Tryggvi Þór Herbertsson skrifar ágæta færslu á heimasíðu sína. Þar sýnir hann fram á með snjallri röksemdafærslu að afskrifa eigi hluta skulda heimila og lítilla fyrirtækja. Hugmyndafræðin virðist koma frá Dario Fo: “Við borgum ekki, við borgum ekki!”
Tryggvi Þór er í framboði.
Áður var hann í vinnu hjá útrásarvíkingum og reiknaði vafalaust fimlega fyrir þá.
Þar áður var hann fræðimaður og vann verkefni fyrir ýmsa aðila samkvæmt reikningi. Þá reiknaði hann út fyrir Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra að það myndi kosta Íslendinga tugi milljarða á ári að gerast aðili að Evrópusambandinu.
Evrópunefnd undir forystu Björns Bjarnasonar sem seint verður sakaður um hollustu við ESB komst að þeirri niðurstöðu fyrir ári að ef Ísland lenti í hópi þeirra ríkja sem mest borguðu til sambandsins yrðu nettógreiðslur í mesta lagi 5-6 milljarðar. Hugsanlega yrði greiðslan 1 til 3.5 milljarðar og þegar kostnaðurinn við EES er dreginn frá yrði dæmið hugsanlega þannig að fengjum fé til baka. Þetta eru ekki reikningar Evrópusamtakanna heldur nefndar Björns Bjarnasonar! Skekkjan er á annan tug miljarða.
Ef Tryggvi Þór ætlar að hafa einhvern trúverðugleika sem stjórnmálamaður, verður hann að útskýra hvernig Tryggvi Þór Herbertsson, fræðimaður gat komist að svo hárri niðurstöðu að meira að segja æstustu andstæðingar Evrópusambandsins höfðu ekki hugmyndaflug til svífa svo hátt.
Þetta er eins og nefna hærri tölur um þátttöku á herinn-burt-útifundi en Samtök herstöðvaandstæðinga!
Ef Tryggvi ætlar sér einhvern trúverðugleika í stjórnmálum verður hann að skýra hvernig hann komst að þessari niðurstöður.
Í fljótu bragði sýnist mér hann hafa tvo kosti. Eins og hjá hetjum Íslendingasagnanna eru báðir kostirnir vondir fyrir hann. Annað hvort reiknaði hann sig í átt að niðurstöðu sem hann fékk senda úr forsætisráðuneytinu (væntanlega frá Illuga Gunnarssyni) og þá er Tryggvi Þór ömurlegur fræðimaður. Hinn möguleikinn er að Tryggvi Þór kunni ekki að reikna og þá ættti hann hvorki að leggja stund á hagfræði né stjórnmál. Enn verri fræðimaður!
Það er leitt að þetta er það eina sem Tryggvi Þór, sá prýðilegi maður, á sameiginlegt með hetjum Íslendingasagnanna. Nema ef hann kemur út úr skápnum og skýri fyrir kjósendum hvernig hægt er að bera slíka vitleysu á borð í nafni vísinda og fræðimennsku.
Þessi vísindi efla ekki alla dáð. Þau eru nefnilega pólitískt skítverk sem koma óorði á alla fræðimennsku.
föstudagur, 20. mars 2009
Hvort kann Tryggvi ekki að reikna eða að segja satt?
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
11 ummæli:
lol, góð og vel skrifuð grein hjá þér Árni. Þú hittir naglann á höfuðið.
Ég hef annars á tilfinningunni að hlutverk Tryggva í komandi kosningabaráttu sé að hann eigi að vera nokkurs konar "sérfræðingur". Maðurinn með tölurnar. Svona svipað og Birgir Ármanns var "maðurinn sem mótmælti öllu" á síðustu dögum þingsins.
Dr. Hayek Thorarensen-Scheving
Goðgáin er semsagt að hafa reiknað hærri kostnað við ESB aðild en einhver nefnd komst að ?
