sunnudagur, 8. mars 2009

Eldþrauður þráður en tæpast grænn

Hvað eiga fjórir af fimm efstu í forvali Vinstri-grænna samgeiginlegt : jú að vera vinstri að langfeðgatali en afskaplega lítið grænn eins og þessi flokkur sem er sestur í ríkisstjórn hvalveiða og álvera. Kolbrún Halldórsdóttir, eini sanni fulltrúi grænna sjónarmiða í forystusveit vinstri grænna bíður afhroð í forvalinu.

Er ofmælt að segja að nú þurfi stækkunargler til að sjá grænu áherslurnar í stefnu VG?

Fjórflokkurinn lætur ekki að sér hæða. Hann sér um sína.

Nú er ekkert að því að fólk feti í fótspor foreldra sinna og haldi með sama fótboltaliði eða stjórnmálaflokki og leiti á sömu mið að atvinnu. “´Ég fór í viðskiptafræði – af því pabbi vildi það,” söng pönkhljómsveitin Jonee Jonee. Þannig eru menn, mann fram af manni lögfræðingar, bændur, fótboltamenn, hjúkrunarkonur, kennarar, briddsspilarar og guð má vita hvað. Ekkert að því en staðreynd engu að síður.

En það er engu að síður athyglisvert nú á tímum kröfunnar um endurnýjun að líta á niðurstöður forvals flokkanna. Ég ætla að láta mér nægja, að þessu sinni, að líta á niðurstöður forvals Vinstri-grænna því ef litið er á efstu menn þar, sést mjög greinilega hvernig íslenskir stjórnmálaflokkar eru byggðir. upp. Um það má deila hvort þetta hafi nokkuð með stjórnmálaskoðanir að gera: flokkarnir eru myndaðir utan um ákveðinn kjarna og hagsmuni hans. Þetta er kallað flokkseigendafélagið og er til í öllum flokkum.

Nú skyldu syndir feðranna ekki bitna á börnunum og það hvarflar ekki að mér að saka sigurvegara í forvali VG um að vera sjálfkrafa Stalínistar þótt finna megi einhverja slíka aftur í ættum þeirra. Ekki er ég trúrækið sálmaskáld þótt afi minn hafi verið það! En lítum á bakgrunn sigurvegaranna enda má þar sjá rauðan þráð – reyndar eldrauðan!

Meira að segja hin unga og ferska Katrín Jakobsdóttir rekur pólitískar ættir sínar til upphafs Kommúnistaflokks Íslands og raunar enn lengra. Í móðurætt er hún komin af Theodóru Thoroddsen, skáldkonu, átrúnaðargoði íslenskra sósíalista. Thorodssenar hafa bæði verið öflugir í Sósíalista- og Sjálfstæðisflokki.

Föðurafi hennar og afasystkini eru af merkri pólitískri ætt. Ármann Jakobsson, var bankastjóri. Hulda Jakobsdóttir var bæjarstjóri í Kópavogi (tengdamóðir Styrmis Gunnarssonar.) Halldór Jakobsson rak fyrirtækið Borgarfell sem upphaflega var stofnað til að fjármagna Sósíalistaflokkinn með viðskiptum við austantjlaldsríkin þótt minna úr því en til stóð. Hann andmælti á gamalsaldri kröftuglega skjalfestum ásökunum um Rússagull. Einhvern tímann var Halldór kallaður einn af gullkistuvörðum sósíalista en það mun ofmælt.

Ingi R. Helgason á hins vegar þá nafnbót skilið. Álfheiður Ingadóttir dóttir hans fékk í föðurarf vörslu stórs hluta skjala Einars Olgeirssonar og liggur á þeim eins og ormur á gulli, fræðimönnum til ama og leiðinda.

Svandís Svavarsdóttir er dóttir Svavars Gestssonar sendiherra, sem lærði í Austur-Þýskalandi og stjórnaði Alþýðubandalaginu á meðan það vildi þjóðnýta allar sjoppur í landinu.

Árni Þór Sigurðsson lærði í Sovétríkjunum og væri á vondum degi sennlega til í að þjóðnýta næstu sjoppu.

