mánudagur, 15. september 2008

Baráttusamtökin ÍSPAL


Hingað og ekki lengra. Við sitjum ekki þegjandi undir þessu. Við Íslendingar látum ekki Kanann vaða yfir okkur eina ferðin enn. Nei við Íslendingar tökum höndum saman og stofnum ÍSPAL- Íslendingar gegn Palin.


Ríkisstjóri mesta veðrarassgats í Heimi, Alaska (og er þá ekki átt við gróðrastöðina við Miklatorg) kannast ekki við að hafa hitt Ólaf Ragnar Grímsson! Ég gæti skilið að George W. Bushe eða Hu Jintao myndu ekki eftir því að hafa hitt Ólaf Ragnar, þeir hitta jú svo marga en þessi kona hefur ALDREI hitt þjóðhöfðingja nokkurs ríkis og þykist nú ekki muna hann Ólaf!
ÍSPAL muna beita sér fyrir sérstöku átaki meðal Vestur-Íslendingar og ég sé fyrir mér öfluga starfsemi vesturdeildar samtakanna ICEPAL.
Og ef Palin verður vara-forseti þrátt fyrir andspyrnu Vestur-Íslendinga og kemur hingað í heimsókn sýnum við hokkí-mömmuni hvar Davíð keypti ölið. Við hituðum okkur upp á Lyndon B. Johnson hér um árið en hún þarf aldeilis að biðja fyrir sér ef hún kemur til Íslands.
Alveg er ég viss um að Jói í Bónus leggi rotnaða tómata til baráttu ÍSPAL enda myndi ekki sjá högg á vatni í rotnu tómatadeildinni í búðinni þótt hann gæfi okkur þúsund stykki.
Nei, við munu hann Ólaf og látum ekki einhver kanafífl niðurlægja höfund hitaveitunnar. Vér mótmælum allir!

miðvikudagur, 10. september 2008

Bannað að vitna í dóma hæstaréttar?

Einhver heimskulegasta og dapurlegasta uppákoma í seinni tíð á Íslandi eru hótanir Árna Johnsen um að höfða mál á hendur Agnesi Bragdóttur fyrir meiðyrði en hún sagði að Árni væri skandall og benti á þær staðreyndir að hann væri dæmdur mútuþegi og fjársvikamaður.

Þetta var ekki einasta heimskulegt heldur einstaklega ósanngjarnt því að þegar mál Árna kom upp sem hann seinna var dæmdur fyrir, tók Morgunblaðið með Agnesi í broddi fylkingar málstað nafna míns af miklum krafti.

Þetta þekki ég frá fyrstu hendi. Vissulega var það fréttastofa útvarps með Þóru Kristínu Ásgeirsdóttur í fararbroddi sem átti “skúbbið” en við á Stöð 2 vildum þessa Lilju kveðið hafa en þrátt fyrir fína frammistöðu okkar konu Evu Bergþóru Guðbergsdóttur áttum við ekki roð í útvarpsfólkið.

En á meðan við spiluðum aðra fiðlu var ömurlegt að horfa upp á félaga okkar á Morgunblaðinu.

Árni var á síðari stigum málsins sakaður um að hafa flutt til Eyja dúk nokkurn. Nafni minn vísaði því á bug og boðaði blaðamann og ljósmyndara Morgunblaðsins á sinn fund og sýndi dúkinn. Blaðið birti frétt þess efnis að dúkþjófnaðurinn væri staðlausir stafir og fréttastofa Stöðvar 2 og útvarpsins hefði báðar orðið uppvísar að lygum.

Í ljós kom að sett hafði verið á svið sýning fyrir Morgunblaðið og starfsfélagar Árna blekktir með því að flytja stolna dúkinn til Reykjavíkur á ný. Sjálfur hafði ég – aldrei þessu vant – einhver tímabundin mannaforráð á fréttastofu Stöð 2 þegar þetta var og kom í minn hlut að svara frétt Morgunblaðsins.

Agnes Bragadóttir varð fyrir svörum og trúði hún sem von var sínum manni fremur en mér og sendi mér reyndar tóninn í leiðinni.

Agnes varð síðar að viðurkenna að hún hafði verið höfð að fífli og vafalaust hugsar hún nafna þegjandi þörfina.

Árni Johnsen þorir greinilega ekki að fara í mál við Agnesi Bragadóttur. Í yfirlýsingunni segir hann hins vegar að það væri "fróðlegt...að láta reyna á þau lög sem banna umfjöllun um málsatvik hjá fólki sem hefur gert upp að fullu við dómskerfið og hlotið uppreist æru, banna umfjöllun að viðlögðum sektum eða fangelsi."

