Ég hafði það hlutverk í kosningunum 2003 að vera herra talnaglöggur í kosningasjónvarpi Stöðvar 2. Hlutverk mitt var sem sé að rýna í tölur og spá í spilin, ekki síst hverjir væru “næstir inn.” Ég skemmti mér konunglega þrátt fyrir að hafa verið neyddur í þetta starf, enda óvenju lélegur í reikningi og meira að segja fallisti í tölfræðikúrsi í háskólanum í Lyon á ofanverðri síðustu öld.
Áður en ég heillaðist af undraheimi talnanna þarna í útsendngunni, hafði ég allt á hornum mér og ég skil ekki enn þann dag í dag að sú öndvegiskona Edda Andrésdóttir - aðalfórnarlamb geðvonsku minnar- skuli svo mikið sem heilsa mér á götu, svo leiðinlegur var ég. Ég þessi geðgóði maður. Ótrúlegt.
Þetta gekk nú samt bara vel en það komst upp um strákinn Tuma þegar ég fullyrti í beinni útsendingu að fimmti maður á lista Sjálfstæðisflokksins á Reykjanesi ætti ekki séns: “Ég skal éta hattinn minn ef Bjarni Ben kemst á þing!” sagði kjaftaskurinn ég og varð að éta það ofan í mig. Bjarni komst á þing og er nú orðinn formaður Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni nefndi þetta að sjálfsögðu við mig þegar ég hitti hann á förnum vegi á Laugaveginum og mér hafði mistekist að hlaupa yfir götuna, og hverfa ofan í kvennærfötí Lífstykkjabúðinni. Brjóstahaldaralaus neyddist ég til að tjá honum að ég stæði við orð mín og bauð honum að koma með mér í næsta bakarí þar sem boðið væri upp á þessa fínu Napoleónshatta.
Hann tók ekki þessu fína boði – en í dag stóð ég við orð mín og át (Napeleóns) hattinn minn á kaffihúsinu Sucré- salé á Place Fernand Cocq í Ixelles– Bjarna Benediktssyni til heiðurs. Ég gerði það með ánægju og óska honum allra heilla í starfi og þeirri óumflýjanlegu glímu við Svörtu-klíkuna sem er framundan. Ég vona að Hannes Hólmsteinn, Davíð og Björn og co sjái eftir að hafa stutt Bjarna og mér segir svo hugur að svo verði; landi og þjóð til heilla.
Ég er enginn Sjálfstæðismaður en það skiptir alla þjóðina máli að hæfur maður gegni starfi formanns Sjálfstæðisflokksins og í þessu tilfelli held ég að sú sé raunin. Það kæmi mér ekki á óvart að einn góðan veðurdag mæti Bjarni Ben á svæðið hér í Brussel með umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu upp á vasann.
Og ég skal bjóða honum í kaffi á Sucré, salé (sætt og saltað) og bakkelsi með, - að hans eigin vali. Kannski kemur röðin að honum að éta (ESB) hattinn sinn.
sunnudagur, 29. mars 2009
Bjarni Ben sigrar og ég ét hattinn minn
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
5 ummæli:
Það verður reyndar Jóhanna sem mætir með umsóknina í Brussel. Væntanlega fljótlega eftir kosningar, jafnvel um það leiti sem Svíar taka við forsæti ESB.
Annaðhvort á þetta að vera 'ofanverðri síðustu öld' eða þú ert ævintýralega unglegur eftir aldri.
Anna
Flottur pistill. Þú ert bara asskoti skemmtilegur penni þegar þú tekur þig til!
Jón H.
Spurning hvort Bjarni leiki sama leikinn og Juan Carlos á Spáni eftir fráfall Francos?
Sveinbjörn
Þú gleymdir Kjartani Gunnarssyni í upptalningu á þeim, sem eru í Svörtu klíkunni?
Skrifa ummæli