miðvikudagur, 11. mars 2009

Ármann á Alþingi og lopapeysan

Ármann á Alþingi - gömul gildi ný tækifæri.


Þessi auglýsing hins ágæta þingmanns Sjálfstæðisflokksins, Ármanns Kr. Ólafssonar, blasir við lesendum netsins á degi hverjum. Ef tilvísunin í eitt fyrsta skrefið í sjálfstæðisbaráttunni, tímarit Baldvins Einarssonar frá 1830 fer fram hjá lesendum, er hnykkt á skilaboðunum með vígorðinu "gömul gildi - ný tækifæri," og ljósmynd af þingmanninum í lopapeysu.

Eitthvað hlýtur að vera varið í auglýsinguna því ég staldraði við. Tvennt rifjaðist upp fyri mér: Að Ármann kemur úr auglýsingaheiminum því hann er Manni í auglýsingastofunni Nonni og Manni og hitt að þingamðurinn var á stínum tíma stjórnarmaður í SUS.

Auglýsingin sjálf er gerð á látlausan hátt, stíllega eins fjarri því að minna á gylliboð útrásarinnar eins og hægt er. Lopapeysan fer Manna vel og fyrr en varir er maður farinn að móta hann svona í bakgrunn á málverkinu af Jóni Sigurðssyni á Þjóðfundinum sem hangir niðri á Alþingi eða velta því fyrir sér hvort hann sé í prjónaklúbb með Bjarna Ármannssyni.

Ekkert sem minnir á að hann hafi verið stjórnarþingmaður í Hruna-dansinum, hvað þá aðstoðarmaður þriggja ráðherra í samtals ellefu ár 1995-2006!

En lítum á stefnumálin:


· Lækkun stýrivaxta strax!
· Aukið aðgengi atvinnulífs og heimila að lánafyrirgreiðslu
· Greiðslubyrði allra lána miðist við janúar 2008
· Ný vinnubrögð í ríkisrekstri - fækkun ráðuneyta og stofnana
· Aukin fjölbreytni í félagslega íbúðakerfinu
· Aukin heimahjúkrun og heimaþjónustu fyrir eldri borgara
· Námsúrræði fyrir þá er verða fyrir atvinnumissi

Er eitthvað hér sem Ármann gæti ekki farið með í prófkjör hjá Vinstri-grænum eða Samfylkingunni. Sum baráttumálin hefðu getað verið tekið upp úr stjórnarsáttmála vinstri stjórnarinnar 1971-1974 enda eru neikvæðir vextir hinum megin við hornið þegar stjórnmálamaður vill ákveða (lækka) vexti.

Og með lopapeysuna að vopni væri Ármann fyrr en varir kominn á toppinn hjá Framsókn!

Málefnin eru ekkert verri fyrir það - það er bara sérkennilegt að heyra þessi hljóð úr þessu horni, en Manni hinn geðþekki er bara tímanna tákn. Svona er nýi Manni en hvernig var gamli Manni?

Hér á árum áður var hann stjórnarmaður í SUS í formannstíð Guðlaugs Þórs Þórðarsonar. Þar var barist af krafti fyrir einkavæðingu og niðurskurði ríkiskerfisins. Í málgagni SUS "Stefni" fór lítið fyrir "gömlu" gildunum. Þar fór Hannes Hólmsteinn mikinn og fyrirsagnir á borð við "ný hugsun" ,"nútímavæðing", "nýr hornsteinn hagsældar" endurómuðu "saung tímans", eins og Laxness kallaði tíðarandann.

Og síðast en ekki síst: "Það er ekkert að jörðinni, umhverfissinnar eru vandamálið," en með þessa hugsun að vopni réðist SUS gegn vondu mönnunum sem vernduðu ósonlagið: "Bann við notkun ósoneyðandi efna er raunveruleg ógnun við umhverfið."

Núverandi aðdáendur Hannesar Hólmsteins segja nú það sama um gróðurhúsaáhrif og hafa jafn rangt fyrir sér og um ósonlagið.

Má ég biðja um nýja-gamla Ármann og sem allra flesta gamla SUS-ara í lopapeysur?

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þessi lagðagoltreyja klæðir Ármann jafnvel og rússneska úniformið sem hann keypti á svörtum í sínu eigin prívat gerska ævintýri, þegar að Tsarinn hét Gorbachev. Sem sagt engan veginn.

Nýjar umbúðir, Sama svikna varan!

Nafnlaus sagði...

bíddu, ha, hvað gerðist fyrir ósonlagið. Auðvita ekkert. Ef þú skoðar tölur um útblástur þá hefur ekki orðið nein bylting - önnur en menn hættu að tala um þetta þegar þeir áttuðu sig á því að vandamálið væri algjörlega ofmetið.

Nafnlaus sagði...

Er ekki stefnumál þingmanns um stýrivexti marklaust ef litið er til laga um Seðlabankann? Hvernig ætlar þingmaður að ná niður stýrivöxtum? Fara gegn lögboðnu sjálfstæði, ákvörðunarvaldi og ábyrgð bankastjórnar á einhvern hátt? Sannfæra Alþjóða gjaldeyrissjóðinn um að þvinga Seðlabankastjórnina til vaxtalækkunar?

Nafnlaus sagði...

Manni hefur ekkert breyst hvort sem hann er í lopapeysu eða ekki, hvort hann hafi verið í SUS með eða án Guðlaugs Þ. eða hvort Hannes H. skrifaði í Stefni eða ekki. Nema öll verðum við með árunum reynslunni ríkari Árni.

sigurjonj

Nafnlaus sagði...

Klár auglýsandi.
Manni tengir sig á einu bretti við:
gömul gildi (peysan),
Baldvin Einarsson,
Ármann á Alþingi,
KR,
Jón Sigurðsson, forseta (Nonni)
og Jón Sveinsson rith.

Maron Bergmann sagði...

Alltaf jafn athyglisvert að sjá hversu gríðarleg umskipti geta orðið á stjórnmálamönnum og þá einna helst sjálfstæðismönnum þessa dagana.
Allt í einu eru þessir ágætu menn sem predikuðu frjálshyggju, kapítalisma og ótruflað markaðshagkerfi farnir að tala um "gömul gildi" og af því er virðist vera alls ótengdir þeim Sjálfstæðisflokk sem öllu réð hér á landi þar til nýlega.
Alltaf gaman af fylgjast með þegar siðblindir og spilltir sjallar láta hræsnina ná hæðum sem maður hélt að væri ekki til.

Nafnlaus sagði...

Það besta er að nú tala þeir um hina gífurlegu endurnýjun sem hefur átt sér stða í flokknum eftir prófkjör. Ég sé ekki neinn á þeirra listum sem ég hefii séð í umræðunni verja gjörninga Sjallanna síðustu 18 árin. Allt þjóðþekktir Sjallar. Engin endurnýjun en auðvitað má spinna það þannig og sjá svo hverjir kaupa ullarlagðan.

Gísli Marteinn hefur svosem ekki verið þekktur fyrir að vera góður spindoktor en þessi færsla hans er bráðfyndin.

http://eyjan.is/goto/gislimarteinn/

Nafnlaus sagði...

Varðandi lopapeysuna. Úr hvaða efni var yfirhöfn úlfsins aftur?

Kristján Sig. Kristjánsson