Ég ætla rétt að vona að það sé ekki bannað samkvæmt íslenskum lögum að vitna í dóma sjálfs hæstaréttar og nefna almælt tíðindi og rekja staðreyndir. Um eitt get ég verið sammála Árna og að það hefði verið forvitinlegt að fá úrskurð hæstaréttar um það mál! Nema að það væri þá bannað að nefna úrskurð hæstaréttar um úrskurð hæstaréttar?

Nú veit ég að það tekur ekki nokkur maður - utan Eyja- mark á Árna Johnsen en þar sem ég ber virðingu fyrir lögum og reglum, alþingi og dómstólum, tel ég að taka ætti af allan vafa um þetta atriði. Alþingismenn geta að minnsta kosti lýst skoðunum sínum og fróðlegt væri að vita hvort Sjálfstæðismenn - sjálfskipaðir talsmenn frelsis- séu tilbúnir að kyngja slíkum takmörkunum á tjáningarfrelsi að ekki megi lengur tíunda staðreyndir á borð við dóma.


Það sýnir svo innræti Árna að hann skuli halda því fram í yfirlýsingu sinni að hann hafi ekki átt neitt sökótt við sinn gamla vinnufélaga, Agnesi. Þetta sýnir betur en nokkuð annað hve forhertur þingmaðurinn er og algjörlega laus við alla iðrun enda minnir blaðakonan hann á að hann hafi haft sinn gamla fjölmiðil og samstarfsmenn að “ginningarfífli með hreinum lygum í sambandi við vaxdúkinn góða.”

Átti Árni von á því að Moggamenn teldu allt vera í góðu eftir að hann, blaðamaðurinn sjálfur og vinnufélagi, laug þá fulla og lét þá hlaupa apríl frammi fyrir alþjóð?

Með framkomu sinni hefur Árna tekist hið ótrúlega: að sökkva enn dýpra en hann hafði þegar gert. Geri aðrir betur.

fimmtudagur, 4. september 2008

Ekki á VISAn að róa

Hversu lengi ætla íslenskir neytendur að láta bjóða sér það óöryggi sem fylgir því að ekki þarf að nota talnakóda til að nota íslensk VISA kort og önnur hérlend greiðslukort?

Sú spurning af hverju íslenskir notendur VISA korta njóta ekki verndar af þessu tagi og nánast allir aðrir greiðslukortanotendur í hinum siðaða heimi, rifjaðist upp fyrir mér síðastliðinn mánudag, þegar VISA í Belgíu, þar sem ég er búsettur, hafði samband við mig. Kurteis starfsmaður spurði mig hvort það gæti staðist að ég hefði verið að nota kortið mitt belgíska í Maceys í Seattle í Bandaríkjunum daginn áður!

Ég kvað nei við og starfsmaðurinn sagðist ekki hissa, því allt benti til þess að kortið hefði verið kóperað. Hins vegar hefði því verið hafnað því þjófarnir höfðu ekki réttan talnakóda.

Nokkrar færslur höfðu verið gerðar hér og þar en VISA sagði slíkt á ábyrgð annað hvort kortafyrirtækisins eða verslunareigenda, ef þeir hefðu ekki leitað heimildar eða kannað undirskrift.

Fín þjónusta – ég beið engan skaða af, enda var ég fórnarlamb falsara sem stálu upplýsingum um kortið mitt.

Fyrir ári síðan sagði ég hins vegar upp öllum viðskiptum við VISA Ísland, klippti kortið mitt í sundur og sendi bútana til forsvarsmanna fyrirtækisins eftir að hafa fengið einhverja verstu þjónustu sem ég minnist þess að hafa fengið nokkurs staðar – og hef ég þó víða farið og marga fjöruna sopið.

Einn góðan veðurdag fékk ég VISA reikning og þar bar hæst færslu upp á 1100 Evrur, hátt á annað hundrað þúsund íslenskar krónur. Það vildi svo til að þegar þetta átti sér stað var ég fótbrotinn og því ekki mjög hreyfanlegur og því auðvelt að muna hvar og hvenær ég hafði notað kortið.

Ég hafði samband við VISA, fékk sendan reikning staðarins sem virtist vera fjarri heimili mínu í hverfi sem ég á sjaldan erindi. Þetta virtist vera einhvers konar bar, en það þarf ekki að hafa mörg orð um að það þarf svakalega neyslu til að þurfa að borga 1100 evrur á bar. Miðað við bjórverð á dýrum bar hefði upphæðin dugað fyrir 275 stórum bjórum!