Mér er ekki kunnugt um pólítisk tengsl Lilju Mósesdóttur en hún kemst væntanlega til metorða sem þátttakandi í mótmælahreyfingunni undanfarna mánuði. Og hún er enn sem komið er, ein fárra sem getur þakkað mótmælahrinunni pólitískan frama. Kolbrún Halldórsdóttir virðist hins vegar fórnarlamb kröfu um endurnýjun í röðum vinstri grænna.

Það eina græna sem sést hjá Vinstri-grænum þessa dagana eru grænu ljós Steingríms Joð á álver og hvalveiðar. Á meðan allir stjórnmálamenn heims frá Obama til Gordons Browns, Sarkozy til Merkel, Cameron til leiðtoga Kóreu og Kína draga græna fánann að húni, virðast grænar áherslur á undanhaldi hérlendis, meira að segja hjá Vinsti-grænum. Dofnar fölgræni liturinn endanlega með falli Kollbrúnar Halldórsdóttur?

PS Ég sé mig knúinn til að svara hópi nafnleysingjar sem svarar þessari grein með rætnum skætingi. Kæru nafnleysingjar. Ég sem hélt að Samfylkingin væri hörundsárasti stjórnmálaflokkur landsins! Ó ekkí! Látum nú vera þvílíkar gungur og ómerkingar þið eruð með því að nenna að senda svona skæting nafnlaust á netið. Að vísu er tónninn svo Alþýðubandalagslegur að það hálfa væri nóg. Af hverju komið þið ekki með gagnrök? Að spyrða mig saman við Björn Bjarna ( já einmitt!!!), mína ætt, Staksteina og fleira er dæmigerður Allaballa-háttur. Lesendur eyjunnar geta metið það sjálfir hvort ég og Björn Bjarnason séu skoðanabræður - ég held að fáum dyljist andúð mín á þeim manni og hans úreltu skoðunum.

En þegar ætt mín er dregin inn í málið, þá spyr ég er átt við bróður minn Stefán Snævarr, heimspeking? Er átt við hinn bróður minn Sigurð Snævarr, hagfræðing? Er átt við Ingibjörgu Hafstað í Skagafirði, náfrænku mína?

Er átt við Áslaugu Sigurðardóttur, móðursystur mína og Hauk mann hennar Hafstað í Vík í Skagarfirði þar sem ég dvaldist oft á sumrin rétt eins og sonur Einars Olgeirssonar? Eða er átt við Önnu móðursystur mína sem stofnaði Kvennasögusafnið?

Varla er átt við foreldra mína sem aldrei hafa tekið þátt í stjórnmálum, fyrir utan stuðning mömmu við Þjóðvarnarflokkinn fyrir margt löngu. Ég er að sönnu mágur Kjartans Gunnarssonar og fjarskyldur ættingi Davíðs Oddssonar en fyrir alla áhugamenn um slík ættartengsl skal vísað á skrif Björns Bjarnasonar þar sem hann frábað sér frændsemi mína við Davíð- væntanlega fyrir hönd Seðlabankastjórans fyrrverandi!

Vissulega er margt góðra Sjálfstæðismanna í minni ætt, en menn skyldu fara varlega í að kenna okkur við íhaldið.

Af hverju svarið þið ekki höfuðatriði greinarinnar: er það tilviljun að forystulið VG í Reykjavík kemur úr gömlu Allaballa/sósíalista fjölskyldunum og græna fólkið er horfið? Það er gaman að koma við kauninn á fólki en enn skora ég á ykkur að koma út úr fylgsnum ykkar og svara: af hverju hurfu grænu áherslurnar um leið og VG komst í stjórn?

Af því þær voru ekki nema fíkjublað til að fela að gamla Alþýðubandalagið hélt bara áfram? Lýðræðisjafnaðarmenn flokksins gengu til liðs við Samfylkinguna en harðsvíraðasti hópurinn hélt áfram undir andlegri leiðsögn arftaka Einars Olgeirssonar þeirra Svavars Gestssonar, Hjörleifs Guttormssonar og fleiri áfram.

