svartfjallalandi þar sem hótel bjóða gestum upp á
endurgreiðslu ef það kemur dropi úr lofti. Slíkt gerist
ekki á sumrin. Ekki í Svartfjallalandi.
Nema þennan dag auðvitað. Einmitt þegar
úrslitaleikurinn um sjálfan HEIMSMEISTARATITILINN Í
KNATTSPYRNU er í húfi. Reyndi fyrst að afgreiða
þotugnýjinn í fjarska sem enn eina æfingu albanska
flughersins en smátt og smátt lék enginn vafi á því sem
var í aðsigi.
Skyndilega var skjárinn tekinn niður, stólunum raðað upp
og barnum lokað. Jörðin nötraði og eins og hendi væri
veifað breyttust tígulsteinsstéttirnar í Budvar í
beljandi stórfljót."My Kingdom for a TV", gargaði ég
þegar ég falbauð íslenska lýðveldið, forsetann, Dorrit og
Fjallkonuna fyrir hótelherbergi. Já þak yfir höfuðið eða
amk. sjónvarpið.
"Single room or double", spurði resefsjóninn. "Just a a
TV room please, NOW", var svarið.
Skömu síðar ríkti hamingjan á ný hjá litlu fjölskyldunni
í rúmlausu hótelherbergi í Budvar þar til
listamaðurinn Zinedine Zidane fékk brjálæðiskast
aldarinnar og setti sveittann skallann í bringuna á
ítalska götustráknum Materazzi. Tröllið hafði troðið á
ballerínunni; Frakkar töpuðu fyrir Ítalíu.
Hið illa hafði unnið hið góða: Sögulegt stórslys hafði
gerst. Það sem ekki átti að gerast hafði gerst: Eins og
Karþago hefði unnið Róm; Valur unnið Kr; McCain unnið
Obama; Kaupþing unnið sérstakan saksóknara.
Til að bíta höfuðið af skömminni hafði allt þetta gerst
í biluðu sjónvarpstæki á stærð við farsíma. Þrumurnar og
eldingarnar höfðu farið svo illa í skelfingu lostnu tækið
að litirnir höfðu gert uppreisn og það leit út eins og
við værum að horfa á beinu útsendingu frá Mars en ekki
Berlín.
Nógu slæmt var það sem Zidane gerði. Slæmt hefði verið
að sjá það í lit. Vont í svart hvítu. Verst að sjá
snillinginn fremja þetta harakíri eiturgrænn á hörund í
bleikum bol.
Þvílík vonbrigði. Það voru þung spor út í endurkomna
sólargeisla Svartfjallalands eftir að hafa tékkað út af
ónotuðu hótelherberginu og horfa á ítalska túrista kætast
yfir því grettistaki sem Materazzi hafði lyft með því að
kalla systur Zidane terrorista -hóru eða hvað það nú var.
En fljótlega tóku góðu HM minningarnar yfirhöndina og
brjálæðiskast Zidane og sláarskot Trezeguet sem skildu á
mlli feigs og ófeigs í úrslitaleiknum, urðu hluti af
minningaflóði um hið frábæra drama sem HM er.
Það hafði nefnilega ekki verið leiðinlegt að búa í
fjöþjóðlegri borg dagana á undan þegar tjaldað var til
alþjóðlegrar fótboltaaveislu.
Og nú þegar ég ilja mér við endurminningarnar er enn á
ný veislumánuður framundan. Skotist verður í snitsel á
þýskar krár til að horfa á Mannsjaftið við undirleik
Deutschland Deutschland uber alles. Einhvers staðar
hristast breiðir svartir rassar við trumbuleik bongónegra
þega "les Elephants "Fílabeinsstrandarinnar töfra fram
sinn svarta galdur.
Útum allt munu Englendingar kyrja God save the Queen-
ekki í Sex Pistols útgáfunni mér til mikillar furðu og
jesúsa sig yfir Rooney og dómaranum. Hér og þar munu
svoa Danir súpa sinn faðöl, en þvi miður eru danskir
fánar ófáanlegir - múslimarnir löngu búnir að brenna þá.
Og þegar þessar línur eru skrifaðar heyrist tangó úr
suður-ameríska kúltúrhúsinu á horninu og glaðbeittir
strákar í blá hvítum röndóttum treyjum strjúka fingrum í
gegnum langa dökka lokkana og dreyma um að bursta
Nígeríu.