Eftir eftirgangsmuni hafði VISA upp á kvittuninni og kom þá í ljós að ekki einasta var undirritun mín ekki þar að finna, viðkomandi hafði ekki einu sinni haft fyrir því að skrifa nafn mitt – þarna mátti sjá eitthvað allt annað nafn!

VISA sagði sannað að kortið hefði verið á staðnum og því væri ábyrgðin mín. Undirskrift skipti engu máli! VISA neitaði algjörlega að kanna málið og neitaði meira að segja að gefa upp nafn og heimilisfang fyrirtækisins sem skráð var fyrir vélinni sem notuð var.

Lögreglan í Brussel gat lítið gert án þess að vita hvern ætti að kæra og rannsaka en VISA hreyfði sig ekki. Að vísu googlaði starfsmaður þar fyrirtækið og lét mig fá þá niðurstöðu - það var eina vísbending mín um hvaða staður þetta var og hvers kyns meint viðskipti hefðu verið.

Lögreglan benti hins vegar á að þessi vél hefði getað verið hvar sem var og kortinu hefðu verið rennt í gegnum vél annars staðar þar sem ég hefði verslað grunlaus. Eða kortið hefði einfaldlega verið kóperað. Hæg heimatökin þegar ekki þarf að setja inn neinn talnakóda! Lögreglan sagði þetta fátítt en ekki dæmalaust. Dæmi af þessu tagi kæmu afar sjaldan upp enda þurfa notendur greiðslukorta nær alls staðar í heiminum að nota talnakóda en ef ekki gildi undirritun.

Bara ekki hjá VISA Ísland!

Ég harðneitaði að borga reikninginn og VISA tilkynnti mér að viðskiptabanki minn myndi fara í hart við mig og ganga að mér fjárhagslega.

Næsta sem gerðist var það að vinkona mín heyrði starfsfólk sem hafði haft með málið að gera, skeggræða málið á vertshúsi í Reykjavík! Bankaleynd? Ekki hjá VISA. Mér er sem ég skilji núna hvernig upplýsingar um ferðir og einkamál ýmissa berast sífellt út um allan bæ. VISA reikningarnir eru jú vísbending um ferðir og athafnir fólks.



Í samskiptum mínum við VISA Ísland mátti ég þola dylgjur og dónaskap sem ég nenni ekki að hafa eftir.

Ég vil að vísu taka fram að hvað viðskiptabanka minn Landsbankann, varðar hef ég yfir engu að kvarta og þar kom starfsfólk vel fram við mig og bar engan skugga á áratugalöng viðskipti. Bankinn getur þó ekki þvegið hendur sínar af VISA Íslandi sem einn af eigendunum.

Sama máli gildir með talnakódann hjá öðrum íslenskum greiðslukortafyrirtækjum og nú síðast lenti dóttir mín í því að há upphæð var skráð sem úttekt hjá henni erlendis. Í bankanum hafði henni hins vegar verið sagt að engin heimild hefði verið og því fékk hún enga peninga.

Í þessum tilfellum hefði talnakóda breytt öllu og tryggt hagsmuni notandans.

Hvers vegna íslensk greiðslukortafyrirtæki taka ekki upp talnakóda er mér óskiljanlegt.

Getur verið að bankarnir sem njóta hæstu vaxta í heimi, tími ekki að breyta kerfinu? Bankarnir sem borga stjórnendum sínum 60 milljónir á mánuði og láta svo íslenska skattgreiðendur taka lán til að þeir fari ekki á hausinn? Sagt er að aðeins eitt sé verra en einokun og það sé tvíkeppni eins og tíðkast á íslenska markaðnum.

Ég hef allavega kosið að eiga framvegis viðskipti við erlent kortafyrirtæki sem er bæði öruggara og ódýrara í en á Íslandi þar sem svo við bætist að bankaleynd er svo óþekkt að hún er einn helst talin heiti á þorpi í Síberíu.

miðvikudagur, 3. september 2008

Tær og næstum falleg spilling

Einhvern veginn væri það svo viðeigandi endir á stjórnmálaferli Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar að hann yrði skipaður forstjóri Landsvirkjunar í krafti pólitískra tengsla einna. Það væri svo tær pólitísk spilling að það væri næstum því fallegt. Það væri einhvern veginn svo fallega harmónískt ef sagan um borgarstjórnarskandal Sjálfstæðismanna endaði á þennan hátt.