Nú ætla ég ekki að efast neitt um að td. Hjörleifur hafði lengi haft áhuga á náttúruvernd þótt hann leyfði sem iðnaðarráðherra byggingu ljótasta iðjuvers landsins á Grundartanga. En það breytir því ekki að nú er röngunni snúið út til að fela hið rétta eðli. Alþýðubandalagið skipti um kennitölu eins og forverar þess forðum og hefur upp á síðkasti siglt undir fölsku flaggi og boðið fram í nafni vinstri grænna!
Verst er að vinstri grænir eru ekki nándar nærri jafn grænir og Íhaldsflokkurinn breski undir forystu Davids Camerons, arftaka Margrétar Thatcher. kv. Árni



7 ummæli: Nafnlaus sagði... Þetta er nú meira ekkisen bullið.. Svna sást í Mogga í miðju kaldastríðinu en nú er því lokið. Jafnvel í Mogganum..Bara þú og Björn Bjarna eftir.8. mars 2009 13:44 Nafnlaus sagði... Og hverra manna er þú Árni minn.8. mars 2009 14:14 Nafnlaus sagði... Þetta er sennilega næstheimskulegasta grein sem þú hefur skrifað, Árni.8. mars 2009 14:24 Salvor sagði... það er allt hins vegar að grænka í Framsóknarflokknum.8. mars 2009 16:13 Nafnlaus sagði... Þetta er í Staksteinastíl8. mars 2009 17:31 Nafnlaus sagði... Einu sinni hélt ég að þessi pistlahöfundur væri góður frétta og blaðamaður. Sé á þessari grein að ég hef haft rangt fyrir mér.Slúður og sleggja í anda Séð og heyrt. Neðar verður ekki komist.8. mars 2009 19:59 Nafnlaus sagði... Af hverju hefurðu svona milkar áhyggjur af okkur í VG????KvÓlafur Sveinsson8. mars 2009 20:28

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Kaun ... er það ekki kvk. með einu n-i með ákv. greini.

Árni vill kalla Vinstri ... Rauða, líkt og Davíð þessi Oddson som minnst var á. Finnst bara allt í lagi með það Merkimiðar eru hvort eð er lítils virði í dag. Það má pakka öllu inní nýjar umbúðir og selja svo gamla draslið aftur. Nærtæk dæmi: "Nýja" Framsókn og væntanlega sjallar og samfó ekki eftirbátar þeirra .

Er ekki saga Alþingis sú að fyrst voru þingmenn, síðan komu flokkarnir. Afturhvarf til fortíðar væri æskilegt, því fífl fyrirfinnast í öllum flokkum, innan um gersemarnar.

Nafnlaus sagði...

Athyglisverð grein um ættfræði og kærkomin fyrir áhugamenn um þau efni. Hollur er heimafenginn baggi var einhvern tíma sagt og það er ekkert nýtt að menn feti í fótspor feðra sinna og mæðra. Um það má svo deila hvort heimafenginn baggi sé í öllum tilvikum til góðs eða ills.
Annars ertu óþarflega hörundsár vegna athugasemda að þú telur frá VG ungliðum. Reyndur blaðamaður kveinkar sér ekki þó nokkur strá stingi og þeim til varnar og aðstoðar vil ég benda þér á örfá mikilvæg atriði. Hafðu greinar þínar stuttar. Þau ná ekki utan um langar og spaklegar greinar. Reyndu ekki að sannfæra þau með flókinni röksemdafærslu. Rök ná ekki til þeirra; þau eru þegar forrituð og því verður ekki breytt. Og umfram allt, sýndu styrk og láttu ekki koma þér svona auðveldlega úr jafnvægi.

Nafnlaus sagði...

Árni, vilt þú láta dæma þig (til góðs eða ills), gjörðir þínar og skoðanir út frá því hverra manna þú ert? Varla. Og ef maður vill láta meta sig á eigin forsendum þá liggur beint við að sýna öðrum sömu sanngirni.
Hulda