Þarna fellur þú í sömu gildru og þeir sem hafa afskrifað niðurfellingarhugmyndina á einu bretti. Þú tekur niðurstöðu um líklega árlega nettógreiðslu íslenska ríkisins og berð hana saman við áætluð heildaráhrif á hagkerfið.
Ég fullyrði ekkert um gæði þessara rannsókna, en það þýðir ekki að bera saman epli og appelsínur.
Þessari aðferðafræði beitti hingað til ópólitískur viðskiptaráðherra í morgun, þar sam hann einblinir á nettóáhrif en kýs að taka ekki tillit til úthrifanna.
Hagfræði eru svosem ekki nákvæmisvísindi, en grunnforsenda allra þjóðhagfræðilegra pælinga er að leitast alltaf við að greina heildaráhrif.
Hrannar Magnússon
Svona greinar eru einmitt vandinn í hnotskurn.
Er hæðni og hroki það eina sem þið í Samfylkingunni kunnið? Ómálefnalegt! Hvaða lausnir eruð þið að koma með? ENGAR! En verði þér að góðu!
Í staðin fyrir upphrópanir og tala um löngu liðna atburði værir þú þá til í að koma með hvernig þú kemst að því að Tryggvi kunni ekki að reikna?
Eitt er að kunna að búa til fyrirsagnir, annað að standa við það sem maður segir.
Segðu okkur hvar þessi tillaga sem reyndar Framsóknarmenn hafa lagt fram á þingi gengur ekki upp.
Mismunandi niðurstöður felast í mismunandi forsendum. Það vita allir sem vilja, og eru ekki í útúrsnúningaleik.
Vandinn felst hingsvegar í því að menn eru ekki tilbúnir að ræða forsendur, af því að þeir eru svo uppteknir að moka drullu í sínum pólítísku sandkössum.
Óttalega eru þetta aukunnarverðir bjálfar sem tá sig á síðunni. Sennilega andlega gjaldþrota eins og vonarpeningur íhaldsins í Norðaustur.
Maður spyr sig hvað hefur komið fyrir Tryggva. Rót vandans í dag er að menn hafa ekki kunnað fótum sínum forráð eins og títt er um Íslendinga.
Tryggvi nennir ekki að koma með tillögur sem gæti stuðlað að því að menn tileinki sér hægkvæmni og sparnað - því svoleiðis leiðindi virka ekki í kosningabarráttu. Hann styður frekar við áframhaldandi óbreytta hegðun einstaklinga og fyrirtækja með kenningum sínum - fyrir utan það að hann er að prédika þjófnað.
Nei hann vill láta frystihús -kerlingar og sláturhúskarla sem búa í verðalusum eignum í þorpum úti á landi borga fyrir sig og aðra sem hafa búið um sig í fínheitum í úthverfum Kópavogs og víðar. Fínheitum sem menn eru að átta sig á að þeir eiga ekki sjálfir og hafa sennilega aldrei átt.
Hagfræðingar eru mjög misgóðir að reikna og raunar komast margir í gegnum námið með nokkuð einfalda menntaskólastærðfræði með örlitlum afbrigðum. Kannski það eigi við um Tryggva?
Skiljanlegt að menn tjái sig nafnlaust þegar þeir hafa ekkert efnislega fram að færa.
Er einhver með "betri - eða skilvirkari lausn" - en Hagsmunasamtök heimilanna (www.heimilin.is) - eða Tryggvi Þór og við fleiri?
Leggjum þær á borðið og metum virkni og árangur.
Gleymum ekki að allar niðurfærslur lána eiga að koma til skattalegrar meðferðar - og þá má alveg hugsa sér að leggja 70-90% skatt á niðurfærslu til þeirra sem eru eignalega sterkir - og ná með því tekjum fyrir soltinn ríkissjóð.
Gæti ekki einmitt verið mesta réttlætið í því?
Fella niður skuldina og leggja svo 90% skatt á niðurfellinguna.
Áttu annan, Bensi!
Skrifa ummæli