Vilhjálmur virðist algjörlega blindur á sjálfan sig ef marka má viðtal í DV. En þora Sjallarnir? Forstjórastaða í Landsvirkjun er klassísk leið til að losna við óhæfa stjórnmálamenn. Vilhjálmur Þ. Hefur sýnt slíkt hæfileikaleysi í stjórnun bæði sem borgarstjóri í REI málinu og með því að stofna meirihluta með Ólafi F. Magnússyni að leit er að öðru eins.

Samfylkingin mælist nú stærri en Sjálfstæðisflokkurinn á landsvísu og með tæpan helming atkvæða í borgarstjórn á meðan D listinn mælist með minna en 30%. Þetta er auðvitað glæsilegt en það er langt í næstu kosningar hvort heldur sem er í borg eða á landsvísu og íslenskir kjósendur eru frægir fyrir sitt gullfiskaminni.

Og hvað borgina varðar sýnast mér talsverðar töggur í Hönnu Birnu.

PS Það er að verða hefð að ég éti eitthvað ofan í mig í þessum Eyju-pistlum...en ég vil staka skýrt fram að með orðum mínum átti ég alls ekki við að Friðrik Sophusson hafi verið óhæfur stjórnmálamaður. Það var Friðrik hreint ekki. Ég átta mig hins vegar á því að það mátti skilja orð mína á þennan veg og ég biðst afsökunar á því. Það breytir því ekki að eftirmaður hans geti verið óhæfur stjórnmálamaður.

Bjargvætturinn Gústav

Demókratar héldu glæsilegt flokksþing þar sem hver stjarnan af öðrum skein skært (Clinton-hjónin, Biden, frú Obama) og engin skærar en sjálfur kandídatinn Barack Obama.

Á sama tíma urðu Repúblikanar fyrir skakkaföllum vegna Gústavs en það kann hins vegar að hafa verið lán í óláni fyrir McCain hvernig fór. Repúblikanastjórninni tókst þokkalega að eiga við fellibylinn enda var hann varla skæðari en almennilegt íslenskt vetrarveður.

Gústav varð hins vegar til þess að val McCains á varaforseta-kandídatnum Söru Palin féll strax í skuggann, en þó ekki fyrr en að hið óvænta val hafði dreift athyglinni frá lokaræðu Obama.
Sara Palin virðist algjörlega óhæf til að gegna forsetaembættinu og með vali hennar hefur McCain veikt þær röksemdir repúblikana að Obama sé reynslulaus glanni.

Þrátt fyrir gott flokksþing og raunir repúblikana hefur Obama hins vegar ekki tekist að ná forskoti á McCain.

Og Gústav mun hins vegar hugsanlega ríða baggamuninn því þökk sé honum þarf McCain ekki að láta stilla sér upp við hlið Bush og Cheney.

Ef Obama ætlar að ná kjöri verður hann að beina athygli almennings að stöðu efnahagsmála, óstjórn og ofríki Bush og Cheney.

Mín tilfinning er sú að fyrst hann náði ekki góðu forskoti eftir frábæra ræðumennsku og glæsilegt þing í Denver, kunni það að reynast honum þrautin þyngri. Tækifæri hans hlýtur að vera í kappræðum við McCain sem er slakur ræðumaður og oft ferkantaður í framkomu.

Glæsileiki og mælska Obama virðist hins vegar fara í taugarnar á sumum kjósendum sem finnst hann of “fullkominn”. Mistök McCains gera hann nefnilega mannlegan.

En ég óttast persónulega að Obama nái ekki kjöri, einfadlega vegna þess að Bandaríkjamenn séu ekki tilbúnir til að sjá hörundsdökkan mann í Hvíta húsinu.

McCain er raunar miklu hæfara forsetaefni en George W. Bush. En það þarf ekki mikið til. ´
Heimsbyggðin hefur samt fyllstu ástæðu til að vona að Obama nái kjöri því McCain mun halda áfram öfgafullri utanríkisstefnu Bush, þar sem hnefarétturinn gildir og ýta undir ömurlega íhaldssemi, fordóma og þröngsýni móralska meirihlutans.

PS Bent er réttilega á í athugasemdum að í Gallup dagsins hafi Obama náð 50-42% forskoti á McCain. Mér er sönn ánægja að tíunda þetta hér - en því miður verð ég að halda mig við svartsýni mína á Obama. En ég vona auðvitað að ég hafi rangt fyrir mér!