Og stelpurnar halda svo auðvitað með Ítalíu. "Af því
þeir eru í flottustu búningunum", skrifaði einhver snótin
á Facebook um daginn. Je je, og ég les Plabyoy útaf
viðtölunum.
þriðjudagur, 19. janúar 2010
Er málið að raða ruslafötum?
Fyrir nokkrum árum ákvað landsþekktur sjónvarpsmaður að hverfa af (blá)skjá allra landsmanna og hasla sér völl á vettvangi borgarstjórnar Reykjavíkur. Varð þá öðrum sívinsælum sjónvarpsmanni að orði: “Ætlarðu virkilega að fara að raða ruslafötum?”
Þessi saga sýnir betur en margt annað að meira að segja fyrir daga REI hneykslisins var það orðstír borgarstjórnar Reykjavíkur að þar færi í besta falli uppeldisstöð fyrir verðandi landsmálapólitíkusa en í versta falli sjálftökusjóður stuttbuxnastráka- og stelpna. Og stundum fór þetta tvennt saman eins og dæmin sanna.
Nú ganga Reykvíkingar brátt að kjörborðinu. Íslendingar eru alræmdir fyrir pólitískt minnisleysi enda hvar annars staðar væri hrunhöfundurinn Davíð Oddsson orðinn ritstjóri helsta pólitíska blaðs þjóðarinnar og REI stjarnan Hanna Birna borgarstjóri?
En horfumst í augu við staðreyndir. Þrátt fyrir pólitíska ábyrgð Sjálfstæðisflokksins á þessum hneykslismálum hefur Hanna Birna unnið sér traust kjósenda enda þrátt fyrir allt frambærilegur kandídat til að stjórna uppröðun ruslafatna um gjörvalla Reykjavíkurborg og þótt víðar væri leitað. Það er ekkert skárra í boði af hálfu þeirra bláu enda Hanna Birna afbragðsmanneskja – með ömurlegar skoðanir.
En snýst borgarpólitíkin bara um að raða ruslafötum og dreifa stöðumælasektum?
Svar mitt er nei og svar Hjálmars Sveinssonar, frambjóðanda í prófkjöri Samfylkingarinnar sem senn fer í hönd er hið sama. Það eru mörg herbergi í húsi Hjálmars og þaðan er útsýni til til margra átta. Hann hefur kynnt sér af hugkvæmni og nákvæmni borgar- og skipulagsmál víða erlendis með þeirri skarpskyggni sem vænta má af þýsklærðum heimspekingi.
Hjálmar er nýjabrumið hjá Samfylkingunni en flokkurinn nýtur þess að hafa margt ágætra karla og kvenna í framboði og toppa vinsældalistann hjá mér auk Hjálmars, þau Dagur B. Eggertsson og Oddný Sturludóttir sem ég spái báðum miklum frama í landsmálum.
Því er ekki að leyna að ég hef þekkt Hjálmar um árabil og rifist við hann um pólítik frá því á síðari hluta síðustu aldar. Hjálmar telur mig vafalaust helst til bláan krata og stundum hefur mér fundist bleiki liturinn í pólitík hans fölari en sá rauði.
En eftir nærri fimm ára búsetu í Brussel er mér alltof vel kunnugt um hvað gerist þegar enginn er til að standa varðstöðu um eitt helsta leiðarljós Hjálmars nái hann kjöri að “almannahagsmunir ráði ferð í borginni en ekki sérhagsmunir fjárfesta og verktaka.”
Hjálmar hefur sjálfur bent á þörfina á endurnýjun í pólitík. Ég tel að framboð Hjálmars sé slíkt kostaboð fyrir Reykvíkinga að sjálfur gekk ég í Samfylkinguna í þeim tilgangi að leggja mitt litla lóð á hans vogarskál.
Ekki er verra að geta stutt Oddnýju Sturludóttur þótt hún sé enginn nýliði enda hefur hún þegar þegar sýnt og sannað að hún hefur góðan skilning á að borgarmálefnin snúast um annað og meira en hvort ruslafatan sé hvít eða svört.
Hjálmar og Oddný eru ólík en bæði með hjartað á réttum stað: vinstra megin. Ég hef góðan smekk og vel aðeins það besta og hvet því Samfylkingarmenn til að veita þeim brautargengi í prófkjörinu.
Hvernig væri að láta íhaldið fara í rusl og stilla fram sterkasta liði Samfylkingarinnar í næstu kosningum?
Höfundur á lögheimili í Reykjavík