Það er raunalegt fyrir Icelandair að geta lítt nýtt sér að styrkja Iceland on the Edge því fyrirtækið hefur nýverið rekið forstjóra sinn, væntanlega fyrir axarsköpt eða afleitan árangur. Icelandair þarf að borga honum tveggja ára uppsagnarfrest – 60 milljónir króna þótt hann hafi farið beint til starfa hjá fyrirtækis í svipuðum rekstri. Ef við gefum okkur að flugmiði kosti 35 þúsund krónur þarf Icelandair að selja 1700 flugmiða bara til að standa undir þessum kostnaði. Reyndar þarf að borga laun, eldsneyti og annan rekstrarkostnað en segjum að það sé 7 þúsund króna hreinn gróði sé af sölu hvers flugmiða. Ef þetta er rétt þýddi það að það þyrfti að selja rúmlega 8500 miða til að standa straum af því að losna við Jón Karl Ólafsson. Boeing 757 – 200 tekur 180 farþega og því þyrfti að fylla vélina 47 sinnum miðað við þessar forsendur bara til að standa straum af því að losna við þennan ágæta mann.
föstudagur, 29. febrúar 2008
Glæsileg hátíð og glötuð tækifæri
Ég fæ ekki betur séð en að menningarhátíðin Iceland on the Edge fari glæsilega af stað og fyllsta ástæða til að óska aðstandendum hennar til hamingju með þau Sverri Hauk sendiherra og verkefnastjórann Höllu Hrund Logadóttur í broddi fylkingar. Sýningin hefur fengið góða kynningu, til dæmis á forsíðu Le Soir, útbreiddasta blaðs á frönsku í Belgíu. Einnig var góð grein í the Bullettin sem er mikið lesið af útlendingum í Brussel. Hjá Evrópusambandinu einu vinna um 25 þúsund manns og síðan alls kyns viðhengi, lobbýistar og bissnessmenn og svo fjölmennasta sveit erlendra blaðamanna í heiminum, fjölmennari en í Washington eða London. Það er hins vegar dapurlegt að Icelandair, einn helsti styrktaraðili kynningarinnar, mun tæpast fá mikið fyrir sinn snúð– þó svo að sumir sjái ofsjónum yfir því hve margir Íslendingar –stjórnmála-, lista- og embættismenn - sækja hátíðina. Það hefur farið framhjá Icelandair að vegna þessa mikla fjölda upplýstra, velmenntaðra og vel launaðra, ferðaglaðra alþjóðlegra embættismanna er Brussel kjörmarkaður fyrir Íslandsferðir. Það útilokar nefnilega langar helgar á Íslandi að þurfa fyrst að koma sér til Amsterdam, Lundúna eða Parísar. Það fælir frá að að tekur ekki minna en sjö tíma að komast frá Brussel til Reykjavíkur.
EFTA.com
Meira um Geir. Ef það voru ekki skilaboð hjá forsætisráðherra að hitta Olli Rehn sem stýrir viðræðum ESB við ný aðildarríki, hvað þá með þá staðreynd að hann nennti ekki einu sinni að fara í kurteisisheimsókn til EFTA í heimsókn sinni til Brussel?
Raunar siglir Geir þar í fótspor Norðmanna sem leynt og ljóst sniðganga EFTA og hafa sem meginreglu að stunda tvíhliða samskipti við EES. Reyndar þekkir ekki nokkur maður EFTA hér í Brussel, hvað þá EES samninginn.
Kannski ekki nema von því ef menn gúggla EFTA er eins víst að þeir rati inn á síðuna EFTA.com sem er ekki heimasíða fríverslunarsamtakanna heldur málgagn EFTA, the Eastern Fat Tire Association, austur-amerísku breiðdekkja reiðhjólasamtakanna.
fimmtudagur, 28. febrúar 2008
Geiri grín
Því miður hafði ég ekki tækifæri til að hitta Geir H. Haarde forsætisráðherra á meðan á dvöl hans hér í Brussel stóð. Hann opnaði Íslandskynninguna Iceland on the Edge í Bozar-listamiðstöðinni á þriðjudaginn en slíkur var mannfjöldinn að ég reyndi ekki einu sinni að brjóta mér leið til hans.
Sem var synd því ég sé á ummælum Geir í fjölmiðlum að hann er kátur og hress og hefur engu tapað af sinni kunnu kímnigáfu. Hver nema alvöru húmoristi færi að ræða við Barroso, svo ekki sé minnst á Olli Rehn án þess að tala við þá um hugsanlega inngöngu Íslands í ESB? Olli Rehn starfar við það eitt að semja við ný aðildarríki Evrópusambandsins. Nei Geiri er alltaf sami grínkarlinn og sagðist einungis hafa rætt við Rehn um aðild annara landa en Íslands að Evrópusambandinu!!! (Til hvers? Af hverju ekki bara að tala um veðrið?)
Og svo talar Geir eins og að 300 þúsund Íslendingar muni fá betri viðskiptasamninga við Kína og Indland en 500 milljónir ESB búa. Bara alvöru húmoristi lætur svona út úr sér. Útflutningur okkar til Indlands er 79 milljónir á ári – sem þætti ekkert sérstakur starfslokasamningur hjá íslenskum forstjóra. Útflutningur til Kína er tveir og hálfur milljarður, einn hundraðasti af útflutningi til EES svæðisins.
Nei það hefði svo sannarlega verið gaman að hlusta á ólíkindahúmor Geirs Haarde og taka bakföll af hlátri. Því auðvitað getur þetta ekki verið annað en grín því enginn frýr Geir Hilmari Haarde vits, hvað þá að halda því fram að hann sem forsætisráðherra leiti ekki lausna á þeim vanda sem gjaldmiðill okkar á við að glíma svo aðeins eitt dæmi sé nefnt. Nei, að sjálfsögðu ekki -- en Geir er ekki bara afbragðs stjórnmálamaður. Geir er grínisti. Fyrsta flokks.